13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. var vísað til fjvn. 24. okt. s.l. N. hóf þó fundi til undirbúnings afgreiðslu þess nokkru fyrr, eða 17. okt. Hún hefur haldið 42 reglulega fundi um frv. og rætt einstaka þætti þess við forstöðumenn flestra þeirra ríkisstofnana, sem mestu máli skipta um afgreiðslu þess, eins og venja er til, auk þess við eins marga aðra, sem óskuðu eftir viðtali, sem frekast var unnt án þess að tefja störfin, og fjölda viðtala og athugana utan funda. Þá ræddi n. og athugaði að þessu sinni nokkuð á 7. hundrað bréfa og erinda, sem til hennar bárust frá ráðuneytum, samtökum, ýmsum stofnunum, félögum og einstaklingum. Ég vil leyfa mér að þakka nm. fyrir þeirra mikla starf, en þó alveg sérstaklega fyrir það, hve samstarfið hefur verið ágætt, og hefur það án efa orðið til þess að flýta störfunum og létta þau.

Nú verður ekki lengur um það deilt, að efnahagur þjóðarinnar sé traustari en hann hefur verið um langt skeið, enda njótum við nú trausts bæði hér heima og erlendis. Almenningur leggur fé sitt á vöxtu, svo að sparifjáreignin er hærri og vex hraðar en áður. Erlendis getum við fengið lán á frjálsum lánamarkaði. Og að lokum það, sem þeir, sem til þekktu á því sviði áður, eiga nærri því bágt með að trúa: við getum farið í banka erlendis og skipt íslenzkum peningum á réttu gengi gegn smávægilegum ómakslaunum. Þessa breytta viðhorfs gætir einnig mjög með vaxandi stórhug og bjartsýni um allar framkvæmdir. Þetta hefur einnig komið greinilega fram í þeim erindum, sem komið hafa til fjvn. Hitt er svo ekki að undra í landi, þar sem svo margt er ógert og er á frumstigi, þótt ekki verði allt gert í einu.

Hæstv. fjmrh. gerði svo ljósa grein fyrir þeim hækkunum, sem nauðsynlegar hafa reynzt á frv. frá því í fyrra, að ég tel ekki ástæðu til að rekja það hér, en vil aðeins geta þess, að athugun á frv. sýnir, að enn er gætt fyllsta sparnaðar í rekstri ríkisins og stofnana þess, og þeir áfangar, sem þegar hafa náðst á því sviði, hafa reynzt vel. Það sýnir, að sú stefna að breyta ekki til fyrr en að lokinni vandlegri athugun er rétt og gefur vonir um beztan árangur til frambúðar.

Um till. n. í heild er það að segja, að hækkanir tekjuliða eru gerðar í samráði við forstöðumann Efnahagsstofnunar ríkisins með hliðsjón af reynslu ársins í ár. Samtals eru tekjuliðir hækkaðir um tæpar 72 millj. kr. í till. n. Er það nokkru meira en lagt er til að gjaldaliðir hækki, en vitað er um nokkra gjaldaliði, sem bíða 3. umr. að venju, svo sem endurskoðun 18. gr. og styrki til flóabáta og vöruflutninga. Auk þess eru nokkur mál enn óafgreidd hjá n. og í nánari athugun. Má þar nefna mál atvinnudeildar háskólans og nokkur fleiri mál raunar. Gjaldaliðir eiga því enn eftir að hækka nokkuð frá þeim till., sem nú liggja fyrir.

Gjaldahlið frv. er í þessum till. hækkuð um tæpar 65 millj. kr. Þar eru þessir liðir stærstir: Til verklegra framkvæmda, vega, brúa, hafna og skóla, er lagt til að verði hækkað um rúmar 30 millj. Auk þess eru verklegar framkvæmdir á nokkrum öðrum liðum, t.d. á 20.gr., sem síðar segir frá, hækkaðar verulega. Og til atvinnumála, þ.e. til aflatryggingasjóðs vegna aflabrests togara, er lagt til að verði veittar 15 millj. kr. Aukið fé til verklegra framkvæmda og atvinnumála mun því vera nálægt 50 millj, kr., eins og lagt er til að frv. verði að lokinni 2. umr.

Þá mun ég víkja að einstökum greinum frv. og brtt. við þær.

Eru þá fyrst tekjuliðir 2. gr. Tekju- og eignarskattur hækki um 10 millj. kr., verðtollur um 10 millj., gjald af innlendum tollvörum um 1 millj., bifreiðaskattur um 1 millj., aukatekjur um 1 millj., stimpilgjöld um 2 millj., söluskattur að frádregnu gjaldi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 17.4 millj., innflutningsgjald um 10 millj., gjöld af bifreiðum og bifhjólum um 8 millj. og hluti af umboðsþóknun gjaldeyrisbankanna hækki um S millj.

3. gr. A.2. Tekjur Áfengis- og tóbaksverzlunar hækki um 10 millj., en frá dregst 1/2 millj. kr. hækkun á framlagi til gæzluvistarsjóðs, sem þannig verði 21/2 millj., þannig að nettóhækkunin verður 91/2 millj.

