13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

1. mál, fjárlög 1963

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á 3. gr. fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru færðar áætlaðar tekjur af rekstri ríkisstofnana. Ég hef veitt því athygli, að ein ríkisverzlun, sem undanfarin ár hefur verið færð með öðrum slíkum fyrirtækjum á 3. gr. fjárl., er þar nú ekki. Er þessi verzlun þó enn starfandi og í eigu ríkisins. Það er Áburðarsala ríkisins. Í aths. með frv. segir að vísu, að þessi stofnun hafi verið lögð niður, en þetta er rangt, áburðarsalan hefur ekki verið lögð niður. Ríkisstj. hefur borið fram frv. á þrem síðustu þingum um að leggja þessa stofnun niður, en þau hafa ekki verið samþ., og nú hefur hæstv. ríkisstj. hætt tilraunum til að leggja áburðarsöluna niður, a.m.k. í bili, því að hún hefur ekki flutt frv, sitt um það á þessu þingi enn sem komið er.

Það var alveg rétt ályktun, sem kom fram í frv. ríkisstj. á síðustu þrem þingum, að lagaheimild þyrfti til að leggja áburðarsöluna niður. En þar sem stjfrv. um það efni hafa ekki verið samþ. á Alþingi, þá er það ekki rétt, sem segir í aths. með fjárlagafrv., að búið sé að leggja þessa stofnun niður.

Fyrsta frv., sem hæstv. stjórn flutti um þetta, bar hún fram um mánaðamótin marzapríl 1960 hér á hv. Alþ. Í 3. gr. þess frv. var ákvæði um það, að Áburðarsala ríkisins skyldi hætta störfum. Þetta frv. dagaði uppi í þinginu. Stjórnin flutti málið aftur á næsta þingi, í október 1960. Þá fór á sömu leið, það varð ekki samþ. Og í þriðja sinn flutti stjórnin málið á síðasta þingi, í október 1961, en það frv. var einnig óafgreitt í þinglokin. Í því frv., sem stjórnin flutti fyrst á þinginu 1959, var ákvæði í 1. gr. um það, að heimilt væri að veita áburðarverksmiðjunni einkaleyfi til innflutnings á tilbúnum áburði. Og í aths., sem fylgdu því frv., segir, að nauðsynlegt sé, að verzlun með tilbúinn áburð sé öll hjá sama aðila. En svo mun stjórnin hafa áttað sig á því, að þarna hafði hún skrikað út af vegi hinnar frjálsu verzlunar, og því breyttist frv. dálítið, var lítið eitt öðruvísi, þegar það kom síðar fram. Þar segir að vísu, að ríkisstj. geti falið Áburðarverksmiðjunni h/f að flytja inn tilbúinn áburð, en þá er ekkert um það, að hún hafi einkaleyfi til þess, og þá segir heldur ekkert um það í aths., að það sé nauðsynlegt, að það sé einn aðill, sem verzli með áburðinn. En hvað sem um það er, þá hefur þetta farið þannig, eins og ég hef bent á, að stjórnin hefur þrisvar lagt fyrir Alþ. till. um að leggja niður áburðarsöluna. Þær hafa aldrei verið samþykktar, og þess vegna er ekki búið að leggja þetta fyrirtæki niður.

Ég vil nú leyfa mér að beina því til hv. fjvn., að hún fari í eftirleit milli 2. og 3. umr. þessa frv. og reyni að finna þessa ríkisstofnun, áburðarsöluna, sem hæstv. stjórn virðist vera búin að týna. Það væri skemmtilegra að finna hana núna fyrir jólin. Vafalaust getur n. fengið rekstraráætlun fyrir áburðarsöluna frá þeim aðila, sem nú annast rekstur hennar, og síðan flutt till. við 3. umr. um að setja fyrirtækið á sinn stað í frv. Þessu vildi ég beina til hv. nefndar.

Það liggur hér fyrir nál., — já, þau heldur 3 en 1, — um fjárlfrv., á þskj. 180 nál. frá meiri hl. fjvn. Það eru þm. stjórnarflokkanna í n., sem standa að því áliti og undirskrifa það Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

Fjárlfrv. sýnir, að enn er gætt fyllsta sparnaðar í rekstri ríkisins og stofnana þess. Þeir áfangar, sem þegar hafa náðst til sparnaðar, reynast vel, og sýnt er, að stefnt er að aukinni hagsýni og frekari sparnaði, þar sem því verður viðkomið.“

Svo mæla þeir. Í fyrra gáfu þeir einnig út sérstakt nál., stuðningsmenn stjórnarinnar í n., og þar var þetta orðað á þá leið, að frv. bæri með sér, að ýtrasta sparnaðar hefði verið gætt í rekstri ríkisins. Og síðan var gefið fyrirheit um það, að enn meiri sparnaður skyldi koma, enn meiri en sá ýtrasti. Þetta var ósköp ánægjulegt að heyra.

En hvað segir svo þetta frv. um sparnaðinn? Ja, það er nú önnur saga. Hver einasta gjaldagrein fjárlfrv. er hærri nú en á fjárl. ársins 1962 og heildarhækkunin mörg hundruð millj. kr., eins og þegar hefur verið bent á að undanförnu. Og þó eru fjárlög ársins 1962 hærri en nokkur önnur, sem samþ. hafa verið á Alþingi. Það er nú vitanlega til of mikils mælzt að fara fram á það við hv. meiri hl., sem skrifar undir þetta, að reyna að færa einhver rök fyrir þessu, sem hann segir um sparnaðinn. Það er auðvitað alveg óvinnandi verk fyrir þá að gera það, jafnvel þótt væri um hábjartan daginn og enn síður um miðnætti. Ég býst ekki heldur við, að þeir trúi þessu sjálfir, hvað þá aðrir þm. Ég býst við, að þetta sé sett í nál. aðeins til þess að reyna að blekkja fólk, sem litla yfirsýn hefur um fjármál ríkisins.