06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

149. mál, farmgjöld

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill: um farmgjöld. Efni till. er það, að Alþingi feti ríkisstj. að hlutast til um, að reglur um farmgjöld, sem settar eru af verðtagsyfirvöldum, verði þannig, að flutningsgjöld á vörum til landsins séu ávallt jöfn til allra hafna á landinu. Sé um að ræða framhaldsflutning frá upphaflegri innflutningshöfn, verði kastnaður af slíkum flutningi innifalinn í aðflutningsgjaldinu til landsins, svo að tryggt sé, að allar helztu nauðsynjavörur geti jafnan verið með sama verðlagi hvar sem er á landinu.

Tildrög þess, að þessi till. er flutt, eru þau, að nokkru fyrir síðustu áramót ákvað Eimskipafélag Íslands að breyta í verulegum atriðum um framkvæmd á flutningi á vörum til landsins og á innheimtu farmgjalda. Sá háttur hefur verið á, um alllangan tíma, að verðlagsyfirvöld hafa ákveðið hámarksfarmgjöld á ýmsum vörum, sem fluttar eru til landsins. Þessi hámarksfarmgjöld hafa verið framkvæmd þannig, að sá aðili, sem flytur vöruna til landsins, hefur jafnframt verið skyldaður til þess að annast á sinn kostnað framhaldsflutning vörunnar frá fyrstu innflutningshöfn til annarra hafna úti á landi, þegar svo hefur staðið á, að til slíks hefur þurft að koma. Þannig hefur þessu t.d. verið háttað nú um nokkurra ára bil með flutning á flestöllum kornvörum til landsins, fóðurvörum, sykri ag mörgum fleiri vörutegundum. Þessar vörur hafa allajafna verið fluttar fyrst hingað inn til Reykjavíkur, en síðan hefur nokkur hluti innflutningsins verið fluttur áfram og þá venjulega með öðrum skipum til hafna úti á landi. En það skipafélagið, sem flutt hefur vörurnar til landsins, hefur tekið á sig kostnaðinn af framhaldsflutningsgjöldunum. Nú hefur Eimskipafélagið sem sagt ákveðið einhliða að breyta um tilhögun í þessum efnum, annast að vísu áfram flutninginn á vörum til landsins og taka þau farmgjöld, sem verðtagsyfirvöldin ákveða í þeim efnum, en neita hins vegar að taka á sig kostnaðinn af framhaldsflutningi á þeim hluta vörunnar, sem flytja þarf út á land. Þetta hefur orðið til þess, að kornvörur, fóðurvörur, sykur og aðrar slíkar vörur eru þegar orðnar verulega hærri í verði úti á landi en þær eru hér í Reykjavík. Mér er kunnugt um, að verðlagsyfirvöldin hafa haft þessi mál til athugunar að undanförnu og m.a. haft samráð við ríkisstj. um, hvað gera ætti í þessu máli. En ríkisstj. mun enn ekki hafa gefið verðlagsyfirvöldunum neitt ákveðið svar við því, hvernig við þessu skyldi bregðast. Reynslan er þegar orðin sú, að þessar vörur eru orðnar hærri í verði úti á landi og brauðgerðarhús t.d. utan Reykjavíkur gera kröfur um það til verðlagsyfirvaldanna að fá að hækka brauðverð allt á stöðum utan Reykjavíkur vegna þess, að innflutningsverð vörunnar til þeirra sé hærra en það er til brauðgerðarhúsanna hér í höfuðstaðnum.

Hér er vitanlega um mjög alvarlegt mál að ræða. Hér komi upp hið mesta misrétti á milli manna í landinu, ef þetta yrði látið viðgangast, auk þess sem þessi breyting frá hálfu Eimskipafélagsins þýðir raunverulega það, að Eimskipafélagið er að taka sér á þennan hátt hærri farmgjöld í þessum tilfellum en það hefur búið við fram til þessa og verðlagsyfirvöldin höfðu ætlað því. Ég hef því leyft mér að flytja þessa þáltill. í von um það, að Alþingi vildi fela ríkisstj. að taka upp þetta mál við verðlagsyfirvöldin og hlutast til um, að sama framkvæmd yrði höfð á í þessum efnum og verið hefur nú um margra ára skeið, en það er, að innifalinn sé raunverulega kostnaðurinn af framhaldsflutningi í aðflutningsgjaldi vörunnar til landsins, þannig að það sé hægt að tryggja, að sams konar innflutningsverð sé á hinum ýmsu stöðum á landinu á öltum helztu nauðsynjavörum almennings.

Mér sýnist, að það sé full þörf á því, að hv. Alþ. skerist hér í leikinn og geri samþykkt um þetta, því að langur tími er nú liðinn síðan verðlagsstjóri leitaði til viðskmrh. um það, hvað gera skyldi í þessu máli og enn hefur ekkert gerzt annað en það, að verðmismunurinn er kominn til framkvæmda. Ég tel því, að það ætti að greiða fyrir samþykkt þessarar till. hér á Alþingi sem fyrst, því að ekki vil ég trúa öðru um þm. almennt en að þeir vilji standa að því, að framkvæmd þessara mála verði með svipuðum hætti og hefur verið um margra ára skeið.

Um þessa till. mun hafa verið ákveðin aðeins ein umr. Ég legg því til, að umr. verði frestað og till. verði vísað til allshn.