26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (2595)

167. mál, varðskip

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 308 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á I. nr. 32 frá 9. jan. 1935, um varðskip landsins og skipverja á þeim. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aftan við 7. gr. laganna komi ný málsgrein, svo hljóðandi:

Þegar varðskip veitir íslenzku fiskiskipi hjálp úr háska, skal greiðsla fyrir hjálpina fara eftir reglum, er dómsmrh. setur. Við ákvörðun gjaldsins skal miðað við útgerðarkostnað varðskipsins og tíma þann, er hjálpin tók. Teljist háski sá, sem fiskiskipið er í, stórkostlegur, svo sem eldsvoði eða strand, má þó krefjast björgunarlauna eftir reglum siglingalaganna.“

Mál þetta, sem hér um ræðir, hefur verið til umr. á aðalfundum Landssambands ísl. útvegsmanna, og hafa þar verið gerðar samþykktir, sem ganga mjög í sömu átt og lagt er til með frv. þessu. Eins og fram kemur í grg., er samkv. ákvæðum 2, mgr. 22. gr. l. nr. 61 frá 1947, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, ákveðið, að greiðsla fyrir hjálp, er skip, sem gerð eru út af ríkissjóði eða ríkisstofnunum, veitir skipum, sem tryggð eru samkv. þeim lögum eða hjá Samábyrgð Íslands, skuli ekki fara eftir venjulegum björgunarreglum, heldur ákveðin af stjórn Samábyrgðarinnar, og skal greiðslan miðast við það fjártjón og tilkostnað, sem hjálpin hefur bakað þeim, er hana veitti. Ég tel fullvíst, að þessi lagaákvæði um sanngjarna greiðslu til varðskipanna fyrir veitta aðstoð við vélbáta þá, sem vátryggðir eru hjá Samábyrgð Íslands, hafi skapað eigendum þeirra mun hagstæðari tryggingariðgjöld en annars hefði átt sér stað. Í framkvæmd hefur það orðið svo, að varla eru önnur fiskiskip vátryggð hjá hinum einstöku bátavátryggingarfélögum, sem Samábyrgðin stendur saman af samkv. l. nr. 61 frá 1947, en þau skip, sem eru 100 brúttórúmlestir að stærð og þar undir, eða m.ö.o. þau skip, sem skyldutryggingin nær til. Allflest stærri fiskiskip munu því vera vátryggð hjá öðrum innlendum vátryggingarfélögum, og liggja til þess ýmsar ástæður. Má þar m.a. benda á, að allt fram til síðasta árs var sá hluti, sem bátaeigendur voru skyldaðir til að hafa í eigin ábyrgð, mun hærri hjá bátaábyrgðarfélögunum eða Samábyrgðinni heldur en hjá hinum ýmsu vátryggingarfélögum öðrum, auk þess sem þau veittu einnig að öðru leyti víðtæka tryggingu, og vil ég í því sambandi sérstaklega benda á vélatryggingarnar.

Íslenzka ríkið á nú nokkur varðskip, sem sérstaklega eru byggð til þeirra nota, eru búin ýmsum björgunartækjum. Þá rekur íslenzka ríkið eða ríkissjóður einnig þær björgunarskútur, sem til eru og að verulegu leyti hafa verið byggðar fyrir samskotafé og ætlaðar hafa verið til öryggis og eftirlits á ýmsum hafsvæðum við landið, og hefur ríkissjóður staðið straum af rekstri þessara skipa. Eins og málum er nú háttað, er það orðin föst venja, að bæði varðskipin og björgunarskúturnar, sem ríkið gerir út, fylgjast með fiskibátunum á aðalveiðisvæðunum hverju sinni. Eins og kunnugt er, er það algengt, að smávegis vélabilanir eða óhöpp hendi fiskibátana, t.d. að net eða kaðlar fari í skrúfu þeirra eða annað þess háttar. Þegar slíkt á sér stað, er það orðinn fastur siður, að fyrrgreind skip dragi til hafnar þá báta, sem fyrir slíku hafa orðið, enda þótt hætta sé ekki yfirvofandi. Með tilkomu froskmanna hefur verið auðvelduð og gerð fyrirhafnarminni fyrir varðskipin sú aðstoð, sem veita þarf, þegar net eða kaðlar fara í skrúfur, og er þá tekið visst kaup fyrir froskmanninn hverju sinni.

