13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Meginatriðið í þeirri stuttu ræðu, sem ég flutti áðan, var að sýna fram á, að fullyrðingar stjórnarandstæðinga um samdrátt í verklegum framkvæmdum ættu ekki við rök að styðjast. Ég tók samanburð af framlögum til verklegra framkvæmda samkv. þessu fjárlfrv., eins og það verður væntanlega afgreitt héðan, og hins vegar til sömu framkvæmdaflokka í fjárl. árið 1958, síðasta ár vinstri stjórnarinnar sálugu. Þessi samanburður sýndi, að framlög til verklegra framkvæmda, vega, brúa, hafna, skólabygginga, flugvalla og sjúkrahúsa, hafa stækkað um meira en 100%, hafa sem sagt meira en tvöfaldazt frá 1958 og til væntanlegra fjárl. fyrir 1963. Hv. frsm. minni hl. hafa gert tilraun til að hnekkja þessum samanburði, en þeir tilburðir hafa verið harla léttvægir, því að það er í rauninni aðeins eitt, sem þeir hafa fært fram máli sínu til stuðnings nú og til að hnekkja þessum samanburði mínum, og það er þetta: Ég hafi tekið með framlag af benzínskatti til brúasjóðs og hluta af benzínskatti til millibyggðavega, þetta megi ekki vera með í þessum samanburði, vegna þess að hér eigi eingöngu að bera saman það, sem í fjárl. stendur. — Nú er þessu til að svara, að ég ætla, að fyrir þá landsmenn, sem eiga að njóta veganna og brúnna, komi það nokkuð í einn stað niður, hvort framlagið kemur sem millibyggðafé af benzínskatti eða sem þjóðvegafé á fjárl. og hvort brúin er byggð fyrir fé úr brúasjóði eða beint úr ríkissjóði. Ég ætla, að fólkið í landinu skipti það harla litlu máli, hvernig það er bókfært hjá ríkinu. Enn má þess geta, að í grg. og till. vegamálastjóra, sem hann lagði fyrir fjvn. um skiptingu á vegafé, dags. 7. des., tekur hann þessi mál eins og ég hafði gert hér, annars vegar fjárlagaframlag, hins vegar vegasjóð, tekur síðan framlögin alls og byggir sína útreikninga á því. Af þessum ástæðum tel ég, að það hafi verið og sé réttur samanburður, þegar rætt er um, hversu mikið sé lagt til hinna verklegu framkvæmda, að taka framlag brúasjóðs og millibyggðaféð einnig með.

En sleppum nú þessu. Sleppum alveg brúasjóðnum og millibyggðafénu út úr þessu dæmi. Hv. frsm. minni hl. hafa ekki hrakið staf af því, sem ég sagði, þótt gengið sé inn á þessa kenningu þeirra, því að þetta breytir samanburðinum sáralítið. Í yfirlitinu um fjárveitingarnar 1958 er reiknað með 5 millj. úr brúasjóði og 3.5 af millibyggðavegafé. Samtals eru þetta þá 8.5 millj., sem ætti að draga frá fjárveitingunum 1958. í stað þess að vera 123 millj. ættu þær þá að vera 1141/2 millj. 1963 mundu dragast frá 111/2 millj. úr brúasjóði og 7.1 millj. millibyggðafé, samtals 18.6 millj. Frá heildarupphæðinni, 255.4 millj., dragast þá 18.6. Eftir verða, þó að fylgt sé kenningu hv. frsm. beggja, 236.8 millj. M.ö.o.: þó að þetta sé hvort tveggja strikað út bæði árin, þá hafa framlögin til verklegra framkvæmda engu að síður meira en tvöfaldazt, svo að ég sé nú ekki almennilega, hv að hv. frsm. eru að fara með því að ætla sér þá dul, að þeir séu að hrekja þennan samanburð með því aðeins að benda á, að benzínféð megi ekki taka með því. Meginatriðin standa eftir sem áður, að framlög til hinna verklegu framkvæmda verða árið 1963 meira en tvöföld miðað við það, sem þau voru árið 1958.

