23.10.1962
Sameinað þing: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1963

Eysteinn Jónsson:

Gott kvöld, góðir hlustendur. Fjmrh. minntist hér á reikningsskil ríkissjóðs. Þau eru ekkert fyrr á ferð en áður, og fékk Alþingi ekki einu sinni bráðabirgðayfirlit, áður en því sleit s.l. vor. En samþykkt ríkisreikninganna sjálfra á Alþingi hefur á hinn bóginn verið hraðað með því að knýja hana fram, þótt endurskoðun reikninganna, sem ríkisreikningurinn byggist á, væri ekki nándar nærri lokið, eins og aths. endurskoðenda sýna.

Út af því, sem Birgir Finnsson sagði hér um sparifjáreigendur, vil ég aðeins segja, að þeir hafa orðið fyrir stórfelldu tjóni af ráðstöfunum ríkisstj., og sýnir það, að háir vextir eru ekki einhlítur gróðavegur fyrir þá, því að þeir hafa aldrei orðið fyrir verri búsifjum en síðan viðreisnin kom til sögunnar.

Á árinu 1961 urðu ríkistekjur 1672 millj. og fóru 83 millj. fram úr áætlun. Ekki dugðu þó þessar tekjur, þótt þær væru 760 millj. kr. meiri en fyrir þremur árum, fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Greip ráðh. þá til þess örþrifaráðs til að forða frá halla í búskapnum í fyrra að taka eignarnámi af sjávarútveginum á síðasta ári verðhækkun útflutningsvörubirgðanna. Voru rúmlega 70 millj. af ríkisgjöldunum greiddar af þessu fé, sem eftir mikla vafninga og sjónhverfingar hlaut nafnið ríkisábyrgðasjóður að lokum, en upptekna féð nam miklu á annað hundrað millj. Þegar þessum rúmlega 70 millj. frá sjávarútveginum hafði verið bætt við þennan eina milljarð og 672 millj., hafði hallinn breytzt í greiðsluafgang upp á 57 millj. Þetta þykir afrek á heimili stjórnarinnar.

Á fjárlagafrv. því fyrir 1963, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi, eru heildarútgjöldin komin upp í 2 milljarða og 114 millj. Hafa útgjöldin á einu ári hækkað um 370 millj. u.þ.b., og síðan 1958 hafa fjárlögin hækkað um einn milljarð og 244 millj., og er þá talið með útgjöldum 1958 það, sem þá var varið utan fjárlaga til niðurgreiðslu á vöruverði, og tölurnar með því gerðar alveg sambærilegar. Þýðingarlaust er fyrir fjmrh. að reyna að rugla menn í þessu, sem hann gerir þó oft tilraun til, með því að telja útflutningsuppbætur áður með ríkisútgjöldum þá og segja, að fjárlögin hafi þannig verið tvískipt. Ef þetta væri rétt hjá ráðh., yrði að telja núna með ríkisútgjöldum alla verðhækkun á innkomnum erlendum gjaldeyri vegna tveggja gengislækkana. Sjá allir, hvílík fjarstæða það er.

En það sýnir öngþveitið, að fjárlögin hækka núna á einu ári sem svarar samanlögðum 20 ára heildarútgjöldum ríkisins fyrir stríð. Skattar og tollar samanbornir með sama hætti, niðurgreiðslur utan fjárlaga taldar með, verða þannig, að skattaálögur og tollaálögur í fjárl. eru nú 1 milljarður 785 millj., en voru 698. Hækkun skatta og tolla til ríkissjóðs á 3 árum nemur 1 milljarði og 87 millj. Þessi tveggja milljarða fjárlög eru fjárlög þeirra, sem sögðust ætla að stöðva dýrtíðina, koma á stöðugu verðlagi og stöðugu verðgildi peninga.

En hvað hefur gerzt? Gengið hefur verið lækkað tvisvar, án þess að slakað hafi verið á verðtollstöxtum nema á örfáum vörutegundum í fyrrahaust í áróðursskyni aðallega, sem jafngildir dropanum í hafið, þegar litið er á þær óhemjufúlgur, sem inn er sópað með nýjum tollahækkunum. En þetta var ekki látið nægja. Nýr innflutningstollur, söluskattur í tolli, var lagður á, nýr söluskattur innanlands á nær undantekningarlaust allar vörur og þjónustu, sem gefur margfalt á við þann, sem fyrir var og felldur var niður. Sérstök innflutningsgjöld, sem notuð voru í útflutningsbætur, voru látin standa og sópað í ríkissjóð þrátt fyrir gengisfellinguna. Hefur verið svo ósleitilega fram gengið, að óbeinar álögur, tollar og skattar hafa hækkað um 222% síðan 1958. Beinir skattar hafa verið lækkaðir, þótt lítið dragi á móti því, sem lögfest hefur verið af nýjum tollum og neyzlusköttum. En það segir sína sögu um áhrif alls þessa á afkomu manna, að samkv. Hagtíðindum hefur byrði vísitöluheimilisins í beinum sköttum einnig aukizt verulega og hækkað vísitöluna um 2.3 stig. Þetta þýðir, að beinir skattar á þær tekjur, sem vísitöluheimilið þarf núna að hafa til að geta lifað sem áður, hafa aukizt, en ekki lækkað.

