07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2910)

43. mál, endurskoðun laga um lánveitingar til íbúðabygginga

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Með till. þeirri til þál., sem hér er til umr. á þskj. 43, er lagt til, að Alþingi kjósi mþn., er endurskoði öll gildandi lög unz lánveitingar til íbúðabygginga í landinu og undirbúi nýja löggjöf í þeim efnum. Lagt er til, að markmið þeirrar löggjafar verði, að lánsfé til hverrar íbúðar af hóflegri stærð nemi 3/2 hlutum byggingarkostnaðar, að heildarlán til hverrar íbúðar verði sem jöfnust, hvar sem menn búa, og að mönnum verði veitt nokkurt lánsfé til endurbóta á húsum eða til að kaupa hús til eigin nota.

Það mun varla orka tvímælis, að húsnæði er meðal allra brýnustu nauðsynja manna. Enginn efast um, að það muni vera mikil raun að skorta fæði eða klæði. En er það miklu minni raun að skorta húsaskjól? Flestir munu finna til þeirrar skyldu sinnar að stuðla að nægjanlegri atvinnu í landinu fyrir alla, svo að menn hafi nóg að bíta og brenna. En þessi skylda nær til húsnæðisins engu síður en til matar og fata. Allt eru þetta hliðstæðar nauðsynjar, og enginn getur án þeirra verið.

Sem betur fer hefur þjóðin um langt skeið búið við næga atvinnu og um fæðis- og klæðisskort munu vera fá dæmi í seinni tíð, þótt lífskjörum sé misskipt enn í dag. Um húsnæðismálin verður ekki sama sagt. Húsnæðisskortur er enn við lýði og fer síður en svo minnkandi. Enn eru gerðar ráðstafanir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. í þessu felst sú óglæsilega viðurkenning, að enn búi fólk í heilsuspillandi íbúðum þrátt fyrir framfarirnar og velmegunina. Það er hins vegar eðlilegt, að meira fjárhagslegt átak þurfi til að byggja sér íbúð en til að afla fæðis og klæða, því að íbúðin er byggð til langs tíma, en fæðis og klæða er aflað svo að segja fyrir líðandi stund. En samt kemst enginn undan því að sjá sér og sínum fyrir húsnæði. Hús og heimili er daglegt brauð, eins og stóð í Helgakveri, og þessa „brauðs“ verðum við að afla eina og annarra lífsnauðsynja.

Möguleikar manna til að byggja sér íbúðir fara fyrst og fremst eftir þrennu: kostnaði við bygginguna, lánsfénu og eigin fjármagni. Altmörg undanfarin ár hefur Hagstofa Íslands birt tölur um byggingarkostnað í landinu. Þessar tölur hafa birzt reglulega í Hagtíðindum síðan 1957. Þar er m.a, greint frá kostnaðarverði hvers rúmmetra í íbúðarhúsi. Að sjálfsögðu byggja menn misstórar íbúðir, en skv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá Efnahagsstofnun ríkisins, eru algengustu stærðir nýrra íbúða í bæjum 350–370 rúmmetrar, en í sveitum rúmlega 400 rúmmetrar, og meðalstærð íbúða í landinu telur hún vera um 370 rúmmetra. Hver rúmmetri í íbúðarhúsum skv. skýrslum Hagstofunnar kostaði í júnímánuði ár hvert nú að undanförnu sem hér segir: 1957 1079 kr., 1958 1146 kr., 1959 1225 kr., 1980 1379 kr., 1961 1418 kr. og 1962 1631 kr. Meðalverð 370 rúmmetra íbúðar á árunum 1957–1959 hefur þá verið um 425 þús. kr. Meðalverð jafnstórrar íbúðar á árunum 1960 —1962 er hins vegar um 546 þús. kr. Þessi íbúð hefur hækkað í verði á síðustu þremur árunum um 150 þús. kr. Þótt húsbyggjendur vildu komast hjá að reisa sér hurðarás um öxl í byggingarkostnaði, geta þeir varla annað gert en dregið úr kröfum sínum og byggt sér minni íbúð en hér hefur veríð nefnd. Ef byggð er nú 330 rúmmetra íbúð, kostar hún nú um 538 þús. kr. og er 180 þús. kr. dýrari en sams konar íbúð var fyrir fjórum árum. Slík íbúð hefur hækkað í verði á einu ári, frá því í júní í fyrra þar til í júní í sumar, um 70 þús. kr. Svo ör er þróunin, að lagabreytingin á síðasta þingi um hækkun íbúðalána úr 100 þús. í 150 þús. kr. dugir ekki nema fyrir 8–9 mánaða hækkun á byggingarkostnaði. Í skýrslum Hagstofunnar, sem ég vitnaði í, er áætlað, að íbúð í svokölluðum sambyggingum sé um 10% ódýrari en hér hefur verið nefnt. En bæði vegna þess, að þar er um áættaðan byggingarkostnað að ræða, og svo sérstaklega hins, að um sambyggingar er ekki að ræða nema á fáum stöðum á landinu og þá aðallega hér í Reykjavík, hefur sú áætlunartala minna almennt gildi.

