06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2763)

135. mál, námskeið í vinnuhagræðingu

Flm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 240 ásamt tveimur hv. þm. Alþfl., þeim Benedikt Gröndal og Jóni Þorsteinssyni, að leggja fram till. til þál. um námskeið í vinnuhagræðingu fyrir trúnaðarmenn verkalýðsfélaga. Efni till. er, að Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Iðnaðarmátastofnun Íslands að halda kynningarnámskeið í vinnuhagræðingu og grundvallarreglum ákvæðisvinnu fyrir trúnaðarmenn verkalýðsfélaga. Ber að halda slík námskeið í samráði við samtök launþega, eftir því sem nauðsynlegt reynist.

Kerfisbundin hagræðing í atvinnurekstri, rasjónalisering, á sér ekki langa sögu. Hinar tæknilega þróuðu þjóðir hafa þó gert sér far um að hagnýta sér þessa nýju verkmenningu síðustu áratugina, og er talið, að hún hafi átt meiri þátt í efnahagsvexti þessara þjóða en flest annað. Orðið rasjónalisering hefur hér á landi verið þýtt: vinnuhagræðing. Ég tel þetta á ýmsan hátt óheppilega þýðingu, því að merking orðsins er miklu víðtækari. Með orðinu er átt við sérhverja kerfisbundna ráðstöfun, sem miðar að því að auka framleiðnina. Til þess að ná þessu marki hefur smátt og smátt myndazt sérstök fræðigrein, sem tekið hefur í þjónustu sína nýja tækni rannsóknaraðferða og mælinga. Í þessu, sem hér verður sagt, mun ég nota orðið hagræðing um rasjónaliseringu almennt, þ.e.a.s. um sérhverja ráðstöfun til betri nýtingar á framleiðsluþáttunum almennt, en nota orðið vinnuhagræðing aðeins um þann hátt hagræðingar, sem fjallar um betri nýtingu vinnuaflsins, svo sem betri og nýjar vinnuaðferðir, betra skipulag á sjálfum framleiðslustörfunum, er miðar að auknum afköstum með minni fyrirhöfn fyrir verkamanninn. Aðrir þættir hagræðingar eru meira á fjármagns- og verzlunarsviðinu, svo sem skynsamleg fjárfesting, skynsamleg innkaup og birgðahald, endurbætur á skipulagi fyrirtækja, sölufyrirkomulagi, nýtingu efnis, orku o.s.frv.

Ég vil taka þetta skýrt fram, því að reynsla er fengin fyrir því, að almenningi hættir til að ætla, einkum meðan eðli hagræðingarstarfseminnar er lítt þekkt, að tilgangur hennar sé fyrst og fremst að auka vinnuhraðann, en því fer fjarri. Tilgangur hagræðingar í atvinnurekstri er betri nýting framleiðsluþáttanna almennt, en markmið þess þáttar hagræðingar, sem ég hér hef nefnt vinnuhagræðingu, er fyrst og fremst að finna beztu vinnuaðferðina, spara óþarfa flutninga, óþarfar hreyfingar, erfiðustu átökin og hvers konar tímatafir vegna skipulagsleysis. Markmiðið er m.ö.o. að létta störfin og auka afköstin. Að vísu má segja, að launakerfin séu þessu náskyld og jafnvel einn þátturinn. Tekin hafa verið upp ýmis launakerfi, sem miða greiðslur meira við þá vinnu, sem einstaklingurinn afkastar, en þann tíma, sem hann er á vinnustaðnum. Svo er t.d. um beina ákvæðisvinnu, en þá á líka verkamaðurinn að fá fulla greiðslu fyrir það, sem hann afkastar umfram það normala. í þessu sambandi kemur að sjálfsögðu til álita, hvað einstaklingurinn vill á sig leggja til að auka lífskjör sín eða stytta vinnutímann. Hér vaknar strax sú spurning, hvernig stendur á því, að það getur borgað sig fyrir atvinnurekandann að greiða fulla greiðslu fyrir vinnuafköst umfram það normala, jafnvel þó að ákvæðisvinnan hafi í sjálfu sér í för með sér aukið umstang fyrir hann og aukakostnað, svo sem greiðslu til vinnurannsóknarmanna, sem ákveða meðalafköstin, eftirlit með vinnuafköstum og vinnugæðum, sem jafnan fylgir ákvæðisvinnu, og eins vegna þeirrar venju, að sá hluti starfsfólksins, sem ekki nær normal-afköstum fær að jafnaði eftir sem áður greitt fullt tímakaup. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að vinnan er aðeins einn þáttur framleiðslukostnaðarins. Ef verkamaðurinn eykur t.d. vinnuafköstin um 20%, þá mundi hin aukna framleiðsla ekki aðeins geta borgað vinnuþættinum, þ.e.a.s. verkamanninum, 20% hærra kaup, heldur mundi hún einnig gefa atvinnurekandanum 20% hækkun á nýtingu fjárfestingarkostnaðarins. T.d. mundi vélin, sem verkamaðurinn vinnur við, skila 20% meiri nýtingu, og ýmiss konar fastur kostnaður yrði hlutfallslega minni hluti af heildarútgjöldum fyrirtækisins.

