13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1963

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mig langar, áður en ég mæli hér með nokkrum brtt., sem ég á á þskj. 189, að segja aðeins nokkur orð viðvíkjandi þeirri afgreiðslu fjárl., sem mér sýnist, að nú muni fara fram. Mér þykir vænt um, að ég sé formann fjvn. einhvers staðar nærri, þótt hann sitji ekki inni í þingsalnum, sem annars hefur verið vani flestra formanna fjvn. að reyna að taka nokkuð vel eftir, hvað þm. hefðu að segja. (Gripið fram í.) En hann á ekki eins gott með að skrifa þarna inni, til þess að muna eftir því, þegar til fjvn. kemur, og taka eitthvert tillit til þess, sem þm. segja. Og ég vildi sérstaklega segja þau orð til stjórnarflokkanna í sambandi við þessa afgreiðslu fjárl., að það á ekki við, sérstaklega fyrir þá flokka, sem tala eins mikið um þingræðið og þeir gera, að þola þá niðurlægingu þingræðisins, sem er að verða hér hjá okkur núna.

Inntak þingræðisins hefur að mjög miklu leyti verið fjárveitingavaldið, barátta Alþingis og allra þinga fyrir fjárveitingavaldi gagnvart konungsvaldi, ríkisstj. eða hverjum sem var. Og það hefur lengi verið eitt höfuðeinkenni á fjvn., að hún hefur verið ekki aðeins ein mikilvægasta, heldur ein sjálfstæðasta nefnd þingsins, og hver einasti fjmrh. hefur haft það á meðvitund sinni, að hann þurfti að sækja vissa hluti undir fjvn. og fjvn. var vald, sem hann varð að gera svo vel að taka tillit til. Og fjvn. hér á Alþ. hafa löngum látið ráðh. finna það, að þær væru vald gagnvart fjmrh. og hann væri ekki neinn herra þeirra, heldur væri hann þjónn. Þetta fer síversnandi hér núna, og um leið og þetta fer versnandi, er verið að drepa einn aðalkjarna þingræðisins. Et þróunin fer að ganga í þá átt, að fjvn. verði meir og meir afgreiðslustofnun fyrir fjmrh., þá er verið að vega að rótum þingræðisins á Íslandi. Og það er þróun, sem þarf að stöðva. Þetta segi ég án tillits til þess, hvers konar ríkisstj. situr að völdum og hvort menn eru í andstöðu við hana eða ekki. Það hafa setið hér ríkisstj. að völdum, sem hafa verið kannske jafnharðvítugar og afturhaldssamar og núv. ríkisstj. er og þó sterkari ríkisstj. Við skulum t.d. bara taka gömlu þjóðstjórnina. En meira að segja sú stjórn hafði líka sterkan fjmrh., en hún réð ekki við fjvn. Fjvn. beittí alveg sínu valdi gagnvart henni, og sú þjóðstjórn mátti þakka fyrir, að hún skyldi ekki falla einu sinni við afgreiðslu um fjárlög á einum einasta vegi, eins og kunnugt er orðið af góðri þingvísu Bjarna Ásgeirssonar um Siglufjarðarskarðið. Og það hefur tíðkazt hér lengst af, að formenn fjvn. hafa haldið mjög uppi rétti þm. og alveg sérstaklega fjvn. og verið mjög harðvítugir gagnvart ríkisstj., en þeir voru náttúrlega alltaf úr stjórnarliðinu, eins og eðlilegt var, þannig að jafnvel fjmrh. fannst oft og tíðum alveg nóg um. Og þetta hefur haldizt, og það eru enn þá hér menn, sem verið hafa formenn fjvn., sem hafa sagt ríkisstj. eins rækilega til syndanna í sínum framsöguræðum og nokkrir stjórnarandstæðingar hafa gert, vegna þess að þeir litu á það sem sitt verkefni að taka vald fjvn. sem raunveruleika og beita því og beina þannig oft mjög skarpri gagnrýni gagnvart máske sínum eigin flokksmönnum, sem voru fjmrh. Og þetta má ekki niður falla. Ég segi ekki, að það geti ekki verið mjög þægilegt fyrir ríkisstj. eða fjmrh. að meðhöndla fjvn. eins og hún væri smáskrifstofa fyrir síg. Það getur verið þægilegt fyrir ríkisstj. En það er ekkert gott fyrir stjórnarfarið í landinu. Það er slæm þróun fyrir stjórnarfarið í landinu, og því er bezt fyrir þá menn að átta sig á, sem vilja á annað borð reyna að viðhalda þingræðinu, gera það ekki að hreinni skrípamynd.