Ekki er annað að sjá en ríkisstj. hafi verið haldin hreinu skattaæði, því að ofan á allar þessar álögur hefur hún beitt sér fyrir sérsköttum á einstakar stéttir. Hún lét lögleiða sérskatt á bændur, sem jafngildir 2% af persónulegum tekjum þeirra, því að bannað er að taka skattinn með í framleiðslukostnað og bændum einum með því ætlað að leggja fé til opinberra lánasjóða af starfslaunum sinum. Er þetta gert á sama tíma sem ríkisstj. státar af fjársöfnun alls staðar og greiðsluafgangi og hundrað milljóna af sparifjáraukningu þjóðarinnar er tekið úr umferð og fryst í Seðlabankanum til þess að minnka innflutninginn, segja þeir nú í sinni túlkun. Það eru þeirra innflutningshöft.

Útflutningsgjöld á sjávarafurðir voru hækkuð stórkostlega, en fyrir baráttu L.Í.Ú. og stjórnarandstæðinga fékkst það gjald til baka í bili inn í reksturinn beint með því, að ríkisstj. var knúin til að nota það til greiðslu vátryggingariðgjalda flotans.

Það er því ekki að furða, þegar á allt þetta er litið, að úr stjórnarherbúðunum heyrist stundum talað um afreksverk við lækkun skatta og tolla. Ég sagði: ekki furða, og hef þá í huga þá sorglegu tízku að snúa staðreyndunum alveg við.

Margur spyr, hvort þessar gífurlegu nýju álögur fari ekki til að stórauka verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins og auka framlög til stuðnings uppbyggingu atvinnuveganna.

En það er nú öðru nær. Ár frá ári fer hlutfallslega minna af ríkistekjunum til verklegra framkvæmda, og í mörgum dæmum hafa framlög til verklegra framkvæmda, sem mestu skipta, stórlækkað miðað við notagildi fjárins, en það eitt skiptir hér máli. Ég nefni aðeins dæmi.

Ekkert fjármagn hefur að mínu viti aukið jafnmikið framleiðsluna og þjóðartekjurnar og atvinnuaukningarféð. Fyrir viðreisnina var það komið upp í 131/2–15 millj. Þetta var stórfé þá. Hvert sjávarplássið af öðru fékk þá svo að um munaði til skipakaupa og fleiri framkvæmda af þessu fé, og margir vaskir sjómenn urðu báta- og skipeigendur vegna þess, að þetta fé kom til. Nú er ekki hægt að láta í þetta að dómi stjórnarinnar nema 10 millj. af 2 milljörðum og framlagið er að notagildi ekki yfir þriðjung á við það, sem áður var. Segja má, að eins og dýrtíðin er nú orðin óðfluga, þá sé verið að gera þessa lánastarfsemi til uppbyggingar sjávarplássunum greinilega að engu.

Ástandið í vegamálunum er orðið óþolandi. Um það ber öllum saman. Vegunum hefur ekki verið haldið við. Á stórum svæðum hafa vegirnir, sem fyrir voru, drabbazt niður í stað þess, að áður var þó fremur hægt að bæta vegina af viðhaldsfénu. Kostnaðurinn hefur hækkað svo gífurlega, að nokkuð auknar fjárveitingar í krónutölu hafa hvergi hrokkið til að halda í horfinu. 10% hækkun á viðhaldsfé, sem ráðgerð er í þessu frv., nær alls ekki einu sinni til þess að mæta hækkuðum kostnaði frá ári til árs, — hvergi nærri, hvað þá meira.

Vélakostur vegagerðarinnar er orðinn svo knappur og lélegur, að stórtjóni veldur, og sums staðar svo komið, að vegavinna fæst ekki unnin vegna tækjaskorts fyrr en seint á haustinu, þegar allra veðra er von, og veldur stórtjóni. Ráðh. hélt svo áðan snotran ræðustúf um tækjaskortinn. En þar við situr líka, því að ekki er aukið fé til tækjakaupanna, ekki hægt að fá það af hinum tveimur milljörðum. Fé til nýlagningar er svo skorið við nögl miðað við aukinn kostnað, að víða fer minnkandi það, sem hægt er að framkvæma. Í örvæntingu reyna menn að sporna gegn þessari öfugþróun með því að taka lán með okurvöxtum á kostnað byggðarlaganna sjálfra, og sums staðar er farið að taka slík lán, sem nema margra ára framlögum í viðkomandi vegi. En ekki verður komizt langt til lengdar með því að éta þannig út vegaféð fyrir fram.

