13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. fjvn. og þá fyrst og fremst formanni hennar og frsm. fyrir góða afgreiðslu og það, að n. hefur hagað svo störfum sínum, eins og óskað var, að unnt yrði að afgreiða fjárl. fyrir jól. Ég skal ekki tala langt mál við þessa umr., og hv. frsm. meiri hl. hefur þegar svarað ýmsu af því, sem ég hefði ella tekið til meðferðar.

En það eru viss atriði, sem ganga eins og rauður þráður gegnum nál. og framsöguræður beggja frsm. minni hl. Það er í fyrsta lagi það, sem hv. frsm. 1. minni hl., hv. 6. þm. Sunnl., orðaði á þá leið, að með fjárl. væri stefnt til stórkostlegs samdráttar í framkvæmdum og framkvæmdir á vegum ríkisins hafi dregizt stórum saman, eins og þessi hv. þm. komst að orði. Og til þess að sanna mál sitt um þennan mikla samdrátt í verklegum framkvæmdum hafa báðir frsm. búið sér til ýmiss konar vísitölur og hlutfallstölur. Annar þeirra heldur því fram, að miðað við fjárlög 1958 hækki nú fjárl. um ca. 140%, en hinn notar töluna 112%. Annar þeirra segir, að fjárl. hafi frá 1958 hækkað um 1250 millj.

Það fer svo hér eins og oftar, að vitnunum ber ekki saman, og engin þessara talna er alls kostar rétt. Ég skal viðurkenna, að það er ákaflega erfitt að finna einhverja óvefengjanlega rétta tölu í samanburði við fjárl. frá 1958 vegna þess, hvernig þau voru upp byggð. Eins og kunnugt er, höfðu fjárlög ríkisins þá nefnilega verið klofin í tvennt. Annars vegar voru fjárlög ríkisins, hin venjulegu, en hins vegar var útflutningssjóður, sem hafði mörg hundruð millj. kr. bæði í tekjur og gjöld. Ég gerði nokkra grein fyrir því við 1. umr. fjárl., hvernig ég teldi eðlilegast að gera þennan samanburð, og taldi þá, að ef hinum réttustu rökum og allri sanngirni væri beitt í þessu máli, mundi mega telja, að fjárl. nú væru rúmlega 1000 millj. hærri en 1958. Og nú veldur það auðvitað hneykslun manna, að ríkisstj. skuli hafa framið það ódæði að hækka fjárlögin, tekjur og gjöld ríkisins, um 1 milljarð. Þá verður auðvitað fyrst fyrir að athuga, í hvað þessar hækkanir hafa farið eða hvað veldur þeim. Hv. frsm. meiri hl. nefndi hér nokkur atriði þeirra, sem þessari hækkun valda, og eru þau hv. þingheimi að sjálfsögðu kunn. Þó er rétt að rifja það upp hér, að um það bil 40% af þessari hækkun munu ganga til almannatrygginga og annarra félagsmála, vegna þess að framlög til þeirra samkv. þessum fjárlögum hækka um 400 millj. frá 1958. Í öðru lagi koma svo niðurgreiðslurnar og uppbótagreiðslur á útfluttar landbúnaðarafurðir, en eins og kunnugt er, er þar allnáið samband á milli, og þessi útgjöld hækka um 280 millj. — 282 millj. nánar tiltekið — frá árinu 1958. Á þessum tveim liðum einum eru því komnar nærri 700 millj. eða um 70% af þessum hækkunum. Þar við bætast svo að sjálfsögðu hækkanir vegna þeirra kauphækkana, sem orðið hafa, að ógleymdum þeim hækkunum til margvíslegra verklegra framkvæmda, sem ég skal nú gera nokkra grein fyrir.