Hér hefur verið minnzt á vísitölur og hv. frsm. 2. minni hl., hv. 3. þm. Vesturl., sagði, að það þýddi ekkert fyrir mig að vera að búa til einhverja byggingarvísitölu. Ég hef ekki búið til neina vísitölu, hvorki byggingarvísitölu né aðra. Byggingarvísitalan, sem ég nefndi, er útreiknuð af hagstofunni og er opinbert mál, og hún sýnir, að byggingarkostnaður húsa hefur hækkað um ca. 40% á þessu tímabili. Ég nefndi það til skýringar á því, þegar verið væri að meta, hvað tilkostnaðurinn hefði hækkað mikið.

Hv. frsm. 1. minni hl., 6. þm. Sunnl., innleiddi hér, bæði í sínu nál. og sinni ræðu, umr. um vísitöluútreikning vegamálastjórans. Og það er því rétt að athuga, hverja vísbendingu hann gefur um raunverulegt framkvæmdafé. Vegamálastjóri reiknar út vísitölu vegagerðarkostnaðar, en framlög alls voru árið 1949, sem hann byrjar sinn útreikning á, rúmar 7 millj., og hann setur vísitöluna þá á 100. Síðan reiknar hann út hækkun vegagerðarkostnaðarins eftir sínum reglum og finnur svo út svokallaða hlutfallstölu, sem á að sýna, hverjar raunverulegar breytingar verða, þegar tekið er tillit annars vegar til hækkunar í krónutölu á framlögunum og hins vegar hækkunar á tilkostnaðinum. Þá kemur í ljós, að á árunum eftir 1949, þ.e.a.s. frá 1950—1955, að báðum meðtöldum, þá er þessi hlutfallstala undir 100, þ.e.a.s. frá 75 upp í 92, sem á að sýna, að þá hafi raunverulegar framkvæmdir í vegamálum verið minni en árið 1949. Síðan hækkar hún, og árið 1958 er hún 105, sem sýnir þá, að á því ári hefði raunveruleg fjárveiting til vegagerðar átt að vera 5% meiri en árið 1949. En hver er þá þessi hlutfallstala nú, miðað við árið 1963, miðað við fjárl., eins og þau verða afgreidd? Vegamálastjóri hefur nú reiknað það út og kemst að þeirri niðurstöðu, að þá sé hlutfallstalan 119, sú hæsta, sem nokkru sinni hefur verið. Sú hæsta þar áður var fyrir árið 1960, 118. M.ö.o.: hæstu hlutfallstölur eftir útreikningi vegamálastjórans eru því árið 1960 og á fjárl. 1963. Einnig þessi útreikningur, sem á að sýna raunverulegar framkvæmdir miðað við verðhækkun og ríkisframlög, bendir því einnig til þess og styður það fullkomlega, sem ég hef haldið fram, að nú er gert ráð fyrir að veita meira fé til verklegra framkvæmda en nokkru sinni áður, þannig að framkvæmdir verði raunverulega meiri en nokkru sinni fyrr.

Þetta eru aðalatriði málsins og það er vitagagnslaust að ætla að reyna að hnekkja þessu með því að reyna að rugla rímið á þá lund, að það megi ekki telja hluta af benzínskatti til brúa og vega með, og jafnvel þó að gengið sé inn á þá skoðun þeirra frsm., þá breytir það sáralitlu.

