28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2827)

52. mál, launabætur af ágóða atvinnufyrirtækja

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti.: þskj. 52 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. á þá leið, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta athuga, hvort fært sé að setja löggjöf, er geri atvinnufyrirtækjum, sem rekin eru með hagnaði, skylt að verja hluta af ágóða sínum til launauppbóta handa verkamönnum, verkakonum og öðru starfsfólki, sem vinnur í þjónustu þeirra. Það er mjög fátítt í íslenzku atvinnulífi, að atvinnurekandinn greiði verkafólki sínu hluta af hagnaðinum af atvinnurekstrinum í beinar launabætur. Laun manna ákvarðast yfirleitt af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga, og fyrirtæki í sömu atvinnugrein borga almennt sömu laun án tillits til þess, hvort þau skila hagnaði eða eru rekin með tapi. Að vísu á það sér oft stað, að menn séu yfirborgaðir, en þær yfirborganir grundvallast ekki á hlutdeild í arði eða ágóða, heldur stafa þær fyrst og fremst af mikilli eftirspurn eftir vinnuafli í vissum starfsgreinum.

Þegar atvinnufyrirtæki skilar ágóða, hlýtur sú ágóðamyndun að nokkru leyti að vera að þakka þeirri vinnu, sem starfsfólk fyrirtækisins hefur látið því í té. Þess vegna er sanngjarnt, að starfsfólkið fái auk launa sinna að njóta nokkurrar hlutdeildar í ágóðanum. Þetta fyrirkomulag hefur það til síns ágætis, að það verða ekki einungis stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna, sem hafa hagsmuni af því að leggja sig fram um, að atvinnureksturinn skili hagnaði, heldur einnig verkafólkið, sem hjá fyrirtækjunum starfar. Oft er það svo, að starfsfólkið sér ýmsa annmarka í rekstri fyrirtækis, sem það lætur liggja í þagnargildi, af því að það hefur enga hagsmuni af því að bæta þar úr, og á það yrði oft litið sem óþarfa afskiptasemi. En þetta mundi breytast mjög, ef ágóðahlutdeildarfyrirkomulagið yrði tekið upp. kjölfar þess fyrirkomulags mundi sennilega fylgja réttur verkafólks til íhlutunar um stjórn og rekstur atvinnufyrirtækjanna, en það mundi að jafnaði þýða betri stjórn og betri rekstur. en það yrði öllum aðilum til góðs, verkafólki, atvinnurekendum og þjóðfélaginu í heild.

Í sambandi við þessa till. hlýtur sú spurning að rísa, hvað sé ágóði. Að vísu væri sjálfsagt heppilegast að láta þeim eftir að skilgreina ágóðahugtakið í þessu sambandi, sem fengju það hlutverk að undirbúa væntanlega löggjöf, ef till. þessi verður samþykkt. Einna nærtækast virðist mér þó að miða við skattskyldan ágóða, þótt það kunni að vera ófullnægjandi gagnvart samvinnufélögum og atvinnufyrirtækjum ríkisins og sveitarfélaga, en allir þessir aðilar hafa sérstöðu um skattaálagningu.

Mér hefur ætíð virzt, að samvinnuhreyfingunni væri of þröngur stakkur skorinn með því að einskorða samvinnureksturinn og arðgreiðslu í sambandi við hann eingöngu við verzlun og viðskipti eða framleiðslu. Samvinnustefnan hefur ekki náð inn á svið kjaramálanna. Þegar kaupfélag t.d. sýnir ágóða í árslok og greiðir arð til félagsmanna sinna, væri sanngjarnt, að einhver hluti af þeim arði rynni til starísmanna kaupfélagsins sem launabætur, en slíkt hefur aldrei átt sér stað, svo að mér sé kunnugt um. Sama mætti reyndar segja um ýmsan annan samvinnurekstur, t.d. verksmiðjurekstur.

Till. mín, sem hér er til umr., má því að vissu marki skoða..at sem tilraun til að auka gildi samvinnustefnunnar og færa hana yfir á nýtt svið, svið vinnumálanna. Eins og ég hef gert grein fyrir í þeirri grg., sem till. fylgir, er með þessari till. verið að þreifa fyrir sér um nýja leið í kjaramálum, leið til að sætta vinnu og fjármagn, leið, sem gæti dregið úr vinnustöðunum og verkfallstórnum, leið, sem gæti skapað heilbrigðan grundvöll fyrir árangursríkum kjarabótum. Sérstaklega vil ég benda á, að þær launabætur, sem fengjust með þessum hætti, leiða ekki af sér verðhækkanir og ýta því ekki undir verðbólguþróun, og á þessu sviði geta atvinnurekendur ekki heldur borið því við, að reksturinn standi ekki undir kauphækkunum.

