06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

107. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að till. sem þessi hefur áður verið flutt hér í hv. Alþingi. Það er vegna þess, að það hefur aldrei verið lánað afurðalán út á garðávexti. Ég er ekki þar með að segja, að það sé ekki réttmætt. Ég vil miklu heldur segja, að það væri réttmætt að veita afurðalán út á garðávexti eins og aðrar landbúnaðarafurðir, þ.e.a.s. þegar garðávextirnir hafa verið metnir og komnir í góða geymslu. En þetta hefur aldrei verið gert, hverjir sem með stjórn hafa farið. Aftur á móti var það fyrir tilstilli mína 1960–1961 og að nokkru s.l. haust, að veitt voru lán út á kartöflur komnar í hús, en með óhagstæðari kjörum en afurðalánin eru, þ.e.a.s. hærri vöxtum. Ég tel því ekkert óeðlilegt, þó að till. eins og þessi sé flutt þing eftir þing, þar sem ekki hefur fengizt árangur í því efni, enda heyrði ég það á hv. flm., að hann talaði ekki í ádeilutón, fann, að það var ekki grundvöllur til þess, þar sem hans hv. flokksbræður, meðan þeir voru í ríkisstj., hefðu ekki komið þessu í framkvæmd.

Hv. þm, sagði af allmikilli hógværð, að afurðalánin væru ekki enn komin í nægilega gott horf. Ég get tekið undir það, að það væri æskilegt, að afurðalánin væru hærri, það væri jafnvel æskilegt, að þau væru með enn betri kjörum. En við verðum, um leið og við berum fram þessar frómu óskir, að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig málefnin eru á hverjum tíma og hvað er til samanburðar hverju sinni. Ég minnist þess t.d., að útvegurinn fékk fyrir ekki allmörgum árum allt að 90% lán út á afurðir sínar. En ég minnist þess einnig, að landbúnaðurinn fékk ekki hærri lán en hann nú fær á sama tíma. Ég minnist þess ekki, að landbúnaðarfyrirtæki hafi nokkru sinni áður greitt meira út til bænda á haustin út á afurðir heldur en s.l. haust. Og við getum byrjað og farið hringinn í kringum landið og við getum byrjað á því að spyrja Borgfirðinga. Hafa þeir nokkurn tíma fengið meira greitt út á afurðir en á s.l. hausti? Hafa Vestfirðingar nokkurn tíma fengið meira en á s.l. hausti? Nei. Hafa Húnvetningar nokkurn tíma fengið meira en á s.l. hausti? Skagfirðingar? Eyfirðingar? Þingeyingar? Austfirðingar? Nei. Hefur útborgun til sunnlenzkra bænda verið lægri á a.l. hausti en áður hjá Sláturfélagi Suðurlands eða Mjólkurbúi Flóamanna? Nei. Það eru 67% lægsta útborgun, en sumir hafa borgað meira út á afurðir til bænda.

Það er sagt, að útvegurinn fái 87–70%. Ég er ekki ánægður með þann meting, sem oft er á milli hinna ýmsu atvinnuvega. Ég tel, að það beri að stuðla eins vel og mögulegt er að hinum nauðsynlegu atvinnuvegum í landinu, en munurinn fyrir þá, sem vilja gera samanburð, er miklu minni nú á útlánum til sjávarútvegs og landbúnaðar heldur en var, því að þegar útvegurinn fékk 90% lán, afurðatán og viðbótarlán í viðskiptabönkunum, þá fékk landbúnaðurinn ekki meira fjármagn í bönkunum en svo, að hann gat ekki borgað meira en 67%, þar sem bezt var. Og það er rétt að hafa þetta til samanburðar.

Þegar hv. frsm. ræðir um þessi mál af skilningi og hógværð, eins og hann gerði hér áðan, þá er það alveg þess virði að ræða við hann um þessi mál á skipulegan og eðlilegan máta og kanna, í hverju þetta liggur. Og ég get tekið undir með honum um það, að það væri æskilegt, að landbúnaðurinn fengi hærri afurðalán og betri kjör, og að því ber vitanlega að vinna. En þetta hefur verið þörf fyrir áður, án þess að árangur næðist. Ég veit, að þessi hv. þm. veit þetta og man það, þegar útgerðin fékk allt að 90% lán í bönkunum, bæði afurðatán og viðbótarlán, án þess að landbúnaðurinn gæti greitt meira en 2/3 til bænda. Það má þess vegna segja, að bilið hafi mjókkað þarna á milli, það sé nær því nú, að jöfnuður hafi náðst í þessum efnum, heldur en nokkru sinni fyrr.

Það stendur einnig í aðalatriðum, að Seðlabankinn hefur tánað 55% út á tandbúnaðarafurðir að þessu sinni eins og afurðir sjávarútvegsins. 55% voru lánaðar út á sauðfjárafurðir, en það var minna út á mjólkurafurðir, en hefur farið smám saman hækkandi, og ég ætla, að nú að 55% afurðalán bæði út á mjólkurafurðir og sauðfjárafurðir í Seðlabankanum. En það mun vera minna á ullinni, sem lánað var út á á s.l. sumri. Það lán mun ekki enn hafa verið hækkað, en það er eitthvað innan við 50% á ullinni, en það eru víst ekki miklar birgðir af ull í landinu nú. Það hefur farið núna undanfarið dálítið af ull, og ég held, að ef spurt er um þetta í Seðlabankanum í dag, þá muni vera um 55% lán út á landbúnaðarafurðir nema ullina.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja, en ég tel, að að þessu sinni hafi lánamál út á afurðir landbúnaðarins verið leyst á viðunandi hátt, þótt það mætti vera betra, og munurinn er minni nú á útlánum til landbúnaðar og sjávarútvegs en hann hefur verið oft áður.