Þá er það 3. gr. A.1, póstur og sími. Samkv. nýrri áætlun frá póst- og símamálastjórninni er áætlað, að tekjur hækki um samtals 24.2 millj. kr., og gjöldin er áætlað að hækki um nákvæmlega sömu upphæð. Gjöldin hækka aðallega vegna launahækkana, eftir að fyrri áætlun var samin, en tekjurnar sumpart af aukinni notkun og fjölgun síma, en auk þess er gert ráð fyrir lítils háttar hækkunum gjalda til þess að mæta því, sem á vantar til þess að mæta nauðsynlegri hækkun útgjalda.

Næst kemur breyt. við 10. gr. Það er kostnaður við sendiráðið í París, hækkun um 78400 kr. vegna nauðsynlegrar aukningar á starfsliði.

Á 11. gr. er hækkun til áfengisvarnaráðs og Stórstúku Íslands um 50 þús. kr. til hvors aðila. Það er aðallega vegna þess, að þessir aðilar telja sér báðir nauðsynlegt að auka nokkuð erindrekstur sinn, og er þessi hækkun ætluð til þess að mæta hluta af þeim aukna kostnaði.

Til fangahjálpar er lagt til að hækki um 40 þús. kr. Það er vegna félagsins Verndar, sem talið er að hafi orðíð að verulegu gagni, en verið fjárvant.

Þá er næst borgardómarembættið. Þar er hækkun um 109266 kr. vegna fjölgunar dómara.

Nýr liður á þessari gr. er til kaupa á asdictækjum til landhelgisgæzlunnar, 150 þús. kr. Þetta eru tvö notuð tæki, sem ætlunin er að kaupa. Þau eru talin hentug til síldarleitar, og það, sem gerir enn þá æskilegra að kaupa þau, er það, að þau eru sömu tegundar og tæki í Ægi, og er þess vegna mjög hentugt vegna varahluta að kaupa þessi tæki.

12. gr. IV. A. hækkar um 150 þús. kr. Það er hluti af kostnaði vegna endurbóta á loftræstingarkerfi á röntgendeild landsspítalans.

B-liður á sömu gr. hækkar um 300 þús. kr. Það er vegna hluta kostnaðar af holræsagerð á Vífilsstöðum. Annar kostnaður á þessum lið lækkar um 120 þús. kr., en það er hluti sá, sem átti að ganga af þeim kostnaði til þessarar sömu holræsagerðar.

IV. F., geðveikrahælið að Kleppi, þar hækkar annar kostnaður um 100 þús. kr.

VI. liðurinn, til rekstrarstyrks sjúkrahúsa, hækkar um 250 þús. kr. Það er vegna fjölgunar legudaga á þeim sjúkrahúsum, sem þessi styrkur nær til.

XXVIII, byggingarstyrkur til Náttúrulækningafélags Íslands, heilsuhælis þess í Hveragerði, er lagt til að hækki um 100 þús. kr. Það er eina gigtlækningahælið í landinu, og er ætlunin að bæta við húsnæði, þannig að betri aðstaða verði fyrir sjúkraleikfimi og önnur aðstaða til þess að veita öðrum sjúklingum betri þjónustu en nú er fært vegna þrengsla.

Nýr liður á þessari grein eru 65 þús. kr. til vírusrannsókna. Það er aðallega til rannsókna á inflúensuvírus, sem hafa farið fram í stofnuninni á Keldum.

Þá er enn nýr liður á þessari sömu gr., 350 þús. kr. Það er vegna stofnkostnaðar rannsókna á geislavirkni í matvælum.

Og enn er nýr liður, 200 þús. kr. til kaupa á lækningatækjum í fámennum læknishéruðum samkv. lögum, sem samþ. voru á síðasta þingi, en þessi liður hafði af vangá fallið niður úr frv.

Þá kemur næst 13. gr. A. Framlagi til nýrra akvega er skipt á einstaka vegi. Þar er farið að langmestu leyti og hér um bil eingöngu að till. vegamálastjóra. Þó hefur í örfáum tilfellum verið fært til eftir óskum þm. í einstaka kjördæmum milli vega í sama kjördæmi.

II. e., til samgöngubóta á landi, hækkar um 4 millj. kr. Því fé hefur enn ekki verið skipt á einstaka vegi.

III. liður er óbreyttur að öðru leyti en því, að sá hlutinn, sem ætlaður er til smábrúa, er hækkaður um 1 millj. kr. Þessi hækkun er nauðsynleg að dómi vegamálastjóra, svo að unnt sé að byggja smábrýr, um leið og fjárlagabrú er byggð á sama vegi. Það stendur t.d. til að byggja eina fjárlagabrú á Sunnudalsá í Arnarfirði, en hún kemur ekki að fullum notum, nema smábrýrnar á sama vegi séu byggðar um leið, enda eru það hagkvæmari vinnubrögð. Verður þannig ódýrast að byggja brýrnar, að þær séu byggðar af sama vinnuflokki, sem kominn er á staðinn hvort sem er. Enn fremur er ætlazt til, að Eyrará í Kollafirði sé brúuð um leið.

Þá kemur V. liður, fjallvegir. Sá liður er hækkaður um 375 þús. kr.

XIII. liður, styrkur til að halda uppi byggð og gistingu fyrir ferðamenn, hækkar um 30 þús. kr., vegna þess að ætlazt er til, að bætt sé við stöðum, þar sem þetta er talið nauðsynlegt.

