03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

14. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. S.l. miðvikudag fóru fram umr. um till. um raforkumál, sem 17 menn flytja, hv. framsóknarmenn, allir sem á þingi eiga sæti. Það mætti þess vegna ætla, að þetta væri mikilsverð till., enda mátti svo heyra á hv. 2. flutningsmanni, þegar hann talaði hér, að það væri mikið í húfi, að þessi tilt, yrði samþ.

Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. hafi till. fyrir framan sig og geti hver og einn sannfært sig um, hvað í till. felst og hvað vinnst með því að samþykkja till. og hvaða tjón getur skeð, ef hún er ekki samþ. Það er þess vegna óþarft, að ég sé að lesa till. upp, og það er þá einnig sennilega óþarft, að ég sé að draga ályktanir af því hér í ræðustólnum, hvaða gildi till. út af fyrir sig hefur. Ef það gæti orðið til þess að flýta fyrir rafvæðingu landsins að samþ. þessa till., þá væri ekkert vafamál, að það ætti að gera, — ekkert vafamál, því að ég hygg, að við öll, sem eigum sæti á Alþingi, viljum, að íslendingar allir, hvar sem þeir búa, fái sem fyrst þau þægindi, sem raforkan veitir.

Ég hygg, að þið, hv. þm., þegar þið hafið lesið till., getið gert ykkur ljóst án þess að hugsa ykkur mikið um, að till., þótt hún væri samþ., flýtir ekki fyrir framkvæmdum. Það mátti lesa það út úr orðum hv. 2. flm., þegar hann talaði hér, að það hefði eitthvað dregizt úr hömlu að rafvæða landið. Það hefði eitthvað seinkað rafvæðingarframkvæmdum. Og hann var að gefa það í skyn, og leiðinlegt að þurfa að segja það, gegn betri vitund, að það væri eitthvað nýtt, að það skyldi koma í ljós, að það væri ekki um 10 ára áætlun að ræða, heldur um 11 ára áætlun. Hv. þm. veit vel, að það var á árinu 1955, sem gert var ráð fyrir, að það tæki 11 ár, en ekki 10, að framkvæma það, sem kallað var í fyrstu 10 ára áætlun. Og það var einfaldlega vegna þess, að það var bætt við nokkrum línum á árinu 1955 við hina upphaflegu áætlun. í skýrslu raforkumálastjóra, sem ég hef í höndum, er þetta staðfest. Og ég segi það enn, það er leitt, að hv. þm. skuli gefa í skyn, að það væri vegna tafa á framkvæmdum hjá núverandi ríkisstj., að nú væri um 11 ár að ræða, vegna þess að ég er sannfærður um, að hv. þm. hefur vitað, hvenær var ákveðið, að það skyldi taka 11 ár, en ekki aðeins 10. Þetta er kannske ekki mikilsvert atriði. En þó er það svo, að það er hægt að fyrirgefa það, þegar menn tala í fljótræði og lítt hugsað, en miklu verra, þegar menn gera það vísvitandi að fara rangt með.

Nú er það svo, að framkvæmd 10 ára áætlunarinnar hefur farið fram með eðlilegum hætti hin síðari ár, og eins og kemur fram í bréfi raforkumálastjóra, er ekkert útlit fyrir annað en hinum áætluðu framkvæmdum verði lokið á árinu 1964, eins og ákveðið var 1955 að verða mundi. Það er því ekki með réttu hægt að ásaka núverandi ríkisstj. fyrir seinagang í þessum málum, og algerlega tilgangslaust að vera að reyna að koma því inn hjá almenningi í landinu, að ekki hafi verið staðið við 10 ára áætlunina í einu og öllu, og mig undrar, að það skuli vera gerð tilraun til þess, því að það er svo margt, sem um er að ræða á hv. Alþingi, jafnvel þótt þetta væri látið ógert.

Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, þótt menn flytji till. til þál. til áherzlu á því, að framkvæmdum sé haldið áfram á mikilsverðum málum, og það er bókstaflega eðlilegt, ef ástæða er til, vegna þess að það virðist ekki ganga eins hratt og vel og áætlað hefur verið. En í þessu tilfelli er það svo, að segja má, að þessi þáltill. á þskj. 14 sé tilefnislaus, vegna þess að rafvæðingaráætlunin hefur staðizt, og til staðfestu því er rétt að upplýsa, að það hafa aldrei síðan byrjað var á 10 ára áætluninni verið rafvæddir eins margir sveitabæir á ári og á árunum 1961 og 1962. En á þessum tveimur árum voru rafvæddir 552 sveitabæir, og auk þess var eftir að tengja 160 sveitabýti og ekkert annað þurfti að gera, til þess að þeir væru tengdir, heldur en að setja upp spennistöðvarnar. Það var vegna þess, að ekki var hægt að fá allar spennistöðvarnar hjá Rafha í Hafnarfirði og þurfti að panta þær frá Bandaríkjunum, að ekki var unnt að tengja þessi 160 býli fyrir áramót. En séu þau talin með, þá voru þetta 436 býli á ári, en 276 býli hvort ár 1960 og 1961, séu þessi 160 býli ekki með talin.

Nú var það, að hv. 2. flm. þessarar till. vildi gera mikið úr því, hversu vei hefði gengið með rafvæðinguna á árunum 1956–58, en þá voru tengd til jafnaðar 205 býli, og ætla ég ekki að gera neitt lítið úr því. En staðreyndin er, að þetta hefur gengið örar á árunum 1961 og 1962, og gert er ráð fyrir að tengja á þessu ári 230 býli auk þessara 160, en það er matsatriði, hvort þau verða talin með árinu 1962 eða árinu 1963.

Ég hygg, að þessar tölur, sem teknar eru upp úr skýrslu raforkumálastjóra, vegi þyngra á metunum en þær fullyrðingar, sem hv. 2. flm. þessarar till. viðhafði hér fyrir viku.

Hv. þm. fór að taka upp tölur, sem voru endurprentaðar í Tímanum s.l. föstudag, og segir, að reikningsfróður maður hafi reiknað út, hversu miklu fé hafi verið varið til raforkuframkvæmda á hinum ýmsu árum. Og í þessum útreikningi hafði öllum tölum verið breytt þannig, að þær eru miðaðar við verðlag 1962, ekki eftir rafvæðingarvísitölu, heldur eftir byggingarvísitölu. Hv. ræðumaður viðurkenndi, að hann vissi í rauninni ekki, hvort þetta væri rétt viðmiðun, en gerði það nú samt, og eg skal ekkert fullyrða um það út af fyrir sig, hvort þetta er mælikvarði, sem gæti verið nokkuð nákvæmur. En það er ekki aðalatriðið í þessu máli. Það, sem mér hnykkti við, var tilraunin, sem hv. þm. viðhafði, þegar hann var að reyna að blekkja í sambandi við þetta. í sínum samanburði vildi hann sleppa línunni, sem lögð var suður á Reykjanes 1959, vegna þess að hann sagði, að það hefði verið gert í þágu varnarliðsins.

Það hefði mátt segja það, ef línan hefði verið lögð eingöngu vegna varnarliðsins. En staðreyndin er, að gamla línan hafði ekki lengur nægilega flutningsgetu til Suðurnes ja, þótt varnartiðið hefði ekki verið með, og í skýrslu raforkumálastjóra, sem ég hef hér fyrir framan mig, segir, að það beri að reikna línuna suður á Reykjanes að öðru leyti en því, sem kostnaður við spennubreyti á vellinum nemur, þar eð byggja hefði þurft línuna hvort sem var. En hv. þm. sleppti þessu til þess að fá hagstæðari tölur í þessum samanburði, sem hann taldi nauðsynlegt að gera.

