17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

12. mál, innlend kornframleiðsla

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Enn að nýju höfum við hv. 2. þm. Austf. og hv. 4. og 2. þm. Sunnl. leyft okkur að flytja hér till. á þskj. 12 varðandi aðstöðujöfnun innlendrar kornframleiðslu við innflutning korns frá útiöndum. Till. er þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að greiða verðbætur á korn, sem ræktað er hér á landi, til jafns við niðurgreiðslur á innfluttu korni.“

Efni þessarar till, er þm. að sjálfsögðu kunnugt, enda hefur þessi till. eða efnislega samhljóða till. legið hér fyrir tveimur undanförnum þingum, þótt ekki hafi Alþingi til þessa fengizt til að taka efnislega afstöðu til hennar. Svo er málum háttað, að kornrækt hefur farið hér mjög í vöxt á undanförnum árum, og mun öllum, sem áhuga hafa á viðgangi íslenzks landbúnaðar, þykja nokkurs um það vert, að sú búgrein geti tekið eðlilegri framþróun og orðið í vaxandi mæti þáttur í íslenzkum búskap. Það hafa líka, þar til nú í sumar, verið stigin mjög ánægjuleg framfaraskref á þessari braut. Hinu er ekki að leyna, að þessi ræktun, kornræktin, hefur orðið fyrir hörðu ári á þessu sumri og kornuppskera orðið minni en vonir höfðu staðið til. En þó er ekki ástæða til að ætta, að sú mislukkun, sem að verulegu leyti hefur orðið á kornræktinni í sumar vegna óhagstæðs tíðarfars, muni verða til þess í framtiðinni að hindra áframhaldandi aukningu í kornræktinni. Það er vitað mál, að eftir að kornræktin komst nokkuð af tilraunastigi hjá okkur á s.l. árum, hefur hún tekið stór skref fram á við, þannig að um nokkurt magn hefur verið að ræða árið 1960, en þó einkum 1961. En árið 1960 er talið, að hér hafi verið ræktaðar og með þeim hætti, að komið hafi til þreskingar, um 3000 tunnur af korni, en árið 1961 tvöfaldaðist kornræktin eða máske dálítið meira, og munu þá örugglega hafa komið til þreskingar 6000 tunnur af korni. Hversu margar tunnur korns hafa á þessu hausti komið til þreskingar, er ekki vitað. Hitt er vitað, að kornræktin var stórlega aukin á s.l. vori og undir korni stóðu miklu stærri akrar í sumar en nokkru sinni áður á nálægri tíð. En þó er ekki víst, að kornið, sem af þeim fæst, verði miklu meira en á s.l. sumri. Engu að siður og máske mætti segja enn þá frekar vegna þess, að hart er í ári hjá kornbændum, verður það tilfinnanlegra en nokkru sinni fyrr, að af stjórnarvalda landsins hálfu er mismunað mjög og greitt fyrir því, að korn sé keypt til landsins frá útiöndum, en íslenzk kornrækt ekki látin njóta neins sambærilegs stuðnings.

Málum er sem sagt svo háttað, að ríkissjóður greiðir niður korn, sem flutt er til landsins frá útlöndum, greiðir það niður um 18.61% af fob-verði kornsins, en það mun svara til, að niður sé greitt hvert kg af byggi um 70–80 aura. Engin sambærileg fyrirgreiðsla er varðandi innlenda kornið, og verða innlendir kornframleiðendur því að keppa á kornmarkaði við erlent korn, sem úr ríkissjóði er niðurgreitt um þessa upphæð. Ég hef enn sem komið er engan mann fyrir hitt, hvorki innan Alþingis né utan veggja þess, sem telur þetta ástand eðlilegt eða réttmætt. Engu að síður hefur sú raunin orðið á, að till. um leiðréttingu á þessum hlutum hefur ekki fengið afgreiðslu á tveimur þingum, þó að hún hafi þar legið fyrir, og því er málið hér enn flutt.

Málið er flutt hér í formi þáltill., sem felur ríkisstj. að framkvæma ákveðna hluti í niðurgreiðslu á íslenzka korninu. Það mætti segja, að til mála hefði getað komið að flytja um þetta lagafrv., en svo er málum háttað, að ríkisstj. hefur til þess fulla heimild í gildandi lögum að framkvæma þessa niðurgreiðslu, og þess vegna þykir ekki ástæða til að flytja um það frv. til breyt. á l. í 28. gr. 1. um efnahagsmál frá öndverðu ári 1960 er það fram tekið, að ríkisstj. hefur rétt til þess að framkvæma slíka niðurgreiðslu eins og þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu að svo komnu að hafa um þetta mál fleiri orð, en vænti þess, að Alþingi láti sig ekki henda það að sinna þessu máli ekki hið þriðja sinn, sem það er fram borið, svo augljóst sem réttmæti málsins er. Ég hef að vísu öðru hverju heyrt um það getið eða heyrt ávæning af því, að stjórnarvöldin hefðu í hyggju að framkvæma þá hluti, sem hér er farið fram á, en enn sem komið er virðist ekki komið að því, að þetta komi til framkvæmda, a.m.k. er ekki getið um í fjárlagafrv. annað en niðurgreiðslur að því er flestar vörutegundir varðar verði óbreyttar. Þar er aðeins getið um örfáar, sem breytast, en þar í er ekki gert ráð fyrir því, að nein breyting verði á, hvorki niðurgreiðslum á innfluttu korni né heldur að neitt sé ætlað til verðbóta á korni, sem framleitt er í landinu sjálfu. Hér er ekki um mjög stórar fjárhæðir að ræða. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að niðurgreiðsla samkv. þessari till. á íslenzku korni mundi nema, ef framleiðslan er eitthvað röskar 6000 tunnur, samtals tæplega hálfri millj. kr. En þar á móti kemur það, að þeim mun meira korn sem ræktað er í landinu, þeim mun minna þurfum við að flytja inn af korni, og þar með sparast niðurgreiðsla á innfluttu korni við aukna kornrækt í landinu sjálfu. Þegar þess er gætt, að á því fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram fyrir þetta þing, eru áætlaðar 430 millj. kr. til niðurgreiðsina á vöruverði og til útflutningsuppbóta, verður augljóst, að hér er ekki um fjárhæð að ræða, sem neinu verulegu máli getur skipt í því kerfi niðurgreiðslna og verðbóta, sem þegar er inni í fjárlögum, og þeim mun frekar þykjumst við flm. mega vænta þess, að á sanngirni þess máls, sem hér er flutt, verði litið af skilningi og málið látið koma til framkvæmda þegar, að því er varðar þá uppskeru, sem fengizt hefur á íslenzkum kornökrum á þessu hausti.