XIV. liður, til fyrrv. vegaverkstjóra, hækkar um 232 þús. kr. Þetta er samkv. áætlun skrifstofu vegamálastjóra. Hækkun þessi hefði samkv. venju annars komið á 18. gr. En upphæðin er sú sama eða jafnhá og samkv. þeim reglum, sem nú hafa verið settar og aðallega er farið eftir við ákvörðun upphæða þeirra, sem fara á 18. gr.

Nýir liðir á þessari grein eru: Vegna öryggisþjónustu með snjóbifreiðum 20 þús. kr. Það er ætlazt til, að þessi liður fari til Guðmundar Jónassonar, sem hefur haft tvær snjóbifreiðar í gangi undanfarin ár í þessu skyni, en fyrir utan það, sem þær eru notaðar til öryggisþjónustu, eru þær sáralítið eða ekki notaðar. Þykir því eðlilegt að styrkja þessa starfsemi nokkuð. — Aðrir nýir liðir eru: Ferjubryggjur 200 þús. kr. Mér hefur verið bent á, að það væri raunar eðlilegra, að þessi liður væri á 13. gr. C., og er það til athugunar fyrir 3. umr. — Nýr liður, til endurbóta veitingaskálans við Gullfoss 100 þús. kr. — Og enn nýr liður, til að koma á síma- eða talstöðvasambandi við sæluhús 200 þús. kr. Athugun hefur leitt í ljós, að í flestum tilfellum er mun ódýrara að koma á talstöðvasambandi en símasambandi, og póst- og símamálastjóri tjáði n., að vonir séu til þess, að það gæti orðið fullnægjandi með nýjum transistortækjum, sem nú eru komin á markaðinn. Við teljum, að það sé alveg sjálfsagt, að þetta sé reynt. Það er svo mikilsvert að koma talsambandi á frá sæluhúsum, að það er sjálfsagt að láta einskis ófreistað til þess, að það megi takast.

Þá kemur 13. gr. C. Framlagi er skipt á einstakar hafnir að till. vita- og hafnarmálastjóra, nema þar sem þm. kjördæmis hafa komið sér saman um annað í einstaka tilfellum, mjög fáum. — VIII. liður, til hafnarbótasjóðs, hækkar um 3.3 millj. kr. 2 millj. af því eru vegna skemmda í óveðrum samkv. áætlun vitamálastjóra. — Nýr liður, til greiðslu á eftirstöðvum lögboðins framlags ríkissjóðs, er 4 millj. kr.

Svo kemur 13. gr. D., E. og F. Fyrst er alþjóðaflugþjónustan og veðurþjónusta á Grænlandi og láranstöð í Færeyjum. Þetta eru leiðréttingar til samræmis við alþjóðasamninga. Liðirnir hækka um 55136 kr. samtals. — Tveir gjaldaliðir Veðurstofunnar eru líka á þessari gr., sem hækka um samtals 55 þús. kr. Það er vegna aukinnar veðurþjónustu og vegna leigu á fjarskiptarás. Veðurstofustjóri telur, að það væri réttara, að þessir liðir kæmu á B. 3 og B. 4 í frv., og er það til athugunar fyrir 3. umr. — Nýir liðir undir í eru til kaupa á prentvél til sjókortagerðar, 100 þús. kr., — það er byrjunarframlag, vélin kostar mun meira en þetta, — og til jarðfræðikortagerðar 20 þús. kr.

Þá kemur 14. gr. A. IV. k-liður. Það er menntaskólinn í Reykjavík. Kostnaður hækkar um rúmar 500 þús. kr. Verulegur hluti þessarar hækkunar stafar, að því er rektor tjáir okkur, af húsnæðisleysi skólans og því, að vegna þess að ekki var byggt viðbótarhúsnæði við hann, eins og gert hafði verið ráð fyrir í fyrra, hefur reynzt nauðsynlegt að leigja óhentugt húsnæði til bráðabirgða, og leiðir af því kostnað, bæði af leigunni og upphitun á því húsnæði, auk þess sem kennslustofur í þessu nýja húsnæði eru miklu minni en verið hefði í hinu nýja húsnæði, sem skólanum var ætlað, og leiðir af því, að bekkjardeildir þurfa að vera fleiri, sem aftur veldur því, að fleiri kennara þarf til að geta annað kennslunni.

VII. liður, handíðadeild kennaraskólans, hækkar um 60 þús. kr. Það er vegna nauðsynlegra áhaldakaupa, sem eru að nokkru leyti í sambandi við það, að deildin hefur fengið rýmra húsnæði til afnota við það, að hún hefur flutzt í gamla kennaraskólahúsið. Þetta er þó ekki nema hluti af þeim kostnaði, sem hin nýju áhöld kosta, en nokkurn hluta kostnaðarins hyggjast þeir fá með því að selja eldri áhöld, sem henta ekki lengur.

X. 33, til byggingar barnaskóla og skólastjóraíbúða, hækkar um 8 millj. 615 þús. kr. XI. 31, bygging gagnfræða- og héraðsskóla, hækkar um 4 millj. 244 þús. kr. — Og XI. liður 36, kostnaður við landspróf, hækkar um 22500 kr. Það er vegna launahækkana þeirra, sem við það starfa.

