29.10.1962
Efri deild: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

50. mál, afnám aðflutningsgjalda af vélum til landbúnaðar

Magnús Jónsson:

Það var aðeins út af einu atriði, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. Það var í sambandi við lánveitingar út á vélar ræktunarsambandanna, að ástæðan til lánveitinga út á þær vélar muni vera sú, að ríkissjóður hafi ekki staðið við lagalega skyldu sína. Þetta er ekki rétt. Ríkissjóður hefur ekki lagalega skyldu samkv. þeim lögum, sem hingað til gilda, til að lána út á þessar vélar. Það veit hv. þm., — að vísu má segja, að það haggi ekki þeirri staðreynd, að það mundi vera nauðsynlegt að gera þetta, — en löggjöfin gerði ráð fyrir því, að það yrðu aðeins veittir styrkir allt að 50% af kaupverði þessara véla, til þess að ræktunarsamböndin upphaflega gætu eignazt þessar vélar, og Síðan er gert ráð fyrir því í lögunum, að það verði stofnaðir sérstakir fyrningarsjóðir og sé lögð til hliðar alltaf viss upphæð til þess að geta endurkeypt og endurnýjað vélarnar, þannig að samkv. þessum lögum er ekki frambúðarskylda hjá ríkissjóði til þess að leggja fram fé í þessu skyni, nema þá þeim lögum verði breytt. Það hefur hins vegar verið framkvæmt á þann hátt, að það var haldið áfram að leggja fram þetta fé úr ríkissjóði, þrátt fyrir það þó að hin formlega lagaskylda væri niður fallin, og að því er ég hygg hefur verið framkvæmt þannig, að það hefur verið veittur 25% styrkur út á vélarnar. Ákvörðun lánsins úr ræktunarsjóði, sem þá var starfandi, byggðist þess vegna ekki á því sjónarmiði, að það hafi neitt verið vanefnt í þessum sökum. Þetta var algerlega sjálfstæð ákvörðun af hálfu Búnaðarbankans um að lána út á þessar vélar, því að þetta eru orðin mjög dýr tæki, en hins vegar hin mestu nauðsynjatæki til þess að geta komið jarðræktinni áfram. Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram hér, en ekki hitt, að þetta hafi verið gert til þess að bæta úr neinum vanefndum, sem orðið hafi sérstaklega hjá ríkisstj. í þessu efni.