Þegar meta skal möguleika manna til að eignast þak yfir höfuðið, þá er ekki nóg að líta aðeins á byggingarkostnaðinn. Það þarf jafnframt að gæta að því, hvernig lánsféð dugir mönnum til að mæta þessum kostnaði. Um tvær stofnanir er aðallega að ræða, sem lána til íbúðabygginga, stofnlánadeild Búnaðarbankans, sem veitir lán til íbúðarhúsa í sveitum, og byggingarsjóð ríkisins hjá húsnæðismálastjórn, sem lánar til íbúða í bæjum. Ætlunin mun vera, að báðar þessar lánastofnanir hækki nú lán til hverrar íbúðar upp í 150 þús. kr., og hefur húsnæðismálastjórnin veitt örfá lán af þeirri upphæð nú við síðustu úthlutun lána.

Til eru nokkrar aðrar stofnanir, sem veitt hafa lán til íbúðarhúsa. Lífeyrissjóðir hafa veitt lán og nokkru hærri lán en hinar stofnanirnar. Þeir, sem þau lán hafa fengið, eru að því leyti betur settir en ýmsir aðrir, að þeir hafa einnig getað fengið nokkurt lán hjá húsnæðismálastjórninni, og mun þeim þó ekki af veita. Lífeyrissjóðirnir hafa því gert mikið gagn í þessum efnum. En þess ber að gæta, að þeir lána að sjálfsögðu ekki öðrum en þeim, er greiða til þeirra lífeyrissjóðsgjald. Sjóðirnir eru myndaðir að verulegu leyti af árgjöldum þessara manna og eru því að þessu leyti þeirra eign. Auk þess er hlutverk lífeyrissjóðanna allt annað en að vera lánastofnanir, og það hlutverk, þ.e.a.s. lífeyrisgreiðslurnar, þyngist á sjóðunum, eftir því sem árin líða, og að sama skapi dregur úr möguleikum þeirra til lánveitinga.

Sparisjóðirnir munu eitthvað hafa lánað til íbúðabygginga, en bæði er, að þeir geta af eðlilegum ástæðum ekki lánað nema til skamms tíma, sem eru erfiðir kostir fyrir húsbyggjendur, og að veðsetningar hindra oft, jafnvel oftast, að lán úr byggingarsjóði fáist einnig til þeirra íbúða, sem sparisjóðirnir lána til.

Byggingarsjóður verkamanna lánar til verkamannabústaða, en sá sjóður hefur yfir svo litlu fjármagni að ráða, að ekki er nema um sárafá lán að ræða, sem sjóðurinn getur veitt, og það jafnvel ekki nema annað hvert ár.

Einstök bæjarfélög, en þó aðallega Reykjavík, hafa veitt mönnum lán til íbúðabygginga samkv. l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Er þá helmingur lánsfjárins frá bæjarfélaginu, en hinn helmingurinn kemur frá ríkinu.