Ég sé, að nú, þegar við erum að ræða þessi fjárlög, hef ég ekki séð enn þá eina einustu brtt. frá þm. stjórnarflokkanna. Ég vonast eftir, að þær eigi eftír að koma fram. En er virkilega komið svo þrátt fyrir þetta marglofaða einstaklingsfrelsi, sem vissir menn og vissir flokkar hér í landinu segjast vera að berjast fyrir, að það þori enginn maður í stjórnarflokkunum að bera fram neina till. án þess að fá þar leyfi? Er þetta orðið svona? Og er þetta fyrirmyndin, sem á að sækjast eftir? Það getur vel verið gott að aga flokka ósköp vel, og það er oft talað um, að við, sem erum í Sósíalistaflokknum eða Alþb. eða öðrum slíkum flokkum, séum mikið með því að hafa sterkan aga eða annað slíkt. En þetta er alveg óþarflega mikið. Og ég held, að stjórnarflokkarnir ættu ofur lítið að fara að gæta einstaklingsfrelsisins og fara jafnvel að setja nefndir innan þingflokkanna til þess að vernda það á móti sínum eigin ráðh.

Ég segi þetta vegna þess, að þetta fer sífellt versnandi ár frá ári. Og fjárlagaumr. sjálfar virðast hafa síminnkandi þýðingu. Þetta er mjög slæmt, og ég vildi óska þess, að á þessu færi að verða breyting. Meiri hl. Alþingís á að vísu að styðja sína ríkisstj. En Alþ. á ekki að vera ósjálfstæður aðili gagnvart ríkisstj. Stjórnarfarið í landinu er samsett af Alþingi og ríkisstj., og það er hættuleg þróun, ef það er ríkisstj. ein, sem ræður þessu öllu saman. Það er hættuleg þróun. Það er þróun, sem er smám saman að gera Alþingi óþarft, og það þýðir á endanum, að það koma einhverjir svokallaðir sterkir menn, sem fara að ýta því til hliðar, og þá hefur brautin verið rudd með því að vera svona linir í því að halda uppi virðingu Alþ. og valdi þess, líka gagnvart sinni eigin ríkisstj.

Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég álíti þá ráðh., sem sitja í ríkisstj., vera neitt harðvítugri, sterkari eða meiri menn en aðra ráðh., sem veríð hafa, heldur er þetta þróun í þjóðmálunum, sem er hættuleg og jafnt ráðh. og þeirra þm. ættu að standa gegn.

Svo skal ég mæla fyrir nokkrum till., sem ég hef leyft mér að flytja.