Nýir liðir á þessari grein eru: Til skolpleiðslu skólanna á Laugarvatni 500 þús. kr. Þetta er ekki nema hluti af þeim kostnaði, aðeins byrjunarframlag til þeirrar veitu, en ástandið þar í þessum málum er talið mjög slæmt og alveg óhjákvæmilegt að ráðast í þessa framkvæmd. — Þá er nýr liður á þessari gr., til leiðbeininga um starfsfræðslu utan Reykjavíkur, en mér er í raun og veru tjáð, að samkv. því, sem venja er erlendis, þar sem veitt er fé til slíks úr ríkissjóði, þá muni það vera venja að hafa það undir landbúnaðareða atvinnumálum. Má vera, að réttara sé að hafa það svo hér. Enn fremur nýr liður, til skólastjóramóts, 30 þús. kr. til hvors liðar.

Þá er XV. 2, framlag til íþróttasjóðs. Er lagt til, að það hækki um 750 þús. kr. Það er talið mjög nauðsynlegt að hækka framlagið til íþróttasjóðs. Íþróttamannvirki hafa verið byggð mörg undanfarið og eru í byggingu, og vantar mikið á, að íþróttasjóður hafi getað greitt hlutfallslega eins og heimilt er til þessara mannvirkja.

Þá er XV. 7, til íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar og enn fremur til skólans í Reykjadal. Er lagt til, að fjárveitingar til þeirra hækki um samtals 45 þús. kr. Framlagið til skóla Sigurðar Greipssonar er rekstrarstyrkur, en framlagið til íþróttaskólans í Reykjadal er til bygginga.

Þá er enn fremur hækkun á 11. lið og umorðun á liðnum. Fjárveitingin renni til utanferða og námskeiða íþróttamanna, og er lagt til, að hún hækki um 70 þús. kr.

Nýr liður á þessari grein: til ólympíufarar íþróttamanna 250 þús. kr.

XVIII. liður, barnaverndarráð, er lagt til að hækki um 20 þús. kr., og XXIII. liðurinn, til Skáksambands Íslands, er lagt til að hækki um 25 þús. kr.

Þá kemur næst 14. gr. B. I. 2, bókakaup landsbókasafns o.fl. — Er lagt til, að fjárveiting hækki um 100 þús. kr. Þessi liður hefur undanfarið reynzt of lágur að sögn landsbókavarðar, og hefur verið svo naumt um fjárráð safnsins, að ekki hefur einu sinni verið hægt að fullnægja því að binda inn bækur safnsins undanfarið, að hann segir.

Þá kemur nýr liður: ljósritun kirkjubóka 25 þús. kr. Það er talið nauðsynlegt vegna þess, að ætlazt er til, að fæðingarvottorð og ýmsar fleiri vottorðagjafir fáist framvegis hjá þjóðskránni, en ekki í þjóðskjalasafni, eins og verið hefur, en til þess þarf þjóðskráin að fá eintak eða eftirrit af kirkjubókum.

Þá er B. III. 13, vegna aldarafmælis þjóðminjasafns, liðurinn hækki um 25 þús. kr.

Nýr liður: til skólaminjasafns (stofnkostnaður) 25 þús. kr. Það mun vera til nokkuð af munum, sem ætlunin er að fari til þessa safns, og talið er hætt við, að þeir glatist, ef ekki er stofnað safnið. Nú vill svo vel til, að húsnæði er auðfengið í nýja kennaraskólanum, og er ætlunin að setja þetta safn upp þar.

V. 8, náttúrugripasafn, hækkun um 15 þús. kr. Það er leiðrétting nánast, prentvilla, sem orðið hafði þarna, hafði lækkað frá fyrra ári, án þess að breyting hefði orðið á kostnaði.

Þá kemur XI. liður, fræðslumyndasafn ríkisins. Er lagt til, að það hækki um 200 þús. kr. Þetta er einkum til þess að gera safninu fært að kaupa fleiri kvikmyndir um starfsháttu, sem eru að hverfa. Safnið hefur verið svo heppið að geta keypt nokkuð af þeim myndum, sem teknar hafa verið af starfsháttum, sem nú eru að hverfa úr þjóðlífinu, og hafa fengið þær með mjög miklu tækifærisverði, að mér er sagt. Þeir hafa keypt nokkuð af myndum, sem Ósvaldur Knudsen hefur tekið, og fengið þær á 6 þús. kr., myndir, sem kostar margfalt meira að taka, en hann mun hafa haft nokkuð af kostnaði upp með því að sýna þessar myndir og selt þær síðan safninu, eftir að hann var búinn að fá upp nokkuð af kostnaðinum þannig. En þó að safnið hafi fengið þessar myndir svona ódýrt, segja forstöðumenn þess mér, að þeir hafi ekki einu sinni haft fé til þess nú undanfarið að kaupa allar þær myndir, sem þeir teldu mjög æskilegt að kaupa á þessu lága verði, og er þessi hækkun að nokkru ætluð til að bæta úr því. En einnig er talið mjög mikilsvert, að þá fæst væntanlega úr því skorið um leið, hvað til er af slíkum myndum og hvað helzt vantar að kvikmynda af starfsháttum, sem nú eru að glatast. — Í öðru lagi er þetta fé ætlað til að efla litskuggamyndakost safnsins, en litskuggamyndirnar eru sagðar mjög vinsælar og mikil eftirspurn eftir þeim, bæði hér heima í ýmsum skólum og einnig hefur verið nokkuð spurt eftir þeim erlendis frá, og hefur stjórn safnsins mikinn áhuga á að auka þetta safn. Þeir eru reyndar svo bjartsýnir, að þeir búast jafnvel við, að þessi þáttur starfseminnar gæti að nokkru staðið undir sér, ef þeir aðeins fá þann stofnkostnað, sem nauðsynlegur er til þess að gera þessa starfsemi eins myndarlega og þeir telja nauðsynlegt.

