19.03.1963
Efri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

207. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Skv. útsvarslögunum frá 1945 var heimilt að leggja á gjaldþegn útsvar, sem skiptist í 3 þætti, þ.e.a.s. tekjuútsvar, eignaútsvar og veltuútsvar. En þar sem heimild var fyrir hendi á annað borð til að leggja á gjaldþegn, mátti leggja á hann allar þessar 3 tegundir útsvara á sama stað.

Reglur útsvarslaga frá 1945 ásamt síðari breyt. á þeim l. um það, hvar leggja mætti á gjaldþegn og hvaða sveit fengi útsvar hans, voru í höfuðatriðum á þessa leið: Á einstakling skyldi leggja útsvar þar, sem hann hafði heimilisfang vitanlega eða skv. manntali næst á undan niðurjöfnun. Á félag skyldi leggja útsvar þar, sem það hafði skrásett heimilisfang, enda ræki félagið atvinnu sína á skrásetningarstað. Ef félag rak atvinnu í fleiri sveitum en einni, mátti á hverjum stað aðeins leggja á þær eignir, sem þar voru, og þær tekjur, sem sá atvinnurekstur gaf. Á einstakling mátti einnig leggja á fleiri stöðum en einum, ef hann hafði heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, viðar en í einni sveit. Enn fremur mátti leggja á gjaldþegn á fleiri stöðum en einum skv. breytingu á útsvarslögunum, sem gerð var 1960, ef hann rak síldarverkun og verzlun með síldarafurðir utan heimilissveitar, enda mátti ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans.

Með lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem samþ. voru á Alþingi 16. apríl 1962, var framangreindum reglum útsvarslaganna gerbreytt. Veltuútsvarið var afnumið og í staðinn sett aðstöðugjald,takmarkað við vissar prósentur af rekstrarútgjöldum. Aðstöðugjaldið má skv. 8. gr. l. innheimta hjá atvinnurekendum og öðrum þeim, sem sjálfstæða atvinnu hafa í sveitarfélaginu, en útsvarið, þ.e.a.s. tekju- og eignaútsvarið, skal hins vegar lagt á skv. a- og b-lið 30. gr. 1., en í þessum a- og b-lið 30. gr. I. um tekjustofna sveitarfélaga segir svo, með leyfi forseta:

„a) Hvert sveitarfélag leggur útsvar á sína íbúa, sbr. 13. gr. l. nr. 35 1960, um lögheimili.

b) Á aðra aðila skal lagt í því sveitarfélagi, þar sem aðalstarfsemi þeirra fer fram.“

Ég tel, að reynslan hafi sýnt, að þessar breytingar frá reglum gömlu útsvarslaganna hafi sízt orðið til bóta, og ég vil leyfa mér að taka því til staðfestingar nokkur dæmi. Ef t.d. einstaklingur búsettur í Reykjavík rekur síldarsöltun — við skulum segja á 3 stöðum yfir sumarið, Siglufirði, Raufarhöfn og Seyðisfirði, þá á að leggja tekju- og eignaútsvar á þennan atvinnurekstur í Reykjavík, þar sem einstaklingurinn á lögheimill. Ef aftur á móti hlutafélag, skrásett í Reykjavík, ræki þessa starfsemi, hefði síldarsöltun á 3 stöðum, Siglufirði, Raufarhöfn og Seyðisfirði, og hefði ekki aðra starfsemi með höndum, þá á að leggja tekju- og eignaútsvarið á þar, sem aðalstarfsemin fer fram, og það gæti þá í þessu tilfelli orðið ærið óljóst, jafnvel breyting á því frá ári til árs eftir því, hvar mest væri saltað hverju sinni.

Það hefur komið fram alveg raunhæft dæmi um, hvernig þessar nýju reglur reynast, en það er í sambandi við álagningu útsvars á SÍS á Akureyri. Þar hefur, eftir því sem yfirskattanefnd hefur úrskurðað, verið litið svo á, að Akureyrarbær mætti ekki leggja tekju- og eignaútsvar á tekjur Sambandsins á Akureyri, en sá rekstur er, eins og allir vita, geysilega mikill, stórar verksmiðjur, þar sem mörg hundruð manns vinna, heldur bæri að leggja allt tekju- og eignaútsvar á SÍS hér í Reykjavík, þar sem aðalstarfsemi Sambandsins fer fram. Þessum úrskurði mun að vísu hafa verið skotið til ríkisskattanefndar, og hún hefur ekki kveðið upp sinn úrskurð í málinu, en ég fæ ekki annað séð af lögunum en það sé alveg ljóst, að annar hvor staðurinn, Reykjavík eða Akureyri, hlýtur að fá allt útsvarið, eftir því á hvorum staðnum aðalstarfsemi Sambandsins yrði talin vera. En ég tel í raun og veru þá niðurstöðu, þó að hún sé að sjálfsögðu í samræmi við lögin, þá tel ég hana samt fráleita, að búa við slíka reglu til frambúðar, að þarna fái ekki hvor staður um sig tekju- og eignaútsvar af þeim rekstri og þeim eignum, sem á hvorum staðnum er. Þetta er stærsta dæmið, sem menn hafa rekið sig á, enn sem komið er.

