19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

228. mál, hafnarskilyrði í Kelduhverfi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Með því að hv. 1. flm. óskaði ekki eftir, að þessari till. yrði vísað til n., þykir mér rétt að upplýsa í sambandi við rannsókn á hafnarmálum, að við þm. Vestf. óskuðum eftir að fá rannsakað hafnarstæði á Barðaströnd nýlega og fengum þær upplýsingar frá vitamálastjóra, að það mundi kosta svo að hundruðum þús. kr. skipti að rannsaka hafnarstæðið. Nú hefur ekkert komið fram í sambandi við þetta mál, hvort hér er um að ræða svo gífurlegan kostnað við rannsóknina eina. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að málinu sé vísað til hv. fjvn., nema því aðeins að hv. flm. geti gefið upplýsingar um það, að hér sé um mjög lítið fjárhagslegt atriði að ræða. En mér þótti rétt að láta þetta koma fram, svo að mönnum sé kunnugt um, að það getur kostað allmikið fé að rannsaka slíkt hafnarstæði sem hér er farið fram á.