Það er þá í fyrsta lagi á þskj. 189, VIII. till. þar, sem er við 14. gr. og ég flyt ásamt hv. 7. landsk. þm. Hún er um það að veita styrk til þess að bjóða grænlenzkum stúdent, námsmanni eða áhugamanni, til námsdvalar til þess að læra íslenzka tungu, sögu og bókmenntir. Það hefur um nokkurt skeið tíðkazt, að það hefur verið á fjárl. ofur lítil fjárupphæð til þess að veita færeyskum fræðimanni möguleika til þess að koma hingað og vinna hér að útbreiðslu á þekkingu okkar á færeyskum bókmenntum og færeysku þjóðlífi. Mér finnst það mjög viðeigandi, að við snúum okkur að hinu nágrannalandi okkar, sem Ísland og Íslendingar eðlilega skoða sig alltaf hafa sterk tengsl við, og reyna að fara að tengjast þeirri þjóð, sem þar býr og að margra okkar áliti er okkur skyld, gefa henni tækifæri til þess að ná meira sambandi við okkur. Ég býst við, að þeir menn á Íslandi, sem ýmsir hverjir hafa farið til Grænlands á síðustu árum, hafi fundið, að það er áhugi hjá þeirri þjáð á því að komast í nánara samband við Ísland. En öllum er kunnugt, hve erfitt er um samgöngur, erfitt um mál fyrir marga þeirra, þótt margir þeirra kunni nú dönsku, og ég álít, að það væri ákaflega heppilegt, að einhverjum grænlenzkum áhugamanni, — og á ég þar við menn úr þeim hópi, sem við köllum Eskimóa, — væri gert mögulegt, ef hann væri stúdent, að stunda hér nám við háskóla, ef hann væri ekki stúdent, heldur annaðhvort nemandi eða áhugamaður, að stunda hér nám við einhverja aðra stofnun, þar sem hann gæti kynnzt íslenzkri sögu, bókmenntum og tungu. Ég álít, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að fara að skapa einhver tengsl við þá þjóð, sem það land byggir. Okkur ætti að mörgu leyti að renna blóðíð til skyldunnar að reyna að hjálpa jafnvel þeirri þjóð í þeirri baráttu, sem hún á í við danskt vald. Það er hart að horfa upp á það, að smám saman sé raunverulega verið að útrýma þeim þjóðstofni, sem þarna er, ýmist með blöndun við Dani eða hann sé að deyja út. Við vitum, hve mikið sú þjóð hefur af merkilegri menningu til að bera, þeirri menningu frumþjóða, sem því miður hverfur allt of mikið gagnvart þeirri svokölluðu siðmenningu tæknimenntaðrar þjóðar nú á tímum, þannig að bað væri rétt fyrir okkur, þótt við stöndum sjálfir að sumu leyti í sömu sporunum, en erum þó tæknilega séð komnir miklu lengra, að reyna að skapa einhver tengsl við áhugamenn hjá þeirri þjóð.

Að vísu veit ég, að það hefði verið miklu skemmtilegra að gera stærri hluti í þessum efnum, og ég vil segja það hér, að ég álít, að hér við Háskóla Íslands ætti að vera sérfræðingur, hvort sem það væri lektor eða prófessor, í grænlenzku og grænlenzkri sögu og grænlenzkum þjóðháttum. Það ætti að vera þar maður, sem væri sérfræðingur í þessum efnum, sem kynni þá tungu og helgaði sig sérstaklega því að rannsaka þau fornu tengsl Íslendinga og Grænlendinga um þessa sögu alla. Það væri ekki ofætlun okkar með allri þeirri skriffinnsku, eyðslu og vitleysu, sem hér viðgengst, að setja öðru hverju menn í að vinna eitthvað, sem væri til sóma fyrir okkar land og mundi auka og auðga okkar menningu og auka okkar fræðslu um afrek okkar forfeðra og þeirra tengsl.. Ég álít, að slíkt hefði raunar einnig átt að vera viðvíkjandi Færeyingum og færeyskum bókmenntum. En á meðan við gerum eins skammarlega og við gerum við íslenzkar bókmenntir, íslenzka tungu og íslenzka sögu, eins og nú er við háskólann, þá er náttúrlega varla von að menn taki upp á þessu. En viðkunnanlegt og skemmtilegt hefði það verið.

Þá leggjum við, hv. 7. landsk. og ég, líka til, að breytt sé um viðvíkjandi skáldastyrknum, sem oft er rætt um. Bæði bætum við við þarna í till., — það er X. till. á sama þskj., — að fimm manna nefnd sé kosin, sem úthluti því fé, — það er ekki í till., eins og hún er núna, — og það sé hækkað úr 2 millj. og 100 þús., sem það er nú í frá fjvn., upp í 3 millj. Ég þarf ekki að færa mörg rök að því, allir þm. vita, hve stórkostlega þetta hefur dregizt aftur úr. Enn fremur leggjum við til, að þau heiðurslaun, fyrst á annað borð er verið að kalla þau það, sem Gunnar Gunnarsson og Halldór Kiljan Laxness hafa, séu hækkuð upp í 60 þús. Ég reikna þetta út, það eru 33 þús. núna, 60 þús. setti ég með tilliti til þess, að ég býst við, að 60 þús. nú séu sama og 600 kr. voru í byrjun aldarinnar, en eins og þm. muna, var það sú upphæð, sem Þorsteini Erlingssyni var veitt þá og þótti raunar hvorki af hans hálfu né annarra vera heiðurslaun. Einn eyrir þá var eins og ein kr. nú nokkurn veginn, þannig að það má þó ekki minna vera, að okkur þyki þær 600 kr. vera heiðurslaun nú, og höfum það ekki helmingi smærra en var þá, fyrst við á annað borð köllum það heiðurslaun.