Þá er enn fremur nýr liður, 5 þús. kr., til þess að kaupa íslenzkar bækur fyrir norrænt bókasafn í París.

Nokkrir liðir eru enn á þessari grein. Það er Vísindafélag Íslendinga, Félag íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, Íslendingafélagið þar, þátttaka í útgáfu menningarsögu Norðurlanda. Þessir liðir hækka samtals um 73 þús. kr. Nýir liðir eru: Til útgáfu manntalsins 1890 30 þús. kr. Þessi útgáfa er talin mjög nauðsynleg. Af manntalinu er aðeins til eitt eintak, en það er mikið notað af fræðimönnum, og er því hætt við skemmdum, ef ekki er úr bætt, og er talið, að það sé fullnægjandi að gera af því þessa ljósritun, sem ætlunin er að gera, og talið mjög heppilegt og verður að teljast tiltölulega ódýrt. — Þá er enn fremur nýr liður: til Jóns Dúasonar, hefur að vísu verið áður á fjárlögum, 60 þús. kr., en er nú tekið upp aftur. — Nýr liður: til Halldóru Bjarnadóttur til útgáfu bókar hennar um vefnað. — Og enn nýr liður: Til íslenzks Linguaphone-námskeiðs 50 þús. kr. — Til útgáfu íslenzkra bókmennta á ensku er einnig nýr liður, 50 þús. kr. Þetta er þáttur í útgáfustarfsemi, sem hafin hefur verið að frumkvæði Norðurlandaráðs, að þýða úrvalsbækur norrænar á enska tungu til þess að útbreiða þannig þekkingu á bókmenntum Norðurlandaþjóðanna. — Og nýr liður: Til Ingvars Brynjólfssonar til íslenzk-þýzkrar orðabókar, 25 þús. kr. Þessi liður hefur raunar áður verið á fjárlögum, en var þá bundinn við ákveðið árabil. Nú hefur það reynzt svo í framkvæmd. að þessi orðabók hefur verið meira verk eða stærri en í upphafi var ætlað, og er því nauðsynlegt að halda enn áfram að styrkja hana, ef á að geta komið að gagni það mikla starf, sem þar er búið að vinna, og bókin komið út. — Þá er XIII. liður, til skálda, rithöfunda og listamanna. Er lagt til, að hann hækki um 300 þús. kr. Það er til þess, að þessir styrkir geti hækkað í svipuðu hlutfalli og laun hækka á þessu árí. — Nýr liður enn: Vegna norrænnar listsýningar í París, til greiðslu á skuld, 49840 kr. — Þá er XLII. liður, rómverskur, til leikstarfsemi. Er lagt til, að hann hækki um 192 þús. kr. Að mestu er það vegna margra nýrra umsókna: Er lagt til, að styrkir eftir þessum lið séu veittir gegn a.m.k. jafnmiklu framlagi annars staðar að, enda skili hlutaðeigandi félög fullnægjandi starfsskýrslum til menntmrn. — Þá kemur 14. gr. B. XLIV, til tónlistarskóla. Þessir liðir hækka samtals um 260 þús. kr. að till n., sem menntmrn. skipaði í haust í samráði við skólastjóra tónlistarskólanna, sem þá voru hér á fundi. Síðar mun von á till. frá n. um framtíðarskipun þessara mála. — Enn fremur er lagt til, að tvær lúðrasveitir á þessum lið hækki um samtals 20 þús. kr.

Nýir liðir á þessari gr. eru: Til Maríu Markan Östlund 10 þús. kr. til söngkennslu og til Ketils Ingólfssonar til náms í píanóleik 8 þús. kr. Það þykir sérstök ástæða til að styðja hann til þess, en hann stundar jafnframt háskólanám á öðru sviði. En samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um hann, stundar hann þetta hvort tveggja af jafnmiklu kappi og með góðum árangri. — Þá er til Jóns Sigurðssonar vegna framlags til atvinnusögu sjávarútvegsins 10 þús. kr. — Þá er liður LXXV, endurbætur á Þingvöllum, tveir undirliðir. Er lagt til, að þeir hækki um 160 þús. kr. — Nýr liður á þessari gr.: Zontaklúbbur Akureyrar 50 þús. kr. Það er vegna lóðarkaupa fyrir Nonnahús.

15. gr.: Nýr liður: til byggingar sumarbúða við Vestmannsvatn 100 þús. kr.

16. gr. A.: Búnaðarfélagið er lagt til, að hækki um 400 þús. kr. Það er aðallega vegna aukinnar húsaleigu. Það er flutt í rýmri húsakynni en það áður hafði, eins og kunnugt er, og er nokkur kostnaður, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af þeim flutningi.

