13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2781)

162. mál, verknámsskóli í járniðnaði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Með þáltill. á þskj. 298 er lagt til, að ríkisstj. verði falið að beita sér fyrir því, að stofnsettur verði í Reykjavík verknámsskóli í járniðnaði á grundvelli heimildar í 1. gr. l. um iðnskóla frá 1955 og skuli skólinn taka til starfa ekki síðar en 1. okt. 1963.

Í iðnskólalögunum er í fyrsta lagi gert, eins og kunnugt er, ráð fyrir því, að iðnskólar eigi að veita þeim nemendum fræðslu, sem meistarar í iðngrein og iðnaðarfyrirtækjum hafi tekið til náms samkv. l. um iðnfræðslu. Þetta er meginreglan, eins og alkunnugt er. En í þessum lögum er einnig heimilað, að þá nema, sem vilji nema iðn til sveinsprófs, megi uppfræða í vinnustöðvum, sem skólarnir hafi ráð á, en síðar meir á námið að halda áfram hjá iðnmeisturunum, og þannig á námi þeirra að ljúka með sveinsbréfi frá iðnmeistaranum, sem tekið hefur iðnnemann til náms. Allt fram að 1955 að iðnlögin voru sett og þessi heimild sett inn í lögin. urðu iðnnemar einungis að ljúka sínu iðnnámi að öllu undir kennarahendi — meistara í viðkomandi iðngrein. Þetta, að gefa iðnnemum kost á að nema að einhverju leyti iðn sína í skóla, hefur verið baráttumál Iðnnemasambandsins allt frá því, að það var stofnað 1945, og einnig Landssambands iðnaðarmanna, en þau samtök iðnmeistaranna hafa gert samþykktir á mörgum undanförnum árum í þá átt að auka skólakennslu í iðngreinum. Þarna eru því hvorir tveggja aðilar, þeir sem kennsluna eiga að veita og þeir sem kennslunnar eiga að njóta, sammála um, að það beri að auka skipulagða skólakennslu sem þátt í iðnnáminu.

Hér er sem sagt lagt til, að skólinn skuli vera skóli í járniðnaði, skuli vera deild við lðnskólann í Reykjavík, námið í þessum akóla skuli taka eitt ár og á því beri að ljúka bóklega náminu sem svarar nú 2 bekkjum iðnskólans. Þegar þessu bóklega námi er lokið skal svo neminn halda áfram sínu námi hjá meistara og ljúka sveinsprófi með hinum almenna, venjulega hætti. Þegar hefur verið gerð tilraun með þess konar skólahald skv. þessari heimild iðnskólalaganna, að því er mér er kunnugt í 3 iðngreinum. Ég held, að fyrsta námsdeildin, sem tók til starfa, hafi verið í prentiðninni, síðan hafa trésmiðir og rafvirkjar bætzt við, svo að það er þegar byrjað að notfæra sér þessa heimild löggjafarinnar í a.m.k. 3 greinum. Og hér er lagt til, að sams konar skólahald hefjist nú einnig í járniðnaðinum.

Með þeirri verklegu kennslu, sem tekin hefur verið upp á gagnfræðastiginu í verknámsskóla hér í Reykjavík, hefur verið fallizt á það, að vegna þeirrar verklegu kennslu, sem þar er framkvæmd í skólaformi, skuli námstími nema, sem síðan fara í iðngrein, styttast um 8 mánuði. Með þessu er fyllilega viðurkennt, að vel skipulögð fræðsla í iðnaðinum í skólaformi sé árangursríkari en a.m.k. byrjunin á iðnnáminu á verkstæðum hjá meisturum. Er það alkunna, að þá hafa nemendurnir oft og tíðum fremur verið notaðir sem sendisveinar en að þeim hafi verið haldið til skipulagðs náms. Með því hins vegar að stofna til skólakennslu í ákveðinni iðngrein er ekki talíð ólíklegt, að stytta megi námstímann um eitt ár, og skv. tillögunni, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að svo verði, og það mun einnig vera niðurstaðan að því er snertir þær greinar, sem ég áðan gat um, trésmíðina, rafvirkjunina og prentiðnina, sem nú hafa þetta fyrirkomulag.

Hér er ekki á ferðinni till. um það að hverfa frá meistarafyrirkomulaginu, sem hér hefur verið fram að síðustu árum allsráðandi um menntun þeirra, sem öðlast vilja svefnsréttindi í einhverri iðn. Og þó er það sannfæring okkar flutningsmanna, mín og hv. 2. landsk., að meistarafyrirkomulagið sé á margan hátt gallað og beri í raun og veru að hverfa frá því eina fljótt og hægt væri að undirbyggja vel skipulagða iðnfræðslu í skólum með fullkomnum og vel útbúnum verkstæðum.

