05.11.1962
Efri deild: 11. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

69. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Við 1. þm. Vesturl. höfum leyft okkur að flytja frv. á þskj. 29 um breyt. á l. nr. 30 frá 1921, um erfðafjárskatt. Aðalbreytingin felst í 1. gr. frv., sem er um það að breyta 2. gr. erfðafjárskattslaganna, en í 2. gr. erfðafjárskattslaganna eru ákvæði um skattstiga erfðafjárskattsins, sem er breytilegur eftir því, hversu náinn skyldleiki er með arfleifanda og erfingja. Enn fremur er hann stighækkandi og þannig, að hann hækkar yfirleitt um 1/4 af hundraði eða 1/2 af hundraði eða einn af hundraði fyrir hvert þúsund arfs, unz hámarki erfðafjárskattsins er náð. Þessi 2. gr. erfðafjárskattslaganna, sem lagt er til að breytt sé, hljóðar annars svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæð erfðafjárskattsins er ákveðin þannig: A. Af erfðafé, sem hverfur til þess hjóna, er lifir hitt, til niðja hins látna, kjörbarna og fósturbarna, svo og af fjórðungshluta, ef ráðstafað hefur verið með arfleiðsluskrá, til annarra, skal svara af arfi hvers erfingja um sig: 1) Af fyrstu 1000 kr. 11/4%. 2 ) Af næstu 1000 kr. 11/2%, og svo áfram þannig, að skatturinn eykst um 1/4% á hverju þúsundi, sem arfurinn hækkar um, allt að 10%. B. Af erfðafé, sem hverfur til foreldra hins látna eða niðja þeirra, er ekki heyra undir staflið A, skal svara af arfi hvers erfingja um sig: 1) Af fyrstu 1000 kr. 51/2%. 2) Af næstu 1000 kr. 6%, og svo áfram þannig, að skatturinn eykst um 1/2% á hverju þúsundi, allt að 25%. C. Af erfðafé, sem hverfur til afa eða ömmu hins látna eða niðja þeirra, er eigi heyra undir stafliðina A og B, eða til fjarskyldari erfingja eða óskyldra, skal svara af arfi hvers erfingja um sig: 1) Af fyrstu 1000 kr. 11%. 2) Af næstu 1000 kr. 12%, og svo áfram þannig, að skatturinn eykst um 1% á hverju þúsundi, allt að 50%. D. Af erfðafé, sem hverfur til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga, stofnana eða annars slíks, skal greiða 10%.“

Þessi ákvæði um ákvörðun skattsins eru óþarflega margbrotin og eru auk þess að dómi okkar flm. orðin að sumu leyti úrelt, eins og verðgildi er nú orðið háttað. Frv. er ætlað að gera þessi ákvæði um ákvörðun skattsins einfaldari og hægari í framkvæmd. En auk þess sem sú breyting felst í þessu frv., þá felst sú breyting einnig í því, að erfðafjárskattur er lækkaður af arfi, sem ráðstafað er til menningarmála, vísindalegra rannsókna, líknarstarfsemi eða á annan hátt til almenningsnota, eins og nánar segir í D-lið 1. gr. frv. Og í 2. gr. frv. er ráðh. heimilað að fella með öllu niður erfðafjárskatt af þvílíku gjafafé, en í núgildandi erfðafjárskattslögum er aðeins heimild til lækkunar. Breyting í þessa átt er fyllilega í samræmi við þá stefnu, sem fram kemur í núgildandi tekjuskattslögum, nr. 70 frá 1962, í D-lið 12. gr., þar sem skattgreiðendum er heimilað að draga frá skattskyldum tekjum gjafafé, sem nemur allt að 10% af skattskyldum tekjum, þegar um gjafir er að ræða til þeirra mála, sem hér er getið.

Þessi erfðafjárskattur, sem hér er um að ræða, ásamt erfðafé því, sem fellur til ríkisins samkv. erfðalögum, rennur í erfðafjársjóð, sem stofnaður var með lögum nr. 12 frá 1952 og að nokkru breytt með lögum nr. 25 1960. Þessi erfðafjársjóður hefur gott og gagnlegt hlutverk, þar sem honum er ætlað að styrkja með lánum og styrkjum vinnuheimili öryrkja og gamalmenna. En þó að það sé svo, þá virðist ekki rétt að setja það hlutverk ofar þeim málefnum, sem nefnd eru í D-lið 1. gr. þessa frv.

Þessi erfðafjárskattur og erfðafé í ríkissjóð nemur að vísu ekki neinum stórupphæðum, eins og nú er, en um það, hverjar tekjur erfðafjársjóðs hafi verið, svo og um það, hverjar eignir hans séu og hverjar styrkveitingar hafi verið veittar úr honum, er upplýsingar að finna í árbók Tryggingastofnunar ríkisins, þeirri nýjustu, á bls. 57, og fer ég ekki út í það hér að rekja það nánar.

Flm. þessa frv. er ljóst, að það má vel vera, að það sé í sjálfu sér þörf á gagngerari breytingum á erfðafjárskattslögunum en hér er lagt til. Við höfum samt ekki farið lengra að sinni, en töldum eftir atvikum réttara að bera fram frv. um þetta heldur en þáltill. um endurskoðun laganna. En ég geri ráð fyrir því, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, muni að sjálfsögðu gaumgæfilega athuga það, hvort ekki sé ástæða til að gera enn frekari breytingar á lögunum um erfðafjárskatt. En ég held, að þessar breytingar, sem við höfum hér lagt til, séu hiklaust til bóta.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, en leyfi mér að leggja til, að málinu sé vísað til 2. umr. og nefndar. Sú nefnd, sem þetta frv. mundi víst fá til meðferðar, er fjhn.