19.03.1963
Efri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

207. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, hafa, eftir að l. um tekjustofna sveitarfélaga voru samþykkt hér á siðasta þingi, risið vandamál, sem menn hafa ekki gert sér fulla grein fyrir, þegar löggjöfin var sett, og er þar fyrst og fremst um að ræða það mál, sem risið hefur á Akureyri í sambandi við útsvarsálagningu á verksmiðjurekstur SÍS þar. Um það gekk úrskurður, að þessi atvinnurekstur væri skv. hinum nýju lögum ekki útsvarsskyldur hvað tekjuútsvar snerti á Akureyri. Þessu vildi bæjarstjórn Akureyrar ekki una og hefur því áfrýjað málinu til ríkisskattanefndar eða ríkisskattstjóra eða þeirra aðila, sem um það fjalla sem æðsti dómstóll, og úrskurður þess aðila er enn ekki kominn. Það er alveg ljóst af þessu máli, að hvernig sem sá úrskurður fer, verður að gera einhverjar breytingar á útsvarslögunum til þess að koma í veg fyrir, að slík vandamál rísi eins og þar er um að ræða.

Ég hygg, að ekkert jafnstórt vandamál hafi risið í sambandi við þessi lög eins og þetta útsvarsmál verksmiðjurekstrar SÍS á Akureyri. Bæjarstjórn Akureyrar hefur að vísu haldið því fram í sinni málfærslu, að það beri að líta á Akureyri sem aðalheimili þessarar starfsemi, og um það snýst málið. En það er rétt, sem hv. flm. þessa frv. sagði, að niðurstaða þess máls í rauninni breytir ekki meginvandamálinu, því að vitanlega getur það risið á fleiri stöðum, þar sem ekki mundi vera slíku til að dreifa, að hægt væri að leysa vandann með því, að úrskurður félli á þann veg, sem er alls óvist að verði.

Allt frá því í haust hafa þm. Norðurl. e. rætt þetta vandamál og m.a. rætt það við formann þeirrar n., sem undirbjó lögin um tekjustofna sveitarfélaga, ráðuneytisstjórann í félmrn., einmitt með hliðsjón af því, að fundin yrði lausn á þessu vandamáli. En sú lausn er mjög vandfundin, vegna þess að hún breytir veigamiklu grundvallaratriði í þessum umræddu lögum, þ.e.a.s. að það verði sem meginstefna, að atvinnurekstur sé skattlagður á einum stað. Vitanlega má fyrir þeirri reglu færa margvísleg rök, og það hefur komið í ljós á undanförnum árum, að það væri mjög miklum annmörkum háð að skattleggja atvinnurekstur á fleiri stöðum, þ.e.a.s. hvað snertir tekjuútsvar eða að skattleggja tekjur atvinnurekstrarins. Og það mun hafa verið skoðun þeirrar nefndar, sem undirbjó l. um tekjustofna sveitarfélaga, að víðast hvar mundi vera hægt að ná til þessa atvinnurekstrar í gegnum aðstöðugjöldin. Þetta dæmi, sem ég nefndi, sýnir hins vegar ljóslega, að hér hefur ekki málið verið skoðað niður í kjölinn sem skyldi, og það er óumflýjanlegt að taka því málið upp til nýrrar athugunar.

En einmitt með hliðsjón af því, að þetta mál var í úrskurði, sem ekki var þegar genginn, og auk þess að það var erfitt að forma ákveðna tillögu, án þess að þar kæmi til sérþekking þeirra manna, sem um málið hafa fjallað, þá hefur það ekki orðið, að við þm. þessa kjördæmis, þar sem sérstaklega þetta vandamál hefur risið, höfum flutt um það sérstakt frv. á yfirstandandi þingi. Þetta vil ég aðeins láta koma fram. En ég tel hins vegar ekki nema gott, að frv. hv. 9. landsk. skuli hafa komið hér fram og að það verði tekið til meðferðar og málið krufið hér til mergjar, svo sem hægt er í því sambandi. Og ég vil taka sérstaklega undir þau niðurlagsorð í ræðu hans, að það er nauðsynlegt að íhuga málið frá öllum hliðum, vegna þess að þessi breyting á lögunum hefur ýmsar viðtækari verkanir, sem erfitt er að sjá, nema því aðeins að málið sé kannað niður í kjölinn.

En ástæðan til þess sérstaklega, að ég stend hér upp, er sú, að ég vil leggja á það ríka áherzlu með hv. flm., að þessu máli má ekki skjóta óhæfilega á frest, og ég hefði talið langeðlilegast, ef ekki yrði hægt að finna endanlega niðurstöðu, áður en þessu þingi lýkur eða við meðferð þessa máls hér í þessari hv. deild, að þá a.m.k. yrði málið afgreitt á þann veg, að ríkisstj. yrði falið að undirbúa málið fyrir haustþingið með það í huga að finna viðunandi lausn á þessu vandamáli, sem hér hefur verið komið fram í dagsljósið, því að það er kjarni málsins, eins og hv. fim. sagði, að finna þá lausn, en ekki endilega, eftir hvaða sjónarmiðum nákvæmlega starfað verður. Þetta vildi ég taka undir með hv. flm. og vildi sérstaklega einnig leyfa mér að beina þeim orðum mínum til hæstv. fjmrh., sem þessi mál heyra undir, að hann kanni þetta vandamál og reyni að leggja sitt lið til þess, að á því verði fundin viðunandi lausn.