30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það verður að teljast eðlilegt, að bankaútibú verði sett á fót á Snæfellsnesi, ef þar eru almennar óskir um slíkt. Þarna er búsett allmargt fólk, og þar er mikill atvinnurekstur og því þörf fyrir slíka þjónustu. Hins vegar er mér ekki ljós ástæðan fyrir því, að þetta er gert hér að þingmáli.

Eins og hv. flm. gat um í sinni ræðu, hefur verið allmikið um stofnun bankaútibúa að undanförnu. Flest hafa þau risið á legg hér í höfuðborginni, en þó hafa nokkur útibú verið stofnuð annars staðar á landinu. Um síðustu áramót var sett á stofn útibú frá einum ríkisbankanum á Blönduósi og frá öðrum á Húsavík, og fréttir hafa borizt um, að a.m.k. einn eða jafnvel fleiri bankar ætli að setja upp útibú í Keflavík.

Hins vegar hefur ekki heyrzt, að hæstv. ríkisstj. hafi haft forgöngu um að setja upp þessi útibú. Og ef almennar óskir eru um slíkt af Snæfellsnesi, þá þætti mér mjög sennilegt, að einhver bankinn vildi sinna þeim óskum og setja þar upp útibú, án þess að ríkisstj. eða Alþingi hafi afskipti af því máli. Ef hins vegar ríkisstj. þarf að koma þar við sögu, fyndist mér ekki ólíklegt, að hv. flm. till., sem er einn af stuðningsmönnum hennar, gæti einhverju áorkað í því efni án þess að leita til þess fulltingis Alþingis.

Þetta taldi ég rétt að láta koma fram við umr. málsins. Ég tel það eðlilegt í alla staði, að innan skamms verði stofnað útibú í þessum landshluta frá einhverjum bankanum. En ég fæ ekki séð, enda kom ekkert fram um það í ræðu hv. fim., að þörf sé fyrir afskipti Alþingis af málinu. Hann lét þess ekki getið, hvort nokkuð væri búið að vinna að þessu máli við bankana eða þá ríkisstj., ef þeir hefðu ekki tekið undir óskir um stofnun útibús.