08.03.1963
Sameinað þing: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það mun á flestra vitorði, að sú síld, sem veiðist fyrir Suður- og Suðvesturlandi, er hið ákjósanlegasta hráefni til niðursuðu og jafnvel til niðurlagningar. Þá mun og vera á því lítill vafi, að síld má reykja og flytja út sem fullunna vöru þannig til sölu á erlenda markaði. Tilraunir með niðursuðu Faxasíldar eða Suðurlandssíldar hafa mér vitanlega ekki verið gerðar að neinu ráði, og má slíkt teljast alveg furðulegt og sýnir okkur betur en mörg orð, á hvaða stigi við stöndum í þessu stórmáli.

Ég vil benda hér á eitt mjög athyglisvert dæmi frá okkar nágrannaþjóð, Norðmönnum. Fyrir nokkrum árum suðu Norðmenn niður síld, 30 þús. tonn. Og eftir því sem mér er sagt, hefur það magn allmikið vaxið síðan. Enginn mun nú þurfa að halda því fram, að okkar ágætu frændur, Norðmenn, séu að leggja í slíkan stóriðnað, nema þeir sjái sér fyrir fram hag þar í, enda mun það vera, og einn af aðalauðmönnum Noregs, Bielland í Stavangri, er talinn með allra auðugustu mönnum Noregs og hefur auðsjáanlega fengið mikið af sínum auði einmitt í gegnum niðursuðu á síld og útflutning hennar til annarra landa.

Að áliti þeirra manna, sem bezt til þekkja, er talið, að hægt muni vera að selja allmikið magn af slíkri síld niðursoðinni, svo framarlega sem varan uppfyllir þau skilyrði, sem kaupendur gera til vörunnar, og þá um leið með góðri fyrirgreiðslu hæstv, ríkisstj., sem virðist þó oft og tíðum ekki hafa verið slík sem skyldi, þegar um það hefur verið að ræða að selja vörur til landa t.d. austan járntjalds. Þannig hafa Norðmenn í fjöldamörg ár soðið niður og lagt niður í dósir síld í stórum stíl, sem þeir hafa Svo flutt út á erlenda markaði, og eftir aví sem bezt verður vitað með ágætum árangri. Það má vel vera, að á meðan verið væri að koma vörunni til hinna ýmsu landa, þyrfti að leggja eitthvað í aukakostnað, svo sem í auglýsingar, kom: vörunni inn á vörusýningar, senda út sýnishorn o.fl. þess háttar. Það verða allar þjóðir að gera, sem ætla að koma sínum vörum, sérstaklega nýjum vörum, inn á markaði. Kaupandinn kemur sjaldan sjálfur til þess að bjóða í vöruna, heldur verður seljandinn að leggja sig fram um það að bjóða sína vöru og koma henni þannig til væntanlegra kaupenda. Slík auglýsingastarfsemi getur komið til með að kosta allmikið fé. En í slíkt er alls ekki horfandi. Hér er allt að vinna. Mér finnst, að um þetta mál hafi ríkt allt of mikið sinnuleysi, sem m.a. hlýtur að stafa af vantrú á því, að nokkur árangur fáist.

Ég vil benda hér á aðeins eitt lítið dæmi, sem skeði hér í Reykjavík. Fyrir nokkru flutti einn af meðlimum útgerðarráðs Reykjavíkur, Guðmundur Vigfússon, fulltrúi Alþb., till. á fundi í útgerðarráði um rannsókn á möguleikum Bæjarútgerðar Reykjavíkur til að setja á stofn verksmiðju til að sjóða og leggja niður Faxasíld. Till. þessi er í alla staði hin athyglisverðasta, og hér var um að ræða eitt af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins og því ekki óeðlilegt, þótt það reyndi að brjótast inn á nýjar leiðir. En það merkilega skeður, að till. Guðmundar er felld. Þessi afstaða útgerðarráðs Reykjavíkur til þessa stórmáts talar sannarlega sínu máli. Það virðist svo sem ráðamenn þessa stórfyrirtækis telji sér það óviðkomandi, þótt mestur hluti þessarar gæðavöru sé látinn fara í gúanó. Þetta er því merkilegra, þegar það er haft í huga, að í stjórn þessa ágæta fyrirtækis eru m.a. framámenn íslenzkra útvegsmanna,. Ég hef bara bent á þetta dæmi hér til þess að sýna fram á hið mikla vanmat, sem menn hafa á því, að reyndar séu nýjar leiðir til betri hagnýtingar okkar ágætu síldar.

