03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

201. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Gísli Guðmundason:

Herra forseti. Tillaga þessi, sem hér liggur fyrir á þskj. 402 frá tveim hv. þm. Vestfjarðakjördæmis, hv. 1. og hv. 3. þm. Vestf., er þess efnis að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands að semja fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Samkv. till. ber að miða áætlunina við það einkum, að framkvæmdirnar verði liður í uppbyggingu þeirra staða, sem fólksfækkunin gerir lítt kleift að halda í byggð, þótt öll skilyrði séu þar til góðra lífskjara, ef búið væri að þeim á borð við aðra staði. Ætlazt er til, að áætluninni verði lokið fyrir lok þessa árs, en hún svo lögð fyrir Alþingi ásamt till, um fjáröflun.

Þetta er efni till., rakið að mestu leyti með orðum till. sjálfrar. Ég álít, að hér sé um merkilegt mál að ræða, sem eigi að taka með velvilja, því að það er áreiðanlega flutt af ríkri nauðsyn. Hv. flm. gera grein fyrir því í till., að fólki á Vestfjörðum hafi fækkað um 19.7% á tímabilinu 1912–1962. Þessar tölur sýna áreiðanlega ekki ýkta mynd af því, sem gerzt hefur á Vestfjörðum, heldur þvert á móti. Með þessari tölu er nokkuð dregið úr því, sem raunverulega hefur átt sér stað þar í seinni tíð, því að ef teknir eru aðeins tveir síðustu áratugirnir, þá, er fjölgunin á þeim tíma — aðeins á þeim 20 árum — nærri því þessi hundraðshluti. Svo ör hefur fækkunin verið, sérstaklega nú síðustu tvo áratugina. Hún virðist ekki hafa verið eins ör framan af öldinni eða á tímabilinu frá 1912–1940, og þess vegna hækkar það ekki hundraðshlutann meira en þetta, þó að allt tímabilið sé tekið. Það er sem sé uggvænlegt, hve mjög fólki hefur fækkað í þessum landshluta og það, eins og hv. 1. flm. alveg réttilega tók fram, þó að þar séu að ýmsu leyti hin ákjósanlegustu skilyrði til búsetu. Sjórinn hefur löngum verið gjöfull á Vestfjörðum og landkostir þar, a.m.k. í sumum sveitum, allmiklir. Jarðhiti er þar, bæði suður á Barðaströnd og við Djúp og jafnvel norður á Ströndum, og fleira mætti telja, sem þessi landshluti hefur fram að bjóða og hefur alla tíð haft til framfærslu sínum börnum. Hér er því vissulega um mál að ræða, sem ástæða er til, að Alþingi láti og hafi látið til sín taka. En í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að það er ekki aðeins á Vestfjörðum einum, sem fólkinu fækkar raunverulega. Þó að ekki sé um beina tölulega fækkun að ræða og íbúatalan lækki ekki beinlínis, þá getur samt verið um hlutfallslega fækkun að ræða. Þegar þjóðinni í heild fjölgar t.d. um nálega 50%, eða nánar tiltekið 48%, ef ég man rétt, á 20 árum, þá er um fækkun að ræða í landshluta, þar sem talan hefur ekki hækkað um nema t.d. 11%, eins og á Norðurlandi í heild, eða aðeins um 4%, eins og á Austurlandi, eða 18%, eins og er á Suðurlandi. Þetta er fækkun hjá þjóð, sem er að fjölga svo mjög eins og þjóðinni fjölgar nú.

