23.10.1962
Sameinað þing: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, fjárlög 1963

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er fjórða fjárlagafrv. núv. ríkisstj. Það fyrsta var fjárlagafrv. fyrir árið 1960. Það er því komin nokkur reynsla á fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj, og þá fjármála- og efnahagsmálastefnu, sem hún tók upp og gaf sjálf nafnið viðreisn.

Það var ekkert smáræði, sem átti að gera með hinni nýju fjármálastefnu, sem þjóðinni var boðuð á öndverðu ári 1960. Þá gerðist sá atburður hér á Alþ., sem hafði ekki áður gerzt, að fjárlfrv., sem lagt hafði verið fram, var kastað í ruslakörfuna sem gersamlega ónothæfu plaggi, en nýtt frv., fjárlfrv, viðreisnarinnar, fyrir árið 1960 lagt fram í staðinn. Það var að hefjast nýtt tímabil í sögu þjóðarinnar, sögðu þeir viðreisnarmenn. Það þurfti því nýtt frv. með nýjum tölum og nýjum fyrirheitum í stað hins gamla og úrelta.

Það átti mikið að gerast með hinni nýju viðreisnarstefnu. Mörgu var lofað. Dýrtíðarskriðan skyldi stöðvuð, ekki með neinum bráðabirgðaráðstöfunum, heldur með varanlegum ráðum. Verðgildi peninganna átti að tryggja í stað sífellt minnkandi krónu áður. Styrkjakerfið skyldi afnema og þar með afleggja það hvimleiða kerfi að greiða uppbætur og styrki til atvinnuveganna. Skattalækkun var lofað. Og síðast, en ekki sízt, var því heitið, að umtalsverður sparnaður skyldi gerður í rekstri ríkisins. Mörgu fleira var lofað við upphaf viðreisnarinnar, sem hér er ekki tími til að ræða. En það er ekki alls ófróðlegt að íhuga nokkuð þau loforð, sem hér hafa verið nefnd, og sjá, hvernig þau hafa verið efnd:

Athugum þá fyrst dýrtíðarmálin.

Nokkru áður en viðreisnarstefnan hófst, höfðu núverandi stjórnarflokkar samþykkt að taka upp nýja verðlagsvísitölu. Vísitalan var því 100 í byrjun viðreisnartímabilsins. Þann 1. okt. s.l., eftir tæplega 3 ára viðreisnarstjórn, var svo komið samkvæmt útreikningum hagstofunnar, að vísitalan fyrir vörur og þjónustu var orðin 141 stig eða hafði hækkað um 41%, eða m.ö.o.: meðaltalsverðhækkun á öllum vörum og allri þjónustu, sem vísitöluheimilið er talið þurfa, hefur orðið 41% á tæpum 3 árum. 41 vísitölustig í nýju vísitölunni jafngilda 82 stigum í þeirri vísitölu, sem áður gilti, og geta menn því með einföldum samanburði við það, sem áður var, séð, hvílík gífurleg verðhækkun hefur átt sér stað. Þær matvörur vísitölufjölskyldunnar, sem fyrir viðreisn kostuðu 23 þús. kr., kostuðu 1. okt. s.l. 32 þús. kr. Hiti og rafmagn, sem kostaði fyrir viðreisn 3900 kr., kostaði nú 5300 kr. Þannig eru verðbreytingarnar. Þannig hefur loforðið um stöðvun dýrtíðarskriðunnar orðið í framkvæmd.

Og hvað hefur orðið um verðgildi peninganna, sem viðreisnarstjórnin lofaði að tryggja? Það segir sig auðvitað sjálft, að í slíkri dýrtíðarskriðu sem hér hefur gengið yfir hefur verðgildi peninganna farið síminnkandi. Árið 1957 kostaði t, d. 820 rúmmetra íbúð 350400 kr. samkvæmt Hagtíðindum. Árið 1962 kostaði slík íbúð 521987 kr., eða hafði hækkað í verði um rúmlega 170 þús. kr. Hækkunin ein nemur hærri fjárhæð en hámarkslán húsnæðismálastjórnar, og segir það sína sögu um stuðning viðreisnarinnar við íbúðabyggjendur. Fyrir viðreisn kostaði meðalstór vetrarvertíðarfiskibátur um 3 millj. kr. Nú kostar slíkur bátur um 6 millj. kr. Þannig hefur verðgildi krónunnar breytzt. Þannig hefur þetta loforð viðreisnarinnar orðið í framkvæmd.