Ég vona, að það hafi komið skýrt fram, að vinnuhagræðing er aðeins einn þáttur hagræðingarinnar í þeim atvinnugreinum, þar sem vinnan er stærsti kostnaðarliðurinn, er hún mikilvægasti þátturinn, en í öðrum atvinnugreinum kunna að vera aðrir kostnaðarliðir, sem vænlegra er að spreyta sig á, aðrir þættir hagræðingar. En það er vissulega hægt að framkvæma róttækar hagræðingarráðstafanir án þess að taka upp ákvæðisvinnu eða auka vinnuhraðann.

Sá þáttur hagræðingar, sem kallaður er vinnuhagræðing, er í sjálfu sér alveg óháður ákvæðisvinnu, þó að nota megi mælitækni vinnuhagræðingarinnar m.a. til þess að tímamæla og ákveða réttlátan grundvöll ákvæðisvinnu. Markmið vinnuhagræðingar er fyrst og fremst að finna beztu vinnuaðferðina, spara óþarfa flutninga, óþarfar hreyfingar, erfiðustu átökin og hreyfingarnar, og koma í veg fyrir hvers konar skipulagsleysi og tímatafir, sem ekki er annað en sóun á verðmætum og kemur ekki aðeins starfsfólki og atvinnurekanda í koll, heldur bitnar það á sinn hátt á þjóðfélaginu öllu.

Vinnurannsóknir, eins og þær eru framkvæmdar í dag, eru árangurinn af þróun, sem hófst vestur í Ameríku um síðustu aldamót. Þar var lagður grundvöllurinn að þeirri mælitækni, sem enn í dag er notuð við vinnurannsóknir, þó að ýmsar framfarir á þessu sviði hafi að sjálfsögðu átt sér stað síðan. Og þar var jafnframt lagður grundvöllurinn að kerfisbundnum rannsóknum á vinnuhreyfingum, þ.e.a.s. athugun á því, hvaða líkamlegar hreyfingar væru fljótvirkastar og kostuðu minnsta áreynslu fyrir starfsmanninn. Frá þessum tíma í byrjun aldarinnar er sögufræg vinnurannsókn, sem framkvæmd var í múrverkinu, nánar tiltekið á vinnuaðferðum varðandi múrsteinshleðslu. Múrsteinshleðslan var gamalt handverk, og eins og oft vili verða í gamalgrónu handverki, lærði hver af öðrum á unga aldri, og vinnubrögðin héldust að mestu eða öllu óbreytt í áratugi og mönnum þótti ekki líklegt, að það væri hægt að koma við neinni nýbreytni til bóta á þessu sviði. Rannsökuð voru á kerfisbundinn hátt öll þau atriði, sem menn gátu látið sér til hugar koma að hefðu áhrif á vinnuafköst eða þreytu múrarans. Á þann hátt fannst sú vinnustelling og þær vinnuaðatæður, sem bezt hæfðu. Ákveðinn var skynsamlegasti hæðamismunurinn milli hleðslusteinsins, sem hlaðið var úr, steinlimsins og veggsins, sem verið var að hlaða. Skipulagt var vinnupallafyrirkomulag, sem gerði það kleift að halda hinni hagkvæmustu vinnuaðstöðu, þd að veggurinn hækkaði. Á þann hátt losnaði múrarinn við það að eyða kröftum sínum í að beygja sinn 70–80 kg kroppsþunga niður að tánum á sér til þess að taka upp 1–2 kg stein og ef til vill koma honum fyrir í seilingarhæð. Augljóst var, að hér hafði vinnuafli verið sóað, vinnuafli eytt til einskis og starfið kostað meiri líkamlega áreynslu en þörf var á. Með þeim breytingum, sem komið var á, fækkaði vinnuhreyfingum múrarans úr 18 niður í 5. Vinnuafköstin jukust að meðaltali úr 120 í 350 steina á klst., án þess að múrarinn þyrfti að leggja meira að sér en áður, og var jafnvel óþreyttari eftir en áður. Þó að hér væri um einhvern kostnaðarauka að ræða við útbúnað, var verðmæti framleiðslunnar miklum mun meira en þeim kostnaði nam. Hér var um stórfellda framleiðsluaukningu að ræða, sem leitt hefði getað til lægri húsaleigu og hærri launa hjá múrurunum.

