19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

135. mál, námskeið í vinnuhagræðingu

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir jákvæða afgreiðslu á þessu máli. N. hefur efnislega fallizt á eða mælt með öllu því, sem í till. fólst, en gengur þarna að einu leyti lengra, þar sem hún leggur til, að auk trúnaðarmanna verkalýðsfélaga verði trúnaðarmenn vinnuveitenda einnig aðnjótandi þeirrar fræðslu, sem till. lagði til. Ég vil fyrir mitt leyti styðja þessa breyt. n. eða viðbót.

Vinnuhagræðingin er algerlega á byrjunarstigi hér á landi, og í því efni erum við a.m.k. 20 árum á eftir nágrannalöndum okkar í þróuninni, og tel ég því rétt að gera allt, sem unnt er, til þess að hraða þróuninni. Og mér er líka fyllilega ljóst og tók raunar fram í framsöguræðu fyrir þáltill. á sínum tíma, að maður getur því aðeins vænzt árangurs af þessari nýju verkmenningu, að það sé fullur skilningur og fullt samkomulag milli beggja aðila, atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, um að hagnýta þessa nýju vinnutækni til aukinnar framleiðni og hagsbóta fyrir verkafólkið og eflingar atvinnurekstrarins og samkeppnishæfni hans. Þetta sjónarmið kemur líka fram í prentuðu áliti eða umsögn Iðnaðarmálastofnunarinnar, sem er mjög rækileg og þess verð, að sé athuguð, og tel ég því þessa viðbót n. til bóta og legg til, að þáttill. verði samþykkt með þeirri breytingu.