06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

136. mál, farþega- og vöruflutningaskip fyrir Austfirðinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með till. þessari er hreyft miklu nauðsynjamáli Austfirðinga. Það fer ekkert á milli mála, að þaðan hafa að undanförnu borizt margar og miklar umkvartanir um það, að ekki væri sinnt svo samgöngumálum fjórðungsins sem þörf er á. Það þekkjum við allir, sem erum þm. fyrir Austurlandskjördæmi. En það er aðallega eitt atriði, sem fram kemur í þessari till., sem mér finnst vera þess eðlis, að rétt sé að vekja athygli á því nú strax, og ég held, að stefni ekki í æskilega átt til lausnar á þessum málum. í till. er gert ráð fyrir því, að byggt verði sérstakt skip fyrir Austfjarðasamgöngur og það verði af stærðinni 700–900 rúmlestir brúttó. Ef að slíku ráði yrði horfið, er ekki um það að villast, að það yrði stigið spor aftur á bak frá því, sem nú hefur verið um skeið í samgöngumálum Austfirðinga, að því er viðkemur fólksflutningum. Þau skip, sem haldið hafa. uppi fólksflutningum til Austurlandsins, milli Reykjavíkur og Austurlandsins, eru miklum mun stærri en hér er gert ráð fyrir. Og það er afar hæpið, að hægt sé að gera skip af þessari stærð þannig, að það geti í rauninni talizt fyrsta flokks fólksflutningaskip á leiðinni Reykjavík–Austurland, sem er tvímælalaust ein erfiðasta samgönguleiðin hér meðfram ströndum landsins, þar sem lengst er á milli hafna, og þar af leiðandi verður ferðin þannig, að hún verður erfiðust fyrir farþega. Þetta atriði hafði einmitt komið fram í athugunum um þessi mál áður, þegar mþn. starfaði hér fyrir nokkrum árum og fjallaði um þessi mál, og það er því engin tilviljun, að till. þá miðuðust einnig við það að halda sér við, að ekki yrði gengið út frá minni skipum en Heklu og Esju til fólksflutninga, en hins vegar yrði um vöruflutningaskip að ræða af minni gerð.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram í þessum umr., að það er mikil þörf á því, að gerð sé ýtarleg athugun á þessum málum í heild, og það væri mjög æskilegt, að skipuð yrði einmitt mþn. til þess að fjalla um þessi mál, — þar sem öll sjónarmið gætu komið fram og reynt yrði síðan að velja þá leiðina til úrlausnar, sem hagkvæmust verður talin. En hjá því verður ekki heldur komizt að minna á, þegar þessi mál eru rædd, að það er ekki það, sem háir okkur nú fyrst og fremst varðandi lélegar skipasamgöngur við Austurland, að við höfum ekki skipastól til að leysa þetta. Sannleikurinn er sá, að skipin Hekla og Esja eru fyrirmyndarskip til að halda uppi þessari þjónustu. Og reynslan hefur líka sýnt það, að að því leyti til, sem þeim er beint á þessa siglingu, hafa þan alveg nóg að gera. Vandinn er hins vegar sá, að stjórnarvöld landsins hafa ekki viljað eyða því til, sem hefur þurft að eyða til í þessum efnum, að halda skipunum úti í þessum siglingum. Annað skipið er tekið alltaf úr þessum ferðum um langan tíma á hverju ári og beint í aðra átt, venjulega utanlandssiglingar, án þess þó að slíkar sigtingar hafi fært útgerðinni mikinn hagnað. Ég vil því leggja áherzlu á það, að skipakosturinn er að verulegu leyti til, en hann hefur hins vegar ekki verið nýttur til þess að halda uppi þeirri þjónustu, sem hér er verið að ræða um. Hitt er svo að vísu ekki nema sjálfsagt, að gerð sé athugun á því, hvort eða hvernig sú breyting ætti að verða, þegar skipt verður um minni skipin, sem Skipaútgerð ríkisins á, sem eflaust er kominn tími til að skipta um, og hvernig þá þau skip eiga að vera, sem keypt verða í staðinn til almennra vöruflutninga. En því verða menn að gera sér grein fyrir, að vöruflutningar og fólksflutningar samrýmast ekki að öllu leyti.

Ég vil því taka undir þá till., sem hér hefur komið fram um það, að sú n., sem fær þessa till. til athugunar, beiti sér einmitt fyrir því, að það verði kosin mþn. í strandferðamálin, þar sem strandferðavandamál Austfirðinga eins og annarra komi til athugunar. Ég held, að það yrði farsælast fyrir okkur, til þess að valin verði sú leiðin til lausnar í þessum efnum, sem bezt ætti að gefast. En ég fyrir mitt leyti vara við því að hverfa að því ráði að byggja sérstakt 700 tonna skip, sem ætti að halda uppi fólksflutningum á milli Reykjavíkur og Austurlandsins, því að það yrði að mínum dómi að stíga skref aftur á bak stórlega frá því, sem verið hefur.