13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 2. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala hér langt mál að þessu sinni, þar sem hæstv. fjmrh. vék lítið að þeirri ræðu, er ég flutti hér í kvöld.

En nokkur atriði voru þó í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vildi gera hér að umtalsefni.

Í fyrsta lagi virtist hann vera nokkuð undrandi yfir því, að við stjórnarandstæðingar skyldum vera að ræða um það, að fjárl. hækkuðu svo og svo mikið. Ég vil minna hæstv. ráðh. á, að það var rætt um það hér á hv. Alþ., meðan Framsfl. fór með fjármál ríkisins, að fjárlög hækkuðu, þó að þau hækkuðu ekki svo mikið sem raun ber vitni um nú, og það þarf engan að undra, þótt rætt sé um það hér í sölum Alþingis, þegar fjárlög hækka frá fjárl. yfirstandandi árs til þess næsta um álíka fjárhæð og ríkisfjárlögin voru fyrir 10 árum. En það er sú fjárhæð eða þó rúmlega það sem fjárl. hækka nú frá 1962.

Hæstv. ráðh. skildi ekkert í því, að það skyldi ekki vera sami útreikningur hjá okkur Karli Guðjónssyni, hv. 6. þm. Sunnl., í sambandi við okkar reikning í prósenttölu. Ekkert er nú óskiljanlegt við þetta, nema hv. sjálfstæðismenn hafi hugsað sér að segja frá því á morgun, að allir sæju nú leynisamninginn milli Framsóknar og Alþb., að alveg hefðu verið eins nál. hjá þeim í fjvn., svo að þetta er e.t.v. hryggðarefni, að okkur skyldi nú ekki að því leyti bera saman. En munurinn var bara sá, að hv. 6. þm. Sunnl. miðaði sinn útreikning við árið 1959, en ég minn við árið 1958, og þá hækkuðu fjárl. á milli áranna 1958 og 1959, og þess vegna var prósentutalan lægri hjá hv. 6. þm. Sunnl.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki skilja það, hvernig ég fengi minn útreikning á fjárl. 1958. Ég skal skýra þetta ósköp einfaldlega fyrir hæstv. ráðh. Niðurstöðutala fjárl., en það er sú tala, sem ég miða við í öllum þeim dæmum, sem ég hef tekið hér, við framsóknarmenn í nál. okkar og ég í minni framsöguræðu, — niðurstöðutala fjárl. 1958 var 807.1 millj. kr., en á því ári greiddi útflutningssjóður 75.4 millj. kr. af niðurgreiðslum. Þetta hef ég lagt við niðurstöðutölu fjárl. 1958, og er þá niðurstöðutalan 8821/2 millj. kr. Ef við drögum þetta frá fjárl. í dag, þá er 1250 millj. kr. hækkun of lág, það yrðu 1300 millj. kr. En okkar samanburður á því var gerður áður en vitað var um hverjar hækkunartill. n. yrðu. Um það, að þetta sé hliðstæður samanburður, vil ég leiða eitt vitni til sönnunar. Að vísu má segja, að bókin Viðreisn, sem send var út á ríkisins kostnað 1960, sé ekki merkileg, en þó skýrir hún frá því, þegar hún tekur til, hvaða liðir það eru, sem valda hækkun fjárl. 1960, að 112.9 millj. kr. séu niðurgreiðslur, sem útflutningssjóður annaðist greiðslu á. Það er eini gjaldaliðurinn, sem útflutningssjóður annaðist og ríkissjóður tók við. Þess vegna er sá samanburður réttur að bæta við niðurstöðutölu fjárl. 1958 og 1959 og bera þau svo saman við fjárlög síðar. Það er heldur ekkert undarlegt, þó að það sé ekki sama prósentutalan, þegar vitnað er í eitt ár af öðru. T.d. var önnur prósentutala hjá mér, þegar ég skýrði frá því, hvað fjárlögin hefðu hækkað hjá hæstv. ráðh. sjálfum. Það var önnur prósentutala en frá 1958 af eðlilegum ástæðum vegna þeirra hækkana, sem höfðu átt sér stað áður fyrr. En það var jafneðlilegt og munurinn á milli okkar hv. 6. þm. Sunnl., svo að hæstv, ráðh. þarf ekki að vera neitt í vandræðum með samanburð. Og ég er ekkert að efast um það, að jafnsnjall maður sem hæstv. ráðh. sé ekki í vandræðum með þennan samanburð. Hitt er annað mál, hvort hann kærir sig um að fá staðreyndirnar eins og þær eru:

