27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. í grg. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, segir, og einnig hefur það komið fram í framsöguræðu hv. flm., 2. þm. Sunnl. (HB), að efni þessa máls beinist nokkuð að aðstöðu Vestmanneyinga í sambandi við síldariðnað. Vestmanneyingar fagna því að sjálfsögðu, ef þeir eignast nýja vini og nýja forsvarsmenn um sín áhuga- og framfaramál, menn, sem áður hefur ekki verið vitað um og áður hafa ekki stungið upp höfðinu. Ég ætla þó að vona, að þetta sé ekki aðeins vegna þess, að kosningar eru fram undan, heldur sé það varanlegt, einnig eftir kosningar, og það jafnframt, þó að flokkur hv. flm. kæmist í stjórnaraðstöðu og yrði ráðandi í ríkisstj. Ég tel þó, að þetta sé nokkur sönnun þess, sem Sjálfstfl. sagði í sambandi við kjördæmamálið, að það mundi auka víðsýni þm., ef þeir kæmust í atærri kjördæmi og fengju stærra athafnasvið og meira um að hugsa, það mundi auka víðsýni þeirra, þeir ekki verða eins staðbundnir í sambandi við hin smærri sérmál einstakra byggðarlaga og þeir áður voru. Ég tel, að með grg. og flutningi till. og framsögu flm. hafi fengizt nokkur staðfesting á því, sem Sjálfstfl. sagði í sambandi við kjördæmabreytinguna, en Framsfl. þá gersamlega neitaði að mundi geta átt sér stað. Það er þó aðallega aðstaða Vestmanneyinga í sambandi við síldariðnað, sem hefur hvatt mig til að taka hér til máls.

Sú breyting hefur orðið á hér sunnan- og suðvestanlands og þá að sjálfsögðu ekki síður í Vestmannaeyjum en öðrum verstöðvum á þessu svæði, að við stöndum frammi fyrir því, að ef framhald verður á síldveiðum eins og verið hefur nú síðustu árin, þá erum við að verða öðrum þræði jafnvel meiri síldariðnaðarbær en áður var um þorsk og annan fisk, sem þar veiðist. Þetta skapar að sjálfsögðu mörg vandamál til athugunar og umhugsunar, og hefur það ekki farið fram hjá Vestmanneyingum, hvorki ráðamönnum bæjarfélagsins né atvinnurekendum þar, hver aðstaða þarna er að skapast. Ég get verið alveg sammála flm. um, að það væri æskilegast í alla staði, að íslendingar, ekki einungis í sambandi við síld, heldur í sambandi við sína framleiðslu almennt, gætu gjörnýtt það hráefni, sem hér er aflað, því að ég hygg, að það komi e.t.v. því miður síðar í ljós, að Íslendingar verði að stefna að öðru frekar en auka aflamagnið, heldur verði einnig að fara inn á þá braut að gjörnýta þann afla sem mest, sem á land kemur. En á þessu eru tveir sjáanlegir annmarkar, eins og aðstaðan er í dag. Það er fyrst og fremst í sambandi við vinnuaflið. Vinnuafl er nú ekki til yfirleitt í sjávarplássunum til þess að gjörvinna síld né annan fiskafla, eins og væri æskilegast. Rannsókn á þessu fór fram í Eyjum í sumar, um þessa aðstöðu, hvort þar væri aðstaða til gjörvinnslu á síld, og kom þar greinilega í ljós, að þau atvinnufyrirtæki, sem þar eru, eiga fullt í fangi með að anna og afkasta þeim afla, sem á land berst, í því formi, sem nú er gert. Ég skal viðurkenna, að það væri mjög æskilegt, að þetta gæti á annan veg verið, en við verðum að beygja okkur fyrir staðreyndunum. Þannig er þetta í dag. Einnig kemur annað til greina þarna, ef það þróast í þá átt, að um minnkandi aflamagn verði að ræða og farið verði inn á þá braut að gjörvinna aflann meira en gert hefur verið, þá er það spursmál: Þolir gjörvinnslan hærri kaupgreiðslur til sjómanna og útgerðarmanna en þær aðferðir, sem nú er beitt? Ef gjörvinnsla þolir ekki hærri greiðslur til sjómanna og útgerðarmanna, þá er það atriði, sem mjög væri erfitt viðfangs og erfitt að ráða fram úr.

Aðstaða, eins og ég gat um áðan, í sambandi við síldariðnað hefur gerbreytzt hin síðari ár, og er okkur í Vestmannaeyjum það að sjálfsögðu eins ljóst og ljósara en flestum öðrum. Það er bent á það í grg., að þar sé um að ræða eina síldarverksmiðju, sem eftir þá stækkun, sem nú fer fram, muni afkasta um 5000 málum á sólarhring. Þetta er rétt. Bæjarstjórn Vestmannaeyja eða ég fyrir hönd bæjarstjórnar hef rætt við einstaka nm. í stjórn síldarverksmiðja ríkisins um þann möguleika, að ef síldarverksmiðjur ríkisins hugsi um að byggja nýjar verksmiðjur hér suðvestan- eða sunnanlands, þá verði a.m.k. ein þeirra staðsett í Vestmannaeyjum. Að þessu liggja full rök að okkar áliti. Það hefur sýnt sig, og þó alveg sérstaklega nú í vetur, að stór hluti af haust- og vetrarsíld veiðist á svæðinu frá Reykjanesi að Ingólfshöfða. Þegar er búið að landa í Vestmannaeyjum um 172 þús. tunnum af síld og hefur þó farið fram hjá Eyjum mikið magn af síld, ekki veit ég, hversu mikið það er, en það liggur hins vegar fyrir, að þar er um mjög mikið magn af síld að ræða, sem hefur ekki verið landað þar, vegna þess að þar hefur ekki verið verksmiðja til að taka á móti og vinna úr hráefninu.

