20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

100. mál, heitt vatn á Selfossi og að Laugardælum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki nema gott, að menn sýni áhuga í því að flytja till, um mál, sem eru nauðsynleg og þörf, og þannig er það með jarðhitaleit á Selfossi, því að það er rétt, sem sagt var hér áðan, að hitaveitan er orðin of lítil. Og það var þess vegna, sem byrjað var að bora á nýjum stað á Selfossi í fyrra í leit að heitu vatni vestan árinnar. Það var varið til þess rúmlega 100 þús. kr. á því ári. En þess ber að geta, að á árinu 1961 hafði ekki verið gerð áætlun um jarðhitaborun á Selfossi á árinu 1962, en þessar áætlanir eru alltaf gerðar ári áður en framkvæmdir, sem eiga að gerast. m.a. vegna þess, að það þarf að útvega til þess fé. Þess vegna var það á s.l. ári, í septembermánuði, sem gerð var áætlun um framkvæmdir á árinu 1963 og gerðar ráðstafanir til fjárútvegunar í því skyni. Þá var gerð áætlun um það að bora eftir heitu vatni á árinu 1963 að Laugalandi í Holtum, þar sem er nokkur jarðhiti, 40° heitt vatn við skólann, og enn er verið að bora þar. Það var einnig gerð áætlun um það að bora eftir heitu vatni við Hlíðardalsskóla í Ölfusi, og verður væntanlega byrjað þar seinni hluta vetrar. Og í þriðja lagi var gerð áætlun um jarðborun á Selfossi á árinu 1963, og gerir jarðhitasjóður ráð fyrir að verja til þeirra framkvæmda á árinu 1/2 millj. kr. Þessi áætlun var gerð á s.l. hausti, og ef hv. 1. flm. þessarar till. hefði talað annaðhvort við rn. eða raforkumálastjóra, hefði hann áreiðanlega fengið upplýsingar um það.

Till. þessi, sem hér er flutt nú, er góðra gjalda verð að því leyti, að hún sýnir áhuga flm. fyrir málinu, en hún breytir engu um framkvæmd málsins. Mér finnst alveg sjálfsagt að taka vel máli, sem flutt er í svo góðum tilgangi sem þessum. En það er staðreynd, að þó að till, verði samþ., breytir hún engu um framkvæmd málsins. Það er búið að ákveða að vinna á þessu ári fyrir ákveðna upphæð, og eins og hv. þm. sjá á till., er ekki heldur talað um neina fjárútvegun samkv. þessari till., þótt hún verði samþ. Það er aðeins áskorun á ríkisstj. að láta framkvæma verk, sem búið er að ákveða að skuli framkvæma.

Ég kemst ekki hjá að segja frá þessu, og mér dettur ekki í hug að áfellast 1. flm. fyrir það, þótt hann hafi ekki, áður en hann samdi till. og flutti, talað við rn. eða raforkumálastjóra um það, á hvaða stigi málið er. Við getum verið sammála um það, bæði hv, frsm. og hv. flm. þessarar till., að það er mjög nauðsynlegt að auka við hitaveituna á Selfossi, og það ber að stuðla að því að nýta jarðhitann meira en gert hefur verið hér á landi, og það er það, sem verið er að vinna að núna með því að bora eftir heitu vatni víða um land, mjög víða um land, og vitanlega þarf meira fjármagn en við höfum enn yfir að ráða. Jarðhitasjóður hefur á þessu ári nokkuð mikið fjármagn, og hafa, eins og ég sagði, verið gerðar áætlanir um notkun þess á þessu ári. Ég býst við, að það, sem hefur verið ætlað til framkvæmdanna á Selfossi á þessu ári, sé ekki nægjanlegt, það þurfi að bora meira. Við vitum ekki um árangurinn vestan megin árinnar. Það er vitanlega sjálfsagt að bora meira þar en gert er og reyna til hlítar, hvort ekki fæst árangur af þessari holu, og jafnvel bora aðra, og það er vitanlega sjálfsagt líka að bora í Laugardælum, þar sem ekki er nú nægilegt vatnsmagn í það hitaveitukerfi, sem fyrir er.

Það er svo ekki meira í rauninni um þetta að segja. Till. þessi hefur verið flutt í góðum tilgangi, til þess að ýta á eftir góðu máli, og flm. ekki verið búnir að kynna sér, á hvaða stigi málið er. Og það vissulega kemur ekki að sök, þó að þessu hagsmunamáli Selfossbúa sé hreyft hér á Alþingi og vakin athygli á því, því að eins og ég áðan sagði, má reikna með því, að það þurfi að halda áfram borunum þarna og það þurfi fjármagn til framkvæmda þar einnig á næsta ári, þótt reiknað sé með ríflegu íramlagi á þessu ári.