Auk þessa veitir húsnæðismálastjórn einnig lán til þessara íbúðabygginga. Sú regla, sem nú hefur verið upp tekin hjá húsnæðismálastjórn í þessum efnum, a.m.k. hér í Reykjavík, er þannig, að út á tveggja herbergja íbúð lánar bæjarfélagið 110 þús. kr., ríkið jafnháa upphæð, 110 þús., og húsnæðismálastjórn síðan 80 þús., eða aus eru þetta 300 þús. kr. lán út á tveggja herbergja íbúð. Út á þriggja herbergja íbúð er 120 þús. kr. lán frá bæjarfélaginu, 120 þús. kr. frá ríkinu og 100 þús. kr. frá húsnæðismálastjórn, eða samtals 340 þús. kr. En eins og áður er sagt, eru þessi lán eingöngu veitt þeim, er búa í heilsuspillandi húsnæði.

Af þessu, sem ég hef hér nefnt, er ljóst, að lánveitingar til íbúðabygginga ganga æði misjafnt yfir. Þar sem mikill fjöldi manna á hlut að lífeyrissjóðum, eru heildarlán til íbúðabygginga mun meiri en þar sem þessu er ekki til að dreifa. Svipað má segja um aðstöðu einstaklinga til lánsfjár. Það er þó fjarri því, að um nokkra ofrausn sé að ræða í lánveitingum til íbúðabygginga, ekki heldur þar sem þessar lánveitingar eru einna ríflegastar. En hinu má ekki gleyma, að þar sem lánsfjárskorturinn er sárastur, þar verður fyrst að bæta úr. Og þar á ég við þá húsbyggjendur, sem enga von hafa um annað lánsfé en einar 150 þús. kr., hvort sem þær eru frá húsnæðismálastjórn, frá stofnlánadeild landbúnaðarins eða annars staðar frá.

Þegar mjög hófleg íbúð kostar um 500 þús. kr. og lánsfé er ekki nema 150 þús., þá þarf eigið framlag þess, sem byggir, að vera um 350 þús. Menn reyna að ráða við þennan mikla vanda vegna þess, hve þörfin er mikil, með því að hafa íbúðirnar minni. En þótt íbúðin sé ekki nema um 300 rúmmetrar, sem er langt fyrir neðan meðalstærð, þá kostar hún samt um 490 þús. kr., og þarf þá eigið framlag að vera um 340 þús. kr., ef lánsfé er 150 þús. En hvaða fólk er það, sem mesta þörfina hefur fyrir íbúðarhúsnæði? Auðvitað er það unga kynslóðin, fólkið, sem er að stofna heimili, þótt menn á öllum aldri geti þurft að byggja sér íbúð. Þetta fólk, þetta unga fólk, það getur ekki aldursins vegna verið búið að safna miklu fé. Flest hefur það stundað nám og sumt um langt skeið, svo að það er viðbúið, að þar sé meira um skuldir en eignir, þegar að því kemur að stofna heimill. Þá stendur þetta fólk uppi vegataust. Eitt helzta úrræðið verður að leita á náðir vandamanna um húsnæði til bráðabirgða eða jafnvel að sætta sig við heilsuspillandi íbúð. Þriðja leiðin er stundum valin: að hefja byggingu, þótt sáralítil von sé til þess að geta komið byggingunni upp.

Þetta er alvarlegt ástand. Og það fer versnandi með vaxandi dýrtíð. Opinberar skýrslur um byggingar undanfarinna ára sýna þetta rækilega. Skýrsla um það, hversu margar íbúðir hefur verið byrjað á að byggja 3 s.l. ár, borið saman við 3 næstu ár á undan, sýnir samdrátt seinni árin, sem nemur 39% í sveitum, 23% í kauptúnum, 22% í kaupstöðum og 35% í Reykjavík. Ætla má, að þessar tölur sýni, hversu vel fólk treystir sér til þess að hefja byggingu nýrra íbúða með vaxandi dýrtíð, eins og nú er, því að ekki þarf að efast um það, að húsnæðisþörfin er vaxandi, en ekki minnkandi.

