28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Með því að fyrsti flm. þessarar till. á ekki sæti á þingi sem stendur, vildi ég sem 2. fim. segja hér nokkur orð um tili. Við höfum leyft okkur, fjórir þm., að bera fram á þskj. 59 svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela vegamálastjóra að láta gera áætlun um vegagerð á Vestfjörðum, er stefni að því takmarki, að lokið verði á sem stytztum tíma önum aðalvegum um þennan landshluta og tryggt öruggt akvegasamband milli byggðarlaga hans meginhluta árs hvers.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um till. sjálfa og vil leyfa mér að vísa til grg., sem skýrir mjög þá þörf, sem hér er ætlazt til að bætt verði úr. En ég vil þó taka fram hér nokkur atriði, sem ekki koma fram í sjálfri grg.

Það vekur mjög athygli að sjá, að í Vestfirðingafjórðungi hefur fækkað fólki á s.l. 25 árum um 2500 manns, eða 20%. Og það er einnig nokkuð athyglisvert, að þetta er eini landsfjórðungurinn, þar sem fólki hefur fækkað á sama tímabili. Mér sýnist vera um svo mikið alvörumál að ræða, að það sé óhjákvæmilegt að kafa eftir meginástæðunum fyrir þessum fólksflótta úr Vestfirðingafjórðungi. Og ég held, að það sé ekki þörf á að kafa djúpt til þess að sannfærast um, að meginástæðurnar eru erfiðleikarnir í samgöngum við þennan landsfjórðung, ófullnægjandi vegakerfi, óviðeigandi ástand atrandferða og niðurfelling flugvélaferða á síðustu árum.

Eigi þessi þróun að verða þannig, er sýnilegt, að sú hætta liggur yfir fjöldamörgum hreppum í þessum fjórðungi að fara í auðn og e.t.v. fjórðungurinn allur í heild, þegar tímar líða fram, verða þurrkaður út. Hér er því fullkomin ástæða til þess að gera eitthvað til úrbóta. En í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, hvort rétt sé að fella niður atvinnufyrirtæki í þessum landsfjórðungi og flytja fólkið í burtu til annarra betri staða á landinu, þar sem lífsbaráttan er hægari og samgöngurnar betri. Ég held, að ég geti bezt svarað þessari spurningu með því að benda á, að á síðustu árum hefur útflutningur írá þessu héraði, sem sífellt er að missa frá sér íbúana, verið 21/2 sinnum meiri á hvern íbúa en meðaltal í öllu landinu. Er rétt að gera því fólki, sem þannig stendur í sínum störfum, svo erfitt fyrir sem hér hefur verið gert undanfarin ár? Er ekki rétt að spyrna hér við fótum og hjálpa þessu fólki til þess að halda áfram lífsbaráttunni, sem er svo mikils virði fyrir okkar útflutningsframleiðslu? Ég get einnig í sambandi við þetta upplýst, að ég hef lagt á það megináherzlu á ferðum mínum um þennan hluta landsins á síðustu árum að kynna mér, hvernig séu tekjur almennings yfirleitt í sambandi við íbúafjöldann, og hef þá komizt að þeirri niðurstöðu, að á s.l. ári, 1961, munu tekjur í flestum hreppum í Vestfirðingafjórðungi vera sem svarar frá 18 þús. kr. og allt upp í 40 þús. kr. á hvern íbúa. En það samsvarar frá 90 þús. til 200 þús. kr. tekjum fyrir hverja fimm manna fjölskyldu.

Ég spyr enn: Er rétt af Alþingi að gera ekkert til þess að stöðva flóttann frá slíkum landshluta (Gripið fram í: Minnka landhelgina.) Ég geri ekki ráð fyrir því, ef það er í alvöru mælt till. frá hv. þm., að það verði bezta ráðið að minnka landhelgina. Ég hygg ekki, að einn einasti af þeim íbúum, sem búa við þessi erfiðu lífskjör, mundi vilja fallast á þá till. Þeir mundu vilja allt aðrar leiðir.

Ég sagði áðan, að meginatriðið væri erfiðleikar í samgöngum. Það var ekki tekið upp að bæta samgöngur í Vestfirðingafjórðungi að verulegu leyti fyrr en eftir 1930. Og síðan 1945 hefur Vestfirðingafjórðungur fengið nokkurn veginn hlutfallslega jafnmikið fjárframlag og aðrir fjórðungar landsins til vegagerða, en vegna þess, hversu þá var mikið ógert í vegamálum, þurftu Vestfirðirnir að fá miklu meira framlag hlutfallslega heldur en aðrir fjórðungar, sem höfðu áður setið við miklu betri hlut. En það hefur aldrei verið viðurkennt af fjárveitingavaldinu.

Um strandferðir má það segja, að þær eru í seinni tíð og raunverulega nú í mörg ár svo ófullnægjandi, að það er varla hægt að segja, að þær séu yfirleitt fyrir Vestfirðinga. Ef um hraðferðirnar er að ræða, þá getur enginn maður, sem vill fara frá Vestfjörðum til Reykjavíkur, fengið nokkurt rúm venjulega, því að þau eru öll upptekin af þeim, sem koma frá Norðurlandi og ætla sér til Reykjavíkur. Þeir verða því að hírast þar á suðurleið sem annars eða þriðja flokks farþegar og koma sér einhvers staðar í skýli án þess að fá venjulega þjónustu, sem farþegar almennt eiga kröfu á. En sama er að segja, þegar skipin fara héðan frá Reykjavík, þá eru þau yfirfull, annaðhvort af þeim aðilum, sem ætla sér í skemmtiferðir kringum landið, útlendum eða innlendum, eða hinum, sem ætla á hinar fjarlægari hafnir, og íbúar Vestfjarða fá þar engan aðgang.

