19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2784)

162. mál, verknámsskóli í járniðnaði

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Til allshn. hefur verið vísað till. til þál, um verknámsskóla í járniðnaði, sem flutt er af þeim hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarssyni, og hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni. Efni till. er, að ríkisstj. verði falið að beita sér fyrir, að á grundvelli heimildar í lögum um iðnskóla verði stofnaður í Reykjavík verknámsskóli í járniðnaði, sem verði deild við iðnskólann þar, og taki skólinn til starfa eigi síðar en 1. okt. 1963. Með því fyrirkomulagi á kennslu í járniðnaði, sem till. gerir ráð fyrir, yrði iðnskólanum gert kleift að annast kennslu á vinnustöðvum, sem hann hefði umráð yfir, og væri náminu á þann veg hagað, að á einu ári yrði auk verklegs náms lokið því bóklega námi, sem nú tekur tvo vetur. Síðar stunduðu nemendur nám hjá meisturum og lykju sveinsprófum. Með þessum hætti yrði unnt að stytta námstímann um eitt ár, en tryggja þó um leið betri menntun í iðninni en almennt gerist með þeirri tilhögun námsins, sem nú tíðkast.

Sú tilhögun iðnnáms, sem hér er lagt til að verði tekin upp í járniðnaði, hefur verið krafa iðnnemasamtakanna frá stofnun þeirra 1945, og hún hefur einnig hlotið stuðning Landssambands ísl. iðnaðarmanna, og góð reynsla hefur þegar fengizt af þessari tilhögun í öðrum iðngreinum, í rafvirkjun, trésmíði og prentiðn.

Skortur á lærðum járniðnaðarmönnum er tilfinnanlegur og bitnar illa á sjávarútveginum, sem er háður störfum járniðnaðarmanna á margan hátt. Ekki er vafi á því, að ef tækist að stytta námstíma í járniðnaði um eitt ár frá því, sem nú er, og jafnvel bæta námið um leið, þá aukast líkur á því, að ungir menn leggi fyrir sig nám í járniðnaði, en á því er framleiðsluatvinnuvegunum mikil þörf.

Allshn. er sammála um að mæla með samþykkt þáltill., en þar sem sú tilhögun, sem hér er gert ráð fyrir um nám í járniðnaði, mun hafa verið í athugun um skeið, leggur n. til, að orðalagsbreyting verði gerð á till., þannig að í stað orðanna „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því“ o.s.frv., komi: Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða því o.s.frv. Allshn. er því sammála um að leggja til, að till. verði samþykkt þannig orðuð:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða því, að stofnsettur verði í Reykjavík verknámsskóli í járniðnaði á grundvelli heimildar í 1. gr. l. um iðnskóla frá 1955. Skólinn skal taka til starfa eigi síðar en 1. okt. 1963.“