7. liður, verkfæranefnd, er lagt til að hækki um 100 þús. kr. — 9. liður a. 2: verðlaun á nautgripasýningum, er lagt til að hækki um 30 þús. kr. — Og 9. liður e hækkar um 214 þús. kr. vegna tveggja nýrra stöðva, sem verið er að byggja og taka í notkun á næsta ári.

17. liður á þessari grein, fyrirhleðslur, hækkar um 355 þús. kr. Það eru nokkrir nýir staðir, þar sem nauðsynlegt er talið að bæta við vegna skemmda, sem orðið hafa. Enn fremur eru á einstaka lið hækkanir, vegna þess að framkvæmdir hafa reynzt dýrari en áætlað var.

18. liður, sjóvarnargarðar, er lagt til að hækki um 50 þús. kr., vegna þess að tveir nýir staðir bætast við.

Þá er 19. liður á þessari grein, sandgræðsla. Er lagt til, að hann hækki um 250 þús. kr., aðallega vegna flugvélarkaupa til sáningar og áburðardreifingar úr lofti. Það hefur farið mjög mikið í vöxt að nota flugvél til þeirra hluta, og eftirspurn eftir þeirri einu flugvél, sem til hefur verið til þeirra nota í landinu, hefur farið mjög vaxandi og ekki verið hægt að anna henni. Telur forstöðumaður sandgræðslunnar óhjákvæmilegt að kaupa aðra vél, bæði til að fullnægja eftirspurninni og eins til þess, að það sé þó til meira en ein vél í landinu til þessara hluta. En kostnað af sjálfu verkinu bera að nokkru þeir, sem óska eftir aðstoð sandgræðslunnar til þessa starfs.

25. liður, veiðimálaskrífstofan, er lagt til að hækki um 71231 kr. Það er vegna þess, að talið er óhjákvæmilegt að auka nokkuð starfskrafta þeirrar skrifstofu vegna sívaxandi starfa við eftirlit og leiðbeiningar um veiðimál.

28. liður c, styrkur til að stunda dýralækningar, er lagt til að hækki um 13400 kr. Það er vegna þess, að talið er óhjákvæmilegt vegna skorts á dýralæknum í landinu að styrkja nokkru fleiri menn til að stunda þessi störf en til þessa hafa haft styrk til þess.

32. liður b, sauðfjársjúkdómavarnir, er lagt til að hækki um 200 þús. kr. vegna niðurskurðar. Sauðfjársjúkdómanefnd fór að vísu fram á nokkru hærri upphæð, en það var áætlunarupphæð og verður þá að bæta það upp seinna, ef kostnaður reynist hærri en þessu nemur.

40. liður, b. 1, Hvanneyri, hækki um 81600 kr. vegna vélfræðikennslu, sem tekin hefur verið upp við skólann og er talin alveg óhjákvæmileg, sérstaklega með tilliti til vaxandi vélanotkunar bænda. — 7. liður, til tilrauna, hækkar um 40 þús. kr.

41. liður, til húsmæðraskóla utan kaupstaða, hækki um 167 þús. kr. vegna aukins viðhalds á þessum skólum. Framlag til byggingar húsmæðraskóla, þessara sömu skóla, er lagt til að hækki um 510 þús. kr.

43. liður, Kvenfélagasamband Íslands, er lagt til að hækki um 60 þús. kr. Það er vegna fyrirhugaðrar aukningar á starfsemi sambandsins. Sambandið telur, að mjög mikið sé óskað eftir, að ráðunautarstarf sambandsins sé aukið, og hyggst það verja til þess því fé, sem það kann að fá til viðbótar við það, sem það hefur haft.

47. liður, til landþurrkunar, er ætlað að hækki um 60 þús. kr.

Þá kemur 16. gr. B. 1. liður, Fiskifélag Íslands, er lagt til að hækki um 250 þús. kr. vegna rannsóknarstofu og leiðbeininga í niðursuðuiðnaði. Þetta var sá liður, sem Fiskifélagið lagði langmesta áherzlu á að fá hækkaðan. Það er, eins og kunnugt er, verið að verja milljónatugum til þess að reisa og hefja starfsemi í niðursuðuiðnaði hér á landi, og er talið mjög nauðsynlegt, að þegar frá upphafi sé fylgzt mjög vel með þeirri starfsemi, gerðar prófanir fyrir verksmiðjurnar, og enn fremur hefur rannsóknarstofa Fiskifélagsins þegar hafið nokkra leiðbeiningastarfsemi fyrir þá, sem starfa í þessum verksmiðjum.

Þá er lagt til, að 5. liður, fiskirannsóknir, hækki um 500 þús. kr. Það er talið alveg nauðsynlegt vegna þátttöku í alþjóðarannsóknum á hrygningarstöðvum þorsks og karfa, sem þegar mun raunar hafa verið samið um að Íslendingar tækju þátt í að sínum hluta, en þær eiga að fara fram hér á hafinu milli Íslands og Grænlands.

8. liður, til fiskileitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna, er lagt til að hækki um 2 millj. kr. Það hefur komið í ljós undanfarið, að það er æ meiri nauðsyn á að halda uppi fiskileit og flotinn byggir æ meira á því að vera aðstoðaður við veiðiskapinn, en þetta er mjög dýr starfsemi, og því er talið alveg óhjákvæmilegt að hækka þennan lið um 2 millj, kr.