Vestmannaeyjar eru nú í dag, miðað við haust- og vetrarsíldina, að komast í tölu hæstu staða hér við Faxaflóa, og er þar aðeins um að ræða Reykjavík og Keflavík, sem tekið hafa á móti meira síldarmagni en í Vestmannaeyjum hefur verið landað enn. Það liggja því öll rök að því, að ef á að bjarga verðmætum þess afla, sem vitanlegt er að við Vestmannaeyjar er, þá verður að vinda bráðan bug að því fyrst og fremst, að þar verði aðstaða til meiri nýtingar á síld í því formi, sem nú er gert, með því að byggja síldarverksmiðjur og skapa frekari aðstöðu í frystihúsunum til þess að frysta meira magn af síld en enn þá hefur verið gert. Þetta er gagnvart Vestmannaeyjum það sjónarmið, sem liggur fyrir, og það, sem verið er að vinna að, og hefur þetta mál, eins og ég sagði áðan, verið tekið til viðræðna við stjórnendur síldarverksmiðja ríkisins, bæði munnlega og einnig hefur þeim verið skrifað um málið, og okkar grg. liggur hjá þeim til athugunar. Hvað úr framkvæmdum kann að verða, skal ég ekki neitt segja um á þessu stigi, en allt hlýtur þetta að vera til athugunar og yfirvegunar, og vænti ég þess, að tillit verði tekið til þeirra aðstæðna, sem hafa skapazt, með því að fyrir liggur, eins og ég sagði áðan, að verulegur hluti af því síldarmagni, sem veiðist, sérstaklega í desember og fram eftir vertíð, veiðist á svæðinu frá Reykjanesi og að Ingólfshöfða, og hlýtur að verða hagfellt fyrir bátaflotann, hvar sem hann annars á heima, þann bátaflota, sem síldveiðar stundar, að landa síldinni miðsvæðis eða í Vestmannaeyjum.

Fyrst ég er farinn að ræða þessi mál, eins og þessi þáltill. gaf mér tilefni til, er rétt, að einnig sé rædd sú breyting, sem fyrirsjáanlega hlýtur að verða á aðstöðu bátaflotans í framtíðinni og að ég held þegar á næstu vertíð. Það hefur kamið í ljós nú í vetur, að Íslendingar eiga ekki nægilegan mannafla á þann bátaflota, sem fyrir hendi er. Þetta hefur í sumum verstöðvum skapað alls konar erfiðleika. Bátar hafa ekki komizt á flot. Þeir hafa stundað veiðar, sem þeir annars hefðu ekki lagt út í, eingöngu vegna þess, að mannafli hefur ekki fengizt til þess að gera út með þau veiðarfæri, sem áður var gert, og á ég þar aðallega við línu- og netaveiðar. Nú er vitað, að fyrir Íslendinga er verið að byggja bæði erlendis og hér á landi tugi af 200–250 tonna skipum, sem hljóta, þegar þau koma í gagnið, að taka til sín verulegan hluta af sjómönnum, sem nú eru á smærri bátum. Ef ekkert verður að gert, hlýtur þessi breyting, sem er að verða á bátaflota landsmanna, og þær breyttu aðstæður, sem nú eru, að verulegur hluti hans er farinn að stunda síldveiðar í staðinn fyrir þorskveiðar áður, að skapa örðugleika, sem fram úr verður að ráða, að ég hygg þegar fyrir næstu vertíð.

Ég hygg, að þessi mál hljóti að þróast í þá átt, að bátaflotinn verði látinn stunda þær veiðar, á þeim tíma og á þeim stöðum, sem hagkvæmast er fyrir hann fjárhagslega og útheimtir sem minnstan mannafla miðað við þá afkastagetu, sem hann annars hefur möguleika á. Það er, að ég veit, fyrir marga útgerðarmenn mikið áhyggjuefni sú aðstaða, sem nú hefur skapazt, og þeir horfa með áhyggjum fram á framtíðina. Margir þessara manna eiga ágæta 50–70 tonna báta, sem þeir fyrirsjáanlega geta ekki á næstu vertíð, þegar hinn nýi skipastóli er kominn til landsins, tekið í notkun. Þá geta þeir fyrirsjáanlega ekki með góðu móti stundað þær veiðar, sem áður hefur verið gert, með línu og net, vegna þess að sjómenn eru ekki til í landinu til þess að gera bátaflotann út.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér, að því miður óttast ég, að sú till., sem hér er borin fram, sé kannske miklu frekar sýndartill. en þar liggi á bak við nokkur alvara, og tel ég það varla sæmandi fyrir hv. 2. þm. Sunnl. (HB) að láta slíkt eftir sig liggja. Ég tel, að þessi mál öll séu allt of viðamikil fyrir þjóðfélagið í heild og allt of veigamikil fyrir Vestmanneyinga, að við eigum að einblína á það að gjörnýta síldaraflann, vitandi það, að við erum þegar í hálfgerðri sjálfheldu og ég vil segja kannske algerri sjálfheldu að vinna þann afla, sem nú þegar berst í land og þar er krafizt að sé tekinn til vinnslu.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en taldi rétt að gefnu tilefni að vekja athygli á þeirri aðstöðu, sem er að skapast við hinn aukna bátaflota, og þeirri aðstöðu, sem þegar er fyrir hendi og sjáanlega fer vaxandi, að rekstur bátaflotans getur lent í erfiðleikum vegna þess, að ekki eru til nægilega margir sjómenn hér á landi, til þess að honum verði haldið út til þeirra veiða, sem fram að þessu hafa verið algengastar á vetrarvertíð, en það eru línu- og netaveiðar.