Ástæðan til þess, að þessi fækkun hefur orðið — hún er ekki aðeins á Vestfjörðum, þessi hlutfallslega fækkun, heldur er hún yfirleitt í mestum hluta landsins — ástæðan til þess er sú, hvernig fólkið hefur þjappazt saman á litlum hluta landsins hér við sunnanverðan Faxaflóa, og það er það ástand, sem við horfumst í augu við nú í dag. Hér var fyrir fáum dögum til meðferðar í hv. Nd, frv., sem hefur legið fyrir þinginu næstum því í allan vetur, um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þær ráðstafanir, sem þar er gert ráð fyrir, voru aðallega fólgnar í tvennu. Þar var gert ráð fyrir áælunum, eins og hv. þm. gera nú ráð fyrir, í einum landshluta, og þar var gert ráð fyrir fjáröflun á sérstakan hátt, að tryggja jafnvægissjóðnum ákveðinn hundraðshluta ár hvert af tekjum ríkissjóðsins, og þessi tekjuöflunarleið var valin til þess að tryggja það, að dýrtíðin, sem nú síðustu árin gengur yfir landið, gerði ekki þessar tekjur að litlu eða engu. Fyrir örfáum dögum gerðist það hér í hv. Nd., að þessu frv. var vísað frá. Sá hv. nefndarmeirihluti, sem stóð að því að semja dagskrártill. til þess að vísa þessu frv. frá, lét það á þrykk út ganga hér á þskj., að hann teldi þær ráðstafanir, sem í frv. fælust, með öllu óþarfar. Og á þeim forsendum var málinu vísað frá. En daginn eftir eða næsta dag eftir að þessu plaggi var hér útbýtt eða var hér til umr., þá lögðu hv. þm. Vestf. fram þessa till., sem nú liggur hér frammi í Sþ., þar sem lýst er yfir því, að í einum landshlutanum, á Vestfjörðum, fari fjarri því, að þessi ummæli meiri hl. og ummæli dagskrárinnar, sem meiri hl. d. lét sig hafa að samþykkja, eigi við, því að þeir telja þörf því á Vestfjörðum að gera áætlun og hraða henni, láta henni vera lokið strax næsta haust, og þó jafnframt verði gerð áætlun um fjáröflun til þess að hrinda áætluninni í framkvæmd. Og auðvitað hafa þeir rétt fyrir sér í því, að þetta þarf að gera, því að lögin um atvinnubótasjóð, sem nú gilda, eru allsendis ófullnægjandi í þessu tilliti. Till., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru yfirlýsing um það, að dagskráin, sem samþ. var í Nd., sé ekki réttmæt, hún sé á röngum forsendum byggð, og að frv., sem visað var frá með þeirri dagskrá, hafi ekki verið óþarft, eins og þó var samþ. hér í þessum sat, að vísu í Nd., að lýsa yfir.

Ekki dettur mér í hug að láta það hafa áhrif á mína afstöðu nú, þó að hv. meiri hl. hér á Alþingi hafi tekið slíka afstöðu til þessa máls, sem ég nefndi áðan. Þörf Vestfjarða fyrir hjálp til þess að verjast fólksflóttanum er ekki minni, þó að yfirlýsingar af þessu tagi gangi út frá hinum ráðandi meiri hl. á Alþingi.

Ég vil aðeins, af því að ég veit, að hv. 1. flm. þessa máls, sem nú mælti fyrir því, er áhugamaður í þessum efnum, þó að orð hans fái þar nú ekki miklu fram komið öðru en e.t.v. þessari till. hér, leyfa mér að benda honum á, að það er ekki alveg víst, að frá sjónarmiði landsbyggðarinnar sé á heppilegastan hátt unnið að málinu á þennan hátt. Landsbyggðin er mestöll hér á sama bát. Þó að Vestfirðir hafi að vísu orðið mest fyrir barðinu á fólksflutningunum og eigi e.t.v. um sárast að binda, þá er þar ekki allur munur á. En um leið og hinum landshlutunum er neitað á þeim forsendum, að það sé óþarft að gera þar sérstakar ráðstafanir, þá er hér borin fram sérstök till. um þennan landshluta. Þó að þörfin sé þar mikil og sjálfsagt sé að sýna þessari till. vinsemd og líta á það, sem hún byggist á, vil ég endurtaka það, að ég er ekki viss um, að þarna sé heppilega að málum unnið.