Hvað um uppbætur og styrki, sem áttu að afleggjast með öllu? Samkvæmt fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir uppbótarog niðurgreiðslum, sem nema 430 millj. kr., á árinu 1963. Greiðslur þessar eru uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir og niðurgreiðslur á vöruverði innanlands. En auk þessa greiðir ríkið svo um 150 millj. kr. í vátryggingariðgjöld báta- og togaraflotans. Og enn til viðbótar er svo ákveðið með lögum að greiða togaraflotanum í styrki, beint og óbeint, um 60 millj. kr. Á yfirstandandi ári munu uppbótar- og styrkjagreiðslur þessar varla vera undir 640 millj, kr. Styrkjakerfið hefur því ekki verið afnumið í framkvæmd, því fer víðs fjarri.

En hafa skattar þá ekki verið lækkaðir, eins og viðreisnarstjórnin lofaði? Nei, þeir hafa þvert á móti stórhækkað, þegar litið er á heildarskattheimtuna. Það er að vísu rétt, að einn af skattstofnum ríkisins hefur verið lækkaður. Tekjuskatturinn hefur lækkað. En aðrir skattstofnar hafa hækkað á sama tíma um miklu hærri fjárhæðir en sem nemur lækkun tekjuskattsins.

Samkvæmt nýútkomnum skýrslum Framkvæmdabankans kemur í ljós, að heildarskattheimta ríkisins var 600 millj. kr. meiri árið 1960 en árið 1958. Sé samanburður gerður á fyrsta fjárlfrv. viðreisnarinnar 1960 og því frv., sem hér liggur fyrir, kemur í ljós, að á þessum tíma hækka tollar og skattar á þjóðinni um 563 millj. kr. Og séu fjárlög yfirstandandi árs borin saman við frv, fyrir næsta ár, kemur í ljós, að hækka á tolla og skatta á þjóðinni um 354 millj. kr. frá árinu 1962 til 1963. Þannig heldur skattheimtan áfram að aukast ár frá ári. Lækkun tekjuskattsins breytir hér engu um, því að hann var alltaf lítill hluti af heildarskattheimtunni. Það, sem gerzt hefur í skattheimtumálunum, er því í fáum orðum sagt þetta:

Tekju- og eignarskatturinn, sem var um 9% af heildarskattheimtu ríkisins árið 1958, hefur verið lækkaður nokkuð, en jafnframt hafa þeir skattar og tollar, sem námu 91% af heildarskattheimtunni 1958, verið hækkaðir stórkostlega, fyrst með tveimur gengislækkunum og síðan með nýjum og hækkuðum sölusköttum.

Ég kem þá að loforðinu um sparnað í rekstri ríkisins. Heldur hefur farið lítið fyrir því loforði í framkvæmdinni. Að vísu hefur ríkisstj. gert nokkrar lagfæringar í sparnaðarátt, en skammt ná þær í samanburði við aukin útgjöld á öðrum sviðum. Þannig má nefna sem dæmi, að árið 1959 var varið til ríkisstj., til rekstrar ráðuneytanna og skyldra útgjalda 30.6 millj. kr. Á því fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, er áætlað að verja til hins sama 50.6 millj. kr., eða 20 millj. kr. hærri fjárhæð en þá var. Auðvitað stafar nokkuð af þessari hækkun af breyttu verðgildi peninga, en auk þess koma nú til ný ráðuneyti og mörg ný embætti, sem til hefur verið stofnað. Kostnaður af ferðalögum ráðherra, veizluhöldum, bilarekstri, vinnu, sem ráðherrarnir veita flokksmönnum sínum fyrir athugun og undirbúning mála, og fleira þess háttar hefur farið stórhækkandi. Um sparnað í ríkisrekstrinum, þegar á heildina er litið, hefur því ekki verið að ræða.

Þannig hafa loforð viðreisnarstefnunnar rokið út í vindinn eitt af öðru. Dýrtíðarskriðan heldur áfram að falla. Verðgildi peninganna heldur áfram að minnka. Uppbótar- og styrkjakerfið er enn í fullum blóma. Skattar og tollar fara hækkandi. Og sparnaður hefur ekki orðið í ríkisrekstrinum, heldur þvert á móti aukin eyðsla.