Þá leggjum við hv. 5. þm. Norðurl. e. til, að nokkur breyt. sé gerð á 17. gr., í þeim kafla, sem snertir sumardvalarheimilin. Það er 9. liðurinn þar, þar sem stendur, að til sumardvalarheimila, dagheimila og vistheimila fyrir börn í bæjum og kauptúnum og með framlagi annars staðar að skuli verja 215 þús., og er raunar fyrirheit frá fjvn. um að hækka það, en við leggjum til, að þetta sé hækkað upp í 500 þús. Þessi liður á fjárl., sem snertir bæði sumardvalarheimili og eins dagheimili, er að verða með allra nauðsynlegustu liðunum af félagsmálalegum útgjöldum að hækka. Þetta hefur dregizt óskaplega aftur úr, en þarfirnar aftur á móti hafa margfaldazt. Ég veit ekki, hvort hv. fjvn.-mönnum er kunnugt um það, en það er svo, að eftirsóknin eftir að koma börnum á dagheimili er svo gífurleg, að það er ekki nema örlítill hluti af þeim börnum, sem sótt er um að fá að setja á dagheimili, sem menn geta komið þangað, af því að það er ekki til pláss fyrir þau. Erlendis er það svo, í sæmilega siðmenntuðum ríkjum, að það þykir sjálfsagt af góðum fyrirtækjum ag miklum að koma upp dagheimilum við verksmiðjur eða annan stórrekstur, þannig að þegar konur, sem eiga ung börn, vinna í þessum verksmiðjum, þá geti þær komið sínum börnum fyrir á slíkum dagheimilum. Og slík dagheimili eru víða til mikillar prýði og í sambandi við þau oft sjúkradeildir og annað slíkt, þannig að meira að segja þó að börn séu veik, þá geta þau fengið þarna alla umönnun. Hér hjá okkur er þetta þannig, að það horfir til hreinustu vandræða. Eins og menn víta, giftir fólk sig miklu yngra nú en áður var, og miklu meira af giftum konum verður að vinna útí en áður var, ekki bara vegna þess, að þær vilji auðga þjóðfélagið af sinni vinnu, heldur bókstaflega vegna þess, að heimilin komast ekki af öðruvísi, þannig að það er alveg nauðsynlegt að gera gerbreytingu í þessu efni. Við leggjum þess vegna til, að þessar 215 þús. kr., sem séu veittar með því skilyrði, að jafnhátt framlag komi annars staðar að, séu hækkaðar upp í 500 þús. kr.

