20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2731)

74. mál, brúargerð yfir Lagarfljót

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, er um rannsókn á brúargerð yfir Lagarfljót við Lagarfoss, og hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela samgmrh. að hlutast til um, að gerð verði fullnaðarkostnaðaráætlun um brúargerð yfir Lagarfljót við Lagarfoss, og sé þeirri áætlun lokið haustið 1963.“

Það er nú öllum hv. þm. kunnugt, að samgöngumálin eru undirstöðuatriði í lífi og starfi hvers þjóðfélags. Við búum fámennir í víðáttumiklu landi með mikinn fjölda vatnsfalla, sem auk fjarlægðanna hafa verið mesti farartálminn um landið. Það hefur að vísu miðað mjög vel hin síðustu ár á þeirri braut að brúa vatnsföllin, og ef til vill hafa einmitt á sviði brúargerða verið unnir einhverjir stærstu þjóðfélagssigrar á undanförnum árum. Það heyrast að vísu stundum raddir um það, að misskipt sé fjármagni til samgöngumála til ýmissa héraða, ef fjármagn til brúargerða er talið með í heildarupphæð til samgöngumála hér á landi. En það er eðlilegt, að þetta sé nokkuð misjafnt, og verður ekki talið til hags neinu byggðarlagi, þó að þar sé mikil þörf á brúargerðum, ef samgöngur eiga að vera viðunandi.

Um Fljótsdalshérað falla tvær stórár frá Vatnajökli. Það er því eðlilegt, að þar sé allmikil þörf á brúm. En þessi þáltill., sem ég var hér áðan að lýsa og hef leyft mér að flytja á þskj. 89, fjallar að vísu aðeins um fullnaðarundirbúning að brúargerð á Lagarfljóti við Lagarfoss, en það er alveg Ljóst, að slíkur undirbúningur verður að vera að fullu unninn, áður en til framkvæmda kemur. Þetta brúarmát er skiljanlega mikið áhugamál þeirra, sem búa á Út-Héraði í námunda við þennan stað, og nýlega hefur líka almennur fundur á Fljótsdalshéraði lýst áhuga sínum á þessu máli. Ég hef rakið nokkru frekar um ástæður þessa í grg. og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta í framsögu, en ég vænti, að hv. Alþingi vilji styðja þessa þáltill., og ég legg til, að málinu verði vísað til hv. fjvn.