Þá kemur nýr liður á þessari gr. Það eru 15 millj. kr. til aflatryggingasjóðs vegna aflabrests togara.

12. liður hækkar um 100 þús. kr. vegna aukins kostnaðar við fiskmatið.

16. gr. C. 5, iðnfræðsluráð, er lagt til að hækki um 46 þús. kr. Það var komið svo þar. að það var ómögulegt að fá iðnfulltrúa til starfa vegna þeirrar lágu greiðslu, sem þeir fengu fyrir störf sín. og var talið, að kaupið væri orðið svo lágt, að þeir hefðu beinan kostnað af störfunum, fyrir utan það, að þeir fengju ekkert fyrir sjálft starfið. Er þess vegna talið alveg óhjákvæmilegt að hækka þennan lið um þessar 46 hús. kr.

16. gr. D. X, jarðhitasjóður, hækki um 200 þús. kr., en liðurinn jarðboranir að Lýsuhóli falli niður í staðinn. Nettóhækkunin verður þó þarna 125 þús. kr.

16. gr. E.: Nýir liðir: Til kornræktartilrauna er lagt til að verði 200 þús. kr. Endurnýjun bifreiða rannsóknaráðs 55 þús. kr. — IV. 1, til Verzlunarskóla Íslands, er lagt til að hækki um 230 þús. kr. Það er vegna fjölgunar nemenda í skólanum og aukins kostnaðar vegna nokkuð hækkaðra launa kennara. — Liðurinn IV. 2, Samvinnuskólinn, er lagt til að hækki um 100 þús. kr. Það er vegna aukins kostnaðar, aðallega vegna hækkunar launa kennara.

Þá kemur 17. gr. Nýir liðir eru um vatnsöflun á tilteknum stöðum, 100 þús. kr. Það er til samræmis við það, sem hefur verið gert í líkum tilfellum á undanförnum árum. Annar nýr liður, kortagerð af ræktunarlandi á Suðurlandi 40 þús. kr. Þessi kortagerð mun raunar þegar hafa farið fram, en farið nokkuð fram úr áætlun. Bændur þeir, sem þarna eiga hlut að máli, hafa þegar greitt sinn hluta, en það er nauðsynlegt að styrkja þetta með framlagi úr ríkissjóði. Þá er enn fremur nýr liður, skipulag miðbæjar Akureyrar. Það er hluti kostnaðar, 100 þús. kr. Það er til samræmis við það, sem gert hefur verið á undanförnum árum, bæði til skipulags Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Þá kemur III. 5, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Er lagt til, að það hækki um 25 þús. kr.

V. 3, b: Elliheimilum hefur fjölgað um eitt, og er því talið nauðsynlegt að hækka styrkinn sem því svarar eða um 40 þús. kr. — Þá kemur V. 8. a. Barnavinafélagið Sumargjöf. Er lagt til, að styrkur til þess hækki um 85 þús. kr. — Nýr liður: til byggingar fjögurra dagheimila, er lagt til að verði 240 þús. kr. V. liður 14. b, bækur á blindraletri, það er lagt til, að sá styrkur hækki um 37 þús. kr. — Nýr liður, til félagsmálastofnunar, er 25 þús. kr. V. liður 1.6, styrkur til Dýraverndunarfélags Íslands, er lagt til að hækki um 15 þús. kr. Og V. 17. a, Ungmennafélag Íslands, er lagt til að hækki um 75 þús. kr. — V. 17. c, til Bandalags skáta, er lagt til að hækki um 100 þús. kr. — Þá kemur nýr liður á þessari gr.: til Skátafélagsins Hraunbúa 25 þús. kr. Það er vegna kaupa á sporhundi, sem ætlunin er að nota til þess að leita að týndu fólki.

Þá kemur 20. gr.: III, til byggingar stjórnarráðshúss, er lagt til að hækki um 1 millj. kr.

Nýr liður: til byggingar og endurbóta að Kristnesi er lagt til að verði veittar 400 þús. kr. Það hefur farið fram nokkur endurskipulagning á heilsuhælinu í Kristnesi. Þar er fullt af sjúklingum núna, að vísu ekki berklasjúklingum, heldur hefur það tekið við langlegusjúklingum til þess að létta á öðrum sjúkrahúsum, og hefur það gefizt mjög vel. En þar sem sjúkrahúsið er nú fullskipað, eru nauðsynlegar á því nokkrar endurbætur, og það er ætlunin, að þessar 400 þús. kr. fari til þess, að unnt verði að byrja á þeim nú í sumar, en til viðbótar við þær mun hælið hafa í sjóði einar 700 þús. kr., sem það gæti fengið lánaðar a.m.k. til bráðabirgða og hafið þær byggingar, sem nauðsynlegt er talið að byggja þegar í sumar. Þetta var sjóður, sem safnað hafði verið og var ætlunin að verja að nokkru leyti til jarðborana fyrir hælið. En nú eru líkur til, að það mál verði kannske leyst á annan hátt, og er þessi sjóður a.m.k. í svipinn tiltækur til þessara hluta.

Þá er X, til bygginga á Keldum, hækki um 300 þús. kr. Það er talið, að með því að hækka liðinn um þessar 300 þús. kr. sé hægt að ná áfanga þarna á Keldum, taka í notkun eina hæð í húsinu, sem verið er að byggja fyrir stofnunina, og er það talið stofnuninni mjög mikils virði.