Enn fremur er ég með aðra till., sem er nr. XV á þessu þskj.; um, að það sé tekinn upp nýr liður, og flyt ég hana ásamt hv. 7. landsk., en sá liður hljóðar svo: „Til rekstrar dagheimila fyrir börn þeirra mæðra, er vinna utan heimilis, úthlutað samkv. reglum, er félmrn. setur, 1 millj. kr.” Það mundi þýða, ef þessi liður væri samþykktur, að fyrir utan það, sem nú er veitt til Sumargjafar, sem er 8. liðurinn undir V. á 17. gr., — fyrir utan rekstrarstyrkinn til dagheimila Sumargjafar, sem er veittur með því skilyrði, að tvöfalt framlag sé frá Reykjavíkurbæ, og fyrir utan það, sem er almennt til sumardvalarheimila og dagheimila fyrir börn úr bæjum og kauptúnum, þá komi þriðji liðurinn, sem verði til dagheimila yfirleitt, sérstaklega miðað við það, að mæður, sem vinna úti og eiga ung börn, geti komið sínum börnum þar fyrir, og ekki sett í þetta sérstök skilyrði um framlög á móti. Ég veit, að sumar stofnanir, t.d. hér í Reykjavík, hafa verið að hugsa um að reyna að koma upp dagheimilum. Meira að segja ein stofnun hér í nágrenni bæjarins hefur gert tilraun með þetta, og það er engum efa bundið, að það ætti að vera hægt. Ef t.d. félmrn. sýnir áhuga á þessu og útbýr skynsamlega reglugerð um þetta, þá ætti jafnvel að vera hægt að fá fyrirtæki hér til þess að gangast fyrir því jafnvel sameiginlega að setja upp slík dagheimill. Ég vil benda á það, að m.a. bankarnir hér í Reykjavík, sem eru mjög frjálslyndir í þeim efnum að festa fé, gætu gjarnan komið upp sameiginlega slíku dagheimili einhvers staðar hérna handa öllum þeim fjölda, sem þeir hafa af starfsfólki, sem á þessu þyrfti að halda. Ég veit mörg dæmi þess þegar, að stúlkur, sem vinna í bönkum og hafa gift sig, hafa orðið að hætta starfinu, vegna þess að þær hafa átt börn og ekki getað komið þeim neins staðar fyrir. Og menn vita, hvað það þýðir fyrir fjölskyldurnar, þegar þær eru að brjótast áfram í þeirri dýrtíð, sem nú er. Ég held þess vegna, að það væri oft hægt að fá frá ýmsum fyrirtækjum framlög þarna á móti og félmrn. gæti með skynsamlegri reglugerð stutt að því, og ég held, að upphæð, sem samþykkt væri í þessu skyni, gæti orðið til að koma af stað verulegum breytingum í þessu efni. Og ég er alveg viss í, svo að maður taki nú bara það hreinhagræna í því, að fyrir þjóðfélagið sem slíkt margborgar þetta sig, þó að maður vilji ekki leggja upp úr neinu öðru, bara upp á vinnukraft kvennanna, svo að ég ekki mínni á, hvað þetta mundi þýða fyrir þær fjölskyldur, þar sem konan sem önnur fyrirvinna heimilisins verður að hætta að vinna, þegar hjónin fara að eignast börn, vegna þess að hún verður að sitja yfir börnunum heima.

Ég býst ekki við að þurfa að beita þeim röksemdum nú, svo lengi sem dagheimilin eru búin að vera bæði á fjárlögum og á fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar, sem ég þurfti fyrir mitt leyti að beita bæði í bæjarstjórn Akureyrar og bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir rúmum 30 árum, þegar við fyrst vorum að berjast fyrir þessum dagheimilum og sagt var, að þetta væri svo voðalegur bolsévismi að koma upp dagheimilum, það væri auðséð, hvað þessir menn vildu, rífa börnin frá mæðrunum og sundra heimilunum. Ég þykist nú vita, að það þurfi ekki lengur að taka þann ótta frá mönnum, að með þessu sé verið að framkvæma eitthvert kommúnistískt athæfi. Þetta er sem sé fyrirkomulag, sem er eins óhjákvæmilegt orðið í nútímaþjóðfélagi og barnaskólarnir og annað slíkt. Og það er vafalaust ekki nema tímaspursmál, hvenær bygging dagheimilanna og annað þess háttar verður að fara að koma undir það sama og bygging barnaskólanna og annað slíkt.

Þá flytur hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég með honum, — en hann bað mig um að tala um það líka, af því að hann er veikur, — brtt. við 17. gr. V, 14. lið, i-liðinn, þ.e. til mæðrastyrksnefndanna, að í staðinn fyrir þau 35 þús., sem þar eru annars vegar til mæðrastyrksnefndarinnar í Reykjavík og hins vegar til mæðrastyrksnefndanna úti á landi, eða 70 þús. kr. til samans, þá sé þessi upphæð rúmlega tvöfölduð, þannig að heildarupphæðin verði 150 þús. og 75 þús. fari til mæðrastyrksnefnda utan Reykjavíkur, en 75 þús. til mæðrastyrksnefndanna í Reykjavík. Það er vitað, að það starf, sem mæðrastyrksnefndirnar vinna, er mjög gott starf, og þetta er einn af þeim liðum, sem ekki hafa breytzt mikið, og því miður er það svo enn í okkar þjóðfélagi, að það er meira en næg þörf fyrir þennan styrk, og ég held þess vegna, að það væri mjög rétt gert af Alþingi að verða við því að hækka hann. Það er ekki fram á mikið farið, en getur þó orðið til þess að gleðja ýmsa, ekki sízt þegar jólahátíðin nálgast, því að mæðrastyrksnefndirnar hafa alveg sérstaklega það í huga að reyna að koma þá til þeirra heimila, sem fátækust eru, einhverju, sem gæti glatt þau eða dregið úr neyðinni rétt yfir hátíðarnar a.m.k.