Mér finnst, að þáltill. á þskj. 297, og reyndar má sama segja um þáltill. á þskj. 294, að þær séu báðar athyglisverðar, þótt þær séu aðeins bundnar við Suðurlandssíld, en að mínum dómi áttu þessar till. báðar að ná almennt til síldar, hvort sem hún væri veidd fyrir Suðurlandi eða Norður- eða Norðausturlandi. Rannsókn þá, sem þar er farið fram á að verði gerð, hefði átt að vera búið að framkvæma fyrir löngu. Sú staðreynd liggur fyrir, að engin slík rannsókn hefur verið framkvæmd. Enn þá fer mikill hluti þeirrar síldar, sem veiðist hér við land, til bræðslu, og engin raunhæf tilraun af hendi einstaklinga, félagasamtaka eða ríkisvaldsins hefur verið gerð til úrbóta á þessu sviði. Það, sem gert hefur verið, svo að hægt hefur verið að taka á móti hinni miklu veiði, sem oft hefur verið á síldveiðum, er það, að byggðar eru fleiri og fleiri síldarverksmiðjur. Það er vitanlega í sjálfu sér nauðsynlegt, svo langt sem það nær, að slíkar verksmiðjur séu reistar, og á meðan íslendingar treysta sér ekki til þess að hagnýta síldina á annan og betri hátt en nú er gert, er ekki um annað að ræða en að setja mikinn meiri hluta af þessari gæðavöru í bræðslu, í meðalsíldarári er ekki hægt að reikna með nema litlum hluta af síldinni, sem fer til söltunar og frystingar. Ég er ekki að halda því fram, að það sé ekki hægt að auka sölu á saltsíld, það er mál út af fyrir sig, sem hefði verið vel þess vert að hefði verið rætt hér á fundum í Alþingi. En það mun ekki verða gert af mér nú, hvað sem síðar kann að verða.

Það skal tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að þó að reistar yrðu nokkrar niðursuðuverksmiðjur fyrir síld til viðbótar því titla, sem fyrir er, og þó að vel gengi með sölu á afurðum verksmiðjanna, mundi samt sem áður í sæmilegum síldarárum mikið magn síldar fara til bræðslu. En það, sem vinnst með því, ef hægt yrði að koma hér upp stórfelldum niðursuðu- og niðurlagningariðnaði á síld, er, að fyrir slíka vöru mundi fást margfaldur gjaldeyrir miðað við það að bræða og salta síldina. Auk þess mundi með tilkomu hinna nýju verksmiðja skapast ótrúlega mikil atvinna og í sumum tilfellum einmitt þar, sem vetraratvinnuna vantar. Sérstaklega á þetta þó við um niðurlagningu saltsíldar, en slík niðurlagning er einmitt tilvalin vetraratvinna.

Það, sem kom mér þó aðallega til að taka til máls um till., er Norðurlandssíldin. Um það verður ekki deilt, að Norðurlandssíldin er eitthvert bezta hráefni, sem til er, og hefur inni að halda flest þau bætiefni, sem nauðsynleg eru til manneldis. Það sama gildir og að nokkru leyti um Suðurlandssíldina, þótt hún sé ekki eins góð vara og hin norðlenzka og austfirzka síld.