Þá kemur XI. liður 8, Hvanneyri. Er lagt til, að hann hækki um 900 þús. kr. Það er til bygginga á Hvanneyri. Heimavistin á Hvanneyri er orðin mjög gömul og ófullnægjandi. Það eru nauðsynlegar á henni endurbætur og talið alveg nauðsynlegt að byrja að byggja þar viðbót, og er von n., að það muni takast með þessari fjárveitingu.

Nýr liður: Íþróttakennaraskóli Íslands, heimavist 500 þús. kr. Upphæðin er miðuð við nýja teikningu eða endurskoðun þeirrar, sem fyrir liggur. En húsnæðismál heimavistar Íþróttakennaraskóla Íslands eru mjög slæm. Nemendurnir sofa, að mér er sagt, í gömlum skúr, sem upphaflega var ekki einu sinni ætlaður til íbúðar, a.m.k. ekki að vetrarlagi, og er því talið alveg óhjákvæmilegt að byrja á byggingu heimavistar við skólann.

Þá kemur XII. liður, til bygginga á prestssetrum. Hann óskast tekinn aftur til 3. umr. til frekari athugunar. — XV. liður er lagt til að hækki um 500 þús. kr. Það er til bústaða héraðsdómara. — XVIL, ríkisfangelsi, er lagt til að hækki um 1 millj. kr.

XVIII. liður orðist svo: „Til að lána til rafstöðva á þeim svæðum, er ríkisrafveitur ná ekki til“ — og er lagt til, að liðurinn hækki um 500 þús. kr. Það framlag, sem áður var á þessum lið, var einungis til byggingar dísilrafstöðva á þessum svæðum, en nú er sýnt, að ýmsir staðir á landinu eru þannig settir, að það er ekki von til þess, að rafveitur ríkisins nái til þeirra á næstunni, en hins vegar eru þar sums staðar ákjósanleg skilyrði til rafvirkjunar fyrir jafnvel heila hreppa. Ég veit, að svo hagar til t.d. á Snæfjallaströnd, að þar hafa þeir hafið mikinn undirbúning að því að virkja eina á fyrir allan hreppinn. Þetta eru framkvæmdir, sem verða nokkuð dýrar og verða þeim sennilega um megn, nema hægt sé að styrkja þá á svipaðan hátt og aðra til slíkra framkvæmda, og í því skyni er þessi hækkun um 500 þús. kr. gerð, til þess að það sé mögulegt.

XXIII. liður, til embættisbústaða dýralækna, er lagt til að hækki um 100 þús. kr.

Þá er nýr liður: til að lána til landkaupa í kauptúnum 2 millj. kr.

Þá kemur 22. gr.: III. Er lagt til, að símum fyrir blinda fjölgi um fimm. — XXV. Orðalagið verði þannig, að Krabbameinsfélag Íslands geti fengið 25 aura af hverjum seldum vindlingapakka, sem ætlazt var til að yrði með merki félagsins, en tæknilegir örðugleikar komu í ljós, þannig að ekki var unnt að setja merki félagsins á pakkana að þessu sinni.

Nýir liðir: Að gefa sveitarsjóði Höfðahrepps eftir greiðslu tveggja skuldabréfa. — Að ábyrgjast 970 þúsund þýzkra marka lán fyrir Guðmund Jörundsson útgerðarmann, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar. Það mun ætlun Guðmundar að setja hraðfrystitæki til þess að heilfrysta fisk í hinn nýja togara sinn og freista þess, hvort ekki er unnt með því móti að gera reksturinn hagkvæmari en reynzt hefur til þessa. – Að festa kaup á listaverki handa Bernarsambandinu í Genf, allt að 50 þús. kr. Það er ætlunin að gefa þetta listaverk til byggingar þeirrar, sem Bernarsambandið er að koma sér upp í Genf. — Enn fremur heimild til að greiða Sigurði Ólafssyni flugmanni 200 þús. kr. vegna flugvélakaupa. Enn fremur heimild til að selja gamalt pósthús o.fl. í Hafnarfirði. — Þar næst kemur heimild til að gefa Slysavarnafélagi Íslands eftir lán, að upphæð 600 þús. kr., sem varið var til flugvélakaupa. Í n. kom fram sú skoðun, að eðlilegt væri, að Slysavarnafélagið leysti ríkið, um leið og lánið yrði eftir gefið, frá leigusamningi um Sæbjörgu, sem fullnægir ekki lengur þeim kráfum, sem gerðar eru til slíkra skipa, vegna þess að aðstæður eru gerbreyttar, frá því að skipið var byggt. — Enn fremur heimild til að kaupa plöntusafn Eyþórs Einarssonar. — Að kaupa grasasafn Helga Jónassonar. —- Að taka allt að 3 millj. kr. lán til aukningar á húsnæði ríkisspítalanna. — Að taka allt að 1 millj. kr. lán til byggingar fyrir rannsóknarstofu háskólans við Barónsstíg. — Að ábyrgjast lán allt að 35 millj. kr. til bygginga og endurbóta á síldarverksmiðjum og síldarumhleðslustöðvum. — Að greiða úr ríkissjóði hluta af halla Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Þá er þessum brtt. lokið.

Að lokum legg ég til, að frv. með þeim breytingum, sem á því verða gerðar, verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.