Á síðasta þingi var samþykkt þáltill. þess efnis, að vinna skuli að því að koma á raunhæfum 8 stunda vinnudegi verkafólks. Var jafnframt kosin nefnd til að leysa þetta verkefni. Vafalaust er hlutverk þessarar nefndar erfitt, og það verður sjálfsagt ekki leyst nema beita samhliða margvíslegum ráðum. Launabætur til verkafólks að arði atvinnufyrirtækja eru eitt þeirra ráða, sem ég tel nærtækt að reyna til að komast áleiðis að því marki að koma á raunverulegum 8 stunda vinnudegi.

Menn kynnu að spyrja, hvort ekki væri eðlilegra, að hlutdeild starfsmanna í ágóða atvinnufyrirtækjanna væri komið á með frjálsum samningum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, fremur en með lagasetningu. Þessu er til að svara, að ýmsir vinnuveitendur svo og hluti að verkalýðshreyfingunni er íhaldssamur í því efni að ryðja nýjar brautir í kjaramálum. Það er því ekki líklegt, að samningar tækjust þar á milli um svo yfirgripsmikið mál, sem þarf mjög mikinn undirbúning, heldur þurfi atbeini ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins þar til að koma. Auk þess verður á það að líta, að af hálfu launþega er samningsrétturinn ekki á hendi fárra, en stórra sambanda, heldur er hann dreifður á milli hátt á annað hundrað verkalýðsfélaga. Heildarsamningar mega því heita ógerlegir, en launabótafyrirkomulaginu verður ekki komið á með því að semja út af fyrir sig við hverja starfsstétt á hverjum stað. Þetta gerir sömu niðurstöðu og áður, að málið verður að leysa á heildargrundvelli með tilstyrk ríkisvaldsins.

Mér er vel ljóst, að lagasetning um launabætur til verkafólks af ágóða atvinnufyrirtækjanna er umfangsmikið og vandasamt mál, sem krefst mikilla rannsókna og margs konar undirbúnings. í því efni geta komið fram margvísleg sjónarmið. þar sem erfitt verður að velja og hafna. Út í þá hluti ætla ég ekki að fara.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða, hvort hv. alþm. aðhyllast þá grundvallarhugmynd, að verkafólki beri auk venjulegra launa réttur til að fá greiddan hluta af þeim arði, sem atvinnufyrirtækin gefa af sér. Hér á Alþingi hefur verið borin fram á þskj. 42 till. til þál. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri Íslendinga, flutt af þremur hv. alþm. Sjálfstfl. Þessi till. gengur að nokkru í svipaða átt og till. mín um launabætur af ágóða atvinnufyrirtækjanna, þó að hin fyrrnefnda sé umfangsmeiri og óljósari. Ég lít svo á, að í þessum málum verði að taka ákveðið byrjunarskref, en það er að lögfesta launabætur handa starfsfólki atvinnufyrirtækjanna af hagnaði þeirra. Næsta skrefið sé svo að veita verkafólki rétt til að taka þátt í rekstri og stjórn fyrirtækjanna og þar með sé málið að mestu leyti komið í höfn.

Launabæturnar og íhlutunarréttinn um stjórn og rekstur eiga starfsmennirnir að hljóta einvörðungu í krafti þess, að þeir leggi fram starfsorku sína og vinnu í þágu fyrirtækjanna. Í till. sjálfstæðismanna virðist mér hins vegar mikil áherzla lögð á það að gera starfsfólkið að meðeigendum fyrirtækjanna, en því er ég andvígur. Og ég tel, að starfsfólkið eigi ekki á nokkurn hátt að vera skuldbundið til þess að verja arði sínum eða launabótum til þess að kaupa hlutabréf í viðkomandi atvinnufyrirtæki. Það má ekki skilja orð mín svo, að ég sé því yfirleitt mótfallinn, að launþegar eigi hlut í atvinnufyrirtækjum. Þvert á móti væri slíkt æskilegt og hefur þegar átt sér stað í ríkum mæti í samvinnufélögunum. En aukinn grundvöllur fyrir eignaraðild launþega að atvinnufyrirtækjunum mundi fyrst og fremst skapast að mínum dómi með stofnsetningu almenningshlutafélaga. Á launþegum að vera alveg frjálst, hvort þeir verja hluta af launum sínum og launabótum til hlutabréfakaupa eða ekki, og á þeim að vera alveg í sjálfsvald sett, hvort þeir kaupa hlutabréf í þeim atvinnufyrirtækjum, sem þeir vinna hjá, eða ekki.

Þótt þannig sé allmikill munur á minni tillögu og till. þeirra sjálfstæðismanna, tel ég samt ekki útilokað, að sú hv. nefnd, sem fær till. þessa til meðferðar, geti sameinað það bezta úr báðum þessum till. og greitt á þann hátt fyrir því, að hin mikilvægu nýmæli á sviði efnahagsmála og kjaramála, sem eru borin hér fram, hljóti góðar undirtektir og örugga afgreiðslu.

Herra forseti. Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.