Þá hef ég ásamt hv. 7. landsk. flutt brtt. XVII á þessu sama þskj., sem er nýr liður við 17. gr. Sá liður hljóðar svo: „Til þess að styrkja félagsstarfsemi og skemmtanir æskulýðs, sem haldnar eru án þess að vín sé veitt, af hálfu félagsheimila og annarra aðila, enda sé tryggt, að verðlagi öllu við skemmtanahaldið sé í hóf stillt, og sé styrknum úthlutað skv. reglum, sem félmrn. setur, 11/2 millj.“

Ég veit, að allir hv. þm. hafa orðið varir við, að það eru veruleg vandkvæði í sambandi við skemmtanalífið, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur líka m.a. í öllum stærri kaupstöðum a.m.k. úti um land. Það er öðru hvoru verið að tala um spillingu æskunnar. En það er venjulega of lítið gert úr því, að það er skipulega unnið að því af hálfu þjóðfélagsins og valdamanna í því að reyna að spilla æskunni og að megnið af þeim skemmtistöðum, sem æskan hefur kost á að sækja, er þeirrar tegundar, að það eru staðir, sem fyrst og fremst eru reknir með gróðasjónarmið fyrir augum, og reynt að fá á þessa staði vínveitingaleyfi, til þess að hægt sé að græða sem allra mest. M.ö.o.: ungt fólk, sem vill fara út að skemmta sér, á erfitt með að komast á skemmtistaði, þar sem það verður ekki að kaupa vín. Og ungt fólk t.d. hér í Reykjavík kvartar yfir því, að ef það kemur inn á þessa fínu skemmtistaði, þar sem er vínveitingaleyfi, og ef það biður um einhverja drykki, sem eru ekki áfengir, þá er raunverulega litið á þetta fólk, þetta æskufólk, með fyrirlitningu. Það fær helzt ekki afgreiðslu fyrr en seint og síðar meir, því að það þykir ekki borga sig að láta svona fólk, sem ekki drekkur vín, sitja í sætunum. M.ö.o.: þjóðfélagið lætur reka þessi hús eins og með það fyrir augum að eyðileggja æskuna og skammast svo á eftir út af því, að æskan sé að spillast. Þetta eru hlutir, sem geta ekki gengið. Og það þýðir, að það er nauðsynlegt, að það séu til skemmtistaðir, þar sem ungt fólk getur komið, pantað sér óáfenga drykki, og þá verða þessir skemmtistaðir að vera þannig, að það séu alls engir áfengir drykkir þar til, og unga fólkið geti notið þess að vera þar með sínum kunningjum, verið þar að dansa eða annað slíkt eða við alls konar félagsleg störf eða skemmtanir, einhvers konar föndur eða undirbúa leikstarfsemi eða annað þess háttar og átt þarna raunveruleg félagsheimili. En við vitum, hvernig er. Það er til mikil löggjöf um félagsheimilí. Það hafa verið reist voldug og mikil félagsheimili. Og hvernig er reynt að reka megnið af þessum félagsheimilum á Íslandi? Það er reynt að reka þau með því að draga til þeirra til eins konar fylliríssamkundu öðru hvoru, þó að það sé ekki selt vín í þessum félagsheimilum, þá í kringum þau, jafnvel í bílum, sem hafa aðsetur í kringum þau. Og sérstaklega er reynt að draga unga fólkið úr kaupstöðunum, ef þessi félagsheimili eru í sveitunum rétt hjá, til þess að reyna að vinna kostnaðinn við félagsheimilin upp með þessu móti, og þetta eru hlutir, sem ekki geta gengið. Við byggjum falleg félagsheimili og dýr. Þau geta ekki borgað sig út frá venjulegu sjónarmiði, og við verðum að skapa möguleika til þess, að það sé hægt að halda uppi menningarlegri skemmtun og menningarlegri starfsemi. Það er ekki hægt fyrir okkur að vera að tala um það í sérstökum skálaræðum, — jafnvel að menn séu farnir að skammast sín fyrir að tala um okkar þjóð sem söguþjóð. Það fer nú líka að verða von. Yfirleitt er það þannig nú, sýnist mér, að það eru orðnir útlendingar, Danir, Norðmenn eða Svíar, sem skrifa ævisögur helztu Íslendinga, en Íslendingar sjálfir komast ekki einu sinni yfir að skrifa sína eigin sögu, hvað þá að skrifa svo vel um útlendinga, að viðkomandi lönd fái ljóma af því í framtíðinni, eins og áður var. En það er þó reynt að tala um okkur sem sérstaka menningarþjóð. Og hvernig halda menn, að fari um okkar þjóðmenningu, ef ekki eru hafðar hömlur á gróðasjónarmiðinu, svo að ég ekki segi spillingarsjónarmiðinu, sem nú er ráðandi í þjóðfélaginu, eins og eðlilegt er í auðvaldsskipulagi? Hvernig halda menn að fari um þessa þjóðmenningu, ef haldið er áfram eins og nú horfir? Ég held, að verði, þó að þetta sé ósköp lítið, sem við leggjum til þarna, að fara að sýna einhverja viðleitni til þess að spyrna þarna ofur litið á móti. Og það væri þess vegna mjög eðlilegt, þó að væri ekki byrjað með nema þessari 11/2 millj., að styrkja félagsstarfsemi og skemmtanir æskulýðs, sem eru haldnar án þess að vín sé veitt, til þess að reyna þannig að skapa menningarblæ á þetta skemmtanahald. Við verðum að gá að því, sem nú erum að verða gamlir smátt og smátt, að það er horfinn sá tími, að það unga fólk skemmti sér fyrst og fremst við að sitja heima og lesa bækur. Það eru til allrar hamingju ýmsir, sem gera það enn þá, en það er ekki orðið lengur höfuðskemmtunin, eins og var, þegar margir af okkur voru að alast upp. Sú unga kynslóð, sem nú vex upp við kvikmyndir, útvarp, jafnvel kannske sjónvarp og annað slíkt, gerir aðrar kröfur til lífsins, og ef þær kröfur eiga að fá menningarlega útrás og fullnæging þeirra bera menningarlegan blæ, þá verður þjóðfélagið og ríkíð að sýna skilning á þessu. Ég skal fyllilega viðurkenna, að þetta væri ekki nema lítil byrjun, en ég vildi óska þess, að það mætti þó verða til þess, að menn færu ofur lítið að íhuga þessa hluti.