Það hefur verið síldarflotanum mikil hagsbót nú tvö eða þrjú s.l. sumur, að ungur sjómaður frá Akranesi, sem jafnframt er froskmaður, hefur að sumrinu gert út bát fyrir Norður- og Austurlandi og aðstoðað síldveiðiflotann, þegar slík óhöpp hefur hent, að síldarnótin hefur farið í skrúfur bátanna og þannig gert þá ófæra til að komast leiðar sinnar eða aðhafast við veiðarnar.

Eins og ég áður hef sagt, fer það eftir því, hvort fiskibáturinn er vátryggður hjá Samábyrgðinni eða öðrum vátryggingarfélögum, hvað upphæðin er há, sem varðskipin gera kröfu um að fá greidda fyrir þá aðstoð, sem þau veita í þessum tilfellum, og fer þar um annars vegar samkv. þeim lögum, sem í gildi eru og snúa eingöngu að bátaábyrgðarfélögunum, og að hinu leytinu til þeirra skipa, sem stærri eru en 100 rúml., en í þeim tilfellum getur útgerð og áhöfn þess skips, sem aðstoðina veitir, krafizt björgunarlauna eftir reglum X. kafla siglingalaganna, en ég ætla, að sú upphæð, sem þar um ræðir, sé a.m.k. fimm sinnum hærri en í hinu tilfellinu. Af þessu er augljóst, hvílíkur reginmunur er hér á aðstöðu fiskiskipanna, og hinn mikli kostnaður stærri bátanna hefur það í för með sér, að iðgjöldin stórhækka, og lendir sá kostnaður, þegar til lengdar lætur, allur á útgerðarmönnum fiskibátanna. Eigi verður annað sagt en varðskip ríkisins og björgunarskúturnar séu að mestu leyti byggð og rekin fyrir almannafé, með það tvennt fyrir augum að gæta hinnar íslenzku landhelgi og stuðla að auknu öryggi íslenzkra sjómanna og fiskiskipa og vera þeim til aðstoðar, ef með þarf. Má í því sambandi benda á, að fyrsta íslenzka varðskipið, Þór, var upphaflega aðeins björgunarskip.

Með hliðsjón af þeim staðreyndum, sem ég hef dregið fram í máli þessu, vænti ég, að hv. alþm. geti verið mér sammála um, að ekki sé óeðlilegt, þótt fyrir þá aðstoð, sem hér um ræðir, sé ekki krafizt borgunar eftir reglum siglingalaganna, eins og ég áður hef bent á. Ég ætla, að það hafi aldrei verið ætlunin, að aðstoð þessara skipa væri veitt í hagnaðarskyni, og þar sem hlutverk þeirra er að stunda öryggisgæzlu og aðstoð á sjó, er ekki fyrir hendi ástæða til sérstakrar hvatningar til björgunarstarfa með von í háum björgunarlaunum. Þegar á þetta er litið og það, að mjög er óeðlilegt, að ekki skuli allir þeir, sem vátryggingar selja og kaupa, sitja við sama borð um þessi efni, þá virðist, að full ástæða sé fyrir hendi, að hér verði gerð breyting á. Þegar þetta allt er haft í huga, virðist ekki vera óeðlilegt, að tekin væri upp sú lagaregla, sem lagt er til með frv. þessu. Þá má á það benda, að viðast hvar erlendis mun það vera föst venja, að skip, sem hafa björgun að tilgangi, taka ekki bjarglaun samkv. reglum siglingalaganna, heldur aðeins tímakaup fyrir þá aðstoð, sem þau veita hverju sinni.

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja frekar um mál þetta að sinni, en geri það að till. minni, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.