Í Evrópu verða Þjóðverjar fyrstir til að tileinka sér þessi nýju vinnuvísindi, þessa nýju hagræðingartækni. Fastri stofnun var komið á þar í landi á árinu 1924 til þess að vinna að rannsóknum á þessu sviði, halda námskeið í vinnurannsóknum og gefa út bækur og fræðslurit.

Á Norðurlöndum var ekkert gert að ráði á þessu sviði fyrr en eftir 1930, þó að einstöku fyrirtæki og einstöku menn hafi að sjálfsögðu verið farnir að gefa málinu gaum nokkru áður. Svíar urðu fyrstir á ferðinni, en á hæla þeim komu Norðmenn og aðrar Norðurlandaþjóðir.

Markmjöl nýtízku vinnurannsókna má í grófum dráttum skipta í þrennt:

1) Að endurbæta skipulag vinnurásarinnar og vinnuskilyrði.

2) Að endurbæta sjálfar vinnuaðferðir einstaklingsins.

3) Að ákveða þann tíma, sem eðlilegt er að fari í það að framkvæma ákveðið verk, og ákveða á þann hátt grundvöll réttlátrar launagreiðslu.

Skal ég nú með örfáum orðum víkja nokkru nánar að hverju um sig.

Til þess að komast að raun um, hverju helzt er ábótavant í skipulagi vinnurásarinnar og virkri samvinnu einstakra aðila eða vinnuheilda, eru framkvæmdar svokaltaðar tímatapsrannsóknir. Tímatapsrannsóknir eru framkvæmdar á þann hátt, að vinnurannsóknamaðurinn fylgist með einum eða fleiri starfsmönnum og skrásetur atlan daginn, jafnvel dag eftir dag, hvert einasta atriði, sem fyrir kemur, og mælir tímann, sem eyðist í hvert atriði um sig, skrásetur, hve mikið af tímanum fer í virka framleiðslu, hve mikið fer í að bíða eftir efni, hve mikið fer í bilanir og hvers konar tafir, sem fyrir geta komið. Með því að skrásetja allt og tímamæla fer ekkert á milli mála um það, hvernig vinnudagurinn eyðist. í ljós koma öll þau skipulagsatriði, allir þeir skipulagsgallar, gallar á vélum, verkfærum og efni, sem tefja framleiðslustörfin og afköst hins einstaka starfsmanns. Tímatapsrannsóknin leiðir í ljós staðreyndina um það, hvernig skipulag vinnunnar er. Þegar skipulagsgallarnir liggja ljóst fyrir, er að sjáifsögðu næsta verkefnið að ráða bót á þeim. Ef endurbæta á vinnuaðferðir einstaklinganna, eru notaðar vinnuaðferðarrannsóknir. Er þá rannsökuð legund og röð vinnuhreyfinga, sem framkvæmdar eru, og reynt að skipuleggja þær vinnuhreyfingar, sem hagkvæmastar eru, til orku- og tímasparnaðar. í þessu sambandi þarf einnig að athuga hin tæknilegu hjálparmeðul, vélar og verkfæri. Er stjórntækjum vélarinnar hagkvæmlega fyrir komið? Eru notuð réttu verkfærin? Er sjálfur vinnuútbúnaðurinn og vinnuaðstaðan eins og bezt verður á kosið? Slíkar rannsóknir leiða að jafnaði til þess, að hægt er að auka vinnuafköstin án þess að auka vinnuhraðann eða erfiðið, og er raunar að því stefnt að draga úr erfiðinu, minnka erfiðið, en auka afköstin, eftir því sem unnt reynist.