Auðvitað var aldrei ætlun þeirra, sem að viðreisnarstefnunni stóðu, að lækka skatta til þess að auka kaupmátt launa eða bæta kjör. Þeirra ætlan var ekki heldur sú að tryggja verðgildi peninga gagnvart eignum. Grundvallarstefnumið viðreisnarinnar var einmitt að lækka kaupmátt launa, að draga úr ásókn í framkvæmdir. Því var blátt áfram haldið fram, að þjóðin hefði lifað um efni fram, að of miklu hefði verið eytt í ýmiss konar framkvæmdir. Þessu átti að snúa við, og því hefur viðreisnarstefnan miðað að.

Tvær gengislækkanir hafa verið samþykktar á tæpum þremur árum og nýir söluskattar lagðir á. Afleiðingarnar hafa orðið vaxandi dýrtíð og minnkandi kaupmáttur launa. Þannig hafði kaupmáttur tímakaups verkamanna fallið úr 99 stigum 1959 í 83 stig sumarið 1961, þegar verkalýðssamtökin skárust í leikinn og knúðu fram nokkra kauphækkun.

Afstaða ríkisstj. til launþega hefur öll mótazt af sérstökum fjandskap. Glöggt dæmi um það er gengislækkunin, sem ákveðin var með brbl. í ágúst 1961, og brbl. og gerðardómurinn í sjómannadeilunni s.l. sumar.

Stefna viðreisnarinnar að draga úr ásókn í framkvæmdir hefur einnig verið í fullum gangi. Tvær gengislækkanir torvelduðu auðvitað mikið í þeim efnum. En auk gengislækkananna lét stjórnin samþykkja hækkun vaxta og styttingu lánstíma á stofnlánum landbúnaðar og sjávarútvegs og hækkun vaxta á íbúðabyggingarlánum. Strangar útlánareglur voru settar og sparifé bundið í Seðlabankanum. Allt var þetta gert til þess að draga úr framkvæmdum, og auðvitað hafa þessar reglur haft sín áhrif. Íbúðabyggingar hafa stórlega dregizt saman. Árið 1957 var byrjað á byggingu 1610 íbúða í landinu, en árið 1961 var aðeins byrjað á 770 íbúðum. Eftir að viðreisnarlöggjöfin gekk í gildi í febrúarmánuði 1960, tók svo að segja alveg fyrir kaup á nýjum fiskiskipum frá útlöndum. Árin 1960 og 1961 voru aðeins gerðir örfáir samningar um smíði nýrra fiskiskipa erlendis. Nýju fiskiskipin, sem komu til landsins 1960 og 1961, voru svo að segja öll smíðuð samkvæmt samningum, sem gerðir voru, áður en viðreisnarstefnan var ákveðin á Alþingi.

