24.10.1962
Sameinað þing: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

10. mál, jarðhitarannsóknir og leit í Borgarfjarðarhéraði

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 10 höfum við þm. Vesturl. flutt till. til þál. um jarðhitarannsóknir og jarðhitaleit í Borgarfjarðarhéraði. Till. þessi gerir ráð fyrir því, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um, að á vegum jarðhitasjóðs verði gerð rannsókn á jarðhitasvæðum Borgarfjarðarhéraðs og víðtæk jarðhitaleit í héraðinu. Leitin verði m.a. við það miðuð að leita eftir möguleikum fyrir hitaveitu fyrir Borgarnes. Ég vil nú með örfáum orðum gera grein fyrir þessari tillögu.

Efni þessarar till. er tvíþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að rannsökuð séu þau hitaveitusvæði í héraðinu, sem þekkt eru. Í öðru lagi á að leita eftir nýjum svæðum. Í lögum frá 1961 um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins er gert ráð fyrir því í 2. gr. þeirra laga. að fé sjóðsins megi m.a. nota til þess að rannsaka eðli og uppruna jarðhita, að leita að jarðhita og gera tilraunir með vinnslu jarðhitans. Till. okkar er því í fyllsta samræmi við þau lög, er um jarðhitasjóð gilda.

Þessu næst vil ég gera grein fyrir því, hver er ástæðan fyrir því, að við leggjum til, að Borgarfjarðarhérað sé hér sérstaklega valið. Ástæðan er í fyrsta lagi sú, að í Borgarfirði er eitt mesta vatnshvera- og laugasvæði á landinu. Þetta svæði hefur lítils háttar verið rannsakað, en þó það lítið, að ekki er vitað um, hversu mikið rennsli heita vatnsins er í jörð niðri. En þær litlu rannsóknir, sem gerðar hafa verið á þessu jarðhitasvæði, benda þó til, að um jákvæðan árangur mundi verða að ræða, ef rannsakað yrði.

Ef að því ráði yrði horfið að fara að rannsaka jarðhitasvæði í Borgarfjarðarhéraði, mundi að sjáifsögðu vera horfið fyrst að því að rannsaka þau, sem þekkt eru. Eru það jarðhitasvæðin í Reykholtsdal og Bæjarsveit, sem eru mestu jarðhitasvæðin í héraðinu. Rannsókninni mundi í sjálfu sér verða hagað á þann veg, að í fyrsta lagi yrði um jarðfræðirannsókn að ræða. í öðru lagi mundu verða jarðeðlisfræðilegar mælingar og athuganir gerðar. Og í þriðja lagi mundi svo verða borað á þeim svæðum, þar sem jarðhiti er ekki finnanlegur enn þá. Við framkvæmdir á jarðborun yrði að sjálfsögðu höfð til hliðsjónar sú reynsla, sem fengizt hefur af hinum tveim fyrri athugunum. Og í öðru lagi mundi svo verða höfð hliðsjón af því, hvar bezt yrði að hagnýta þann jarðhita, er fyndist. Er gert ráð fyrir því, að þessi athugun verði mjög víðtæk. Á það er bent í grg. tíu., að ætla megi, að e.t.v. sé samband á milli jarðhitasvæðanna á sunnanverðu Snæfellsnesi og þeirra, sem í Borgarfirði er að finna. Í því sambandi vil ég benda á það, að í Akraós á Mýrum má finna í fjörunni um 60 gráðu heitt vatn. Þess vegna leggjum við á það áherzlu, flm., að þessi rannsókn og þessi leit, sem þarna á að gera, sé gerð mjög víðtæk, svo að þetta svæði allt að Snæfellsnesfjaligarði verði rannsakað í þessu tilliti.

Ég þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, hver er tilgangur með þessari till. okkar. En á það má benda, að í fyrsta lagi er leitað hér eftir því, hversu mikil auðæfi eru þarna í jörðu. Verkefnin munu ekki láta á sér standa, ef þessi rannsókn verður gerð og auðæfin verða gerð finnanleg og leysanleg. Í því sambandi höfum við bent á það, að mikil þörf væri fyrir að fá hitaveitu fyrir Borgarnes, sem nú er ört vaxandi kauptún, og miklar vonir standa til, að e.t.v. finnist hitaveitusvæði svo nálægt kauptúninu, að það mætti virkja þau til hitaveitu fyrir staðinn.

Allt þetta yrði að hafa hugfast, þegar leitað væri eftir því, sem till. gerir ráð fyrir.

Hér er á ferðinni mikið mál, ekki eingöngu fyrir það hérað, sem leitin á að fara fram í og rannsóknin, heldur einnig fyrir þjóðina alla. Við væntum þess, flm., að hv. þm. sýni þessu máli fyllsta skilning og það nái fram að ganga hér á hv. Alþingi að þessu sinni.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu visað til hv. fjvn.