Það er til harla lítils, þegar þessir tveir hv. frsm. minni hl. slá upp hinum og þessum prósentum og hlutfallstölum, sem þeir hafa reiknað út og þó ekki af meiri nákvæmni en svo, að þeim ber alls ekki saman um þetta. Það er auðvitað til harla lítils að hafa svo í frammi gífuryrði um fádæma eyðslu — eða svo að notað sé orðalag hv. 1. minni hl., hann talar um þá óskammfeilni ríkisstj. og stuðningsmanna hennar að hækka tekjuáætlun ríkisins um 112% á einu kjörtímabili, — þetta er varðandi tekjurnar, — en þó sé dugnaðurinn í eyðsluseminni enn stórkostlegri. Hv. frsm. 2. minni hl. talar um gífurlega öfugþróun í þessum efnum, sem komi fram í því, að á sama tíma, sem umferð aukist stórkostlega á vegum, skuli viðhald og nýbygging þjóðvega vera svo gersamlega vanrækt sem raun ber vitni o.s.frv.

Ég skal ekki rekja þessar tölur lengra, en af þessum örfáu dæmum má sjá, í hvað þessar auknu tekjur og gjöld hafa farið. En eins og ég gat hér um, er í rauninni meginuppistaðan í öllum málflutningi beggja minni hl., bæði í hinum prentuðu nál. og ræðum þeirra, þessi, að verklegar framkvæmdir dragist stórkostlega saman þannig, að vegna aukins tilkostnaðar við þessar framkvæmdir fáist miklu minna fyrir féð nú en hægt var 1358 samkv. framlögum þá.

Áður en vikið er að framlögum til verklegra framkvæmda, er að sjálfsögðu rétt að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað tilkostnaðurinn hefur hækkað mikið á þessum árum. Að vísu ber mönnum þar ekki alls kostar saman. Mönnum eru kunnar þær vísitölur, sem hagstofan reiknar út, bæði varðandi lífskjörin almennt og varðandi vöruverð í landinu. En það, sem kannske er þó helzt hægt að hafa hliðsjón af í þessu tilfelli varðandi breytingar á kostnaði við verklegar framkvæmdir, eins og vegagerð, brúasmíð, hafnargerð, skólabyggingar o.fl., er breyting á byggingarkostnaði. Og sú breyting frá árinu 1958 og þar til nú er talin um 40% hækkun, m.ö.o., að tilkostnaður við byggingar hafi hækkað um 40%. Í þeim vísitölum, sem vegamálastjórinn notar við útreikninga á framlögum til þjóðvega og brúa, kemst hann að nokkuð annarri niðurstöðu, og mun hann telja, að vísitala vegagerðakostnaðar hafi á þessu tímabili hækkað um 48% eða um það bil, kostnaður við brúagerð nokkru meira. Nú vil ég taka undir það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að í rauninni vantar upplýsingar um það, á hverju þessar vísitölur eru byggðar, þannig að í rauninni er erfitt að fella dóm um þær, án þess að ég vilji á nokkurn hátt viðurkenna, að þær séu rétt reiknaðar út frá þeim forsendum, sem þær eru byggðar á. Ef við þannig miðum við vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu vegagerðar, þá eru þessar tvær tölur um 40% og um 48%. Ég vil því gera ráð fyrir, að almennt muni kostnaður við þessar verklegu framkvæmdir hafa hækkað milli 40 og 50%. Ef nú framlög ríkisins til þessara verklegu framkvæmda hefðu hækkað um minna frá 1958 og til dagsins í dag en þessi 40–50%, þá mætti með nokkrum rétti segja, að þar með væri verið að draga úr verklegum framkvæmdum. Þó væri það engan veginn örugg ályktun, m.a. vegna þess, að á þessu tímabili hafa til komið ný og stórvirk tæki, bætt vinnubrögð í ýmsum greinum, fækkun vínnustaða og hækkun fjárveitinga á hverjum stað, þannig að féð ætti að nýtast betur en var fyrir 4–5 árum.

Við skulum þá líta á það, hvernig háttað er framlögum til hinna helztu verklegu framkvæmda, og verða þá fyrir vegir, brýr, hafnir, skólar, flugvellir, sjúkrahús. Oftast eru það þessir þættir, sem talað er um í sambandi við hinar verklegu framkvæmdir.