Ef við svo aftur á móti ræðum um vöruflutningana, þá er ekki hægt að flytja neinar vörur með þessum skipum, sem fara hraðferðirnar. Önnur skip hefur ekki Skipaútgerð ríkisins til þess að sinna vöruflutningum Vestfirðinga. Þeir hafa sjálfir um langan aldur orðið að basla með minni og lélegri skip en ríkisútgerðin hefur yfir að ráða og tapar nú á allt að 20 millj. kr. á hverju ári, sem Vestfirðingar þó verða að taka þátt í að greiða.

Um flugferðirnar er þannig í dag, að það eru engar farþegaflugferðir skipulagðar til Vestfjarða nema aðeins um Ísafjörð. Sjóflugferðirnar voru lagðar niður. Aðrar flugferðir hafa ekki verið teknar upp. En Vestfirðingar verða þó að standa undir þeim útgjöldum, sem ríkissjóður í heild greiðir fyrir flugsamgöngur, þó að þeir fái ekki að njóta nema að sáralitlu leyti þeirra gæða samgangnanna. Og þegar svo er komið, þá er ekkert óeðlilegt, að fólkið vilji flytja burt til annarra staða, sem betri samgöngur hafa að bjóða og hægari og þægilegri lífskjör.

Sama má segja um rafmagnið. Það verða víst mörg ár, þangað til þeir geta átt von á því að fá ljós frá ríkisrafveitunum um Vestfjarðahérað yfirleitt, þó að ýmsir staðir hafi verið lýstir, en meginhlutinn af því var búinn, áður en ríkissjóður tók að sér að reka þá starfsemi.

Ég tel, að fyrsta sporið til þess að ná fótfestu í þessum málum sé að fá nákvæmlega rannsakað, hvað eftir sé að gera í héraðinu og hvað mikið fé það muni kosta að geta komið á sæmilegu vegakerfi í fjórðungnum. Og að því lýtur þessi till., eingöngu að því, að það sé rannsakað fyrst og fremst, hvað mikið sé eftir að gera, hvað það kostar og á hvern hátt verði hægast að koma fram nauðsynlegum framkvæmdum, ef Alþingi ætlast til þess, að nokkrar slíkar framkvæmdir verði gerðar í Vestfirðingafjórðungi.

Þetta ætti ekki að vera ákaflega erfitt fyrir vegamálastjórnina. Það liggja fyrir allmiklar upplýsingar um þetta mál frá 1958, og þótt nokkrar breytingar hafi orðið síðan, þá eru þær ekki svo veigamiklar, að það sé mjög miklum erfiðleikum bundið að fá þetta rannsakað og fá yfirlit yfir þetta hið allra fyrsta, svo að Alþingi geti tekið um það ákvörðun, hvort það vill láta gera veruleg átök í þessum málum á Vestfjörðum. Ég viðurkenni, að vegamál í landinu yfirleitt eru ákaflega viðkvæmt mál og ákaflega mikil nauðsyn alls staðar að bæta vegina. En hins vegar get ég ekki fallizt á, að þeir, sem búa við lélegast vegasamband, svo sem er um Vestfirði og raunverulega einnig um Austurland, eigi að geta fellt sig við það, að endurbættir séu árlega og umbyggðir 100 km í öðrum hlutum landsins, á meðan þeir njóta svo að segja engra eða lítilla umbóta í þessum héruðum. Mér er það fullkomlega ljóst, að ef ekki er hægt á mjög skömmum tíma að byggja upp vegakerfi í sambandi við landbúnað í Vestfirðingafjórðungi, þá hljóta þar að fara í eyði blómlegir hreppar, og það mun kosta ríkissjóðinn mikla peninga um það er lýkur, ef sú þróun á að verða, sem orðið hefur hér á síðustu 25 árum.

Það er ekki úr vegi að minna á, að fyrir hverja fjölskyldu, sem flyzt utan af landsbyggðinni, hvort heldur er frá Vesturlandi eða Austurlandi, þarf að fjárfesta hér í Reykjavík eitthvað á 2. millj, kr. Það þarf a.m.k. 500 þús. kr. fjárfestingu til þess að byggja nýjar íbúðir yfir hverja fjölskyldu. Það þarf auk þess aðrar 500 þús. kr. til þess að standa undir auknum skólum, götum, rafmagnslagningum, vatnsteiðslum og ýmsu öðru, sem heyrir til í vaxandi borg. Og það þarf auk þess einhverja fúlgu til þess að standa undir auknum og stækkuðum fangelsum, þegar allur lýðurinn er kominn á einn stað á landinu. Og það getur vel verið, að það væri þjóðinni og Alþingi miklu dýrara en að sinna aðkallandi málum í samban3i ið vegakerfið í landinu.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn. Ég sé, að nokkrir aðrir hv. þm. hafa borið fram hér brtt. á þskj. 100. Ég skal ekki ræða hana. Hún verður athuguð í n., og gefst þá tími til þess að taka afstöðu til hennar. Ég sé enga ástæðu til þess að ræða hana hér við þetta tækifæri.