17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2869)

12. mál, innlend kornframleiðsla

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á það í því, sem hann sagði áðan, að hann hefði ekki mælt gegn þessari till., og þykir mér vænt um, að hann lagði áherzlu á það. Mér skilst það vitni þess, að hann muni ekki leggjast á móti henni, og mætti þá fremur gera sér von um, að hún yrði samþykkt. Vona ég, að reyndin verði sú.

En þótt hæstv. ráðh. segði þetta, þá var hann enn nokkuð við sama heygarðshornið. Skal ég ekki af því tilefni endurtaka það, sem ég sagði áðan, sem stendur þrátt fyrir það. En það kom fram hjá hæstv. ráðh., að þetta væri ekki svo atórt mál fyrir kornræktina eða landbúnaðinn eða þjóðarbúskapinn, vegna þess að íslenzk kornframleiðsla væri svo lítil að vöxtum og íslenzka kornið væri svo lítið af því korni, sem notað væri til fóðurs í landinu. En þetta er alls ekki aðalatriði málsins, eins og hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, er hann íhugar þetta, betur. Hitt er aðalatriðið, að erlenda kornið er borgað niður og munurinn, sem kemur fram vegna niðurgreiðslunnar, er um 18.61% af verði kornsins. Það jafngildir kornskatti, sem kemur á innlenda kornið umfram það erlenda, jafngildir allt að því banni við kornrækt á Íslandi. Enda virðist það nánast vera það, sem hæstv. ráðh. hugsar sér, þar sem hann telur alls ekki tímabært, að bændur almennt séu að reyna kornrækt og það eigi að bíða eftir tilraununum, þess vegna eigi að halda þessum mismun. En hér er um svo alvarlegt mál að ræða og svo stórt mál að ræða, að á meðan íslenzka kornið hefur svona slæma aðstöðu samanborið við erlent, þá getur hér ekki orðið um ábatssama kornrækt að ræða, jafnvel þótt veðráttan sé góð. Þetta eru álíkar búsifjar.

Enginn íslenzkur atvinnuvegur mundi þola nál. 20% aukaskatt af verði afurða sinna. Það er ekki til sú atvinnugrein á Íslandi, sem mundi þola það. En samt sem áður er það einmitt þetta, sem inniend kornrækt býr við núna.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé bezt að láta íslenzka kornrækt vera án hvatningar, eins og sakir standa, því að það sé ekki tímabært að bændur fáist við kornrækt. En nú er ekki einu sinni svo, að hér sé með þessari till. farið fram á neina hvatningu til kornræktar. Það er aðeins farið fram á, að hún standi að þessu leyti jafnfætis erlendri framleiðslu. Hér er ekki verið að tala um að veita íslenzkum kornframleiðendum styrk í einu eða neinu formi, alls ekki, aðeins farið fram á, að þeirra framleiðsluvörur sitji við sama borð og erlend vara sams konar.

Ég verð að segja, að mér þykir það tíðindum sæta, að slíkt skuli sæta mótmælum á Alþingi, sem sagt, að það skuli vera komin upp sú stefna að hafa eins konar verndartoll á innlendri framleiðslu í þágu erlendrar framleiðslu. Slíkt hefur aldrei nokkurn tíma þekkzt á Íslandi fyrr. En á hinn bóginn er það algengt, að tollar séu á erlendri framleiðslu, sem koma sér vel fyrir innlendu framleiðsluna. Hitt mun með öllu gersamlega óþekkt, þangað til þetta hefur gilt núna um kornræktina. Er þó allra sízt ástæða til þess auðvitað, að það gildi um hana, þar sem þeir, sem í hana leggja, margir af mikilli atorku, taka óneitanlega á sig talsverða áhættu. En ofan á þá áhættu verða þeir svo að bera þessar búsifjar. Það er ekki sanngjarnt og ekki eðlilegt. Þetta er líka þjóðhagslega skoðað alveg skakkt, og þess vegna á að innleiða jafnrétti í þessu, eins og till. gerir ráð fyrir.

Ég vil vonast eftir því, að till. fáist samþykkt, þar sem hæstv. ráðh., eins og hann tók fram í síðari ræðunni, mælir þó ekki á móti henni.