28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

42. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þar sem 1. flm. þessarar till. á nú ekki sæti á Alþingi, tel ég rétt að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Að vísu get ég sparað mér að flytja langt mál, vegna þess að till. hefur nokkrum sinnum áður legið fyrir hv. Alþingi. Eins og segir í grg., var hún flutt efnislega svipuð þessari till. í fyrsta skipti á Alþingi 1937 og var þá samþ. og kosin nefnd, en af störfum þeirrar n. mun lítið eða ekkert hafa orðið. Síðustu árin hefur till. einnig nokkrum sinnum verið flutt hér á hinu háa Alþingi, en hefur ekki hlotið endanlega afgreiðslu. Hv. þm. eru því Ljós þau rök, sem fyrir henni liggja, að málflutningi um hana á undanförnum þingum, og sé ég því ekki ástæðu til að þreyta menn með langri ræðu, enda er í grg. að finna nánari skýringu á því, hvað felst í því hugtaki, sem hér er um að ræða.

Það er öllum hv. þm. áreiðanlega ljóst og allir sammála um, að það er hið stærsta vandamál í sambandi við þróun efnahagsmála, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í flestum öðrum löndum, hvernig á að finna leið til þess, eins og kallað er, að sætta fjármagn og vinnu. Það eru eilíf átök um það, hvernig skipta eigi afrakstri atvinnuveganna. Illvígar deilur eru háðar og verkföll oft og tíðum, sem valda stórfelldu tjóni, og loks hitt, sem ekki er síður alvarlegt, að með þessum átökum öllum er hindruð oft og tíðum eðlileg þróun efnahagslífsins, og þessi átök hafa. eins og við öll vitum, í okkar þjóðfélagi valdið því, að hvað eftir annað hefur orðið að gefast upp við það að stöðva verðbólguþróun í landinu. Ég er með þessum orðum ekki að saka einn né neinn um að eiga orsök eða vera valdur öðrum fremur að þessu ástandi mála, en ég held, að það geti engum dulizt, að þetta ástand er óviðunandi og er stærsta vandamálið, sem við er að glíma í sambandi við okkar efnahagsþróun í dag. Það hefur verið bent á ýmsar leiðir til þess að sætta fjármagn og vinnu. Sumir hafa talið að það væri eðlilegt, að hið opinbera ræki atvinnufyrirtækin, og þá mundi þessi deila verða úr sögunni. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að það er engin lausn á málinu, nema menn séu reiðubúnir til að taka upp þjóðskipulag, sem hindrar rétt verkalýðsins til þess að ráða sjálfur kjaramálum sínum. Það hafa einnig komið fram fleiri hugmyndir í þessa átt. Það hefur verið talað á síðustu árum sérstaklega um þann möguleika að koma upp svokölluðum almenningshlutafélögum, þar sem hinn almenni þjóðfélagsborgari ætti beina aðild að atvinnurekstrinum og þannig skapaðist annað viðhorf hjá almenningi til afkomu atvinnuveganna og kröfusjónarmiðin yrðu þar af leiðandi ekki eins sterk og þau ella eru.

Einn þáttur í þessum hugmyndum er sú leið, sem bent er á í þessari till. Ég skal fúslega játa, að ég er ekki reiðubúinn til að fullyrða, að hve miklu leyti þessi lausn mála gæti orðið að gagni til þess að leysa þetta mikla vandamál. Hér er gert ráð fyrir því, að þetta verði reynt að leysa eftir frjálsum leiðum án allrar þvingunar og á þann veg, að starfsmenn fyrirtækja eignist beina aðild að fyrirtækjunum, bæði hlutdeild í rekstri þeirra og einnig í arði fyrirtækjanna, ef honum er til að dreifa. Með þessu er hugsunin sú, að það muni, ef starfsmennirnir eru beinir aðilar að fyrirtækjunum, leiða til þess, að áhugi þeirra á velgengni fyrirtækjanna verði meiri og þar af leiðandi líkur til, að afkoman verði betri.

Það er eitt, sem mér virðist að launþegasamtök og verkalýðshreyfing hér á Íslandi hafi ekki nægilega gert sér grein fyrir, en t.d. er mjög opinn skilningur á í Bandaríkjunum, hjá verkalýðssamtökum þar, og það er þessi staðreynd, sem aldrei verður fram hjá komizt, að það er að sjálfsögðu undirstaðan undir velgengni launþeganna eða verkamanna við fyrirteski, að fyrirtækinu vegni vel. Því er það, að hin sterku verkalýðssamtök Bandaríkjanna hafa beinlínis á sínum vegum bæði hagfræðilegar rannsóknarstofnanir og jafnvel rannsóknaratofur af öðru tagi til þess að kanna, með hverjum hætti sé auðið að auka arð og bæta afkomu fyrirtækjanna og leggja þannig raunhæfan grundvöll að kröfum um kjarabætur og launahækkanir, því að þessi samtök gera sér það ljóst, sem auðvitað er staðreynd, sem aldrei verður fram hjá gengið, að ef kjarabæturnar eiga að verða raunverulegar, þá verður atvinnureksturinn að geta staðið undir þeim, þ.e.a.s. það verður að vera fyrir hendi sú aðstaða, að annaðhvort verðtag vara hafi hækkað eða hægt sé að auka og bæta framleiðnina og þannig auka arð fyrirtækjanna. Þetta hygg ég að væri ákaflega æskilegt að launþegasamtök hér á landi gæfu meiri gaum, og það má vera, að sú hugmynd, sem einnig er þáttur í þessu máli, að koma á fót svokölluðum samvinnu- og samstarfsnefndum launþega og vinnuveitenda, geti eitthvað orkað í þessa átt, og er það vel. En sem sagt, þessi till., sem hér er flutt, er um það að láta athuga til hlítar, hvort hægt sé að hagnýta með góðum árangri til lausnar þessu vandamáli þetta tiltekna form, sem hér er um rætt. Það er gert ráð fyrir því, sem er auðvitað sjálfsagt til þess að fá eðlilega athugun á málinu, að haft sé samráð við bæði samtök launþega og vinnuveitenda, því að hér er gert ráð fyrir, eins og ég áðan sagði, að þetta kerfi byggist á frjálsum samtökum, en ekki þvinguðum, og án skilnings vinnuveitenda og launþega er auðvitað tilgangslaust að fara á stúfana með svona hugmyndir. Ég held engu að síður, að það væri mjög hyggilegt, því að það verður að telja, að einskis megi láta ófreistað til þess að leysa þetta stórs vandamál, — að sú athugun fari fram, sem gert er ráð fyrir í þessari till., og vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. alþm. geti á það fallizt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. til athugunar.