Lítum fyrst á vegina og það, hvað ætlað er til nýbyggingar vega, áður en við lítum á viðhaldið. Ég tek tölurnar til nýbygginga og ber þá saman fjárl. fyrir 1958 og fjárlfrv. fyrir 1963, miðað við það, að till. fjvn. eða meiri hl. hennar verði samþ., og í þessum útreikningi á framlögum til nýbygginga eru talin í fyrsta lagi framlög til nýrra akvega, í öðru lagi til endurbyggingar þjóðvega, í þriðja lagi til millibyggðavega, í fjórða lagi það, sem kallað er samgöngubætur á landi, í fimmta lagi áhaldakaup, í sjötta lagi sýsluvegir og í sjöunda lagi fjallvegir. Og eru þessir sömu liðir að sjálfsögðu teknir bæði fyrir árið 1958 og 1963. Ég vil geta þess líka til skýringar, að þegar tekin eru framlögin til millibyggðavega, sem eru hluti af benzínskatti, þá eru þau ekki talin í fjárl. fyrir 1958, vegna þess að þá var það ráðh., sem skipti þessu fé milli veganna, í stað þess að nú er það Alþingi sjálft og tekið inn í fjárl. En til þess að samanburðurinn verði réttur, tek ég framlagið af benzínfé til vegamála fyrir árið 1958 einnig með, en það eru 3 millj. 450 þús., þótt þess sé ekki getið í fjárlögum. Þá verða framlögin til nýbyggingar vega á árinu 1958 24.9 millj., en í frv. fyrir 1963 42.3 millj. Það er hækkun um 17.4 millj. eða um 70%. Til vegaviðhalds var ætlað árið 1958 33 millj., en nú 63. Það er hækkun um 30 millj. eða um 91%.

Næst eru það brýr, og er þess þá að gæta, að framlög til brúa eru í tvennu lagi, annars vegar beint á fjárl. og hins vegar úr brúasjóði, sem fær hluta af benzínskatti. Brúasjóðurinn hefur af einhverjum ástæðum ekki verið tekinn með í fjári., en verður að sjálfsögðu, bæði fyrir árið 1958 og 1963, að reikna hann með, því að því aðeins fær maður rétta mynd af brúarframkvæmdum í landinu, að tekin séu bæði framlögin úr brúasjóði og í fjárl. Framlögin til brúa eru þá á árinu 1958 16.3 millj., en árið 1963 25.2 millj. Ég skal geta þess til skýringar, að þá er hluti brúasjóðs af benzínskatti áætlaður á næsta ári 111/2 millj., en verður væntanlega á þessu ári 101/2, og ætla ég, að hér sé ekki of í lagt. Hækkun frá 1958 til brúargerða er því 8.9 millj. eða um 55%.

Þá eru það hafnir. Þegar talin eru framlög til hafnargerða, lendingarbóta og hafnarbótasjóðs, þá voru þau framlög á árinu 1958 13.8 millj., verða 1963 31.3 millj., hækkun um 171/2 millj. eða 127% hækkun.

Skólabyggingar voru í fjárl. 1958 áætlaðar 19.8 millj., en í fjárl. 1963 64.3 millj., þ.e. hækkun um 441/2 millj., og nemur hækkunin í prósenttölu 224%.

Flugvellir: Til þeirra var fjárveitingin 6.7 millj. árið 195£ð, en 1963 verður hún 13.2 millj., hækkun um 6.6 millj. eða um 99%.

Sjúkrahús: Í fjárl. 1958 var fjárveitingin 81/2 millj., verður nú 16.1 millj., hækkun um 7.6 millj. eða 90%.

Ef við drögum nú saman þessar fjárveitingar til vega, brúa, hafna, skólabygginga, flugvalla, sjúkrahúsa, þá voru þær í fjárl. 1958 samtals 123 millj., verða í fjárl. fyrir 1963 255.4 millj., hækkun um 132.4 millj, eða sem næst um 108%. Þessi framlög hafa því meir en tvöfaldazt á þessu tímabili. Ef við höfum það svo í huga samkv. því, sem ég gerði grein fyrir áðan, að kostnaður við þessar framkvæmdir hafi hækkað á þessu tímabili um 40–50%, þá má hverjum manni ljóst vera, að hér hefur orðið raunveruleg aukning á framlögum til verklegra framkvæmda, — raunveruleg aukning, sem nemur töluverðum fjárhæðum.