Hv. þm. nefnir ekki heldur framkvæmd við Sogið, sem verið er að vinna að og unnið var að á s.l. ári. Hann nefndi það ekki í sinum samanburði. Hann nefndi ekki heldur í sínum samanburði jarðhitarannsóknirnar, sem eru miklu meiri, síðan núverandi ríkisstj. kom til valda, heldur en áður var. Og hann nefndi ekki heldur virkjunarrannsóknirnar, sem námu 25 millj. kr. á árinu 1962, en aðeins 4 millj. á árunum 1957 og 1958. Af hverju nefndi ekki hv. þm. þetta? Getur það verið, að hann hafi ekki viljað fá rétta útkomu úr dæminu? Getur það verið, að hann hafi ímyndað sér það, að hv. þm, hafi ekki haft aðstöðu eða löngun til þess að gera sér grein fyrir hinu rétta? Ég hygg ekki. Ég hygg, að hv. þm. hafi alveg talið það víst, að þm. gætu komizt að hinu rétta og fengið rétta útkomu, en hv. þm. treystir því, að fjöldi manna lesi þá grein í Tímanum, sem ég vitnaði til áðan, og að almenningur í landinu hafi ekki aðstöðu til að sannprófa það, hvort hv. þm. fór með blekkingar eða réttar tölur. Og það er þetta, sem er þungamiðja málsins. Það er þetta, sem er nauðsynlegt að verði leiðrétt. Og það er leiðinlegt, þegar gegnir og góðir þm. verða uppvísir að slíku sem hv. 2. flm. þessarar till. varð með málflutningi sínum hér fyrir viku.

Ég ætla, að þetta, sem ég nú hef nefnt, sýni nægilega ljóst, að hv. þm. fór ekki rétt með, þegar hann var að bera saman framkvæmdir hjá núverandi ríkisstj. og fyrri ríkisstj. Og það má segja, að það hafi verið ástæðulaust fyrir hv. þm. að gera samanburðinn eins og hann gerði, vegna þess að það lá ekki fyrir hér nein ádeila á fyrri ríkisstj. og framkvæmdir hennar í þessum málum. Og það er alveg áreiðanlegt, að þeir, sem vilja þessum málum vel og vilja verða að liði í framkvæmdum eins og þessum, þeir gera það ekki á þann hátt að fara rangt með málin og blekkingar, heldur með því að styðja málflutning sinn við staðreyndir og það, sem er það rétta í hverju máli. Og ég held, að í sambandi við rafvæðingu landsins, þá takist bezt og fljótast að framkvæma hana, ef menn vilja af einlægni taka höndum saman og vinna að þessu máli, sem vissulega er kostnaðarsamt og að ýmsu erfitt í framkvæmd.

Hv. þm. vitnaði í bréf raforkumálastjóra, þar sem raforkumálastjóri talar um framhaldsáætlun og miðar hana við 10 ár. Raforkumátastjóri miðar ekki þessa áætlun við 10 ár vegna þess, að hann hafi fengið fyrirmæli um það frá ráðuneytinu. Raforkumálastjóri hefur fengið fyrirmæli um að vinna að framhaldsáætlun um rafvæðingu landsins og ljúka því verki sem fyrst. En það er raforkuráð og ríkisstj., sem ákveður það síðan í samráði við Alþ., hversu langan tíma verkið á að taka, og hægast er að gera sér grein fyrir því, þegar heildarkostnaðaráætlun liggur fyrir, hvað það verður dýrt að ljúka hinum síðasta áfanga, hvort hann tekur 5 ár eða 7 ár. í viðtölum mínum við raforkumálastjóra og einnig á raforkuráðsfundum hefur það verið rætt, að nauðsyn bæri til, að landið væri rafvætt ekki seinna en 1970, og þá væri það á 5 eða 6 árum. í sambandi við þá till., sem hér um ræðir, er talað um 1968, það er nokkru fyrr. En aðalatriðið er það, að þessi áætlun, sem ég nefndi, verði gerð og að menn vilji taka höndum saman um að framkvæma hana. Hvort það verður 4 ára áætlun eða 5 eða 6 ára áætlun, það skiptir nokkru máli, en höfuðmáli skiptir það, að fé verði útvegað til þess að framkvæma áætlunina og að staðið verði við þá áætlun, sem samin verður.