Ef taka á upp nýja vinnuaðferð, ber að meta hana út frá þremur sjónarmiðum: Í fyrsta lagi vinnuheilsufræðilegu sjónarmiði, í öðru lagi tæknilegu sjónarmiði og í þriðja lagi fjárhagslegu sjónarmiði. Hið vinnuheilsufræðilega sjónarmið gerir kröfu til þess, að aðferðin hafi ekki óheppileg áhrif á starfsmanninn, svo sem óheppileg gerð véla og verkfæra, sem veldur ónauðsynlega mikilli orkueyðslu eða einhliða áreynslu. Hér koma einnig til greina önnur heilsufræðileg atriði, svo sem loftræsting, lýsing, ónauðsynlegur hávaði, hristingur o.fl. Hið heilsufræðilega sjónarmið er með öðrum orðum, að aðferðin hafi ekki í för með sér óheppilegar afleiðingar fyrir heilsu starfsmannsins eða líðan og að tekið sé tillit til þess, að starfsmaðurinn fái nauðsynlegt tóm til afslöppunar og hvíldar.

Tæknilega sjónarmiðið snýr að sjálfum framleiðslutækjunum og gæðum framleiðslunnar. Framleiðslan má ekki hafa verri eiginleika en áskilið er, og óþarfi er að eyða tíma og fyrirhöfn og kostnaði í það að gera hana betri og nákvæmari en þörf er á í hverju tilfelli. Fjárhagslega sjónarmiðið metur svo og vegur annars vegar tilkostnað við breytingarnar og hins vegar ávinninginn af þeim. Við slíkar rannsóknir á vinnuaðferðum ber að sjálfsögðu að hafa í huga að reyna að hagnýta það, sem fyrir hendi er, svo sem vélar, verkfæri, gólfflöt, húsrými og annað, sem litinn eða engan kostnað hefur í för með sér að hagnýta. En að sjálfsögðu kemur einnig til greina að gera róttækari breytingar, svo sem að kaupa vélar eða kaupa nýjar og fullkomnari vélar, en ekki á að ráðast í slíkt nema að undangengnum útreikningum um það, hvað er fjárhagslega hagkvæmt og skynsamlegt.

Þegar tekin hefur verið upp ný vinnuaðferð, þarf að sjálfsögðu að gera allnákvæma verklýsingu, þannig að hægt sé að kenna starfsfólkinu þessa nýju aðferð og þjálfa hana, þannig að þeim árangri verði náð, sem til er ætlazt. Þetta er líka nauðsynlegt, ef vinna á verk í ákvæðisvinnu, því að ákvæðisvinnumatið verður auðvitað að byggjast á alveg ákveðinni aðferð og þeim vinnuaðstæðum, sem fyrir hendi eru.

Þriðja markmiðið með vinnurannsóknum er svo að ákveða þann tíma, sem eðlilegt má telja að nauðsynlegur sé til þess að framkvæma ákveðið verk. Hér er um að ræða að ákveða hlutlægan og réttlátan grundvöll undir ákvæðisvinnu. Um nauðsyn þess að nota tímamælingar við að ákveða réttlátan grundvöll, skal ég aðeins nefna eitt dæmi, enda eru „slumpakkorð“ fordæmd af kunnáttumönnum á þessu sviði.

40 fagmenn fengu sem verkefni að reikna út eða áætla, hve langan tíma þyrfti til að framkvæma ákveðið trésmíðaverk. Sá lægsti áætlaði, að verkið væri 22 mínútna verk, en sá hæsti, að það tæki 100 mínútur. Af þessum 40 fagmönnum voru það ekki nema 8, sem áætluðu tímann það nákvæmlega, að frávikið væri ekki meira en 10% frá því, sem tímamælt var, þ.e.a.s. 10% hærra eða 10% lægra en ákveðið var með tímamælingum. 32 af 40 áætlunum voru taldar algerlega óhæfar sem grundvöllur fyrir ákvæðisvinnumat. 22,5% áætluðu tímann of lágt, en 57,5% of hátt. Það kom einnig í ljós, að menn höfðu mjög ónákvæmar hugmyndir um það, hvað tæki langan tíma að vinna verk í vélum, sem þeir þekktu vel, enda þótt vinnuhraði verkamannsins hefði í því sambandi engin áhrif, heldur aðeins ganghraði vélarinnar. Dæmið sýnir á sannfærandi hátt, hve nauðsynlegt það er að tímamæla ákvæðisvinnu. Ákvæðisvinnu er ætlað að örva framleiðnina, a.m.k. að örva til þess, að starfsfólkið noti starfstímann eftir því, sem búast má við miðað við erfiði verksins, en í ákvæðisvinnumatinu á að taka tillit til þess tíma, sem fólki er nauðsynlegur til persónulegra þarfa og hvítdar, ef verkið er erfitt, og er það samningsatriði.

