14.02.1963
Efri deild: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

27. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem mig langar til að segja um það, sem hér hefur komið fram.

Ég tók þá afstöðu í þeirri n., sem hafði þetta mál til meðferðar, að vera því meðmæltur. Ég álit, að með byggingu tunnuverksmiðju hér á Suðvesturlandi í sambandi við vetrarsíldveiðina sé síður en svo á nokkurn hátt komið nálægt hagsmunum okkar Norðlendinga, hvorki Akureyringa né Siglfirðinga. Og það er vitað mál, að flutningskostnaður á síldartunnum er svo mikill líður í þeim kostnaði, sem framleiðendur verða að greiða, að það er fyllilega réttlætanlegt, eins og síldarsöltun er orðin mikil hér á Suðvesturlandi. að hér sé starfandi verksmiðja til að sinna þörfum síldarsöltunarinnar á þessu landssvæði.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. (JK) sagði um þetta, þar sem hann benti á nauðsyn þess að nýta verksmiðjurnar fyrir norðan betur en hefur verið gert, þá get ég fyllilega tekið undir það. En ég vil benda á það, að á undanförnum árum hafa verksmiðjurnar á Norðurlandi ekki annað miklu meira og stundum minna en að smiða undir helming þeirrar framleiðslu, sem orðið hefur á Norðurlandssíldinni. Ég er hér með fyrir framan mig tölur, sem sýna, að 1958 nemur söltun Norðurlandssíldar 289 þús. tunnum, en það ár voru framleiddar um 136 þús. tunnur í báðum verksmiðjunum. Árið 1959 er söltun Norðurlandssíldar 216 þús. tunnur, en það er held ég eina árið, sem framleiðslan á tunnunum er örlítið meiri, þannig að það safnast birgðir. Á árinu 1961 nemur söltunin 363 þús. tunnum, en framleiðsla á tunnum er aðeins 109 þús. eða ekki framleiddur þriðjungur af þeim tunnum, sem þurfti vegna Norðurlandssíldarinnar. Ég álít, að þetta sanni, að það mætti mjög auka nýtingu verksmiðjanna fyrir norðan, á Akureyri og Siglufirði, auka mjög verulega starfrækslu þeirra, jafnvel taka upp vaktavinnu eða vinna lengri tíma á árinu, þótt hér sunnanlands væri starfandi tunnuverksmiðja til að sinna að einhverju leyti síldarframleiðslunni hér. Sérstaklega fyndist mér koma til greina að vinna á vöktum. Ég tel, að t.d. 9 mánaða starfræksla á tunnuverksmiðjunum væri ekki hentug í því atvinnuástandi, sem nú er, og það mundi verða mjög torvelt að fá vinnuafl til svo langrar starfrækslu. Hins vegar hefur það mjög stutt að nauðsyn þessara verksmiðja, að þær hafa oft og tíðum nýtt vinnuafl yfir vetrarmánuðina á Akureyri og Siglufirði, sem annars hefði e.t.v. farið algerlega forgörðum, og það hefur verið ein af þeim stóru röksemdum, þegar norðanmenn hafa verið að ýta á það, að þessari starfrækslu væri haldið í fullum gangi.

En það er annað, sem ég vildi aðeins minnast á, úr því að ég er farinn að tala um þetta mál, að þrátt fyrir það, þó að ég sé algerlega samþykkur þessu frv. um byggingu tunnuverksmiðju hér syðra til að sinna þörfum síldarframleiðslunnar hér, þá tel ég þó, að nauðsynlegar endurbætur á verksmiðjunum fyrir norðan ættu að ganga fyrir, því að sannast mála er það, að starfrækslu verksmiðjanna hefur á ýmsan hátt verið mjög ábótavant, að ekki sé meira sagt. T.d. hefur það verið svo, að alian tímann hefur ekki verið neitt tunnuskýli á Akureyri, og það hefur leitt til þess, að tunnur hafa skemmzt í tugþúsundatali og allur kostnaður á framleiðslunni hefur orðið miklu meiri en ella hefði þurft að vera, auk þess sem þetta hefur kostað margs konar óþægindi og jafnvel skemmdir á framleiðslunni. Það hefur verið margoft bent á þetta, fjöldinn allur af áskorunum verið sendur frá ýmsum aðilum á Norðurlandi, þ. á m. frá bæjarstjórn Akureyrar og ýmsum fleirum í þessum efnum, en allt hefur komið fyrir ekki. Enn hefur ekki bólað á því, að tunnuskýli væri byggt fyrir verksmiðjuna, sem er hin brýnasta nauðsyn. Ég held, að það hafi verið á Alþingi 1957, sem við hv. 5. landsk. þm. fengum samþ. nokkra breyt. á l. um Tunnuverksmiðjur ríkisins og þar í sérstaka heimild til handa síldarútvegsnefnd til þess að taka lán í því skyni að endurbæta verksmiðjurnar fyrir norðan, en sú heimild hefur ekki enn verið notuð. Í því sambandi vil ég geta þess, að frá því 1958 eða frá því að síldarútvegsnefnd fékk stóra lántökuheimild í þessu skyni — milljónalántökuheimild, þá hefur verið varið heilum 470 þús. kr. til endurbóta á verksmiðjunum á Akureyri og Siglufirði samanlagt, 475501 kr. á þessum árum. Og það er ekki aðeins, að þetta hafi valdið síldarútveginum margs konar óhagræði og vafalaust stórfelldu tjóni, heldur er þetta einnig atriði, sem snýr að aðbúnaði verkamanna, sem vinna í verksmiðjunum, því að hann er svo slæmur, að ég tel, að þeir aðilar, sem um það hafa að segja, mundu tæplega þola nokkrum atvinnurekanda það ástand, sem er t.d. í tunnuverksmiðjunni á Akureyri. Það má t.d. nefna, að það er ekkert hitunarkerfi í verksmiðjunni og ekkert tæki til þess að leiða burt ryk, sem er svo mikið, að það jaðrar við, að það sé heilsu manna skaðlegt, og fleira mætti þar til nefna. Hvað Akureyrarverksmiðjunni við kemur, þá tel ég, að það sé naumast hægt að búast við því, að hún verði starfhæf eða það verði þolað, að hún verði starfrækt í því ástandi, sem hún er, ef ekki verða gerðar breytingar á fljótlega, sérstaklega að því er snýr að aðbúnaði verkamanna, að þar sé komið upp forsvaranlegu hitunarkerfi og tæki til þess að leiða burt ryk, sem er geysilega mikið. Og svo í öðru lagi, að það sé algerlega óþolandi ástand, að ekki sé byggt tunnuskýli, því að það er áreiðanlegt, að það er búið að verða af því tjón, sem vafalaust nemur jafnmikilli upphæð eða jafnvel meiri en tunnuskýli mundi kosta nú.

Ég held þess vegna, að það væri rétt af þeim, sem hafa með þessi mál að gera, síldarútvegsnefnd, að nota ekki heimild til byggingar nýrrar verksmiðju, fyrr en hún sæi sóma sinn í því að búa sæmilega að þeim verksmiðjum, sem þegar eru fyrr. En þar með er ekki sagt, að það sé ekki fyllilega réttmætt mál, sem hér er á ferðinni, eins og ég hef leitt líkur að.