07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

41. mál, eiturlyfjanautn

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði nú síðast, vildi ég aðeins benda á, að hver einasti maður á Íslandi, sem nú hneigist til eiturlyfjaneyzlu, hefur einhvern tíma verið unglingur og barn. Hafi hann ekki átt kost á því að fá það uppeldi og það veganesti undir lífíð, sem gerði hann færan um að standast freistingar lífsins, þá er það að mínum dómi þjóðfélagsins sök. Ég hef ekki haldið því fram, að æskulýður landsins væri sérstaklega hneigður fyrir eiturlyfjanautn. Ég hef aðeins sagt, að ég persónulega hafi kynnzt í hópi æskulýðsins sjúklegum tilfellum af þessu tagi.

Ég veit ekki, hvort við erum eins mikið ósammála um vinnu og tómstundir æskulýðsins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Að vísu held ég því fram, að æskulýðurinn hér á landi hafi of fáar tómstundir. Hæstv. ráðh. virðist aftur á móti vilja halda því fram, að hann hafi of margar tómstundir. En aðalatriðið í því er þó það, að við erum sammála um, að ég hygg, að æskulýðnum sé ekki kennt, hann sé ekki alinn upp í að kunna að nota sínar tómstundir rétt, hvort sem þær eru margar eða fáar. Ég skal ekki fara frekar út í það.

Í upphafi máls síns beindi hæstv, ráðh. til mín fsp. Ég hafði látið orð falla um, að ég ætlaði mér ekki að gerast neinn dómari yfir eiturlyfjaneytendum né setja upp einhvern vandlætingarsvip eins og þann, sem mér fannst bregða fyrir hér í þessum sat fyrir einni viku, þegar spurt var, svarað og þakkað í sambandi við þetta mál. Hæstv. ráðh. virðist hafa tekið eitthvað óþægilega til sín í sambandi við þessi ummæli, en ég vil benda honum á, að hér var inni fjöldi manns, og ég tel, að hann hafi enga ástæðu til þess að taka þessi orð til sín.