Mjög smávægilegar breytingar hafa átt sér stað í meðferð saltsíldar, frá því fyrst að byrjað var að salta síld á Íslandi. Enn þá flytjum við meginpartinn og svo að segja alla okkar saltsíld út í tunnum. Mjög lítið er gert að því að setja þetta í hentugar pakkningar, sem aðrar þjóðir nafa allmikið farið inn á. Aðalmismunurinn, sem gerzt hefur frá því fyrst að byrjað var að salta síld á Íslandi og fram á þennan dag, er sá, að nú er mest framleitt af hausskorinni síld, kryddsíld og sykursaltaðri síld. Áður fyrr var síldin bara kverkuð og í einstaka tilfellum rúnnsöltuð, eins og það er kallað, þ.e.a.s. síldin var lögð niður í tunnurnar, án þess að hún væri kverkuð. Fyrir síldina þannig verkaða fæst í mörgum tilfellum ágætt verð. Hinu ber ekki að leyna, að margir þeir, sem bezt til þekkja, telja, að hægt muni vera að útvega markað fyrir niðurlagða norðlenzka síld í stórum stíl. Svíar kaupa t.d. af okkur á hverju ári tugi þúsunda tunna af síld, sem þeir svo leggja niður í dósir í verksmiðjum sínum og senda út um allan heim með ágætum árangri.

Dálítil tilraun með niðurlagningu síldar hefur verið framkvæmd á Siglufirði á vegum síldarverksm. ríkisins, eftir því sem næst verður komizt með ágætum árangri, og að því er mér er tjáð, líkar sú vara yfirleitt mjög vel. En nú er það með slíka vöru sem aðrar, að eitthvað þarf að gera til þess að kynna vöruna í hinum ýmsu löndum. Hér er um mjög harða samkeppni að ræða af hendi Svíanna og jafnvel af hendi Norðmanna líka, og vitanlega þurfum við að sækja þar á. Fjárhagur þessa fyrirtækis mun vera allþröngur og því litlar líkur til þess, að þessi litla niðurlagningarverksmiðja hafi ráð á því að kynna þessa ágætu vöru erlendis eins og þörf væri á. Ég tel, að hér sé á ferðinni mjög merkileg tilraun, sem beri að hlúa að, eftir því sem hægt er. Norðmenn og Svíar hafa t.d. í þjónustu sinni fjölda ungra manna, sem eru á stöðugum ferðalögum um allan heim til þess að kynna niðursuðu- og niðurlagningarvörur þeirra og aðrar fiskafurðir. í Svíþjóð er, eins og áður hefur verið frá sagt, fjöldi verksmiðja, sem leggja niður síld keypta frá Íslandi. Nú síðustu ár hefur það skeð, að Norðmenn hafa keypt nokkur þúsund tunnur af síld frá Íslandi og að tangmestu leyti til niðurlagningar. Það sýnir okkur, hversu mikils virði þessar nágrannaþjóðir okkar telja þessa ágætu vöru. Mitt álit er, að einskis megi láta ófreistað til þess að kanna allar hugsanlegar leiðir í þessu máli. Ég tel lítinn vafa á því, að við íslendingar höfum eins góðar, ef ekki betri aðstæður en nágrannaþjóðir okkar til þess að framleiða niðurtagða síld í stórum stíl til útflutnings, ef rétt og vel væri á haldið. Það er alveg útilokað, að við getum ekki orðið fyllilega samkeppnisfærir með verð miðað við Svía og Norðmenn. í báðum þessum löndum er t.d. greitt hærra kaup en hér, þótt það sé út af fyrir sig ekki til fyrirmyndar, að við skulum vera eftirbátar frænda okkar í því efni.

Hér höfum við svo að segja alveg við bæjardyrnar það bezta hráefni, sem til er. Um það þarf ekki að deila, að jafnvel hin ágæta skozka síld er tæplega talin jafngildi við okkar ágætu norðlenzku síld. Það má vel vera, að til þess að koma á fót stórfelldum iðnaði í síld, bæði í niðurlagningu og niðursuðu, vanti okkur innlenda sérfræðinga á þessu sviði. En úr því hlýtur að vera hægt að bæta á stuttum tíma. Það hafa verið fengnir erlendir sérfræðingar, þegar síður skyldi heldur en þótt það væru fengnir nokkrir menn hingað til þess að kenna Íslendingum nauðsynlegar starfsaðferðir í sambandi við þessa iðju.