Því er haldið fram af stuðningsmönnum ríkisstj., að viðreisnin hafi þó ráðið úrslitum um það, að álitlegur gjaldeyrisvarasjóður hafi myndazt, sparifé aukizt verulega og atvinna sé mikil um allt land. Segja má, að þetta sé eina haldreipi þeirra, sem enn reyna að verja viðreisnarpólitík ríkisstj. En hvað er rétt í þessu máli? Hvað er það, sem raunverulega hefur verið að gerast í gjaldeyris- og sparifjármálum þjóðarinnar? Tölur þær, sem stjórnarblöðin hafa birt um gjaldeyrisforðann, eru mjög villandi. Það er ekki rétt, að raunverulegur gjaldeyrisforði sé nú 860 millj, kr. og gjaldeyrisstaðan hafi batnað um 1000 millj. í tíð núv. ríkisstj. Frá þessum tölum ber að draga 850 millj. kr. vegna vörukaupalána, sem myndazt hafa vegna innflutnings á vörum, sem komnar eru til landsins og í mörgum tilfellum búið að nota í landinu. Sú regla gilti áður, að greiða varð allar vörur, þegar þær komu til landsins, en nú er annar háttur hafður á. Þá ber einnig að taka tillit til þess, að af gjaldeyriseign bankanna nú eru 170 millj. kr. gjafafé frá Ameríku. Og síðast, en ekki sízt, ber að hafa það í huga, að gjaldeyriseignin er nú mæld í miklu verðminni krónum en áður. En eigi að síður er það rétt, að gjaldeyrisstaðan hefur batnað. Það er rétt. Og sparifjáraukning hefur einnig orðið talsvert meiri en áður. En hvað er það, sem valdið hefur breytingum? Skýringarnar eru augljósar. Í fyrsta lagi var áður, t.d. í tíð vinstri stjórnarinnar, ráðizt í gjaldeyrisdýrar framkvæmdir. Þá var t.d. nýja Sogsvirkjunin byggð. Í tíð núv. ríkisstj. hefur engin virkjun verið gerð á Íslandi. 1 tíð vínstri stjórnarinnar var sementsverksmiðjan að mestu byggð. Nú hefur engin slík verksmiðja tekið til sín gjaldeyri. Áður voru byggðar dýrar fiskvinnslustöðvar og verksmiðjur víða um land, en nú því sem næst engar slíkar stöðvar byggðar. Áður var gjaldeyrinum ráðstafað til gagnlegra framkvæmda. En nú er peningum safnað. Og í öðru lagi kemur svo það til og skiptir hér mestu máli, að nú hefur einstakt góðæri fært í þjóðarbúið nokkur hundruð millj. umfram það, sem áður þekktist. Nýtt úthaldstímabil hefur komið til sögunnar, sem er vetrarsíldveiði, og hefur það fært hundruð milljóna í þjóðarbúið. Og s.l. sumar urðu gjaldeyristekjur af síldveiðum 350 millj. kr. meiri en þær hafa mestar orðið áður á sumarsíldveiðum. Þetta eru skýringarnar á batnandi gjaldeyrisstöðu og um leið á auknu sparifé og mikilli atvinnu, því að mikil atvinna er jafnan, þegar mikill afli er í landinu.

Stefna ríkisstj. hefur verið fjandsamleg launastéttum landsins. Hún hefur einnig verið fjandsamleg aðalatvinnuvegum landsins, sjávarútvegi og landbúnaði. Sérfræðingar viðreisnarinnar hafa hvað eftir annað lýst yfir því, að þjóðin mætti ekki treysta á þessa gömlu atvinnuvegi sína, eins og gert hefur verið. Tillögur þeirra hafa í vaxandi mæli miðazt við það að byggja upp nýja atvinnuvegi, sem meir væru í samræmi við þarfir þess efnahagsheims, sem þeir hafa einblínt á að koma mundi. Því er haldið fram, að búið sé að festa of mikið fé í íslenzkum landbúnaði og svipað sé ástatt um sjávarútveginn. Sérfræðingar viðreisnarinnar slá því föstu, að framleiðsluverðmæti sjávaraflans geti ekki aukizt um meir en 4–4.5% að meðaltali á ári næstu árin og af þeim ástæðum verði að leita eftir erlendu fjármagni í stóriðju, til þess að lífskjör þjóðarinnar geti orðið viðunandi í framtíðinni. Stjórnarstefnan gagnvart sjávarútveginum hefur verið mörkuð af fádæma skilningsleysi. Í flestum löndum nýtur útflutningsframleiðslan ýmiss konar fyrirgreiðslu og hlunninda. Vextir slíkrar framleiðslu eru oft lægri en ella. Í mörgum tilfellum tryggja ríkisstjórnir útflutningsframleiðendum hagstæð lán, svo að hægt sé að selja vöruna út úr landinu með greiðslufresti. Útflutningstollar þekkjast yfirleitt ekki. Hér er þessu algerlega snúið við. Viðreisnarstjórnin hefur stórhækkað útflutningsgjöld á sjávarafurðum, þannig að nú eru þau 7.4% af öllum útfluttum sjávarafurðum. Á þessu ári munu útflutningsgjöldin nema talsvert á þriðja hundrað millj. kr. Slíkur útflutningsskattur þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Hér verður útflutningsframleiðslan að greiða 79% vexti af framleiðslulánum eða miklu hærri vexti en annars staðar þekkjast. Hér eru há innflutningsgjöld á nauðsynjum útgerðarinnar. Innflutningsgjöld af nýrri vél í meðalstóran fiskibát munu t.d. nema á milli 300 og 400 þús. kr. Beztu markaðir sjávarútvegsins erlendis hafa verið brotnir niður með rangri viðskiptastefnu, sem stjórnin hefur tekið upp. Skilningsleysi ríkisstj. á málefnum landbúnaðarins er svipað og gagnvart sjávarútveginum. Ríkisstj. neitar innlendum kornframleiðendum um jafnrétti á við erlenda. Hún hækkar sérstaklega vexti á stofnlánum landbúnaðarins og leggur aukaskatt á bændur, þegar hagur þeirra er bágbornari en hann hefur lengi verið.

