27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Flutningur þeirrar till., sem hér er til umr., hefur farið í fínu taugarnar á hæstv. viðskmrh. og vakið hjá honum mikla reiði, sem hér fékk útstreymi áðan, eins og hv. þm. hafa séð. Ég kvaddi mér hljóðs, áður en hv. 3. þm. Sunnl. talaði, og hann hefur nú í verulegum atriðum svarað því, sem hæstv. viðskmrh. hafði hér fram að færa. Hv. 3. þm. Sunnl. rökstuddi það, sem haldið er fram í grg. og framsöguræðu að till, minni, að við stöndum frammi fyrir nýjum viðhorfum, sem er fullkomin ástæða til að ríkið taki forustu um að séu athuguð til hlítar. Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að á þeim sviðum, sem till. ræðir um, væri mjög víðtæk þekking fyrir hendi og væri þess vegna ekki tilefni til þess að láta sérstakar rannsóknir fara fram á öllum þeim umfangsmiklu sviðum, sem þarna koma til athugunar. Það er að vísu gert ráð fyrir því í till., sem hér er til umr., að ríkisvaldið hafi forustu um að marka þær línur, sem þessi væntanlegi iðnaður þróaðist eftir, eftir að ýtarleg athugun hefði farið fram, og það er sannast að segja meira en lítið kyndugt að heyra hæstv. viðskmrh., einn af aðalleiðtogum jafnaðarmanna, halda því fram, að það sé ekki ástæða til þess, að ríkið hafi einhverja leiðsögn um mál eins ag þessi. Ég veit ekki nema það væri rétt að minna hæstv. viðskmrh. á það í þessu sambandi, að hann hefur nú um 3 eða 4 ára skeið verið að bögglast við að koma saman framkvæmdaáætlun, sem hann öðru hverju tofar að verði lögð fram innan skamms, en enn hefur ekki séð dagsins ljós. Það verður að gera ráð fyrir því, að í sambandi við slíka hluti hafi ríkið látið fara fram athuganir á grundvallarmöguleikum þeirra ýmsu atvinnuvega, sem upp á að byggja, og leggi í slíkri áætlun höfuðlínurnar um, hver framvindan skuli verða á næstunni. Það þarf þess vegna ekki að koma hæstv. viðskmrh. neitt kynlega fyrir sjónir, þó að gert sé ráð fyrir þeirri mátsmeðferð, sem gert er ráð fyrir í þessari tillögu.

Ég vil í sambandi við þær spurningar ýmsar, sem hæstv. viðskmrh. beindi til mín og spurði mig um, hvort ég gerði ráð fyrir því með till. minni, að ríkið t.d. færi að byggja niðursuðuverksmiðju, — ég vil segja, að það getur vel komið til mála að athuguðu máli, að ríkið ætti að byggja niðursuðuverksmiðju. ríkið hefur byggt niðursuðuverksmiðju, og ríkið hefur rekið niðursuðuverksmiðju með góðum árangri, og það var hæstv. fyrrv. ríkisstj. Alþfl., sem seldi þá niðursuðuverksmiðju úr höndum ríkisins í stað þess að gera hana af myndarskap að tilraunastöð fyrir nýjan iðnað í landinu.

Ég læt hv. þm. það eftir að álykta sjálfir um það, hve smekklegt þeim finnst af hæstv. viðskmrh. að draga hér inn í umr. um málið það fyrirtæki, sem ég starfa hjá. Ég vil láta hæstv. viðskmrh. vita af því, að hann mun vafalaust geta fengið þær upplýsingar hjá því fyrirtæki, sem hann þarf á að halda, og hann raunar upplýsti það hér áðan, að hann hefði fengið þær. Hins vegar mun ég ekki standa hér í neinni yfirheyrstu af hálfu hæstv. viðskmrh. um málefni þess fyrirtækis, sem ég starfa hjá, það mun ég ekki gera.

Það eru gerðar ýmsar áætlanir og athuguð ýmis mál. Það er oft neikvæður árangur af slíkum athugunum, hann verður líka oft jákvæður, og jafnvel þótt neikvæður árangur fáist að sinni, er jafnan haldið áfram slíkum athugunum, þangað til gengið er úr skugga um það endanlega, hvort þær geti ekki að betur athuguðu máli reynzt jákvæðar.

Ég vil vekja athygli á því, sem mjög greinilega kom fram í ræðu hv. 3. þm. Sunnl., að í sambandi við þessi mál, sem till. mín víkur að, eru einmitt fjölmörg viðfangsefni, sem kannske eru mörg hver æðimikið könnuð, en mér vitanlega hefur ekki verið stillt upp í því ljósi, að myndin af málinu verði heilleg eða fullnægjandi. Og það er vissulega rétt, sem hv. 3. þm. Sunnl, sagði, að við stöndum í þessu sambandi frammi fyrir nýjum viðhorfum í einum aðalatvinnuvegi í stórum landshluta, ef það nú yrði svo, eins og hv. 3. þm. Sunnl. vék að að orðið gæti, að síldveiðarnar á þessu svæði yrðu fullt eins umfangsmiklu atvinnurekstur og þorskveiðarnar hafa verið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. meira. Ég þykist hafa gert grein fyrir því, af hverju þessi till. er flutt og hverju ég hyggst ná með því, að till. yrði samþ., hverju ég hyggst ná með því til hagsbóta fyrir þessa atvinnuvegi í framtíðinni.