Sérfræðingar vara við því, að tekin sé upp ákvæðisvinna, áður en vinnurannsóknir hafa farið fram og vinnuaðferðir endurbættar, og þeir vara við „slumpakkorðum“. Þeir leggja áherzlu á, að ákvæðisvinnumatið eigi að vera rétt og sanngjarnt. Of lág akkorð örva ekki til framleiðni og þeir segja, að of há akkorð geri það ekki heldur, því að þá myndist ótti við það að þau verði lækkuð, og samtök myndast um það á vinnustaðnum að sýna ekki of góðan árangur, auk þess sem of há og þó einkum misjöfn akkorð valda óánægju og árekstrum.

Af því, sem hér hefur verið rakið, má sjá, hve stórkostlega þýðingu vinnurannsóknir geta haft fyrir atvinnulífið. Þær leiða til þess, að ástandið á vinnustaðnum er athugað nánar. í Ljós koma ýmsir gallar á skipulagningu og vinnuskilyrðum, sem menn með öðrum hætti veita ekki athygli, af því að þeir venjast ástandinu eins og það er og hefur verið og gera sér naumast ljóst, að í neinu sé ábótavant. Það er ekki aðeins, að menn með þessum hætti finni, hvað er að, heldur verða einnig orsakirnar að því, sem aflaga fer, ljósar, og möguleikar skapast til þess að ráða bót á vandanum. Á þennan hátt er hægt að bæta vinnuskilyrðin fyrir starfsfólkið með það fyrir augum annars vegar að bæta heilsufar þess og skapa því meira öryggi og hins vegar með tilliti til þess að nýta vinnuaflið til hagnýtrar framleiðslu á sem skynsamlegastan hátt, án þess að sóa starfskröftum vegna skipulagsleysis og óþarflega erfiðra vinnubragða. Auk þess eru, eins og að hefur verið vikið, vinnurannsóknir nauðsynlegar til þess að ákveða réttiáta ákvæðisvinnu.

Þá er ekki síður mikilvægt við vinnurannsóknir, að á grundvelli þeirra er hægt að gera skynsamlegar og rökstuddar áætlanir um það, hvaða fjárfestingar sé æskilegt að ráðast i. Hér á landi virðast menn yfirleitt ganga út frá því sem gefnu, að það borgi sig alltaf að kaupa nýjustu og dýrustu vélar, sem tök eru á, og halda, að það eitt horfi til framfara. Það er að vísu rétt, að oftast eða a.m.k. oft heppnast þetta og gefst vel, en það er engan veginn víst, að saman fari aukin afköst og aukin framleiðni.

Því er haldið fram, að lífskjör almennings hér á landi séu betri en víðast hvar annars staðar. Þessi góðu lífskjör byggjast þó fyrst og fremst á mikilli atvinnu og óhóflega löngum vinnutíma, sem varla verður unað við til lengdar. Vafasamt má telja, að unnt reynist að ráða bót á þessu á skömmum tíma, nema launþegasamtökin taki upp nýja þætti í kjarabaráttu sinni, er miði að aukinni framleiðni og tryggi raunhæfar kjarabætur og styttan vinnutíma. Varla er að efa það, að launþegasamtökum frændþjóða vorra á Norðurlöndum hefur orðið meira ágengt í kjarabaráttunni en íslenzkum launþegasamtökum, a.m.k. undanfarin 15 ár, enda þótt kauphækkanir hafi orðið hér margfalt meiri en þar. Launþegasamtök þessara landa hafa á ýmsan hátt lagt inn á nýjar leiðir. Má þar t.d. nefna hagstofnanir launþegasamtakanna, sem hafa sérfræðinga í þjónustu sinni, er fylgjast með þróun efnahagsmála og halda uppi víðtækri fræðslustarfsemi fyrir meðlimi samtakanna og gæta hagsmuna þeirra. Það er vandasamt fyrir hinn almenna launþega og jafnvel fyrir forustumenn verkalýðsfélaga að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvenær líklegt er, að kauphækkunarleiðin leiði til kjarabóta. Atvinnurekendur kvarta alltaf, þegar á kauphækkanir er minnzt, og óábyrg stjórnarandstaða gerir að jafnaði lítið til þess að leiðbeina fólki, nema síður sé. Það er því atger nauðsyn, að launþegasamtökin haldi uppi eigin hagstofnun, er sé þess umkomin að vega og meta aðstæður hverju sinni og líkur fyrir því, að kauphækkanir leiði til kjarabóta. Ég vildi segja, að þetta væri fyrsta einkennið á þroskaðri, ábyrgri og jákvæðri verkalýðshreyfingu.