Ég skal ekki fara hér nákvæmlega út í að rökstyðja þessa skoðun mína, en vil þó benda á tvennt: 1) Sérhver sá, sem lokið hefur sveinsprófi í iðn og hefur síðan unnið sem sveinn í 3 ár, öðlast meistararéttindi, alveg án tillits til þess, hvort hann er hæfur eða lítt hæfur í sinni iðn, þegar 3 ár eru liðin frá því, að hann lauk svefnsprófi. Ef hann hefur starfað í iðninni, gerist hann meistari og öðlast þá rétt til þess að taka nemendur og útskrifa þá. Þetta getur verið prýðilega hæfur maður, en það er engin trygging með þessu kerfi fyrir því, að meistarinn, sem tekur að sér að kenna öðrum, sé hinn hæfasti í sinni grein. Og þannig geta nemendur unnvörpum komizt í hendur lélegra meistara, sem eru ekki færir um að veita fullkomna fræðstu í viðkomandi grein. Þetta er einn af ágöllum meistarafyrirkomulagsins að mínu áliti. Hinn megingallinn er sá, að það er lögbundið fyrir allar iðngreinar, hve löngum tíma úr lífi hins unga manns skuli varið til að nema iðngrein, og finnst mér þetta vera mikil fjarstæða. í fyrsta tagi væri ekki óeðlilegt, að hæfni nemandans til námsins réði nokkru um það, hvort hann ætti að verja 3, 4 eða 5 árum til að öðlast þjálfun og þekkingu í sinni iðngrein, og ef hann væri hinn færasti til námsins, þá yrði námstími hans styttri. Ef hann væri hins vegar skussi og klaufi, þá væri nám hans lengra, tæki yfir lengri tíma, þangað til hann hefði náð þeirri hæfni, sem krefjast bæri. Nei, hér er þetta sett í spennitreyju ákveðinna tímabila, og í ákveðinni námsgrein skal nemandinn vera 3 ár eða hann skal vera 4 ár í annarri. Stúlka, sem ætlar sér að læra hárgreiðslu, skal verja 3 árum ævi sinnar til þess að læra að greiða hár. Vestur í Ameríku er mér sagt, að það séu teknir aðeins 9 mánuðir til slíks náms, sé eins vetrar námskeið og þar séu þær taldar færar um að greiða hár á sinum kynsystrum eftir slíkt nám. Hér dugir ekki annað en að taka 3 ár úr ævi ungrar stúlku til að læra hárgreiðslu. Algengasti námstíminn er, eins og kunnugt er, 4 ár, og þar gildir það sama um hafa og lítt hæfa nemendur og um það, hvort iðngreinin er auðlærð eða vandlærð. Það tekur 4 ár, hygg ég, að læra að smyrja brauð, og það tekur 4 ár að læra að byggja stórskip og stórhýsi. Ég finn ekkert vit í þessu, og ég undrast, að slíkt miðaldafyrirkomulag skuli enn þá vera ríkjandi hjá okkur. Ég held því, að það þurfi umfram allt að endurskoða iðnlöggjöfina frá grunni og færa hana til nútímahorfs. En það er ekki lagt til í þessari till., og tel ég þess þó fulla nauðsyn. Ég tel sem sé meistarafyrirkomulagið ekki gefa fullnægjandi tryggingu fyrir því, að þjóðfélagið eignist vel menntaða iðnaðarmenn.

Eitt kemur þar og, til. Það eru breyttir tímar. í mörgum og flestum iðngreinum þarf nú miklu meiri sérhæfingu en áður þurfti og áður þekktist. Tökum t. d, prentiðnina. Þar þurfti prentarinn fyrir nokkrum áratugum að vera handsetjari og vélsetjari, og hann þurfti að kunna aliar greinar prentiðnarinnar, ef hann átti að vera hlutgengur prentari. Nú dettur engum manni í hug að láta prentara vinna mörg slík störf. Hann gerist annaðhvort vélsetjari eða handsetjari, eða sérfræðingur í hinum ótalmörgu greinum prentiðnarinnar og stundar ekkert annað allt sitt líf. Hann fær þannig að mjög litlu leyti vegna þeirrar sérhæfni, sem orðin er, að reyna á hina almennu þekkingu prentarans, eins og enn þá er krafizt skv. iðnlöggjöfinni, þegar hann útskrifast frá meistara í prentiðninni. Sérhæfnin gerir það að verkum, að það væri full ástæða til að útskrifa menn í hinum einstöku greinum prentiðnarinnar og hvaða grein annarri, sem um væri að ræða, þegar þeir væru orðnir fullfærir í þeim þætti iðnarinnar, sem þeir ætluðu að gera að sínu lífsstarfi, en ekki að taka ár úr lífi þeirra til þess að þjálfa þá í mörgum öðrum greinum, sem þeir setja sér ekki að sinna.

Íslenzka þjóðin á mjög mikið undir því, að hún eignist vel hæfa og vel menntaða iðnaðarmenn. Og ég hef ekki trú á því, að þar sé eins vel gert af hendi þjóðfélagsins og vera bæri, fyrr en iðnlöggjöfin væri endurskoðuð írá grunni og þetta gamla meistarakerfi, sem mjög mikið er mótað af hagsmunum meistaranna að nota nemendurna sem ódýran vinnukraft, ekki áður en hitt, að leggja áherzlu á, að nemendurnir fái hina fullkomnustu kennslu, og ætti það þó vitanlega að sitja í fyrirrúmi.

Ég tel, að hér sé ekki farið fram á mikið með þessari þáltill. Það er farið fram á það eitt, að notuð verði heimild í vinnulöggjöfinni um það, að stofnað verði til skóla í járniðnaði, líkt og þegar hefur verið gert í nokkrum iðngreinum. Og vil ég mælast til þess við hv. þm., að þeir gefi þessari litlu till. gaum og veiti henni stuðning og fylgi.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og till. vísað til hv, allshn.