Til eru skýrslur hjá Efnahagsstofnun ríkisins yfir fjárfestingu í húsbyggingum almennt í landinu á undanförnum árum, þar sem verðlag hvers árs er umreiknað í verðlag 1954, svo að réttur mælikvarði fáist. Samkvæmt þessum skýrslum er þróunin þannig 3 s.l. ár, borið saman við 3 næstu ár þar á undan, að verulegur samdráttur hefur orðið í byggingu íbúðarhúsa og í byggingu húsa í þágu landbúnaðar og sjávarútvegs. Hins vegar er um aukningu að ræða í öðrum flokkum bygginga. T.d. er aukningin í byggingu verzlunar- og skrifstofuhúsa um 92%, eða fjárfestingin um 78 millj. kr. meiri 3 s.l. ár en 3 næstu árin þar á undan, og nokkur aukning hefur orðið í húsbyggingum í heild í landinu, eða um 6%. Á árinu 1958 er fjárfesting í íbúðarhúsum 365,5 millj. kr. En þá var hún aðeins 28,1 millj. kr. í verzlunar- og skrifstofuhúsum, eða sem svarar 8% af því, sem fór til íbúðarhúsa. En á árinu 1961 er fjárfesting í íbúðarhúsum 271,3 millj. kr., en þá var hún 66.8 millj, kr. í verzlunar- og skrifstofuhúsum, eða sem svarar 25% af því, sem varið er til íbúðarhúsa. Allar þessar tölur eru miðaðar við verðlag ársins 1954. Þessar tölur sýna, að þróunin er vægast sagt alvarleg. Mikill samdráttur er í byggingu íbúðarhúsnæðis þrátt fyrir tilfinnanlegan húsnæðisskort, en á sama tíma verður stórkostleg aukning í byggingu verzlunar- og skrifstofuhúsa.

Í síðasta lið þessarar þáltill. er bent á þá nauðsyn að veita nokkurt lánsfé til endurbóta á húsum og til þess að menn geti keypt hús til eigin nota. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að oft má endurbæta svo gömul hús, að þau nálgist það að verða sem ný, þótt aðeins þurfi til þeirra endurbóta hluta af því fjármagni, sem þarf til nýrrar byggingar. En engin lánastofnun í landinu, sem mér er kunnugt um, telur það vera sitt hlutverk að lána til slíkra endurbóta. Afleiðingin verður sú, að menn neyðast út í nýbyggingar, ef þeir treysta sér þá til þess, eða þeir búa áfram í úr sér gengnum húsakynnum, þar til þau eru loks yfirgefin. Þetta er sóun á verðmætum, sem bæði einstaklingar og þjóðin í heild geldur fyrir. Svipuð þessu er aðstaða manna til þess að kaupa hús, jafnvel þótt þau séu aðeins nokkurra ára gömul og í góðu ástandi. Lán er ekki unnt að fá til slíkra húsakaupa, þótt hinn húsnæðislausi maður hafi fjárhagslega möguleika til að gera slík kaup með nokkru lánsfé, en enga fjárhagslega möguleika til þess að ráðast í nýbyggingu. Úr þessu hvoru tveggja þarf að bæta, enda er með því dregið úr lánsfjárþörfinni til nýbygginga.

Okkur flutningsmönnum þessarar þáltill. er ljóst, að það er mikið vandaverk að afla þess fjár, er með þarf til þess að fullnægja húsnæðisþörfinni á næstu árum. En okkur er jafnljóst, að þessum vanda verður ekki lengur skotið á frest, því að ástandið versnar með hverju árinu sem liður. Við leggjum ekki til, að þessu máli sé flaustrað af, heldur sé ætlaður til þess hæfilegur tími og að allir flokkar eigi þar hlut að máli. Við, sem nú eigum sæti hér á hv. Alþ., þurfum ekki að vera að leysa þetta mál okkar sjálfra vegna persónulega, Við komumst einhvern veginn af í þessu máli. En við þurfum að gera það fyrir hina vaxandi kynslóð. Við höfum meiri skyldur við hana en okkur sjálfa, og þær skyldur verðum við að rækja. Æska landsins er vorgróðurinn, sem við verðum að hlúa að. Ef við gerum það ekki, þá bregðumst við henni og þar með þjóðinni.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. fjvn.