En fyrst það virðist vera svo nauðsynlegt,.ð launþegar ákveði kröfur sínar með hliðsjón af framleiðsluaukningunni eða þó öllu heldur framleiðniaukningunni, þá vaknar sú spurning, hvort verkalýðssamtökin geti ekki beitt kröftum sínum og samtakamætti alveg sérstaklega til þess, að ráðstafanir séu gerðar, er miði að því að auka framleiðnina, svo að meira komi til skiptanna. í þessu sambandi má á það benda, að frændþjóðir okkar eru á þessu sviði einnig til fyrirmyndar. Auk þeirra hagstofnana, sem launþegasamtök þessara þjóða hafa komið á hjá sér, hafa þau einnig komið á fót sérstökum tæknistofnunum samtakanna, og er það ekki síður athyglisvert. Þessar tæknistofnanir hafa á að skipa sérfræðingum í hagræðingartækni, er aðstoða samtökin og gæta hagsmuna þeirra í samningum við atvinnurekendur um það, hvernig vinnuhagræðing, vinnurannsóknir og ákvæðisvinna verði bezt nýtt til aukinnar framleiðni og bættra lífskjara. Auk þess eru hundruð trúnaðarmanna verkafólks á vinnustað þjálfaðir á sérstökum námskeiðum til þess að gæta hagsmuna þess í sambandi við framkvæmd vinnuhagræðingar og útreikning tímamældrar ákvæðisvinnu.

Í Noregi eru þessir trúnaðarmenn sumpart þjálfaðir æ samtökunum sjálfum, en þó aðallega í sérstakri ríkisstofnun, Statens teknologisk institut. Norsku verkalýðssamtökin gerðu árið 1945 samning við atvinnurekendur um samstarfsnefndir eða framleiðslunefndir við stærri fyrirtæki, og er þeim ætlað það hlutverk að gera till. um aðgerðir, er miða að aukinni framleiðni til hagsbóta fyrir atvinnureksturinn og þá, sem við hann starfa. Á árinu 1947 gerðu þessir aðilar með sér samning um það, hvernig hagnýta bæri hagræðingartækni til aukinnar framleiðni, og er ýtarlega gengið frá réttindum og skyldum beggja aðila í sambandi við framkvæmd vinnurannsókna og fyrirkomulag ákvæðisvinnu. Má telja báða þessa samninga merk spor í átt til atvinnulýðræðis, og telja norsk verkalýðssamtök, að þeir samningar hafi átt mikinn þátt í aukinni framleiðni og bættum lífskjörum norsku þjóðarinnar undanfarin ár. Enn má nefna, að þessir sömu aðilar gerðu samning um það 1958 að stytta vinnutímann í norska iðnaðinum úr 48 í 45 klst., en standa jafnframt að sameiginlegu átaki til aukinnar framleiðni, svo að unnt yrði að gera þetta án lækkunar á dagkaupi, og reyndar hækkaði það nokkuð á árinu. Eftir á lýstu báðir aðilar, verkalýðssamtökin og atvinnurekendur, því yfir, að þessi ráðagerð hefði tekizt.