Hv. þm. taldi till. aðallega til gildis, að hún mundi flýta fyrir, að þessi framhaldsáætlun væri unnin. Og í nál. minni hl. er talað um að ljúka áætluninni á næsta hausti, — að ljúka henni ekki seinna en á næsta hausti. En í bréfi raforkumálastjóra, — hvað segir þar? Raforkumálastjóri segir í bréfi, sem hann skrifar hv. n., að hann geri ráð fyrir því, að áætluninni verði lokið á seinni hluta þessa árs og að það tefji á engan hátt fyrir framkvæmdum á næstu áætlun, þótt framhaldsáætluninni verði ekki lokið fyrr en í haust. M.ö.o.: í bréfi raforkumálastjóra er gert ráð fyrir, að framhaldsáætlunin verði tilbúin á sama tíma og hv, tillögumenn leggja áherzlu á að áætlunin liggi fyrir.

Þegar hv. þm. athuga nú þetta, þá hygg ég, að við getum öll verið sammála um, að það tefur ekki framkvæmd á rafvæðingunni, þótt till. verði vísað til ríkisstj. eða hún afgreidd á sama hátt og meiri hl, leggur til, því að allt er þetta í framkvæmd á þeim hraða, sem áætlað var, og raforkumálastjóri lofar framhaldsáætluninni á sama tíma og 17 hv. framsóknarmenn óska eftir að hún verði tilbúin á. Og þegar þetta er nú athugað í alveg réttu ljósi og öfgalaust og staðreyndirnar einar látnar tala, og ef hv. 2. flm. till. hefði nú viljað tala um þetta bara eins og það væru engar kosningar á næsta leiti, heldur bara raunhæft, þá hefði hann nú alveg hætt við að láta í það skína, að till. út af fyrir sig væri eitthvert velferðarmál fyrir dreifbýlið.

Ég hygg, að þessi orð um till. út af fyrir sig og þá áherzlu, sem hv. 2. flm. till. lagði á málið fyrir viku, séu út af fyrir sig alveg nóg, það sem ég þegar hef sagt, til þess að skýra mátið. En hv. þm. ræddi nokkuð um hallareksturinn á rafmagnsveitunum og hv.

Frsm. meiri hl. einnig, og það er vitanlega ekki nema eðlilegt, að menn ræði það út af fyrir sig. Ég varð lítið var við það og alls ekki hjá hv. frsm. meiri hl., að þessi hallarekstur út af fyrir sig væri nokkuð ámælisverður, en það var ekki um annað að ræða, þó að maður væri af fullum velvilja gerður, það var eins og hv. 2. flm. tili. vildi láta í það skína, að það væri tómlæti, það vært hálfgerður slóðaskapur hjá ríkisstj. að reka rafmagnsveiturnar með þessum hætti, að það væri svona mikill halli á þeim. Ég býst nú varla við, að hv. þm. hafi ætlazt til þess, að raforkuverðið væri hærra hjá rafmagnsveitum ríkisins en það hefur verið, — ég skildi hann ekki þannig, — það hefði kannske mátt minnka haltann með því að selja raforkuna á hærra verði. Ég hef nú ekki borið fram óskir um það, og ég get lýst yfir, að ég tel alveg útilokað að jafna þennan halla með því að hækka raforkuverðið hjá rafmagnsveitum ríkisins, — alveg útilokað.