Það segir meira en mörg orð, að í þessu fjárlagafrv., sem er yfir 2 milljarða og hækkar um 378 millj, á einu ári, ætlar ríkisstj. ekki einni krónu meira í nýja vegi en á gildandi fjárlögum, ekki heldur til brúa, og það sem meira er, það er jafnhá fjárhæð til brúargerða á fjárl. núna og notuð var til brúargerða af ríkissjóðsfé 1958.

Framsfl. hefur tekið upp baráttu á Alþingi fyrir því að rífa vega- og brúargerðamálin út úr þeirri sjálfheldu, sem þau eru nú í komin, með því að táta samgöngubætur á landi, vegi og brýr, njóta tekna af umferðinni. Sú barátta varð til þess, að nefnd var sett í málið og stjórnin hefur eitthvað rumskað, enda veit hún, hvað fram undan er næsta vor. Ekki fékkst þó mþn., eins og sjálfsagt hefði verið um annað eins mál og samgöngur á landi, og er þar á ferð sú nýstárlega stefna stjórnarinnar að loka fulltrúa stjórnarandstöðunnar vendilega úti frá endurskoðun allra mála í nefndum. En barátta Framsfl. fyrir endurbótum í þessum málum mun halda áfram og vafalaust bera árangur.

Ég nefni atvinnuaukningarféð og vega- og brúamálin sem dæmi um, hvert stefnir. En það mætti nefna mörg dæmi. T.d. er lægri fjárhæð veitt til nýrra framkvæmda í raforkumálum á þessu 2 milljarða frv. en veitt var 1957–58.

Þótt ríkisútgjöldin vaxi um hundruð milljóna á hverju ári, segist hæstv. fjmrh. alltaf vera að gera ráðstafanir til að lækka ríkisútgjöldin með hagsýslu og aukinni ráðdeild. Það er kannske ekkert skrýtið, þótt ráðh. verði tíðrætt um þetta, þegar þess er gætt, að mönnum telst svo til, að ráðh. og meiri hl. hans í fjvn. hafi gefið út 59 sparnaðarheit eða sparnaðaráform samtals. Ráðh. er því skiljanlega nokkuð í mun, að svo líti út sem eitthvað af þessu verði efnt. Gyllir ráðh. talsvert einstakar ráðstafanir til breytingar á ríkisrekstrinum, sem hann hefur beitt sér fyrir. Út af þessu vil ég segja örfá orð.

Ráðh. fullyrðir, að æðimikill sparnaður verði fyrir ríkissjóð af því að fela nýrri stofnun innheimtu ríkisskattanna, og nefnir tölur í því sambandi. Ég fullyrði, að engin reynsla er komin á það, hvað hin nýja stofnun kostar ríkissjóð, og því engar tölur hægt að nefna í því sambandi.

Ráðh. gaf á sinum tíma fyrirheit um mikinn sparnað á kostnaði við álagningu beinna skatta með því að leggja niður margar skattanefndir. Nú er ráðh. að koma á þessu nýja kerfi, þótt hann minntist raunar ekkert á það áðan, og enginn, sem til þekkir, dregur í efa, að þetta nýja kerfi stórhækkar þennan kostnað, þegar það er komið í fulla framkvæmd. Það er kominn ríkisskattstjóri, skattstjórar í hverju kjördæmi, sem í reyndinni eiga að vera yfirskattstjórar, og undirskattstjórar í hverjum kaupstað og hverju kauptúni, sem heita umboðsmenn skattstjóra og munu fá skrifstofur og aðstoðarfólk, og svo verða umboðsmenn í öllum sveitum líka, sem taka við störfum af skattanefndunum. Úr þessu verður feiknalegt skrifstofubákn og stóraukinn kostnaður, áður en varir. En fyrirkomulagsbreytingar þessar hefur ráðh. svo notað til að hrekja úrvalsmenn úr störfum með ruddalegum hætti til að setja óvana menn í staðinn í ýmsum dæmum.