Það er líka nefnt annað dæmi á Suðurnesjum. Þar er stór atvinnurekandi, sem mjög margir kannast við, sem er búsettur þar í sveitarfélagi að sjálfsögðu, en rekur allan sinn stóra atvinnurekstur í nágrannasveitarfélagi: útgerð, síldarsöltun, frystihús og annað slíkt. Og þetta sveitarfélag, þar sem atvinnureksturinn fer fram, getur ekki lagt neitt útsvar á þennan rekstur, heldur verður að láta sér nægja aðstöðugjaldið.

Ég tel, að þegar þessar nýju reglur séu brotnar til mergjar, þá komi í ljós, að þær séu bæði ósanngjarnar, ófullnægjandi og ranglátar í ýmsum tilfellum. Ég tel réttmætt, að hvert sveitarfélag fái að leggja útsvar á þann atvinnurekstur, sem fer fram innan marka sveitarfélagsins, alveg án tillits til þess, hvort atvinnurekandinn kunni að eiga lögheimili annars staðar eða atvinnurekandinn hafi meiri atvinnurekstur annars staðar. Það er alveg ljóst, að það getur verið um mikinn atvinnurekstur að ræða í einu sveitarfélagi, þó að fyrirtækið, sem hefur þennan atvinnurekstur með höndum, hafi aðalstarfsemi sina annars staðar, eins og reyndar kom glöggt fram af dæminu með SÍS á Akureyri.

Menn kynnu ef til vill að halda því fram í þessu sambandi, að þó að þessi sveitarfélög, þar sem atvinnurekstur fer fram, missi í mörgum tilfellum útsvar af rekstrinum skv. reglum l. um tekjustofna sveitarfélaga, þá komi þ6 þar á móti, að sveitarfélögin geti ávallt lagt aðstöðugjald á þennan rekstur. Eins og kunnugt er, var aðstöðugjaldið hugsað þannig, að það átti að

koma í stað veltuútsvaranna. Nú er sá munur á aðstöðugjaldi og veltuútsvari, að aðstöðugjaldinu eru þröng takmörk sett, en veltuútsvarið var eins og annað útsvar, það fór eftir efnum og ástæðum. Í 10. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga er sett hámark við því, hve hátt aðstöðugjald má leggja á einstakar greinar í atvinnurekstri. Og í öðru lagi er sett þar viðbótarákvæði, sem takmarkar rétt sveitarfélaga til að leggja á aðstöðugjald enn frekara, ef um er að ræða rekstur fiskiskipa og hvers konar starfsemi við fiskvinnslu, þannig að rétturinn til að leggja á aðstöðugjald er ærið takmarkaður.

Á fulltrúaráðsfundi, sem kaupstaðirnir á Vestur-, Norður- og austurlandi héldu á Húsavík dagana 17.–19. sept., var m.a. þetta vandamál, þessar breytingar á tekjustofnalögunum teknar fyrir, og þá var m.a. gerð sú ályktun, sem ég hef tekið hér upp í grg. með frv., en hún er á þá leið, að félög og fyrirtæki verði útsvarsskyld á þeim stöðum, þar sem starfsemi þeirra fer fram. Vekur fundurinn athygli á því, að á þessu ári eru sum stærstu fyrirtæki í aðildarkaupstöðunum útsvarslögð að öllu leyti í Reykjavík. Og það er einmitt tilgangur þessa frv. að reyna að finna lausn á þessum vanda og koma til móts við óskir þessa fulltrúaráðsfundar, sem haldinn var á s.l. hausti á Húsavík. En eins og frv. ber með sér, er málið leyst á þann hátt að taka upp í grundvallaratriðum, en þó í einfaldara formi en áður, reglur gömlu útsvarslaganna í þessu efni.

Ég vil svo að lokum taka fram, að það koma að sjálfsögðu til álita ýmsar fleiri leiðir til þess að leysa þetta vandamál og rétta hlut þeirra sveitarfélaga, sem borið hafa skarðan hlut frá borði vegna þessara reglna, sem settar voru með l. um tekjustofna sveitarfélaga. Og ég vænti þess, að þegar þetta mál fer í n., þá taki sú hv. n. það að sjálfsögðu til athugunar, hvort aðrar leiðir og ef til vill réttlátari komi þar ekki til greina. Höfuðatriði tel ég vera, að það verður að finna leiðréttingu frá þessu ástandi, sem nú ríkir, og breyta þeim reglum, sem gilda. En það kann auðvitað að vera álitamál, á hvern hátt það sé gert, en það er nauðsynlegt, að það verði gert.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og félmn.