Hinir fornu Rómverjar lögðu undir sig mikinn hluta heimsbyggðarinnar, sem þá var kölluð. Þeir lögðu undir sig stór lönd og smá, fámennar þjóðir og fjölmennar, voru sjálfir ekki mjög fjölmennir. Þeirra veldi gekk út frá einni borg og einu litlu ríki á Ítalíu. Þeir byrjuðu á því að leggja undir sig smáríkin á Ítalíu, og síðan lögðu þeir undir sig hin meiri þjóðlönd norðar í álfunni og hinum megin við Miðjarðarhafið. Þeir unnu oft bug á þjóðum, sem voru miklu fjölmennari en þeir voru sjálfir, og tókst að stjórna þeim og gera þær sér skattskyldar öldum saman. Í þessari baráttu fyrir yfirráðum varð til kjörorð, sem frægt er orðið í sögunni, kjörorð drottnarans. Ég skal ekki segja um það, hvort það hefur verið Sesar, sem fann það upp, þegar hann var að leggja undir sig Gallíu, eða einhver annar af stjórnvitringum eða spekingum Rómverja, en kjörorðið hljóðaði á þeirra tungu: — Divide et impera, — sem útleggst á voru máli: Deildu og drottnaðu. Inntak þessa kjörorðs var það, þegar við þjóð var að eiga, að mismuna landsmönnum, gera eitthvað fyrir eitthvert hérað, eitthvert byggðarlag í landinu, sem hefði þær verkanir, að hin byggðarlögin kæmust á þá skoðun, að þjóðin væri klofin, og fyndist, að þeirra hlutur væri fyrir borð borinn. En það hérað, sem hlunnindin hlaut, var náttúrlega annarrar skoðunar, og yfirþjóðin leit svo á, að það hérað mundi verða henni hlynnt, og þá var komin upp sundrung milli þeirra, sem áttu að standa. saman.

Þó að þessi till., sem hér liggur fyrir, sé sjálfsagt vel meint og ég vilji ekki láta hana á neinn hátt gjalda þeirrar skammsýni, sem hér hefur komið fram út af öðru stærra máli, þá minnir hún mig óþægilega á hina rómversku aðferð. Af öllum landshlutum, sem eiga þetta sameiginlega vandamál, er lagt til, að einn sé tekinn út úr og honum hjálpað, hinum ekki. Ég veit, að þetta vakir ekki fyrir hv. flm., en einhvern veginn dettur mér þetta í hug, þegar ég sé þessa till. um að leysa hluta af þeim mikla vanda, sem landsbyggðin er í. Og ég vil skjóta því til hv. flm. fyrst og fremst og þá einnig til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar og væntanlega verður sú nefnd, sem ég á reyndar sæti í, hvort mönnum fyndist það ekki eðlilegt, að þegar búið er að gera þessa áætlun um Vestfirði, — við skulum segja, að hún væri gerð fyrst, — þá væri í till. einnig gert ráð fyrir því, að haldið væri áfram og gerðar slíkar áætlanir fyrir hina landshlutana. Alls staðar er þessi þörf fyrir hendi. Ég veit um sveitarfélög, t.d. í mínu kjördæmi, þar sem menn berjast í bökkum, þar sem býlunum hefur fækkað svo mjög, að menn eru í vandræðum með að smala afrétti þar t.d., og það er nú svo, að þegar þeim fækkar, sem geta borið byrðarnar, þá verða byrðarnar þyngri á þeim, sem eftir eru. Þær verða þyngri á þeim, sem eftir eru, og þá geta þær haldið áfram að þyngjast, þangað til menn geta ekki borið þær lengur. Norðarlega á Austfjörðum er lítill fjörður, sem hefur verið byggður síðan á landnámstíð og verið sérstakur hreppur. Það er ekki í mínu kjördæmi, en ég þekki til þess samt. Þar eru íbúarnir eitthvað innan við 20. Þó er þetta grösug sveit og hefur margt fram að bjóða. Svona er þetta víðar. Svona er þetta, held ég, í flestum landshlutum, einhver dæmi, sem líkjast þessu, nema hér, þar sem fólkið hefur þjappazt saman.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins nota tækifærið til þess að vekja athygli á því, að hér er í raun og veru verið að ræða eina grein af því máli, sem var hér til umr. áður í Nd. og var vísað þá frá sem óþörfu. Og af því að nú er verið að ræða þessa grein af því stóra máli, þá fannst mér eðlilegt að rifja hér upp ýmis atriði í sambandi við meðferð þessa stóra máls og benda á það, sem þessi till. gefur tilefni til í því sambandi. En þó að ég hefði kosið, að það mál hefði hlotið aðra afgreiðslu hér á Alþingi að þessu sinni, og þó að ég trúi því og viti, að það muni hljóta aðra og betri afgreiðslu seinna, þá álít ég samt, að rétt sé að taka vel þessari till., sem hér liggur fyrir.