31.01.1963
Efri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

115. mál, söluskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths., því að ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að hefja hér langar umr. út af þessu frv. En það er út af því, að hv. þm. vitnaði í hækkanir, sem leyfðar hefðu verið til handa iðnfyrirtækjum á fundum verðlagsnefndar í nóvembermánuði s.l. Ég man nú að vísu ekki eftir því, að neinar almennar hækkanir hafi verið leyfðar. Hins vegar mun það vera rétt, að nokkur iðnfyrirtæki, sem höfðu verið látin bera algerlega þá kauphækkun, sem varð sumarið 1961, fengu að nokkru leyti tekið tillit til þeirra kauphækkana, sem urðu á s.l. sumri, af því að ekki þótti fært að láta fyrirtækin bera þetta alveg, enda mætti það vera með miklum ólíkindum, þar sem hér er um samanlagt að ræða hvorki meira né minna en 20–25% kauphækkanir, ef hagnaður fyrirtækjanna hefði verið svo mikill, að þau gætu borið það alveg að óbreyttu verðlagi, og slælegt hefði verðlagseftirlitið þá verið í tíð vinstri stjórnarinnar, ef sá möguleiki væri fyrir hendi.

Það var athyglisvert, að hv. þm. benti á þann möguleika í lok ræðu sinnar, að þar sem ný tollskrá yrði til meðferðar á þessu þingi, þá væri, eins og hann orðaði það, hægt að hnika þannig til, að ríkissjóður fengi upp borna þá tekjuskerðingu, sem hann verður fyrir vegna þessa frv. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm., að auðvitað væri hægt að bæta ríkissjóði þetta upp með því að hækka aðra tolla og álögur til samræmis við það. Sá möguleiki er fyrir hendi. En ég hafði satt að segja haldið, að það, sem vekti fyrir hv. þm., væri raunveruleg skattalækkun á almenningi. Hitt er auðvitað hægt, að taka út úr vissar vörur, sem sérstaka þýðingu hafa í vísitölu framfærslukostnaðar, og hækka þá tolla og gjöld á öðrum vörum, sem almenningur auðvitað neytir, en ekki hafa þýðingu í vísitölunni. Það er auðvitað gott að fá það upplýst, að það virðist vera þetta, sem vakir fyrir hv. þm. (BjörnJ: Ég sagði, ef annað þætti óhjákvæmilegt.) Já, en það hafa ekki komið fram rök fyrir því, að fjárl. gætu staðizt með þeirri miklu tekjulækkun, sem þarna er um að ræða, og hv. þm. ber a.m.k. ekki á móti því, enda heyrðu það allir, sem á hann hlustuðu, að þessa hugmynd setti hann fram. Vissulega er hægt að fara þessa leið, en einhvern tíma hefði þetta nú samt verið kallað að falsa vísitöluna, eins og í rauninni er rétt. En því miður er það þannig, að það virðist vera ofarlega í hv. þm. eins og mörgum öðrum að blanda hér saman verðlaginu og vísitölunni. Það er tiltölulega auðveldur leikur að hnika þannig til með vísitöluna, að hún sýni ekki þær verðlagshækkanir, sem raunverulega verða, en hitt er svo annað mál, hver kjarabót fylgir slíku fyrir almenning.