Ég skal ekki fara frekar út í samanburðinn á útgjöldum fjárl. og tekjum fjárl. 1958 og fjárlagafrv, fyrir 1963. Ég minntist á það hér áðan, að minni hl. voru með mismunandi hlutfallstölur um hækkunina, annar 112% og hinn 140%. Og það er alveg rétt, sem þeir hafa tekið fram, að annar þeirra miðar við árið 1958, en hinn við árið 1959. En það er einnig fleira, sem kemur fram í þessum samanburði. Annar miðar við tekjurnar, að mér skilst, en hinn við útgjöldin, og gerir það náttúrlega sitt til þess, að ekki er hægt að telja þessar tölur sambærilegar. En ef á að miða við það, hvað útgjöldin hafa hækkað frá 1958, þá hefur hv. 3. þm. Vesturl. talið, að sú upphæð væri um 1250 millj. Ég hef hins vegar talið, að þessi hækkun væri allmiklu minni eða nokkuð yfir 1 milljarð og aðalatriðið, sem þar ber á milli, er það, að hv. 3. þm. Vesturl. tekur, að því er mér skilst, til viðbótar við útgjöldin 1958 aðeins greiðslur útflutningssjóðs til niðurgreiðslna á vöruverði. Ég tel hins vegar, að greiðslur útflutningssjóðs vegna uppbóta á landbúnaðarafurðir eigi að takast þar með til þess að fá réttan samanburð við fjárl. 1963, og munar það töluverðri fjárhæð. Auk þess eru fleiri atriði, sem hér ber á milli, sem ég skal ekki fara út í að þessu sinni, því að eins og ég hef tekið fram áður, þá er þessi samanburður að því leyti erfiður, að ríkissjóðurinn var í rauninni í tvennu lagi á árinu 1958, annars vegar hinn almenni ríkissjóður og hins vegar útflutningssjóðurinn, og má nokkuð deila um það, hver af gjöldum útflutningssjóðsins á að telja með fjárlagaútgjöldunum til að fá réttan samanburð við það, sem nú er.

Hv. 6. þm. Sunnl. ræddi mjög um áhuga sinn, hinn einlæga áhuga sinn í sannleiksleitinni, og fannst ég ekki vera honum nógu einlægur förunautur í þeirri viðleitni að höndla sannleikann. Hann taldi mig hafa gefið hér upplýsingar, sem ekki brygðu skýrara ljósi yfir þennan veg hans í leitinni að sannleikanum. Það vill nú stundum verða svo, að lýðræðissinnar og kommúnistar líta nokkuð öðrum augum á hlutina, vegna þess að þeir horfa kannske frá nokkuð ólíkum sjónarhól á ýmsa hluti. Það, sem við t.d. köllum einræði, það kalla þeir lýðræði, og margt er fleira, sem ólíkt er með okkur, þannig að það er ekki að furða, þótt leiðir liggi ekki alltaf nákvæmlega saman, þar sem bæði er kannske lagt upp frá nokkuð mismunandi sjónarhól og þá ekki stefnt alveg að sama marki. En fyrst hv. þm. verður svo tíðrætt um sannleiksást sína og sannleiksleit, þá virðist manni dálítið einkennileg braut, sem hann gengur í sínu nál. í þeirri leit, því að þegar hann talar m.a. um framkvæmdalánið, þá kemst hann svo að orði, að þegar leitað er svars við þessu, — hann er þá að leita að sannleikanum í sambandi við framkvæmdalánið, — þá hlýtur sá grunur að læðast að mönnum, að greiðsla lántökunnar sé fyrirhuguð með einhverju fjármagni, sem ekki þykir vert að sýna á fjárl. o.s.frv. Mér finnst það ákaflega einkennileg sannleiksleit að varpa fram slíkum dylgjum og glósum eins og hér koma fram og vil aðeins af því tilefni geta þess, að að sjálfsögðu er gert ráð fyrir, að framkvæmdalánið, sem tekið hefur verið í Englandi, verði allt endurgreitt af þeim stofnunum og fyrirtækjum, sem fá þessi lán, og gersamlega ástæðulaust fyrir þennan sannleiksleitandi þm. að vera að gefa í skyn, að hér sé verið að fela eitthvað fyrir Alþingi.