Hagsýslu- og ráðdeildartal hæstv. ráðh. gefur mér tilefni til að minnast á nokkur sýnishorn í því sambandi, sem ráðh. hefur ekki séð ástæðu til að nefna. Ráðh. hefur mikið talað um að fækka nefndum og spara með því. En 1960 brá svo við. að nefndir á 19. gr. voru taldar helmingi fleiri en 1958 og höfðu kostað tvöfalt. Nú hefur ráðh, aftur á móti fundið ráðið, sem dugir til að fækka nefndum á 19. gr. Þær eru komnar niður í 20 allt í einu. En sé nánar að gáð, er maðkur í mysunni og hér á ferðinni sparnaðarráðstafanir mjög einkennandi fyrir hæstv. ráðh. Nefndir heita ekki nefndir lengur nema fáar útvaldar. Margar slíkar, sem í fyrra báru nefndarnafn með réttu, heita nú kostnaður við athugun á skipun mála og kostnaður við undirbúning á þessu eða hinu. Nefndanöfnin eru horfin, en ekki nefndirnar, og nýjar nefndir hafa fæðzt, en þær eru ekki nefndar þeim nöfnum á reikningunum. Þetta er orðið eins og þegar ekki mátti nefna búrhval á sjó. Það er kannske hægt að komast eitthvað með svona sjónhverfingum, en þetta vekur ekki traust.

Og hver er svo útkoman?

Kostnaður við nefndir og athuganir á 19. gr. varð í fyrra nærfellt 1 millj, hærri en 1958. Kostnaður við undirbúning laga og reglugerða hefur þar að auki hækkað úr 318 þús. í 661 þús., ýmis kostnaður úr 135 í 581 þús., ferðakostnaður erlendis úr 41 þús. í 756 þús., kostnaður við hagsýslu ráðh. er dreifður víða, en 5 liðir á 19. gr. nema 730 þús. Annar kostnaður stjórnarráðsins hefur hækkað úr 2.3 millj. í 3.5 og liðurinn aðrir starfsmenn allmikið. Þetta er allt miðað við 1958 annars vegar. Ótal fleiri dæmi mætti nefna. Alþm. var fjölgað um 8, tveimur bankastjórum bætt við, fjórum mönnum í bankaráð ríkisbankanna, tveimur í sementsverksmiðjustjórnina, tveimur í síldarútvegsnefndina, saksóknarembætti stofnað með nýju starfsliði, efnahagsmálaráðuneyti, sem nú er orðið að nýrri stofnun, efnahagsstofnuninni. Þetta eru aðeins örfá dæmi. En það eru engin stóryrði, þótt sagt sé, að ráðdeildin sé með minnsta móti og standi í öfugu hlutfalli við yfirlýsingar hæstv. ráðh. Menn beri þetta svo saman við verklegu framkvæmdirnar.

Það vekur sérstaka athygli, að ekki er minnzt á Keflavíkurveginn í fjárlagafrv. En þennan veg er verið að leggja fyrir ríkisfé, og tekið hefur verið ríkislán til hans, án þess að lánsheimildar hafi verið leitað frá Alþingi, eins og skylt er að gera samkv. stjórnarskránni. Vegurinn er sem sagt lagður án fjárveitingar og án lánsheimildar, og hvorugur liður er í þessu fjárlagafrv. og ekki einu sinni fjárveiting í frv. til að standa undir því ríkisláni, sem þegar hefur verið tekið til vegarins. Hvað á þetta að þýða? spyrja menn hv er annan hér á Alþingi. Ekki getur ríkisstj. gert þetta af ótta við andstöðu við Keflavíkurveginn, því að til hennar spyrst ekki hér á Alþingi. Hvers vegna er þá traðkað á þingræði og lög brotin til að ganga fram hjá Alþingi í þessu máli? Það er ekki til nema ein skýring á þessu. Ríkisstj. hefur verið önnum kafin við að koma fyrir kattarnef á Alþingi ýmsum till. þm. um að fá lánsfé í vegi, t.d. austanlands og vestan, Siglufjarðarjarðgöngin, svo að dæmi séu nefnd. Öllu slíku hefur verið synjað, og út af því sýnist samvizkan svo slæm, að gripið er til þess að taka lán í Keflavíkurveginn heimildarlaust í kyrrþey og fara á bak við Alþingi með málið af ótta við, að ríkisstj. ráði ekki við að láta fella sem fyrr lántökur í aðra vegi, ef lántakan í Keflavíkurveginn fær þinglega meðferð. Svona er framkvæmd þingræðisins í höndum núv. ríkisstj. Svona eru málin dregin úr höndum Alþingis, til þess að þrýstingurinn frá þm. vegna framfaramálanna verði stjórnarherrunum ekki of þungur í skauti. En hvað segja menn um þvílík vinnubrögð, hvar í flokki sem þeir standa?