Hin nýja efnahagsmálastefna stjórnarinnar hefur nú verið reynd í nærfellt 3 ár. Reynslan hefur orðið dýr. En niðurstaðan ætti að liggja ljóslega fyrir. Í launamálum og verðlagsmálum má segja, að stjórnin hefur nú misst allt úr böndunum. Stærstu verkalýðsfélögin í landinu hafa enn á ný orðið að segja upp kaupgjaldssamningum sínum vegna látlausra verðhækkana. Dagsbrún hefur nýlega sagt upp sínum samningum. Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar hefur einnig sagt upp. Hlíf í Hafnarfirði hefur sagt upp. Mörg önnur félög og þar með einnig þau verkalýðsfélög í landinu, sem ýmsir stuðningsmenn ríkisstj. veita forstöðu, hafa einnig sagt upp sínum samningum. Og opinberir starfsmenn hafa lagt fram nýjar launakröfur, sem fjmrh. segir að jafngildi 100% hækkun á gildandi kaupi þeirra. Fjmrh. hefur nýlega játað í opinberri blaðagrein, að kauphækkun til opinberra starfsmanna sé réttmæt. Hann hefur þó ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum í fjárlagafrv. vegna kauphækkana til þeirra. Óánægja launastéttanna með þróun kaupgjalds- og verðlagsmálanna er orðin meiri en hún hefur verið um langan tíma. Læknar í þjónustu ríkisins hafa hótað að ganga út úr sjúkrahúsunum um næstu mánaðamót, fái þeir ekki launabætur. Hvert mannsbarn í landinu sér nú, að stórfelldar kauphækkanir hljóta að verða á næstu mánuðum, ef ekki á til stórtíðinda að draga. Hvernig ætti líka annað að vera, eins og þróunin hefur verið í verðlagsmálum? En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir stendur ríkisstj. á bak við kröfur útgerðarmanna um það, að enn skuli lækkað kaup sjómanna á síldveiðum. S.l. sumar sömdu mörg stéttarfélög um nokkra kauphækkun og sum um allverulega hækkun. Á sama tíma þótti sjútvmrh., formanni Alþfl., ástæða vera til þess að knýja fram kauplækkun sjómanna með brbl. Hækkandi dýrtíð bitnar þó á sjómannaheimilunum í landinu engu síður en öðrum. Og nú er allur síldveiðiflotinn bundinn í höfn, af því að sjómenn vilja ekki semja yfir sig kauplækkun, þegar allir aðrir eru að fá kauphækkun.

Augljóst er, að ýmsir Alþfl: menn, sem stutt hafa ríkisstj., eru orðnir dauðhræddir við það ástand, sem er að skapast í launamálum. Þeir Benedikt Gröndal og Björgvin Guðmundsson segja opinskátt í Alþýðublaðinu, að ríkisstj. hafi gersamlega mistekizt í kaupgjaldsmálunum. Sjómannasamband Jóns Sigurðssonar og Samband ungra jafnaðarmanna mótmæla gerðardómslögunum yfir síldveiðisjómenn. Og Alþýðusamband Vestfjarða undir forustu Alþfl.manna þar mótmælir gerðardómi Emils og segir, að þróunin í efnahagsmálunum sé andstæð hagsmunum verkafólks. Jafnvel hæstv. ráðh. Gylfi Þ. Gíslason verður svo hræddur við ástandið, að hann lýsir því yfir, að gengislækkun verði ekki framkvæmd og nokkur kauphækkun til verkamanna sé eðlfleg. Þannig má segja, að allt gangi nú í sundur hjá ríkisstj. í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Kauplækkunar- og kjaraskerðingarstefna viðreisnarinnar er þannig að hrynja til grunna. Á sama hátt er þróunin að brjóta niður allar hömlur viðreisnarinnar, sem settar höfðu verið gegn eðlilegum framkvæmdum í atvinnulífi landsins.

