07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2639)

35. mál, ferðir íslenzkra fiskiskipa

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Um till. þá, sem hér er til umr. á þskj. 35, er sama að segja og þá, sem ég mælti fyrir hér á undan. Till. þessi var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt. Þegar till. þessi kom fram, var liðið á starfstíma Alþingis, og hún varð eigi útrædd.

Till. þessi ályktar að fela ríkisstj. að athuga og gera till. um, hvaða ráðstafanir þurfi að gera, til þess að samband megi hafa við íslenzk fiskveiðiskip á ákveðnum tímum sólarhringsins og þannig verði fylgzt með, hvar þau eru stödd hverju sinni, svo að hjálp megi berast hið fyrsta, ef slys ber að höndum eða skipi hlekkist á, og jafnframt er getið um það í þessari till., að athugun þessa skuli gera í samráði við Slysavarnafélag Íslands og samtök sjómanna og útvegsmanna. í grg. má sjá, að till. þessi er flutt skömmu eftir að hið hörmulega slys skeði hér í Faxaflóa, að vélskipið Stuðlaberg frá Seyðisfirði fórst með allri áhöfn, 11 manna, út af Stafnesi, og vegna þess, hve mörgum brá ónotalega við, fyrst og fremst vegna hins hörmulega mannskaða og svo einnig vegna þess, að skip þetta fórst svo að segja við bæjardyr fjölbýlasta hluta landsins í veðri, sem var ekki talið tiltakanlega slæmt, og að það skyldu margir dagar líða, unz sú staðreynd varð almenningi ljós, að þetta nýja og glæsilega skip hafði farizt á leið til hafnar með allri áhöfn.

Við flm. till. á s.l. vetri vildum ekki á því stigi benda á ákveðna leið til að fylgjast með fiskiskipum daglega, vegna þess að mér var kunnugt um, að nokkur ágreiningur var á meðal þeirra, sem um mál þessi höfðu hugsað, hvernig bezta fyrirkomulagið yrði á þessu máli. Hins vegar hefur skipaskoðunarstjóri fyrir skömmu í útvarpserindi látið sína skoðun í ljós um þetta, og þar sem sú skoðun fer að nokkru leyti saman við þær skoðanir eða það álit, sem ég hafði hatt á þessu, vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þetta erindi skipaskoðunaratjóra. Hann segir um þetta mál, að hann sé mjög hlynntur því, að slík tilkynningarskylda komist á, enda hafi í tilkynningu Skipaskoðunar ríkisins, sem m.a. er send öllum útgerðarfélögum landsins, verið hvatt til þess, að togarar tilkynni stöðu sína reglulega til landsstöðva, þótt það að engin skylda enn þá. Hann segir enn fremur:

„Oft er ekki vitað um sjóslys fyrr en seint og síðar meir og þá oft fyrir tilviljun, að tekið er eftir, að skip hefur ekki látið heyra til sín lengi eða ekki komið til áfangastaðar á eðlilegum tíma. Oftast er það svo, að eigandinn eða útgerðarmaðurinn í landi fylgist með ferðum skips síns eða skipa sinna, en sumir útgerðarmenn eru sjálfir skipstjórar, og er þá enginn ákveðinn aðili í landi til að gera aðvart, ef ekki heyrist lengi til skips.“

Hann segir enn fremur, að slíkt kerfi mundi að vísu kosta nokkurt fé, og hann telur, að eflaust mundi landssíminn henta bezt til þess að veita slíka þjónustu. Og hann heldur áfram og segir, að þá verði skipum gert að skyldu að tilkynna strax, þegar þau láta úr höfn, og þá hvert ferðinni sé heitið. Síðan yrðu þau að tilkynna á minnst 12 klst. fresti til næstu loftskeytastöðvar um stað og stund og hvert þau séu að fara. Það eru nokkrar loftskeytastöðvar, eða fimm á landinu, sem eru með stöðuga vörzlu allan sólarhringinn, það eru Reykjavik, Ísafjörður, Siglufjörður, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar. Og auk þess munu vera um 7 minni stöðvar, sem hafa ekki stöðuga vörzlu. Til þess að geta fylgzt með ferðum hvers skips, sagði skipaskoðunarstjóri, yrði ein stöðvanna aðalstöð og yrði það vafalaust Reykjavík. Allar aðrar loftskeytastöðvar yrðu að senda jafnóðum allar upplýsingar, sem þeim berast frá skipum um stað og atund, til aðalstöðvarinnar í Reykjavik. Það þarf að vera stanzlaus vörður við þetta starf dag og nótt, og gerir hann eða þeir skrá yfir ferðir hvers einstaks skips. Jafnframt þarf að aðgæta stöðugt, að komið hafi fyrirskipuð staðarákvörðun frá hverju einasta skipi, sem tilkynnt hefur verið að látið hafi úr höfn og enn er ekki tilkynnt komið til hafnar. Ef tilkynningu vantar frá skipi, getur hann strax kallað til skipsins frá næstu loftskeytastöð til að athuga, hvort nokkuð sé að. Ef ekkert samband næst við skipið, má strax biðja nálæg skip að athuga um ferðir þess. Sé ástæða til að ætla, að slys hafi orðið, þarf svo varðmaður aðalstöðvarinnar að setja sig í samband við landhelgisgæzluna og flugumferðarstjórn og fara fram á leit, svo og að útvarpið birti beiðni til nálægra skipa að svipast um eftir skipinu. Og hann endurtekur það, sem hann sagði í byrjun máls síns um þetta, að þetta mundi að sjálfsögðu kosta nokkurt fé. En hann segir: „Ég hygg, að flestir geti verið mér sammála um, að það fé geti fljótt gefið ómælanleg verðmæti í aðra hönd, þegar um mannslíf getur verið að ræða.“

Undir þetta veit ég að þm. taka ásamt mér og meðflm. mínum, og í trausti þess, að till. þessari verði vel tekið, legg ég til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. til frekari fyrirgreiðslu.