Það eru tvær tillögur í viðbót. Þær eru í VIII. lið á sama þskj., 189, 2. og 3. liður.

Hin fyrri er við 14. gr. í sambandi við Þjóðminjasafnið, þ.e. hljómplötusafn, það væri hækkað þar framlagið, sem er 5 þús., upp í 25 þús. Eg held, að þetta hljómplötusafn Þjóðminjasafnsins muni verða miklu dýrmætara en við gerum okkur ljóst. Ég man eftir því, að ég flutti hér fyrir u.þ.b. 10 árum tillögu um, að Alþ. veitti nokkurt fé til þess, að Davíð Stefánsson og raunar Jóhannes úr Kötlum líka læsu nokkuð af ljóðum sínum inn á plötur, stálband eða eitthvert varanlegt efni. Allir, sem til þekkja, vita, að sérstaklega Davíð Stefánsson er einhver sá stórkostlegasti upplesari og hafði einhverja þá fegurstu rödd til upplestrar, sem nokkur maður hefur haft, sem ég hef kynnzt. Þetta var fellt, eins og venjulegt er með allt svona, sem eitthvað snertir menningu. Það er þar, sem helzt er sparað með okkar menningarþjóð. Fimm árum seinna tók einn áhugasamur kaupmaður hér það upp hjá sér að láta Davíð lesa inn nokkuð af hans fallegustu ljóðum. Davíð sagði sjálfur, að það hefði verið gert of seint. Röddin hans, falleg eins og hún var, var farin að ryðga dálítið, og við höfum hana þess vegna ekki með þeim hljómblæ, sem við heyrðum hana, þegar hún var upp á sitt allra bezta. Og svona fer á hverju sviðinu á fætur öðru. Við sleppum þessum möguleikum. Ég flutti einu sinni tillögu um það, að við ættum þó a.m.k. eina skáldsögu eftir Halldór Kiljan Laxness á hljómplötu. Það er ekki fyrir okkur, sem nú lifum, — en hvað munduð þið vilja gefa til þess að eiga Jónas Hallgrímsson á hljómplötu? Það væru nokkrar milljónir, sem við mundum ekki hika við að snara út, ef einhver kostur væri á því. Og hvernig haldið þið, að 21. öldin og þeir, sem þá lifa, muni hugsa til okkar, sem áttum þetta allt saman og alla möguleika til þess að geyma raddir þessara manna, — hvernig haldíð þið, að þeir muni hugsa til okkar, hvers konar skrælingjar við höfum verið? Ekki nóg með, að við eyðileggjum það, sem eftir er af klausturrústum og öðru slíku á Íslandi, og leikum okkur að því að eyðileggja svo og svo mikið af þeim handritum og öðru slíku, sem enn þá er til, og lesum ekki einu sinni það litla, sem geymt er, hvað þá að gefa það út, heldur höfum við líka þau nýtízku tæki til þess að varðveita ekki aðeins raddir mannanna, heldur líka öll látbrögð þeirra og allt saman, á filmum og öðru slíku, og ekkert af því er svo að segja gert. Þetta er lítil upphæð og munar ekkert um hana, en hún væri kannske ofur lítið í áttina.