Frá fyrstu dögum viðreisnarstefnunnar hafa sérfræðingar hennar unnið markvisst að því að sveigja íslenzkt víðskipta- og efnahagslíf inn á þær brautir, sem liggja til inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu. Krafan um lágt kaupgjald hefur beinlínis verið rökstudd með því, að það ætti að örva erlent fjármagn til þátttöku í atvinnurekstri hér. Áróðurinn um það, að hinir gömlu atvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, geti ekki lengur dugað sem aðalatvinnuvegir, þar sem vaxtarmöguleikar þeirra séu senn á þrotum, er af sama toga spunninn. Tillögurnar um erlenda stóriðju, um alúminíumiðjuver í eigu erlendra suðfyrirtækja, eru liður í þeirri áætlun að innlima Ísland í efnahagssamsteypu VesturEvrópu. Stefnan í víðskiptamálum hefur öll verið miðuð við þessa áætlun. Víðskiptin við beztu markaðslönd okkar hafa dregizt saman, en innkaupin til landsins tillitslaust verið flutt til þeirra landa, sem lítið vilja þó kaupa af okkar vörum. Samhliða þessum ráðstöfunum heldur svo ríkisstj. uppi látlausum áróðri fyrir þátttöku Íslands í Efnahagsbandalagi Evrópu. Það er því ekkert um að villast, að hverju er stefnt í þessum málum. Ríkisstj, hikar að vísu nokkuð með beinar framkvæmdir í málinu nú af ótta við almenningsálitið í landinu og almennar kosningar, sem fram eiga að fara á næsta sumri. Nú gengur hún á eftir foringjum Framsfl. og vill fá þá til samstöðu við sig um samþykkt á einhvers konar aðild að bandalaginu.

Efnahagsmálastefna ríkisstj. er að hrynja til grunna. Kjaraskerðingarstefnan fær ekki staðizt. Launþegarnir munu rétta sinn hlut. Framkvæmda- og framfarahugur þjóðarinnar verður ekki heldur stöðvaður lengur. Eftir næstu alþingiskosningar má telja fullvíst, að núv. stjórnarflokkar hafi ekki lengur meirihlutavald á Alþingi til þess að framkvæma viðreisnarstefnu sína. Og þá eiga þeir einnig að missa vald sitt til þess að samþykkja, að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið.

Stefna Alþb. hefur alltaf verið skýr og ótvíræð í þeim málum, sem viðreisnarpólitíkin raunverulega snýst um. Alþb. hefur alltaf staðið vörð um launakjör vinnandi fólks. Það neitaði kröfu Framsfl. í vinstri stjórninni 1958 um lækkun á umsömdu kaupi, en það leiddi síðan til þess, að Framsfl, sleit stjórnarsamstarfinu. Alþb. stóð eitt gegn löggjöf Sjálfstfl. og Alþfl. í janúar 1959 um beina lækkun á kaupi verkafólks og bænda. En því miður fékkst Framsfl. þá ekki til þess að stöðva það mál, sem hann þó gat. Og Alþb: menn hafa alltaf síðan viðreisnarstjórnin hóf sína kjaraskerðingarherferð haft forustu fyrir viðnámi verkalýðshreyfingarinnar og síðan sókn hennar fyrir bættum kjörum. A sama hátt hefur stefna Alþb. alltaf verið skýr og ákveðin með uppbyggingu atvinnulífsins í landinu, Í vinstri stjórninni hafði Alþb. forustu í framkvæmdamálum sjávarútvegsins og réð mestu um endurnýjun fiskiskipaflotans og útfærslu landhelginnar.

Afstaða Alþb. til hersetunnar hefur alltaf verið skýr. Það hefur ekki, eins og Framsfl. og Alþfl., ýmist samþykkt, að herinn skuli vera eða fara, heldur hefur það allan tímann krafizt þess, að herinn yrði látinn fara úr landinu. Á sama hátt hefur stefna Alþb, verið ákveðin í efnahagsbandalagsmálinu. Það hefur varað við allri aðild, jafnt aukaaðild sem fullri aðild, og brýnt fyrir öllum landsmönnum alvöru þess máls. Afstaða Framsóknar er enn óljós í þessu stórmáll. Enn segja foringjar flokksins, að þeirra afstaða sé að bíða.