Um gjaldeyrishliðina, að því er mér er sagt af þeim mönnum, sem bezt vita, er, að fimmfaldur gjaldeyrir muni fást fyrir niðurlagða síld miðað við útflutta saltsíld í tunnum. Ég tel það vitanlega fjarri öllu lagi, ef rétt er, sem fram kom í einu dagblaðanna nú fyrir skemmstu, að niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði, sem er ríkiseign, hafi lítinn sem engan fjárhagsstuðning fengið frá ríkinu. Hér er um mjög merkilegar tilraunir að ræða, sem ríkisvaldinu ber alveg tvímælalaust skylda til að styðja á hvern þann hátt, sem nauðsynlegt getur talizt. Það eru fleiri staðir en Siglufjörður, sem salta síld, og þeir mundu ekki hafa á móti því, þó að hægt væri að leggja eitthvað niður af þeirri síld, sem þar er söltuð.

Um það, hvort hægt sé að sjóða niður norðlenzka síld, eru dálítið skiptar skoðanir. Sumir sérfræðingar eða menn, sem telja sig hafa vit á þessum málum, vilja halda því fram, að norðlenzka og austfirzka síldin sé óhentug til niðursuðu. Aðrir halda hinu gagnstæða fram. Þetta mál er vitanlega órannsakað eins og flest það, sem snýr að okkar síldariðnaði. Og vitanlega er hin mesta nauðsyn á því, að á þessu fari fram gagnger rannsókn. Sjálfum finnst mér það mjög ótrúlegt, að norðlenzka og austfirzka síldin sé ófær til niðursuðu, en sem sagt, hér þarf að koma til rannsókn sérfróðra manna.

Dálítil tilraun hefur verið gerð með reykingu á norðlenzkri síld. Sú tilraun hefur gefið sæmilega raun. Það er vitanlegt, að þegar byrjað er á nýjum framkvæmdum og nýrri framleiðslu og það af miklum vanefnum, eins og kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns, þá er ekki hægt að fá lán út á neinar slíkar vinnslustöðvar, eins og reykingarhús fyrir síld, eða a.m.k. miklum örðugleikum bundið, og þá geta komið fyrir margvíslegir örðugleikar og margvísleg mistök. En slíka erfiðleika á að vera hægt að yfirstíga. Hin reykta síld, sem framleidd er á Siglufirði, mun hafa náð hylli kaupenda, bæði innanlands og erlendis, og er ekki nema gott um það að segja og lofar góðu um framhaldið.

Þá hefur verið reist á Akureyri allstór niðursuðuverksmiðja til niðursuðu á smásíld, sem hefur tekizt alveg með ágætum. Þarna í Eyjafirðinum er alveg ótakmarkað magn af einmitt slíkri vöru, sem hægt er að sjóða niður, og það er ekki fyrr en á síðustu árum, sem neitt verulega hefur verið gert í því að nota sér þetta ágæta hráefni til niðursuðu.