Þetta fjárlfrv. ráðgerir rúmlega tveggja milljarða útgjöld og tekjur á næsta ári. En ekki er það öll sagan, og er sannarlega dökkt í álinn fram undan. Nú er svo komið, að ekki einu sinni þessir rúmlega 2 milljarðar hrökkva til, að hægt sé að áætla grænan eyri fyrir stórfelldum kauphækkunum opinberra starfsmanna, sem koma til á miðju næsta ári, því að launakerfi opinberra starfsmanna er algerlega brostið, eins og allir vita. Ekki hrökkva þessir 2 milljarðar heldur til að halda í horfinu með verklegar framkvæmdir, og gera verður í vaxandi mæli ár frá ári ráð fyrir lántökum til skólabygginga ríkisins t.d. og nú til lögreglustöðvar og annarra hliðstæðra framkvæmda, sem engar tekjur gefa til að standa undir lánunum. Er það táknrænt, að slíkar byggingar hafa yfirleitt áður verið greiddar af ríkistekjunum, en ekki velt á framtíðina til viðbótar þeim verkefnum, sem þá þarf að leysa. Þetta eru ömurlegar staðreyndir og vottur þess, hvernig stjórnarstefnan hefur leikið ríkisbúskapinn og í hvílíka sjálfheldu þar er komið, að svona skuli horfa um framkvæmdir ríkisins þrátt fyrir tveggja milljarða kr. álögur. Það gefur auga leið um þetta, að heildarfjárveitingar til samgöngumála og atvinnumála t.d. þyrftu að hækka um 180 millj., til þess að þau mái fengju jafnmikið af ríkistekjunum og til þeirra fór 1958, — samgöngumál og framlög til atvinnumála.

Ríkisstj. hefur sagt upp á síðkastið, að allra meina bót mundi verða af svokallaðri 5 ára framkvæmdaáætlun, sem ætti að koma út í vetur, en upphaflega raunar í fyrravetur. Með henni ættu að koma síauknar framkvæmdir, stórfelldar framkvæmdir og framfarir á öllum sviðum. Skilst manni, að hún ætti að byrja að koma til framkvæmda á næsta ári, þ.e.a.s. árið, sem þessi fjárlög eiga að gilda fyrir. Mörgum brá undarlega við, þegar þeir sáu þetta fjárlfrv. og minntust þess, sem tilkynnt hefur verið um þessa framkvæmdaáætlun. Menn höfðu búizt við, að í fjárlagafrv, væru ákvæði um framlög ríkisbúskaparins til þeirrar stórsóknar í framkvæmdum, sem boðuð hafði verið og sett yrði í framkvæmdaáætlunina. En það vottar ekki fyrir slíku. Þvert á móti, það sígur enn á ógæfuhlið með þátttöku ríkissjóðs í lífsnauðsynlegri uppbyggingu og framkvæmdum. Hvernig samrýmist þetta hinni nýju framkvæmdaáætlun? Ráðh. minntist ekki á þetta mál einu einasta orði. Er kannske ætlunin að umsteypa fjárlfrv. í vetur til samræmis við framkvæmdaáætlunina nýju? Æskilegt væri að heyra grg. hæstv. fjmrh. strax í kvöld um þetta og svar hans við þessu. Eða á þessi nýja framkvæmdaáætlun bara að verða ný blá bók?

Það er ekki hægt að ræða fjárlögin eða ríkisbúskapinn án þess að skoða samhengið við þjóðarbúskapinn og efnahagsmálastefnuna. Þetta fjárlagafrv. mótast af efnahagsmálastefnu stjórnarinnar. Í byrjun árs 1960 hófst þingmeirihlutinn handa, og markmiðið var jafnvægi í efnahagsmálunum. Því átti að ná með gengislækkun, álagningu nýrra tolla og söluskatta, en jafnhliða skyldi kaup og afurðaverð standa óbreytt. Samtímis voru svo gerðar ráðstafanir til þess að draga úr peningaumferð með því að loka inni hluta af sparifénu og minnka lán út á afurðir og með öllu móti gera sem torveldast að ná í peninga til fjárfestingar. Með þessu átti að leiðum samdráttar og kjaraskerðingar að tryggja jafnvægi og stöðugt verðlag.