Hitt er svo alveg rétt um hallarekstur ár eftir ár, að það eru takmörk fyrir því, hversu lengi það getur gengið. En ég vil að gefnu tilefni, vegna þess að hv. 2. flm. till. fannst ekki ríkissjóður hafa dugað rafmagnsveitunum vel, hann hefði gjarnan mátt gera betur, þá vil ég segja frá því, að ríkissjóður hefur dugað rafmagnsveitunum mjög vel að undanförnu. Ég get upplýst það, að rafmagnsveiturnar skulda ríkinu meira en það, sem nemur öllum haltanum, því að samanlagður halti rafmagnsveitnanna í árslok 1962 er 79 millj., en það, sem rafmagnsveiturnar skulda ríkinu, eru 112 millj. Hvort ríkið gengur eftir þessari skuld, það ætla ég ekkert að fullyrða um nú, en ég tel ólíkt betra fyrir rafmagnsveiturnar að skulda ríkinu þessa upphæð heldur en banka eða lánsstofnun, sem gengur eftir greiðslunni, hvernig sem á stendur, með vöxtum og vaxtavöxtum. Og ég tel, að á meðan ríkissjóður lætur sér það lynda að eiga þetta hjá rafmagnsveitunum og greiða úr fjármálum þeirra, eins og hann hefur gert, og tryggja þannig, að framkvæmdir geti orðið með fullum hraða, þá sé ríkissjóður ekki ámælisverður, síður en svo.

Það má vitanlega alltaf deila um bað, hvort framlag ríkisins á fjárlögum hefði átt að vera hærra. Menn geta sagt, að það hefði átt að vera hærra og borga hallann þannig upp jafnóðum með framlagi úr ríkissjóði. En með hliðsjón af því, sem ég hef upplýst um skuldir rafmagnsveitnanna hjá ríkinu og þá fyrirgreiðslu, sem ríkið hefur veitt, til þess að framkvæmdirnar gætu átt sér stað, þá hygg ég, að það þurfi ekki að leggja eins mikinn þunga á það eða áherzlu, að fjárveitingarnar hefðu átt að vera hærri á undanförnum árum heldur en er, og ég segi það aðeins með tilliti til þessara staðreynda, að ríkið hefur lánað rafmagnsveitunum án þess að ganga hart eftir innheimtu á þessum skuldum.

Ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að það þarf að koma fjárhagslega traustum grundvelli undir rafmagnsveiturnar, og þess vegna er það, að snemma á árinu 1962 var skipuð nefnd fróðra manna til þess að gera tillögur í þessu efni. Í nefndinni eru Jóhannes Nordal bankastjóri, Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri og raforkumálastjóri, Jakob Gíslason. Þessi n. hefur talsvert starfað á s.l. ári og það sem af er þessu ári, og hygg ég, að hún sé sammála um, að rafmagnsveiturnar þurfi að fá nýja tekjustofna, og ég hygg, að nefndin sé sammála um, að rekstrargrundvöllur fáist ekki hjá héraðsrafmagnsveitunum á öðrum grundvelli en þeim, að þær fái tekjur annars staðar frá, hann fáist ekki með því að hækka orkugjaldið á þessum veitum einum. Og það eru vitanlega ýmsar leiðir til, sem mætti fara. En engin af þeim leiðum hefur verið ákveðin enn. Það mundu kannske einstöku menn hugsa sér, að það mætti jafna hallann með því að láta aðeins þá, sem kaupa rafmagn af rafmagnsveitum ríkisins, borga hallann með hækkuðu orkugjaldi, en ég hygg, að þeir séu fáir. Þá gætu aðrir e.t.v. átt till. um það að skattleggja alla raforku í landinu og jafna þennan halla með því. Öll raforkusala í landinu mun nema nú um 270 millj. kr. á ári. 10% skattur mundi nema 27 millj. Þetta er ekki mín till., og ef ég væri spurður að því í dag, hvort ég væri þessu fylgjandi, þá mundi ég segja eins og er, að ég hef ekki gert mér grein fyrir því, hvort þetta væri heppilegasta leiðin. En ég veit, að till. í þessa átt hefur verið nefnd.