Þá sagði hæstv. ráðh., að við værum sýknt og heilagt að tala um það, að fjárl. hækkuðu, og hv. formaður fjvn. gat þess einnig, en við gerðum ekki grein fyrir því, til hvers hækkanirnar færu. Ég varði þó verulegum hluta af minni ræðu til þess að skýra þetta. Ég sýndi fram á það, að þær væru ekki að verulegu leyti vegna þess, að til allrar uppbyggingar í landinu væri svo geysilegu fé varið, og ekki heldur af því, að fjárl. væru raunverulegri nú en áður hefði verið. Ég tók það líka fram, að það væri ekki vegna þess nema að nokkru leyti, að ríkisstj. hefði vanrækt sparnaðinn, sem hún hefði heitið, heldur var það vegna þess, hve dýrtíðin í landinu hafði stóraukizt. Ég sýndi fram á það m.a. með því, hve rekstrargreinarnar hefðu hækkað mikið, bæði hækkað til trygginganna frá 1960 og hvað hefði hækkað til niðurgreiðslna. Þungamiðjan í niðurstöðu í minni ræðu var einmitt það að dýrtíðin í landinu hefði stóraukizt í valdatíð núv. ríkisstj., stjórnarinnar, sem var kosin út á stöðvunarstefnuna, og þess vegna hækkuðu fjárlögin svo gífurlega sem raun ber vitni um. Þess vegna er það alrangt, að ég hafi ekki greinilega tekið það fram, hver var meginástæðan fyrir hækkun fjárl.

Hæstv. ráðh. fór að tala hér um vegamálin, og það var rétt á eftir, að hann var búinn að ávíta mig og hv. 6. þm. Sunnl. fyrir að búa til vísitölu og samanburðartölur, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. En hvernig tókst hæstv. ráðh. til, þegar hann fór að gera þennan samanburð? Hann tók framlag til vega og brúa frá 1958 og nú, 7.963. Í því sambandi tók hann vegasjóð og hrúasjóð með. Í þeim auknu álögum, sem ég gat um í framsöguræðu minni, sleppti ég þeim skatti, sem var á lagður í vega- og brúasjóð, vegna þess að dæmið gengur upp á fjárl. og vegasjóðurinn er ekki færður út og hefur engin áhrif á niðurstöðutölu þeirra, og brúasjóðurinn er þar ekki. En hvað er nú um þetta að segja? Vorið 1958, þegar bjargráðin voru sett, var hækkaður skattur á benzíni og teknir 6 aurar af hverjum lítra í vegasjóð og aðrir 6 í brúasjóð. Þessar fjárhæðir voru ekki farnar að verka 1958. Árið 1960, við fjárlagaafgreiðslu þá, var benzínskattur hækkaður um 6 aura meira en ég greindi frá, það fór í vega- og brúasjóð. Þess vegna var það, að tekjur þessara sjóða hafa aukizt, og þess vegna er ekki hægt að taka það dæmi með, ef á að gera hliðstæðan samanburð, nema þá að taka skattinn inn í skattahækkun hæstv. ríkisstj. Þetta gerði það að verkum, að hæstv. ráðh. gat fengið hagstæðari samanburð en ella.

Við sýnum fram á það í nál. okkar, og ég sýndi fram á það í framsöguræðu minni hér í dag, að það væri gífurleg öfugþróun, þegar framlög til vega hækkuðu ekki meira en raun ber vitni um, eftir að þær álögur höfðu verið lagðar á umferðina, sem ég greindi frá. Og ég hef hér fyrir framan mig lista um hlutfall á milli framlaga til samgöngumála á landi allt frá 1930 til þessa dags. Og hvað segir þessi samanburður? Hann segir, að flestöll árin er framlag til samgöngumála, til vegamálanna, sem kölluð eru á fjárl., það eru vegir og brýr, vegaviðhald og stjórn vegamála, yfir 10% af fjárl. og jafnvel upp í 13 og 16%. En hvað hefur skeð í tíð núv. hæstv. ríkisstj.? 1960 eru þessi framlög tæp 7%, 1961 eru þau líka tæp 7% , en þó aðeins lægri, 1962 eru þau 6.5%, og 1963 verða þau um 5.6%. Þetta segi ég og endurtek, að það er öfugþróun, á sama tíma sem ríkissjóður hefur mörg hundruð millj. kr. í tekjur af umferðinni. Hann hefur aldrei í sögunni haft meiri tekjur af umferðinni en einmitt á árinu 1962 og kemur til með að hafa 1963. Þrátt fyrir þetta verða hlutfallslega lægri framlög til þessara mála en nokkru sinni fyrr. Þetta er öfugþróun. Hún breytist á engan hátt, þótt hæstv. ráðh. fari að búa til einhverja byggingarvísitölu eða annað því um líkt.

Ég vil svo að lokum endurtaka fsp. mína um Keflavíkurveginn, sem ég gerði hér í kvöld, leyndina, sem er yfir þeirri framkvæmd. Ég endurtek: Hver er að byggja þennan veg? Hvaðan er féð komið, hvað er það orðið mikið og hvernig á að fara með málið?