En til viðbótar þessum mjög auknu framlögum af ríkisfé kemur svo það, að nú verður til ráðstöfunar til þessara framkvæmda ýmissa miklu meira lánsfé en nokkru sinni fyrr. Er þar fyrst að telja framkvæmdalánið, sem tekið var í Englandi nýskeð og er að upphæð 240 millj. kr. Skipting þess er að sjálfsögðu ekki ákveðin. Það er verið að undirbúa hana, og verður á sínum tíma, eins og lög gera ráð fyrir, haft samráð við fjvn., og eitthvað af framkvæmdaláninu mun fara til einhverra annarra verklegra framkvæmda en hér voru taldar, eins og til rakorkuframkvæmda. En töluvert af því mun að sjálfsögðu ganga til ýmissa liða, sem ég hef talið, til viðbótar ríkisframlögunum. Auk framkvæmdalánsins mun svo koma verulegt fé til þessara framkvæmda að öðrum leiðum, svo sem frá bankakerfinu og ýmsum sjóðum. Þegar litið er þannig yfir hinar verklegu framkvæmdir ríkisins í heild, er alveg augljóst mál, að síðan 1958 hafa framlögin stórhækkað, meira en tvöfaldazt í krónutölu, aukizt verulega, þrátt fyrir það, þó að tekið sé tillit til hækkunar á tilkostnaði, og til viðbótar kemur miklu meira lánsfé til þessara framkvæmda en áður. Og loks í þriðja lagi vil ég geta þess, að undirbúin hefur verið ný vegalöggjöf, þar sem gert er ráð fyrir nýjum tekjustofnun til vega- og brúamála, sem munu, ef að lögum verða, gefa mjög mikið aukið fé til þessara framkvæmda.

Það kemur fram í nál. hv. 2. minni hl., þ.e.a.s. fulltrúa Framsfl., að í rauninni eigi að miða hækkanir fjárlaga, t.d. til verklegra framkvæmda, við sömu prósenttölu og heildarhækkun fjárlaga. Nú kemst hann að þeirri niðurstöðu, að heildarhækkun fjárlaganna síðan 1958 sé 140%. Og þó að sú tala sé ekki rétt, byggir hann á henni og segir: Þess vegna eiga auðvitað framlög til verklegra framkvæmda að hækka um minnst 140%. — Hér er ákaflega einkennilegur hugsanagangur á ferðinni, að í rauninni eigi allir liðir fjárlaga alltaf að hækka hlutfallslega jafnt og einstakir liðir megi ekki hækka meira að hundraðstölu en aðrir: Í rauninni ætti að leiða af þessu þá ályktun, að hv, frsm. og hv. Framsfl. telji, að framlög t.d. til almannatrygginga eða félagsmála ættu að fylgja þessari almennu tölu og hafa þá hækkað um 140% í staðinn fyrir 400%. Nú geri ég ekki ráð fyrir, að þetta sé ætlunin, en auðvitað sýnir það, hversu fráleit þessi hugsun er. Hv. frsm. hefði alveg eins getað slegið því fram, að þegar framlög til almannatrygginga og félagsmála fimmfaldast, þá sé hreinasta ranglæti gagnvart verklegum framkvæmdum að láta þau ekki fimmfaldast líka. Nei, það, sem hér skiptir máli, er auðvitað hitt: Eru framlögin til verklegra framkvæmda miðuð við aukinn tilkostnað þannig, að annaðhvort sé haldið í horfinu eða framkvæmdirnar raunverulega auknar? Og það er það síðara, sem hér er að gerast.

Annars er það næsta furðulegt, að þegar hv. stjórnarandstæðingar deila á hækkun fjárlaganna, þá er því í rauninni alltaf sleppt í þeirra ræðum, að mikill hluti af þessum hækkunum gengur beinlínis til alþýðu manna í landinu með stórauknum almannatryggingum og með lækkun vöruverðs. Það er alltaf gefið í skyn, að hér sé um að ræða gegndarlausa eyðslu, bruðl, óskammfeilni í meðferð ríkisfjár, gífurlega öfugþróun, þó að það liggi alveg ljóst fyrir, að megnið af þeirri hækkun, sem orðið hefur á fjárlögum og ríkisútgjöldum síðan 1958, gengur beint til almennings með lækkun vöruverðs og auknum tryggingum.