Þá hefur einnig verið nefnt, og við höfum einnig heyrt samþykktir um það, að það bæri að gera allsherjar verðjöfnun á rafmagni um allt land. Og því er ekki að neita, að vitanlega væri hægt að jafna hallann á þann hátt. En ég hygg, að það séu einnig skiptar skoðanir um það. Og ég vil ekkert fullyrða um, hvort n. gerir það að till. sinni frekar en annað, eða hvaða skipan verður upp tekin í því efni, þegar að því kemur að fá lausn á því máli. Svo er ein leið, en það væri að auka framlög á fjárlögum til rafmagnsveitnanna og jafna hallann með því móti. Og þá þyrfti ekki verðjöfnun, þá þyrfti ekki skatt og þá þyrfti ekki að hækka orkugjaldið hjá rafmagnsveitunum, ef framlög ríkissjóðs væru hækkuð á fjárl. nægilega mikið, til þess að orkugjaldið hjá rafmagnsveitunum gæti verið eitthvað svipað og annars staðar gerst.

Ég segi það, að ef ríkissjóðurinn afskrifaði eitthvað af því, sem hann á hjá rafmagnsveitunum núna, þá væri það náttúrlega eitthvað í áttina. En ég ætla ekkert um það að segja að svo stöddu. En að þessu athuguðu er Ljóst, að hér eru engin vandræði á feró. Það má segja, að það séu nokkrir erfiðleikar, en það eru engin óleysanleg vandræði, síður en svo. Það, sem fram undan er, er það að ljúka 10 ára áætluninni á næsta ári. Skv. bréfi raforkumálastjóra má reikna fyllilega með því, að það verði gert. Eftir það verður byrjað á framhaldsáætluninni, sem væntanlega verður tilbúin á komandi hausti, og þegar sú áætlun um kostnað liggur fyrir, þá er það ríkisstj., raforkuráð og Alþingi, sem ákveða, hvort það skuli vera 4 ára áætlun eða t.d. 6 ára áætlun, þannig að rafvæðingu yrði lokið á árinu 1970, og ég hygg, með tilliti til þess, sem ég hef nú hér upplýst, að menn geti verið sammála um, að það megi horfa á þessa framtíðaráætlun með bjartsýni, en ekki svartsýni, þrátt fyrir það, þótt rafmagnsveiturnar eigi í nokkrum fjárhagslegum erfiðleikum eins og er, sé reiknað með því, að þær þurfi að greiða ríkissjóði það, sem þær skulda. En ef þær þyrftu ekki að greiða ríkinu þetta, sem ég skal ekkert fullyrða um, þá er dæminu alveg snúið við. Möguleikarnir til þess að halda fjárhagslegu jafnvægi og fjárhagslegu sjálfstæði rafmagnsveitnanna í framtíðinni eru ótalmargir, og erfiðleikarnir á því að framkvæma næstu áætlun minnka vitanlega samhliða því, sem það verður minna, sem er ógert. Og ég vil segja það, að ég er að öllu leyti ánægður með afgreiðslu meiri hl. n. og tel þá afgreiðslu jákvæða, tel, að framhaldsrafvæðing landsins fái alveg jafnmikinn hraða og kraft með þeirri afgreiðslu og þótt till. 17-menninganna væri samþykkt. Og ég skil ósköp vel frsm. meiri hl. n., hvers vegna hann leggur ekki til, að till. verði samþ., en það átti hv. 2. flm. till. afar vont með að skilja, eins og hv. þm. munu hafa heyrt hér f umræðunum um daginn. Hv. 2. flm. till. átti erfitt með að skilja það, að hv. 1. þm. Vestf., sem hefur brennandi áhuga á rafvæðingu landsins, skyldi ekki vilja samþykkja till. Ég á ósköp auðvelt með að skilja hann, því að hann lítur á till. með sömu augum og ég og með sama skilningi og sér ekki, að þótt hún verði samþ., þá greiddi hún á neinn hátt fyrir framkvæmd þessa mikilvæga máls.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þessa till.