20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

124. mál, þyrilvængjur landhelgisgæslunnar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 226 um þyrilvængjur í þjónustu landhelgisgæzlunnar, til samgöngubóta og sjúkraflugs á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ég skal vera stuttorður um þessa till. Ég hef flutt nálega samhljóða till. þessari tvívegis áður, og vænti því, að hv. alþm. sé efni hennar kunnugt.

Í fyrsta lagi er til þess ætlazt, að hæstv. ríkisstj. festi kaup á 2 þyrilvængjum og sé aðalhlutverk þeirra að aðstoða og þjónusta við landhelgisgæzluna. En auk þess er ætlazt til þess, að með staðsetningu þeirra á Austfjörðum og Vestfjörðum inni þessar þyrilvængjur af höndum margvíslega aðra þjónustu fyrir fólkið í þessum landshlutum, sem að mörgu leyti eiga erfiðast að því er snertir samgöngur innbyrðis. Þar gætu þær komið áreiðanlega að gagni í vissum byggðarlögum. Ég vil t.d. nefna byggðarlag eins og Súgandafjörð, sem getur ekki komizt í neinar flugsamgöngur með öðrum hætti, Breiðafjarðareyjar, byggðina á Ingjaldssandi, og fleiri staði mætti nefna, og sjálfsagt hagar þessu líkt til á Austfjörðum víða.

Það er ekki nokkur vafi á því, að til sjúkraflugs eru engin samgöngutæki eins tiltæk undir þessum kringumstæðum og þyrilvængjur, og hefur það hvað eftir annað komið í ljós, að íslendingar hafa orðið að biðja setuliðið á Keflavíkurflugvelli að koma til hjálpar til að sækja fársjúkt fólk til að gera tilraun til að bjarga lífi slíkra einstaklinga, þegar aðstæður hafa verið þannig, að ekki hefur verið hægt að komast á staðinn með öðrum hætti. Það vita allir, að höfuðkostur þessa flugsamgöngutækis er sá, að enga flugvelli þarf að byggja í sambandi við notkun þyrilvængjanna. Þær geta lent á smábletti, þær geta lent á húsþaki, ef vera vill. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að vandkvæðin í sambandi við að fá lækna í ýmis læknishéruð mætti ef til vill leysa að einhverju leyti með þyrilvængjunni, og þá ef til vill spara allmikið fé ríkissjóði með því að sameina slík héruð, 1, 2 eða 3, ef þyrilvængjan væri staðsett þar í grennd og hægt væri að gripa til hennar, þegar lækni þyrfti að sækja um langan veg eða koma honum á stað, sem væri einangraður. Þá er mér og kunnugt um, að oft er miklum erfiðleikum bundið að halda uppi þjónustu við vitana, sem eru mikilsverðar ríkisstofnanir, og til þess að fullnægja þeirri þjónustu er haldið úti skipi, sem þó hefur ekki alttaf aðstöðu til að komast á staðinn. En með þyrilvængju mætti vafalaust leysa þar við sérstakar kringumstæður úr vanda og vafalaust með minni tilkostnaði en láta alldýrt skip bíða viku eða hálfan mánuð þess að komast á staðinn. Þá mætti og hugsa sér, að fjórðungssjúkrahúsin á Austfjörðum og Vestfjörðum nytu aðstoðar þessa tækis til að koma sjúklingum til skjótrar læknisaðgerðar í fjórðungssjúkrahúsunum, þar sem læknisaðstoð er betri en á hinum smærri sjúkrahúsum. Og má þannig margt fleira telja. Ég held, að það sé bráð nauðsyn fyrir íslendinga að eignast þessi tæki, og mætti byrja á einu eða tveimur. Ég held, að það þyrfti í raun og veru að vera þyrilvængja í hverjum landshluta a.m.k., auk Vestfjarða og Austfjarða væri hér ein suðvestanlands og önnur þyrilvængja á Norðurlandi.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvað þessi tæki kosta, og ég veit nú, að 11 manna þyrilvængja eða þyrilvængja, sem getur borið tilsvarandi vörumagn, mundi kosta álíka og 100–120 tonna fiskibátur. Hún mundi kosta um 7 millj. kr., og má þá velja um, hvort sem maður vildi heldur bandaríska, sovézka eða kanadíska, og sjálfsagt eru fultkomnar þyrilvængjur til í fleiri iðnaðarlöndum. En mér er kunnugt um, að bæði í Bandaríkjunum og í Sovétríkjunum eru til þyrilvængjur, sem sérstaklega eru búnar út með það fyrir augum að þola flug við mjög lágt hitastig, í miklum frostum, og mundi það áreiðanlega vera mikill kostur fyrir okkar loftslag.

Í slysatilfellum er svo ekki sízt hægt að koma þyrilvængjum við undir ýmsum kringumstæðum, þegar engin önnur samgöngutæki duga.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að nú þegar þessi till. er borin fram í þriðja sinn á Alþingi, þá fallist Alþingi á till. og afgreiði hana, svo að ekki þurfi að bera hana fram í fjórða sinn. Það hafa verið ákveðnar tvær umr. um þessa till., og legg ég því til, að þegar þessari umr. lýkur, þá verði henni vísað til hv. fjvn., þar sem farið er fram á fjárframlög til kaupa á þessum alldýru tækjum.