Framsóknarmenn bentu á það strax, að af þessum ráðstöfunum leiddi svo gífurlegan vöxt dýrtíðarinnar, að þær fengju með engu móti staðizt. Hlytu þær að verða upphaf að óstöðvandi dýrtíðarflóði og ölduróti í efnahagslífi landsins, sem enginn sæi fyrir endann á. Var bent á, að verðhækkunaráhrif þessara ráðstafana námu sýnilega ríflega einum milljarði í fyrstu umferð og það í þjóðarbúi, þar sem þjóðartekjur voru þá ekki taldar nema 51/2–6 milljarðar. En á þetta var ekki hlustað. En hvað hefur svo gerzt og hvernig er ástatt? Efnahagsráðstafanir ríkisstj. áttu m.a. og ekki sízt að minnka eftirspurn eftir vinnuafli, til þess að hægara væri að halda niðri kaupinu og láta menn taka á sig kjaraskerðinguna. Þessi liður í samdráttarplaninu mistókst að vísu, og þar með brast stór hlekkur í kerfinu. Atvinna minnkaði fyrst, en hefur verið mikil upp á síðkastið þrátt fyrir margvíslegar samdráttarráðstafanir ríkisstj. Það liggur því fyrir, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að draga svo úr eftirspurn eftir vinnu, eins og það heitir á því fagmáli, sem þar er notað, sem hún vildi og lagði grundvöll að, enda þótt margar þýðingarmestu framkvæmdir hafi dregizt stórlega saman.

En hér kemur til sú óhemju framleiðsluaukning og atvinnu, sem leitt hefur af útfærslu landhelginnar og þeirri stórfelldu uppbyggingu, sem búið var að koma í framkvæmd, áður en breytt var um stefnu. Skoðum, á hverju hin mikla atvinnu- og framleiðsluaukning byggist. Á útfærslu landhelginnar, sem búið var að gera, — Ísland er eins og annað land, síðan landhelgin var færð út, — á stórkostlegri uppbyggingu í sjávarplássunum, sem búið var að gera ráðstafanir til fyrir þáttaskilin, en síðan ekki haldið í horfinu, á stórfelldri uppbyggingu í landbúnaði, sem búið var að framkvæma, en nú hefur verið lömuð, á nýrri tækni í síldveiðum, sem því aðeins var hægt að notfæra sér, að búið var að afla til landsins hinna glæsilegu fiskiskipa og byggja verksmiðjur, sem taldar voru vottur um pólitíska spillingu, á aukningu iðnaðar í mörgum greinum, þ. á m. nýrri áburðarverksmiðju og nýrri sementsverksmiðju, og á nýjum raforkuaflstöðvum, sem búið var að koma upp, en engar hliðstæðar framkvæmdir gerðar síðan. Það eru þessar framkvæmdir og fleiri slíkar, sem núv. valdhafar í áróðri sínum hafa kallað halla á viðskiptunum við útlönd, það eru þær, sem hafa forðað frá þeim atvinnusamdrætti, sem talinn var og talinn er nauðsynlegur liður í hinu nýja hagkerfi.

En ýmsar ráðstafanir ríkisstj. hafa á hinn bóginn valdið rekstrarfjárskorti og stórfelldum rekstrarstöðvunum og dregið úr framleiðslunni með margvíslegum hætti. Ríkisstj. horfði á það afskiptalaust, að togaraflotinn lá mánuðum saman. Ríkisstj. bannaði að semja við járnsmiðina í vor, þótt sýnilegt væri, að það hlyti að valda stórtjóni í sambandi við síldveiðarnar, svo sem sannarlega varð, og hlaut svo að láta semja um meiri hækkun en hún stöðvaði. Ríkisstj. hefur verið tómlát í framkvæmdum til að bæta móttökuskilyrði síldarinnar og þannig valdið stórtjóni. Og ríkisstj. hefur vanrækt að leysa síldveiðideiluna núna, sem unnt er að leysa með auðveldu móti og nægilegir fjármunir eru til þess að leysa án nokkurra nýrra álaga og án þess að brjóta nokkurt prinsip, sbr. það stórkostlega uppbótakerfi, sem nú er haft í gangi. Og ríkisstj. vanrækir þetta, sem hún gæti gert, ef vilji væri til þess. Ekki einu sinni síldarleitinni er forsvaranlega haldið uppi og borið við peningaskorti. Til þess finnst ekki fé af þeim 2 milljörðum, sem innheimtir eru af þjóðinni, eða þeim greiðsluafgangi, sem hæstv. fjmrh. boðaði.

Tvö afbragðs síldarsumur hafa nú komið í röð og þar að auki moksíldveiði allan fyrravetur fyrir Suðvesturlandi. Í sumar veiddust tíu sinnum fleiri mál og tunnur síldar en að meðaltali árin 1949–1958 og fjórum sinnum fleiri en árin 1950—1958 — og vetrarsíldin þar að auki. Ríkisstj. lætur svo guma af því, að eitthvað betri staða sé á gjaldeyrisreikningum bankanna en þau árin, sem nálega engin síldveiði var. Ég held satt að segja, að engum þyki það stórfréttir, þótt svo væri við slík skilyrði.

