07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

41. mál, eiturlyfjanautn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tek mjög undir það með hv. tillögumanni, að þetta mál er þess eðlis, að enginn taugatitringur, hvorki pólitískur né annar, má hafa áhrif á aðgerðir manna í þeim efnum. Því miður virtist mér hv. þm. ekki fylgja þessu sínu boðorði til hlítar í þeirri stuttu ræðu, sem hann flutti hér, vegna þess að hann gat ekki látið vera að gefa tvö — ég vil segja asnaspörk frá sér, annars vegar í garð lögreglunnar og hins vegar í garð þeirra, sem um þetta mál töluðu hér s.l. miðvikudag. Varðandi það síðara vil ég einungis skora á hann að tilgreina, hvað það er í ummælum mínum og hv. fyrirspyrjanda, sem hann áfellist. Varðandi lögregluna var ásökun hans um athafnaleysi hennar gersamlega órökstudd og út í bláinn, einnig á sama veg og ásökun hans í garð mín og hv. fyrirspyrjanda s.l. miðvikudag. Það hefur ekkert komið fram í þessu máli að mínu viti, sem réttlæti þau ummæli í garð lögreglunnar, er hv. þm. viðhafði. Það er rétt, að í sumum blaðagreinum, sem hv. þm. annars vildi nú einnig fordæma, hafa verið vissar ásakanir í garð lögreglunnar, og hygg ég þær þó einnig á misskilningi byggðar, en þær hafa þó verið rökstuddar, sem ásökun þessa hv. þm. var ekki.

Hv. þm. talaði um, að í skýrslum lögreglunnar hefðu komið fram ásakanir á lækna og þær síðan verið blásnar upp. Það er rétt, að í þeim skýrslum, sem ég las upp hér s.l. miðvikudag, var vikið að hlut lækna í þessum málum, og lögregluvarðstjórar skýrðu þar sína skoðun á því, hvernig þessi lyf væru komin í hendur þeirra manna, sem lögreglan hefur síðan fundið þau hjá. Ég óskaði þegar í stað eftir nánari grg. og hef fengið hana frá lögreglunni í þessum efnum fyrir milligöngu lögreglustjóra, og ég gat þess s.l. miðvikudag, að sú grg. verður að sjálfsögðu rannsökuð algerlega hlutlaust, og það er með öllu ástæðulaust að gefa í skyn eða óttast. að í því verði hallað á einn eða annan lækni. Það mál verður skoðað ofan í kjölinn og engar líkur til þess, að þar verði misfarið í einu eða öðru eða tortryggni vakin gegn, hvorki einstökum læknum né tæknastétt í heild, heldur einungis staðreyndirnar kannaðar og síðan ákveðið á grundvelli þess, sem upp kemur, hvað rétt sé að gera.

Út af þessari till. vil ég taka það fram, eins og kom í ljós af þeim skýrslum og yfirlýsingum, sem ég gaf s.l. miðvikudag, að rannsókn á þessu mjög alvarlega máli er nú þegar hafin, sumpart stendur hún yfir hjá sakadómara á einum anga málsins, sem mesta athygli hefur vakið í blaðaskrifum, sumpart er hún nú með eðlilegum hætti í höndum landlæknis og hlýtur eðli málsins samkvæmt að taka nokkurn tíma. Þetta eru þær staðreyndir, sem fyrir liggja.

Um það, að íslenzkur æskulýður hafi hneigzt til eiturlyfjanautnar vegna of mikillar vinnu, mætti margt segja. Í fyrsta lagi vil ég á þessu stigi fullyrða, að enn er með öllu óupplýst og ástæðulaust að gefa til kynna, að íslenzkur æskulýður sé yfirleitt hneigður til eiturlyfjanautnar, og mjög ómaklegt þess vegna að draga æskulýðinn í heild inn í umr. um þetta mál á þann veg, sem þessi hv. þm. gerði. í öðru lagi hefur það löngum reynzt vel á Íslandi, að æskulýður tæki þátt með hófsamlegum hætti í störfum fullorðna fólksins, og það er einmitt eitt mesta mein þéttbýlisins, að það er ekki hægt þar með sama hætti og í sveitum landsins. En við, sem eigum börn uppvaxandi hér í bænum, vitum gerla, að það er ekki of mikil vinna, sem æskulýðinn þjakar, heldur iðjuleysi og ráðleysi margra, hvað þeir eigi að gera við sinn lausa tíma. Það er alveg rétt, að þetta er vandamál. Það er alvarlegt vandamál, sem þarf að skoða. En að snúa því vandamáli upp í það að saka æskulýðinn fyrir eiturlyfjanautn og þjóðfélagið fyrir að bera sök á spillingu æskunnar með of mikilli vinnu, það er einn mesti öfugsnúningur staðreynda, sem ég hef heyrt.