05.12.1962
Sameinað þing: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (2673)

106. mál, samningar Evrópuríkja um félagslegt öryggi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 143 er flutt í þeim tilgangi að leita eftir því við Alþingi, að það fullgildi 3 samninga, sem aðildarríki Evrópuráðsins hafa gert með sér um félagslegt öryggi, framfærsluhjálp, læknishjálp o.fl.

Þessir samningar eru fram komnir vegna þess, að í stofnskrá Evrópuráðsins var á sínum tíma lýst því markmiði að koma á nánari einingu meðal þátttökuríkjanna í þeim tilgangi að stuðla að framförum á sviði félagsmála. Einn þátturinn í þessari viðleitni Evrópuráðsins er sá að vinna að því, að sú regla komist á, að útlendingar njóti sama réttar á sviði félagsmála og eigin þegnar dvalarlandsins njóta. Þó ber að skilja orðið útlendingur í þessu sambandi þannig, að það eru útlendingar frá aðildarríkjum Evrópuráðsins og náttúrlega aðrir ekki.

Mjög fljótlega, eftir að Evrópuráðið komst á laggirnar, setti það sérfræðinganefnd í þetta mál. Leitað var líka til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Niðurstöðuna af þeim athugunum, sem fram fóru bæði í sérfræðinganefndum Evrópuráðsins og hjá ILO, er að finna í þessum samningum, sem þáltill. fylgja sem fskj. Markmiðið með þessum samningum er, eins og ég sagði, að tryggja það, að sérhver meðlimur Evrópuráðsins veiti þegnum annarra meðlima þess jafnrétti á við sína þegna að því er tekur til réttinda á þeim sviðum, sem samningarnir taka til, og enn fremur, að þegnar Evrópuríkjanna njóti góðs af tilteknum réttindum skv. gildandi samningum milli ríkjanna.

Í þessum samningum er kveðið á um skilyrði fyrir því, að annarra ríkja þegnar njóti þessara réttinda. Þau skilyrði eru nokkuð mismunandi efir því, hvort hinn tryggði á að greiða til trygginganna eða ekki. En nokkur hluti tryggingastarfseminnar er þannig byggður upp, að hinir tryggðu þurfa ekki að greiða iðgjöld til þessarar starfsemi. Ég nefni t.d. á Íslandi atvinnuleysistryggingarnar, slysatryggingarnar, og annað þess háttar, þar sem hinn tryggði leggur ekki fram sjálfur nein iðgjöld til kerfisins. Hins vegar eru önnur tryggingakerfi, þar sem hinir tryggðu leggja sjálfir fram verulegan hluta kostnaðarins í formi iðgjalda, eins og t.d. sjúkratryggingarnar, ellitryggingarnar o.fl., og mismunurinn á réttindum til bótagreiðslu skv. þessum samningum er nokkur eftir því, hvort um slíka iðgjaldagreiðslu er að ræða eða ekki. Ef um enga iðgjaldagreiðslu er að ræða, er gert ráð fyrir því, að þessi útlendingur, sem svo er kallaður, frá einhverju aðildarríki Evrópuráðsins hafi verið búsettur æðilengi í landinu, áður en hann fer að njóta þessara réttinda. En þess er hins vegar ekki krafizt, ef um tryggingastarfsemi er að ræða, þar sem iðgjöld eru greidd.

Þessir samningar, sem hér er um að ræða, eru samningur um framfærsluhjálp og læknishjálp, bráðabirgðasamningur um félagslegt öryggi eða tryggingalög varðandi elli og örorku og eftirlifendur, og í þriðja lagi bráðabirgðasamningur um félagsleg tryggingalög önnur en þau, sem varða elli, örorku og eftirlifendur.

Þessir samningar allir eru mjög svipaðir samningum, sem í gildi eru nú á milli Íslands og annarra Norðurlanda og tryggja þegnum þeirra ríkja jafnrétti við íslenzka þegna á Íslandi og öfugt til þeirra bóta, sem veittar eru innlendum mönnum.

Samningarnir eru allir prentaðir hér á eftir sem fskj. I, II og III, með viðaukum, sem sérstaklega taka til flóttamannavandamálsins, sem er nú kannske ekki mjög alvarlegt hjá okkur, en er þarna með eins og hjá öðrum. Í samningunum er nákvæmlega greint um réttindi hvers aðila eða þegns hvers lands, og tel ég enga ástæðu til að vera að lesa það upp eða greina nánar frá efni samninganna, vegna þess að það er allt svo skýrt fram sett í fskj. með þáttill.

Ég vil aðeins geta þess, að þessir samningar voru undirritaðir á sínum tíma af þáverandi utanríkisráðherra, dr. Kristni Guðmundssyni, árið 1953, svo að það má náttúrlega segja, að það sé ekki vonum fyrr, að leitað sé eftir fullgildingu hjá Alþingi á þessum sáttmálum nú. En ástæðan til þess, að þetta hefur dregizt svona lengi, er mér tjáð að að sú, að það hafi verið beðið eftir fullgildingu annarra landa, sem við vildum haga okkur eftir og hafa samráð við. Og þar sem nú flest meðlimaríki Evrópuráðsins hafa þegar fullgilt samningana, — það eru eitthvað 2 eða 3 eftir, — og þar sem eftir því hefur verið gengið af ráðinu, að Ísland taki nú ákvörðun sína um fullgildingu, þá var talið, að nú væri ekki lengur eftir neinu að bíða og ástæða til að ganga nú formlega frá samningunum með fullgildingarstaðfestingu frá hinu háa Alþingi.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég veit ekki, hvað hæstv. forseta sýnist um nefnd. Ég hefði haldið, að réttast væri kannske að vísa till. til allshn. að lokinni þessari umr., en ef óskað er eftir annarri nefnd, t.d. utanrmn., þá er ég síður en svo á móti því.