Og svo vorum við hér með einn lið: til viðhalds Viðeyjarstofu, að höfðu samráði við eiganda, 200 þús. Ég hef áður flutt þetta nokkrum sinnum. Ég hef flutt það öðru hvoru, held ég, nú í 15 ár, tvisvar–þrisvar sinnum, og mér satt að segja gremst það, og ég sé til allrar hamingju, að fleiri er farið gremjast það heldur en mér að sjá, hvernig Viðeyjarstofan er að fara. Við höfum þó af þeirri tilviljun, að forsetasetrið var sett á Bessastöðum, eftir að framtakssamur maður keypti það og lét ríkið hafa það með sérstökum skilmálum, a.m.k. látið hressa þar upp á, þannig að sú gamla höll færi ekki í niðurníðslu. En önnur álíka höll, jafngömul, sem tengd er þó við okkar sögu enn þá glæsilegri minningum en Bessastaðastofan, hún er að fara í niðurníðslu. Hún er að vísu einkaeign. Það hefur verið það venjulega sinnuleysi hjá því opinbera, jafnt Reykjavíkurbæ sem ríkinu. Fyrir nokkrum árum, áratug, var hægt að kaupa Viðey fyrir 80 þús. Ég veit ekki, hve margar milljónir hún kostaði núna. Það hefur aldrei verið sinnt um það, hvorki af hálfu Reykjavíkur né ríkisins. En a.m.k. ætti að vera hægt að sjá um það, að Viðeyjarstofan sjálf væri ekki orðin eyðilögð, áður en þetta eitt af elztu húsunum eða höllunum, sem við eigum, væri komið í niðurníðslu. Við erum miklir í munninum, við Íslendingar, þegar við erum að heimta handritin af Dönum og tala um það, þó að okkur farist eins skammarlega og gert var í fyrra, þegar verið var að undirbúa móttökuna, þá er það anzi hart að vera raunverulega alltaf að gefa þeim í Danmörku, sem eru að reyna að neita okkur um handritin, vopnin upp í hendurnar með því að vera með verstu barbörum Evrópu í því, hvernig við varðveitum þær gömlu leifar, sem við höfum af okkar þjóðminjum. Við gætum lært nokkuð margt af þeim þjóðum, sem leggja stórfé í það, þótt fátækari séu en við, að reyna að grafa upp sínar gömlu minjar og varðveita þær og eru alltaf að finna ný og ný slík auðæfi í sinni jörð.

Ég leyfi mér að vona, að hv. þingmenn vilji ofur lítið athuga þessar tillögur, sem ég hef lagt hér fram ásamt tveim öðrum hv. þingmönnum, hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 7. landsk. Ég vil gjarnan segja það um leið, að ef einhver von væri til þess, að hv. fjvn. vildi athuga eitthvað af þessum tillögum og von væri til þess að fá einhverja úrlausn í þessum málum undir 3. umr., þá mundum við gjarnan taka þær til baka til 3. umr., en þá því aðeins, að einhver von væri og eitthvað væri gefið undir fótinn með það, að einhver úrlausn kynni þar að fást.