Að afloknum næstu alþingiskosningum geta vinstri menn í landinu efalaust stöðvað framhald viðreisnarstefnunnar. Þeir geta stöðvað kjaraskerðingarstefnuna. Þeir geta brotið niður þá stefnu, sem lagt hefur hömlur á eðlilega atvinnuuppbyggingu. En þá verða þeir líka að stöðva allar áætlanir um beina eða óbeina innlimun Íslands í Efnahagsbandalag Evrópu. Þá verða þeir að koma í veg fyrir það, að íslenzk landhelgi lendi í höndum útlendinga. Þá verða þeir að koma í veg fyrir það, að erlendir aðilar leggi undir sig atvinnuvegi landsins. Þá verða þeir að koma í veg fyrir stórfelldan innflutning erlends vinnuafls til landsins. Og þá verða þeir að tryggja, að Íslendingar fái sjálfir að ráða málum sínum. Eina örugga leiðin fyrir vinstri menn á Íslandi til þess að tryggja það, að vel og örugglega verði haldið á þessum málum eftir næstu kosningar, er að efla Alþb. sem mest í þeim kosningum. Það er einnig leiðin til þess að tryggja vinstri afstöðu Framsfl.

Það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, segir út af fyrir sig ekki mikið. Tölur þess boða að vísu hækkandi skatta og tolla og raunverulega minnkandi verklegar framkvæmdir. Þær minna okkur á það, að við verðum að greiða fast árlegt framlag til hernaðarbandalagsins NATO, og á það, að við þurfum að halda uppi fjölmennri og kostnaðarsamri lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Tölur fjárlagafrv. segja okkur líka, að verja eigi einni millj. kr. í kostnað við almannavarnir eða til þess að forða 100 þús. Íslendingum, sem heima eiga hér í Reykjavík og nágrenni, frá lífsháska kjarnorkusprengingar, ef til ófriðar dregur. Tölur fjárlagafrv. segja auðvitað ekki nema hálfa sögu. Það, sem máli skiptir, er sú stefna, sem á bak við er, heildarstefnan í fjárhags- og efnahagsmálum, viðreisnarstefnan, sú stefna, sem hefur að markmiði að innlima Ísland í efnahagskerfi auðhringanna í Vestur-Evrópu og byggist á því að halda Íslandi í hernaðarbandalagi.

Einmitt þessa dagana erum við að fá alvarlega áminningu um það, út á hvers konar háskabraut við erum komin í sjálfstæðis- og öryggismálum þjóðarinnar. Nú hriktir í heimsfriðnum. Bandaríki Norður-Ameríku, sem hælt hafa sér af því að eiga orðið 270 herstöðvar í yfir 70 löndum utan heimalands síns og þ. á m. fyrir að hafa komið sér upp herstöðvakraga allt í kringum Sovétríkin, þykjast nú hafa grun um það, að Rússar eigi orðið herstöðvar á Kúbu, eins og þau eiga þar sjálf. Nú eru Bandaríkjamenn felmtri lostnir, vegna þess að þeir telja, að á Kúbu kunni að vera flugvélar, sem geti flutt kjarnorkusprengjur. En hér hafa þeir slíkar flugvélar svífandi yfir höfðum okkar Íslendinga, tilbúnar til þess að hefja leikinn með kjarnorkusprengjur. Í dag trúir því enginn Íslendingur, að ríkisstjórn Íslands viti nokkurn skapaðan hlut um það, hvort hér á landi eru geymd kjarnorkuvopn, né um það, hvenær þeim verður beitt. Hér gilda lög og reglur Bandaríkjamanna, þegar um hernaðarmálefni er að ræða. Það er afleiðing hersetu þeirra í okkar landi. Grunur Bandaríkjamanna um það, hvað sé að gerast á Kúbu, er þeim í dag tilefni til þess að hafa að engu alþjóðalög um frjálsar siglingar og bjóða raunverulega öðrum þjóðum til styrjaldarátaka. Það er hætt við því, að það verði stutt í fjárveitingum okkar til bjargar meiri hluta Íslendinga héðan frá herstöðvasvæðinu, héðan frá hættusvæðinu, ef illa tekst til, þó að við áætlum eina milljón króna í því skyni. Í dag hljóta því kröfur Íslendinga um breytta heildarstefnu, um breytta stefnu í hernámsmálunum og um breytta stefnu frá öllum fyrirætlunum um innlimun Íslands í Efnahagsbandalag Evrópu að aukast um allan helming. Slík stefnubreyting er lífsnauðsynleg til öryggis þjóðinni í nútíð og framtíð. — Góða nótt.