28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

47. mál, geðveikralög

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Efni þessarar till. er það, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að skipa nefnd til þess að undirbúa frv. til geðveikralaga og láta leggja slíkt frv. fyrir næsta þing. Ég flutti sams konar till. seint á síðasta þingi, en hún fékk þá ekki afgreiðslu, enda mjög liðið á, þingið, þegar hún kom fram.

Ég mun ekki hafa mörg orð fyrir þessari till. að þessu sinni. Ég vil benda á, að hér hefur ekki verið um að ræóa neina samfellda geðveikralöggjöf fram á þennan dag. Þær þjóðir, sem okkur standa næstar, hafa þó lengi notið slíkrar löggjafar hjá sér, og þær hafa gert sér far um sérstaklega að vanda sem mest til þessarar löggjafar. Það sést á því, að í þessum löndum, nágrannalöndum okkar, fer alltaf öðru hvoru fram endurskoðun á geðveikralögum, þannig að þau eru á hverjum tíma færó í þann búning, sem hæfir hverju sinni. Að sjálfsögðu eru geðveikralög fyrst og fremst sett sjúklingunum til öryggis. Slík löggjöf á að tryggja þeirra rétt. Í slíkum lögum er ákvarðað, hver skuli vera réttur og skylda læknisins gagnvart sjúklingnum, og þau segja einnig fyrir um afskipti venzlamanna og samfélagsins eða yfirvaldanna af málefnum sjúkra.

Ég held, að það sé töluvert erfitt að vera án slíkra laga, og ég held, að það bitni óhjákvæmilega á öllum þeim aðilum, sem málið snertir, það bitni á sjúklingunum, á tæknunum, vandamönnunum og líka á yfirvöldum landsins. Af skiljanlegum ástæðum er ráðstöfun geðsjúklinga yfirleitt og allajafna viðkvæmara og vandasamara mál en ráðstöfun á öðrum sjúklingum. Þess vegna er einmitt hættara við árekstrum og mistökum, ef ekki er hér vel um hnútana búið. Geðsjúklingi þarf auðvitað fyrst og fremst að hjálpa, og stundum þarf að gera það gegn hans eigin vilja. Læknirinn verður því að vita upp á hár, hvað honum er heimilt að gera samkv. lögum. Það er einnig auðvelt í slíkum tilfellum að leggja of þunga byrði á herðar raunamæddra vandamanna, þegar um þau er að ræða, t.d. að taka ráðin af sjúklingnum. Þar hljóta yfirvöld að einhverju leyti að koma til. Það sést af þessu, að hér verður hver málsaðili að gegna sínu hlutverki í samræmi við ákveðnar reglur.

Nauðsynleg ákvæði í geðveikralögum eru að sjálfsögðu margvísleg. Ég ætla ekki að telja þau upp, en það má fá hugmynd um, hvað í slíkum tögum eigi að standa, fyrst og fremst með því að bera upp nokkrar spurningar. Ég skal telja upp fáeinar.

Hverjum ber skylda til að sjá svo um, að geðsjúklingur, sem spítalavistar þarfnast, hljóti hana? Hvenær er það lögleg aðgerð að vista geðveikan mann gegn vilja hans í sjúkrahúsi eða hæli? Má vista mann í geðveikraspítala eingöngu samkv. hans eigin ósk? Ef sjúklingur er vistaður í geðveikrahæli samkv. læknisvottorði, hve gamalt má það vottorð þá vera, til þess að það sé gilt? Hefur læknir geðveikraspítala leyfi til að gefa vottorð um, að ákveðinn sjúklingur þarfnist vistar á sama spítala? Ef rökstuddur grunur er um, að geðsjúklingur sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum, ber þá yfirvöldum að sjá honum þegar í stað fyrir hælisvist, eða hvílir skyldan á einhverjum öðrum aðila? Hvernig skal við bregðast, þegar geðsjúklingur, sem telst ekki hafa fengið bata, krefst þess að fá að fara úr geðveikrahælinu? Hvenær getur yfirlæknir geðveikraspítala neitað að burtskrá sjúkling, og hvenær hefur hann ekki rétt til að neita því? Hvert getur geðsjúklingur snúið sér, ef hann telur sig órétti beittan innan hælisveggja, og ef hann leitar úrskurðar um réttmæti kvartana sinna, hve lengi skal hann þá bíða eftir þeim úrskurði?

Ég rek þetta ekki frekar. Um þessi efni og önnur svipuð er ætíð fjallað í geðveikralögum, að ég hygg, enda brýn nauðsyn. Að öðru leyti eru slík lög mjög margbreytileg og misjafnleg, sérstaklega misjafnlega umfangsmikil. Hjá sumum þjóðum eru geðveikralög mjög stór og fyrirferðarmikil, og má þar oft finna ákvæði um gerð og tegundir hinna ýmsu lækningastofnana, sem til greina koma, réttindi þeirra og skyldur, svo og um kostnaðarhlið geðveikramála. En um þetta tel ég enga ástæðu til að ræða frekar.

Ég veit ekki, hvort mér með þessum orðum hefur tekizt að vekja athygli á nauðsyn þessa máls. Hitt er víst, að hér er um vöntun að ræða, sem úr þyrfti að bæta og það hið bráðasta Geðsjúklingar eiga að njóta ákveðinna réttinda eins og aðrir menn, því að þeirra örlög eru nógu þungbær samt.

Skyldurnar við þessa sjúklinga þurfa einnig að markast skýrar en nú er gert, þannig að hver aðili af öðrum geti ekki velt af sér ábyrgðinni, eins og nú vill oft við brenna í okkar þjóðfélagi. Ég álít, að geðveikralög þurfi að vanda vel, og því tel ég, að bezt sé, að sérstök nefnd, skipuð sérfróðum mönnum, undirbúi þau, og fyrir því er gert ráð í till. minni. Ef hið háa Alþingi vildi afgreiða þessa till. jákvætt nú á næstunni, þá ætti tíminn að verða nægur til þess, að unnt yrði að leggja frv. til geðveikralaga fyrir þegar á næsta þingi.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um þessa till. verði frestað og að till. verði vísað til hv. allshn.