06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

107. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 144 flyt ég ásamt 4 öðrum þm. Framsfl. till. til þál. um afurðalán vegna garðávaxta. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að veitt verði afurðalán út á garðávexti hliðstætt því, sem gert er vegna sauðfjárafurða, enda séu garðávextir komnir í örugga geymslu, þegar afurðalán er veitt.“

Á undanförnum árum hefur Seðlabankinn veitt lán fyrir fram út á sauðfjárafurðir, og hafa þau stundum a.m.k. numið allt að 2/3 hlutum af áætluðu söluverði afurðanna. Þessi lán bæta að miklum mun fjárhagsaðstöðu framleiðenda og þeirra fyrirtækja, sem annast sölu afurðanna, og eru nauðsynleg, einkum vegna þess að rekstrarkostnaður, svo sem áburðarkaup, fellur á verzlunarfyrirtækin og færist í reikning bænda aðallega á fyrri hluta árs, en sauðfjárafurðir koma ekki á markað fyrr en að hausti og greiðast ekki að fullu fyrr en jafnóðum og sala fer fram til neytenda.

Eftir því sem þjóðinni fjölgar, eftir því þarf að sama skapi framleiðslan að vaxa. En það er ekki nóg að framleiðsla hinna einstöku greina landbúnaðarafurðanna vaxi, heldur þarf að fullnægja þörf þjóðarinnar fyrir matvæli, að svo miklu leyti sem auðið er, með framleiðslu þeirra innanlands. Landbúnaðarframleiðslan þarf því að vera sem fjölbreyttust, og ríkisvaldið þarf að styðja að því, að svo geti orðið. Það er einnig mjög heilbrigt, að í landbúnaðinum sé verkaskipting að vissu leyti, því að það er nokkuð misjafnt um hin einstöku svæði landsins, hvaða framleiðslugrein hentar bezt á hverjum stað. Þessi verkaskipting hefur þegar tekizt að nokkru leyti fyrir atbeina bændastéttarinnar sjálfrar, og löggjafinn hefur í vissum efnum viðurkennt þetta og veitt garðyrkjubændum vissa viðurkenningu og réttindi í löggjöf, þó að það sé þeirra aðalframleiðsla. En um framleiðslu garðávaxta gildir mjög svipað og um sauðfjárafurðir, að full greiðsla fyrir þá vöru kemur ekki í hendur bændanna fyrr en jafnóðum og neytendur kaupa vöruna, nema með einhverjum hætti komi til veltufé, sem greiði fyrir þessum viðskiptum. Með þessari till. er því farið fram á, að hliðstæð regla verði tekin upp um afurðalán út á garðávexti eins og í gildi er vegna sauðfjárafurða.

Ég hygg, að ekki þurfi að færa fyllri rök fyrir því en ég hef þegar gert með þessum orðum, að þessi till. er réttmæt, og vænti ég þess, að hún njóti skilnings hér á hv. Alþingi.

Fyrr á þessu þingi var rætt nokkuð um afurðalán til bænda almennt og þær reglur, sem hafa verið í gildi og nú er farið eftir í því efni, í sambandi við fsp., sem hér var rædd í nóvembermánuði, að ég ætla, á s.l. ári. Þá kom það fram af hálfu hæstv. landbrh., að á s.l. hausti yrði veitt fyrirgreiðsla úr bönkunum í þessu skyni, ekki lakari en gert hefur verið að undanförnu, og að í því sambandi yrði ekki miðað við sömu krónutölu og þessi lán hafa numið að undanförnu, heldur hlutfallslega miðað við aukið magn og hækkun á verði afurðanna. Er mjög eðlilegt og ánægjulegt, að þetta var fyrirhugað. En eftir því sem ég veit bezt, mun reynsla verzlunarfyrirtækja hafa orðið sú, að þetta hafi ekki orðið nákvæmlega þannig í framkvæmd, enda hefur verið um þetta ritað opinberlega, m.a. í tímariti samvinnufélaganna fyrir skömmu, að ég ætla.

Reynslan mun hafa orðið sú, að Seðlabankinn miðar við að lána sömu krónutölu og áður vegna afurðalána landbúnaðarins. En viðskiptabankinn, þ.e.a.s. Landsbankinn, mun hafa bætt við þessi lán Seðlabankans, þó tiltekinni upphæð. Og út á ull og mjólkurafurðir mun vera miðað við að lána sömu krónutölu og gert var árið 1961, en út á sauðfjárafurðir, ætla ég, að miðað hafi verið við að lána 55% af svokölluðu skilaverði. Hins vegar er mér ekki fyllilega ljóst, hvort það, sem kallað er skilaverð í þessu sambandi, er hið sama og grundvallarverðið, sem miðað er við að eigi að koma bændum í hendur eftir verðlagsgrundvelli, og er æskilegt, að upplýsingar kæmu fram um það í sambandi við þetta mál. En reynslan mun hafa orðið sú, að magn afurðanna hafi verið áætlað of lágt, þegar þessi áætlun um afurðalánin var gerð, svo að það hafi ekki einu sinni tekizt á s.l. hausti að lána full 55% af skilaverði út á sauðfjárafurðir. Hins vegar ætla ég, að Seðlabankinn muni hafa gengizt undir það, að láta lánið standa, þó að birgðir lækki, svo að hlutfallið 55% náist upp, áður en birgðirnar seljast allar.

Til viðbótar við þetta koma svo lán úr viðskiptabönkum, eftir því sem hverju verzlunarfyrirtæki tekst að semja um það við þann banka, sem það hefur aðalskipti við, og má gera ráð fyrir, að þau verði eitthvað misjöfn eftir því, hvernig samningar takast milli hinna einstöku aðila.

Af þessu er Ljóst, að hin almennu afurðalán landbúnaðarins eru því miður enn ekki í nægilega góðu horfi að mínum dómi, og hygg ég, að margir í bændastétt muni taka undir það. En án þess að fara lengra út í það almennt, þá styður það, sem ég hef nú vikið að, þessa till, á þann hátt, að því fleiri afurðir sem njóta góðs af afurðalánunum, þeim mun betur er hlaupið undir bagga með bændastéttinni og verzlunarfyrirtækjum hennar að þessu leyti, og er þess að vænta, að fullur skilningur verði fyrir því hér á hv. Alþingi við afgreiðslu þessa máls.