Í kringum síldariðnað okkar hefur verið allt of mikil þögn. Það er engu líkara en enn þá sé ríkjandi hin megnasta ótrú á því, að reyndar séu nýjar framleiðsluaðferðir og nýjar leiðir. Vitað er, að t.d. Norðmenn eru alltaf að finna út nýjar og nýjar leiðir, nýjar pakkningar og nýjar aðferðir til að gera vöruna sem bezta og útgengilegasta fyrir kaupandann. Á þessu þarf vitanlega að verða alveg gerbreyting. Síldin hefur inni að halda, eins og ég hef áður tekið fram, flest þau bætiefni, sem líkaminn þarf til viðhalds. Hundruð milljóna manna eru hungrandi úti um allan heim. Ég hef enga trú á öðru, ef vel væri á þessu máli haldið, en að til slíkra landa væri hægt að selja mikið magn af okkar ágætu síld, ýmist niðursoðinni eða niðurlagðri. Við verðum vitanlega að kenna þjóðum heims að meta þessa dýrmætu fæðu. Það má vel vera, að það taki nokkurn tíma að kenna þjóðum heims að meta að verðleikum okkar ágætu síld. En ég hef þá trú, að ef við tærum að tilreiða síldina á réttan hátt, munum við eiga í hinni íslenzku síld ótæmandi fjársjóð, sem mundi færa í þjóðarbúið hundruð milljóna króna fram yfir það, sem fæst fyrir þessa vöru, eins og nú er háttað. Við eigum marga dugandi verzlunarmenn, sem eru fúsir á að reyna nýjar leiðir. Því þá ekki að nota sér þessa ágætu starfskrafta, senda þá út um allan heim, láta þá bjóða til sölu okkar nýju síldarafurðir, kynna sér, hvaða tegundir síldar mundu bezt henta í hinum ýmsu löndum, hvaða umbúðir mundu heppilegastar, hvað stórar pakkningar mundu heppilegastar og fleira þess háttar? Við vinnum nefnilega aldrei nýja markaði fyrir okkar síldarafurðir eða aðra framleiðslu nema með markvissri sókn á þessu sviði. Slík markaðsleit mundi að sjálfsögðu kosta allmikið fé. Ég tel, að nokkurn hluta þess kostnaðar ætti ríkið að greiða. Hluta af kostnaði gæti síldarútvegsnefnd prýðilega greitt, enda hefur hún sérstakan sjóð, sem heitir markaðsleitarsjóður, og svo gæti komið til mála, að einataklingar og félög, sem teldu sig hafa áhuga og jafnvel hagsmuna að gæta, legðu eitthvað af mörkum. Að bíða og gera ekki neitt, láta allt reka á reiðanum er sama sem að gefast upp. Það er sú leið, sem okkur er ekki samboðin sem einni mestu fiskiþjóð veraldar.

Jafnhliða hinum nýja niðursuðuiðnaði væri vitanlega sjálfsagt að setja á stofn verksmiðju, sem framleiddi allar þær tegundir af dósum, sem með þarf. Með byggingu slíkrar verksmiðju mundi sparast töluverður gjaldeyrir, og tollur sá, sem nú er á slíkri vöru, bæði á hráefninu og á fullunnum dósum, yrði vitanlega að afnemast að mestu eða öllu leyti. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið á tollatjóraskrifstofunni, eru eftirtaldir tollar á innfluttum dósum til niðursuðu og niðurlagningar: 36% verðtollur, 16.5% söluskattur og 38.8% tollur af hverju kg af innfluttum niðursuðu- og niðurlagningardósum. Þetta gerir samtals hvorki meira né minna en 92.3% á hvert kg, sem inn er flutt af umbúðum undir síldina framleidda sem fullkomin matvæli. Þetta dæmi eitt út af fyrir sig sýnir okkur mjög ljóslega, að hingað til hefur ríkisvaldið ekki talið sérstaka ástæðu til þess að ýta undir menn til að leggja út í framkvæmdir á niðursuðu eða niðurlagningu á síld. Tollskráin er nú í endurskoðun, og má vel vera, að eitthvað af þessum tollum verði fellt niður, enda er slíkt höfuðskilyrði til þess, að menn sjái sér fært að leggja fé í slíka framleiðslu.

Ég er orðinn allmargorður um þetta mál. En þar sem ég held það vera eitt af mest aðkallandi verkefnum okkar, að hafizt verði handa um betri hagnýtingu síldarinnar en nú er, taldi ég rétt, að það álit mitt kæmi fram undir umr. um þá till., sem hér liggur fyrir.