05.02.1963
Efri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

127. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 230, til heimildarlaga fyrir ríkisstj. til að selja eyðibýlið Litlagerði í Dalsmynni í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Frv. flyt ég skv. beiðni Jóhanns Skaftasonar bæjarfógeta í Húsavík, sýslumanns í Þingeyjarsýslum. Hann vill kaupa þessa eyðijörð, ekki af embættisástæðum, heldur af einkaástæðum, sem að mínu áliti eru mjög virðingarverðar og lofsverðar.

Í bréfi, dags. 22. f. m., til mín ræðir Jóhann Skaftason um Litlagerði og ástæður til þess, að hann hefur hug á að kaupa býlið. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr þessu bréfi, svo að hv. þdm. fái ástæðurnar frá fyrstu hendi. Í bréfinu segir orðrétt:

„Ég hef mælzt til þess við þig, að þú útvegaðir, ef auðið væri, lagaheimild til þess, að ríkið selji mér kotið Litlagerði í Dalsmynni í Grýtubakkahreppi í S: Þingeyjarsýslu. Af því tilefni vil ég taka þetta fram málinu til skýringar:

Kotið er 61/2 hundrað að fornu mati. Árið 1890 var það illa húsað og í lítilli rækt. Afi minn, Jóhann Bessason á Skarði, sem er næsta jörð, fékk kotið þá til ábúðar og bjó á því ásamt Skarði — hafði það með — til aldamóta. Árið 1900 fluttu foreldrar mínir þangað frá Skarði og byggðu þar upp öll hús og bjuggu þar Síðan allan sinn búskap, unz faðir minn dó. Flest okkar systkina eru fædd þarna, og höfum við jafnan borið ræktarþel til kotsins vegna búskapar foreldra okkar þar. Nú er jörðin í eyði og hefur verið það nokkur ár. Síðasti ábúandi fór þaðan frá háifbyggðu húsi, og mannvirki öll liggja undir skemmdum, svo sem jafnan er á eyðijörð. Að undanförnu hef ég verið að litast um eftir ræktunarlandi á þessum slóðum, og þar sem Litlagerði er nú í eyði, datt mér í hug að reyna að gera því eitthvað til góða, ef það kynni í framtíðinni að verða til þess, að jörðin héldist fremur í byggð. En ég hef ekki hug á að leggja þar í ræktunarkostnað, nema ég hefði fullan ráðstöfunarrétt á jörðinni, ekki óðalsrétt. Síðasta mat á jörðinni er frá 1957, þ.e.a.s. fasteignamat: hús 19500 kr., land 11900 kr., eða samtals 31400 kr. Á jörðinni hvíla nokkrar skuldir vegna framkvæmda síðasta ábúanda.“

Ég tel óþarft að hafa langa framsögu fyrir þessu frv. Bréfkaflinn, sem ég las, segir bæði beint og óbeint allt, sem mestu máli skiptir til skýringar. Litlagerði er í svonefndu Dalsmynni, en svo heitir skarð, sem tengir Höfðahverfi og Fnjóskadal. Fnjóská fellur eftir Dalsmynni, og Litlagerði er norðan árinnar skammt frá þjóðveginum, sem liggur um dalsmynnið milli Fnjóskadals og Höfðahverfis, og er sá vegur nefndur í vegalögum Fnjóskadalsvegur eystri. Kot þetta er því ekki dæmt til þess að leggjast niður sem býli, vegna þess að það sé afskekkt, en það þykir ekki þannig á vegi statt nú, að fýsilegt sé þar að gerast bóndi. Og það hefur verið í eyði síðan vorið 1960. Nokkrum árum áður hafði það líka farið úr byggð um stund. Síðasti ábúandi hóf þar umbótastarf, en hafði ekki bolmagn til þess að koma því nægilega áieiðis til að gera kotið byggilegt og hætti því vegna fjárhagsörðugleika og sneri sér að öðrum viðfangsefnum. Síðan hefur ekki ábúandi fengizt. Nú vill Jóhann sýslumaður, sem á þarna ættarslóðir og er mjög mikill áhugamaður um viðhald byggðar í landinu, reyna, eins og hann orðar það, að gera býlinu eitthvað til góða, til þess að það komist frekar í byggð og haldist frekar í byggð en áður. Eins og eðlilegt er, vilt hann áður fá fullan umráðarétt yfir býlinu.

Þeir, sem þekkja Jóhann Skaftason, munu ekki draga í efa, að fullur hugur fylgir máli hjá honum. Sá hugur er ekki gróðahugur, heldur fórnarhugur fyrir æskustöðvar og landbótahugsjónir.

Grýtubakkahreppur hefur vitanlega forkaupsrétt, ef ríkið selur Litlagerði. Formlega hefur enn ekki verið spurzt fyrir um það, hvort hreppsnefndin vilji gera þann rétt gildandi. Ég átti aðeins tal við hreppsnefndaroddvitann í sima um málið. Heyrðist mér hann fyrir sitt leyti telja þá frétt góða, að Jóhann Skaftason vildi gerast eigandi býlisins. Að sjálfsögðu verður svo gengið til hreins um það, áður en sala fer fram, hvort Grýtubakkahreppur vill neyta forkaupsréttar, því að ummæli oddvitans má auðvitað ekki skoða sem neina afgreiðslu um það.

Ég vil taka fram, að ég hefði að sjálfsögðu formsins vegna getað sett efni þessa frv. í brtt. við frv: það um jarðarsölu, sem búið var rétt áður að leggja fram á þskj. 228 um Bakkasel og afgreitt var til n. í gær. En af því að óvenjulegar ástæður standa að baki þessari málaleitun, vildi ég, að þær ástæður kæmu fram í grg. á þskj. Mér finnst ánægjulegt, að skjalfest sé, að til er enn á Íslandi meir en í skáldskap sú átthagarækt, sem mál þetta er virkilegur vitnisburður um.

Ég leyfi mér að vænta þess, að Alþingi veiti fúslega heimild til þess, sem um er beðið í frv. Ég óska, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn., eins og venjulegt er um slík málefni. Um leið vil ég mælast til þess við hv. landbn., sem málið fær væntanlega til umsagnar, að hún tefji málið sem allra minnst, svo að það geti orðið afgreitt á þessu þingi, geri það ekki að samsteypu við Bakkaselsfrv., ef það frv. skyldi verða fyrir einhverjum ágreiningstöfum. Mannvirki í Litlagerði liggja undir skemmdum, ekki sízt íbúð sú, er var í smíðum, þegar býlið fór í eyði, og munar í þeim efnum um hvert ár, sem líður án aðgerðar. Ég tel það bæði nauðsynlegt og skylt, að málið fái afgreiðslu á þessu þingi.