Um árangurinn af vinnuhagræðingu erlendis mætti nefna mörg dæmi, sem of langt yrði upp að telja. Ég vil aðeins geta þess almennt, að sérfræðingar í þessum efnum segja, að alls staðar megi með þessari nýju rannsóknartækni bæta vinnubrögð og skipulag og auka framleiðsluna. Telja þeir, að yfirleitt megi reikna með 20–30% aukningu, ef gagnger athugun er framkvæmd og hagræðing hafi ekki áður verið framkvæmd eða beitt í fyrirtækinu, og að reikna megi með meiri framleiðsluaukningu, ef skiputagi og vinnubrögðum sé verulega ábótavant.

Hér á landi er þessi starfsemi á algeru byrjunarstigi. Mér er þó kunnugt um, að nokkuð hefur verið unnið að þessu hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og talið er, að vinnustundafjöldi við línulagningu hafi lækkað um 25–28%. í nokkrum hraðfrystihúsum hefur dálítið verið að þessu unnið og komið á tímamældri ákvæðisvinnu við borðavinnu og handflökun. Við flökun er lögð miklu meiri áherzla á nýtingu hráefnisins en afköstin eða vinnuhraðann og notað bónuskerfi eða uppbótakerfi, en ekki bein ákvæðisvinna. Hefur þetta verið gert sums staðar á Vestfjörðum með góðum árangri og reyndar víðar. Vegna þess, hve fiskflökin eru miklu verðmætari en hráefni til mjölvinnslu, er greidd 10% kauphækkun fyrir hvert 1% nýtingar umfram málsnýtingu, en ekki nema 10% kauphækkun fyrir 20% afkastaaukningu umfram staðatafköst. Hér er fyrst og fremst verið að verðlauna efnisnýtingu, en ekki vinnuhraða, þar sem 1% aukning á nýtingu efnis jafngildir 20% afkastaaukningu hvað kauphækkun snertir, í iðnfyrirtæki einu hér í Reykjavík er mér kunnugt um, að tekið hefur verið upp bónuskerfi við framleiðslustörf. í fyrirtækinu var áður unnið 9 klst. dag. Nú er vinnutíminn styttur ofan í 8 klst., en starfsmennirnir þá svipuð vinnulaun og þeir hefðu annars fengið fyrir 10 klst.

Því er ekki að leyna, að hagræðingarstarfsemi er ýmsum vandkvæðum bundin, einkum í fyrstu, og kemur þar margt til. Að sjálfsögðu er hagkvæmara að beita henni í stórum fyrirtækjum, því að um nokkurn rannsóknarkostnað er að ræóa. Hér á landi er skortur á sérfræðingum á þessu sviði, og má því búast við, að nokkur dráttur verði á því, að þessi vinnuvísindi verði nýtt sem skyldi. Það er í sjálfu sér athugunarefni, hvort ekki væri ástæða til þess að gera opinberar ráðstafanir til þess að hraða þróun þessara mála, því nauðsynlegt er, að bæði atvinnurekendur og verkalýðsfélögin geti notið aðstoðar sérfræðinga í þessu efni. Gagnvart starfsfólki má í fyrstu búast við ýmsum erfiðleikum og jafnvel andstöðu. Er hér að nokkru um að ræða óttann við hið óþekkta, og að nokkru er þetta, tilfinningalegs eðlis. Einkum eldra fólk er lítið hrifið af því að breyta vinnuaðferðum sinum og vinnuvenjum, og búast má við staðbundnum ágreiningsefnum, einkum út af ákvæðisvinnu. Af þessum ástæðum öltum ráðleggja sérfræðingar eindregið, að ekki sé byrjað á vinnuhagræðingu í fyrirtækjum nema að undangenginni fræðslu og kynningarstarfsemi og í fullu samráði við trúnaðarmenn verkafólksins. Enda er fengin örugg reynsla fyrir því, að hagræðingin ber ekki tilætlaðan árangur, nema því aðeins að starfsfólkið fallist á hana og leggi henni lið. Það er því nauðsynlegt, að verkafólkið njóti frá upphafi aðstoðar sérstakra trúnaðarmanna á vinnustað, sem eru sérstaklega þjálfaðir á þessu sviði og eru þess umkomnir að gæta hagsmuna verkafólksins og stuðla að því, að þessi nýja verktækni verði nýtt til aukinnar framleiðni og bættra lífskjara. Er þessari þáltill. ætlað að stuðla að því.

Ég legg svo til, að umr. verði frestað og mátinu vísað til allshn.