30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (3001)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það kom fram hér í ræðu hæstv. viðskmrh., að það er rétt, sem ég hef haldið fram, að ríkisstj. hefur engin afskipti haft af stofnun þeirra bankaútibúa, sem hafa átt sér stað að undanförnu, og meira að segja ríkisstj. hefur það ekki á valdi sínu að ákveða það, hvar bankarnir setja upp útibú og hvar ekki.

Um þetta mál þeirra Snæfellinga er það að segja, að það er vitanlega ásköp skiljanlegt, að þeim finnist tími til kominn að fara að fá þetta útibú, sem samþykkt var gerð um fyrir 45 árum samkv. þeim upplýsingum, sem hv. 2, þm. Vesturl. gaf hér. Maður getur skilið það. Það verður að teljast eðlilegt, að þeir fái sitt útibú, án þess að á því verði miklu meiri dráttur en þegar er orðinn.

Það er svo um okkur hér, að menn hafa mismunandi vinnubrögð að ýmsu leyti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur kosið þá leið að fara með þetta inn í þingið, byrja á því að fara með þetta inn í þingið. Það er vitanlega hans mál, hvernig hann hagar því. Ég fyrir mitt leyti hefði haft þetta nokkuð öðruvísi, ef óskir hefðu borizt um það úr mínu kjördæmi, að þar yrði sett upp bankaútibú, og ég hefði viljað vinna eitthvað að því. Ég hefði byrjað á því að ræða við stjórnir bankanna, einhverja bankastjórn og bankaráð, til að ganga úr skugga um það, hvort þar væri ekki vilji fyrir því að verða við þessum óskum, og því aðeins gert þetta að þingmáli, að ekki væri hægt að koma málinu fram eftir öðrum leiðum. En það er eins og ég sagði, það eru mismunandi vinnuaðferðir, sem menn hafa. En hvernig sem um þessa till. fer, þá er að vænta þess, að þeir fái úrlausn sinna mála þar fyrir vestan, áður en langt um líður.