Við skulum vona, að svona uppgripagóðæri við sjóinn skilji eitthvað eftir. En eitt er víst, að verði svo, þá er það þrátt fyrir það, en ekki vegna þess, sem núv. þingmeirihluti hefur aðhafzt.

Meginmarkmiðið átti að vera að koma á jafnvægi í efnahagsmálum, stöðugu verðlagi og verðgildi peninga. Lítum nú aðeins betur á, hvernig þetta hefur heppnazt. Við erum búin að skoða, hvernig þessi stefna hefur leikið ríkisbúskapinn. Það sést á þessu fjárlfrv. En lítum á aðra þætti. Það hefur farið eins og fyrirsjáanlegt var og sagt var í byrjun: ráðstafanir ríkisstj. til að magna dýrtíðina með gengislækkunum, tollaálögum, vaxtahækkunum og öðrum ráðstöfunum hafa reist í landinu óviðráðanlegar dýrtíðaröldur og orsakað algera upplausn í verðlags- og kaupgjaldsmálum.

Sumarið 1961 fékk ríkisstj. upp í hendurnar tækifæri til að fikra sig inn á heppilegri leiðir, þegar verkalýðsfélögin og samvinnufélögin höfðu forustu um svo hóflegar breytingar á kaupgjaldi, að auðvelt var fyrir þjóðarbúið og atvinnureksturinn að þola þær. En ríkisstj. sló á útréttar hendur þessara almannasamtaka og eyðilagði þetta starf með því að framkvæma nýja gengislækkun ofan á allt, sem komið var, en þjóðin stóð agndofa af undrun. Með þessu ætlaði stjórnin að beygja menn og sýna, að hún yrði að ráða. En afleiðing þessa ofan á allt, sem komið var, hefur orðið ný stórfelld verðhækkunaralda, sem enn er þó alls ekki risin í fulla hæð. Bera öll afskipti ríkisstj. ljósan vott um þá ringulreið, sem orðin er. En meginhugsunin núna virðist vera orðin sú að fljóta einhvern veginn fram yfir kosningar í vor, en ná sér niðri á eftir, ef þingfylgi lofar, reisa þá viðreisnina við með enn öflugri ráðstöfunum í þá átt, sem menn nú hafa fengið smjörþefinn af. En það mun ekki takast.

Nokkur dæmi væri viðeigandi að nefna um ástandið, sem skýra frá, hvernig viðreisnin hefur heppnazt, eins og það er orðað í stjórnarblöðunum, hvers konar jafnvægi það er, sem hefur myndazt. Vísitalan fyrir vörur og þjónustu hefur hækkað um 41 stig. 330 rúmmetra íbúð er nú skv. Hagtíðindunum talin kosta um 540 þús. kr. og hækkar þó ört, hefur hækkað síðan 1958 um 160 þús. kr., eða sem svarar því, sem á að fást að láni á næstunni úr íbúðalánakerfinu. Þegar háu vextirnir eru teknir með í dæmið, kostar ekki undir 50 þús. á ári að búa í svona íbúð. Skv. Hagtíðindunum þurfti vísitölufjölskyldan, miðað við 1. okt., 68 þús. kr. til þess að greiða nauðsynjar sínar. Þetta þýðir, að sú fjölskylda þarf yfir 100 þús. kr. í tekjur til að standast, ef hún býr í nýrri íbúð. Það sjá svo allir, hvernig þetta kemur heim við launakerfið og tekjur bænda og hvers konar jafnvægi hér hefur verið náð.

Ég tók dæmi um íbúðir og framfærslukostnað, en ekki tekur betra við, ef litið er á fjárfestingarkostnað í landbúnaði og þær tekjur, sem núverandi afurðaverð getur gefið, eða kostnað við að eignast skip og báta, ef menn eiga ekki slík tæki fyrir. Bezt sést, hvers konar jafnvægi það er, sem myndazt hefur í þjóðarbúskapnum, þegar borin er saman aðstaða unga fólksins í landinu annars vegar, sem nú þarf að koma sér upp húsnæði eða framleiðslutækjum, og hins vegar aðstaða hinna, sem búnir voru að koma sér fyrir, áður en núverandi stefna ríkisstj. kom til framkvæmda. Það dylst engum, að þetta fær alls ekki staðizt, og breytir engu, þó að ríkisstj. þykist ánægð með þetta. Það geta ekki allir lifað á því að hafa komið undir sig fótum fyrir 1960, að yfir skall fyrir alvöru. Unga fólkið þarf líka að lifa og hafa tekjur til að standa undir lífsnauðsynlegri fjárfestingu með nýja viðreisnarverðinu, bæði íbúðum og fjárfestingu í atvinnurekstri til lands og sjávar.

