06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

96. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi eystra

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Í tilefni af fsp. hv. 1. þm. Vestf. vil ég segja það, að mér er engin ömun í því, þótt till. væri gerð breiðari. Mér þykir út af fyrir sig réttlátt, að sama gangi yfir alla landsmenn, og ég hygg, að ég geti svarað þessu þannig einnig fyrir meðflm. mína. Í fyrra var flutt, að mig minnir, till. um sérstakar athuganir á jarðhita á Snæfellsnesi. Sú till. var framkvæmd. Fyrr á þessu þingi kom fram till. til áskorunar um athugun á jarðhita í Borgarfjarðarsýslu. Þegar svo var komið, sýndist mér fyrir mitt leyti tómlæti af okkur öðrum þm. að bera ekki fram óskir fyrir okkar svæði. Og það var samróma álit okkar þm. úr Norðurl. e., að svo væri. Hins vegar er ekki í því nokkur sú stefna að vilja bola öðrum frá að njóta svipaðrar fyrirgreiðslu. Þess vegna er það, að ég svara hv. 1. þm. Vestf. á þá leið, að ég hef ekkert við það að athuga, þó að hann flytji brtt. við okkar till. á þessa leið. Með því er ekki sagt, að það geti ekki verið mismunandi ástæður í landshlutunum og mismunandi gagn að rannsóknum, meira liggi við sums staðar en annars staðar, og eins og ég tók fram í ræðu minni áðan, þá er Norðurl. e. í því belti að nokkru leyti, sem kallað hefur verið jarðhitabelti landsins, og því um mikinn jarðhita þar að ræða.

Hv. 1. þm. Vestf. vakti athygli á því, sem ég vit taka undir, að þegar þáltill. eru málefni, sem mega teljast einboðin, þá virðist vera hinseginn að tefja þær við eina umr. með því að fresta henni og vísa þeim til n. Þegar ég gerði till. um það, að afgreiðslu þessarar till. yrði frestað, var það aðeins vegna þess, að ég vildi fylgja venjunni. En ég er síður en svo á móti því, ef þingheimur getur fallizt á þá bendingu 1. þm. Vestf., að till. sé afgreidd án þess að fara til n. (GíslJ: Ég átti nú ekki við það með því, sem ég sagði.)