Fram undan eru því nýjar hækkunaröldur. Það er eins víst og dagur fylgir nótt. Í þessari sjálfheldu standa málin ekki stundinni lengur. Spurningin er á hinn bóginn sú, hvernig eigi að mæta afleiðingum þess ósamræmis og öngþveitis, sem á er skollið. Það ríður mest á því að taka upp kröftuga uppbyggingar- og framleiðslustefnu, mæta hækkunaröldunni, draga úr dýrtíðarflóðinu með aukinni framleiðslu og framleiðni og taka hiklaust til hjálpar alla hugsanlega nýjustu tækni, vélvæðingu og beztu aðferðir til að auka tekjurnar. Er því þýðingarmest af öllu að leysa úr læðingi einstaklings- og félagsframtak hinna mörgu, sem stjórnarstefnan hefur lamað. Til þess þarf að breyta um stefnu. Ég nefni í því sambandi: Taka upp nýja lánapólitík. Allt fjárfestingarlánakerfið verður að endurskoða frá rótum, miðað við hið nýja verðlag í landinu, því að hér hefur orðið bylting í þeim efnum. Auka lánveitingar til fjárfestingarframkvæmda og þá ekki sízt til aukinnar vélvæðingar og meiri framleiðni á sem flestum sviðum. Hafa sparifé í umferð og hætta að frysta hluta af aukningu þess í Seðlabankanum, lána það, sem myndast í landinu, dugmiklu athafnafólki í atvinnurekstur til að auka afköst og afrakstur. Fáist þetta ekki fram, verður að auka því meir erlendar lántökur í þessu skyni, en erlendar lántökur til arðgæfra framkvæmda hljóta alltaf að verða einn liður í þeirri stefnu til aukinnar framleiðslu og framleiðni, sem fylgja þarf. Lækka þyrfti vextina, sem hafa stóraukið dýrtíðina og hvíla eins og mara á atvinnurekstrinum. Auka fjárframlög til útlána í sjávarpláss landsins til atvinnuuppbyggingar. Endurskoða alla löggjöf varðandi stuðning við uppbyggingu í landbúnaði og auka hana á ný. Beina fjármagni til þeirra framkvæmda í iðnaði, sem mestra afkasta er af að vænta að vel athuguðu máli, og gleyma ekki í því sambandi úrvinnslu eigin hráefna, svo sem móttöku og vinnslu síldar og vinnslu úr hráefnum landbúnaðarins. Virkja vatns- og hitaorkuna. Auka mjög lánveitingar til íbúðabygginga, til þess að almenningi verði aftur kleift að eignast þak yfir höfuð sér, en húsnæðismálin eru nú orðin að stórfelldu vandamáli í mörgum byggðarlögum. Koma raforkunni út um landið. Hér eru aðeins fáir, stórir drættir nefndir og bent í áttina. Menn verða að gera sér ljóst, að efnahagskerfinu hefur verið umturnað þannig undanfarin 3 ár, að endurskoða verður þessa meginþætti og aðra fleiri, ef hér á að geta orðið sú framleiðsluaukning á vegum almennings í landinu, sem lífsnauðsynleg er, og einnig ef koma á í veg fyrir, að ýmsir meginþættir íslenzks atvinnu- og efnahagslífs lendi í höndum þeirra einna, sem hafa fullar hendur fjár, og það jafnvel útlendinga.

Stuðningur ríkisvaldsins við framtak dugmikils vinnandi fólks og félagsskapar þess hefur verið aðalsmerki íslenzks þjóðarbúskapar og eitt af séreinkennum hans, þangað til núverandi þingmeirihluti tók sér fyrir hendur að breyta þjóðarbúskapnum í grundvallaratriðum og stefna að auknum yfirráðum þeirra fjársterkustu. En íslenzka efnahagsmálastefnu ber að miða við íslenzka staðhætti, en alls ekki við innlimun í efnahagskerfi annarra þjóða, t.d. í Efnahagsbandalagi Evrópu, sem á ekki að koma til mála.

Það liggur nú hverjum manni í augum uppi, að mistekizt hefur alveg að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum með þeim aðferðum, sem ríkisstj. valdi. Þess í stað hafa komið upp geigvænleg vandamál, sem mörgum hrýs hugur við, enda efnahagskerfið holgrafið orðið og óðaverðbólga í landinu. Örðugt verður við þetta að fást og ekki úr leyst í einu vetfangi, það er bezt að gera sér ljóst. En þeim mun fremur verða þessi vandkvæði yfirunnin, sem fyrr verður hægt að beita nýjum aðferðum. Góða nótt.