08.03.1963
Sameinað þing: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég heyri það, að tvær stuttar ræður, sem ég flutti um þessa till., þegar hún var síðast til umr. hér á hinu háa Alþingi, hafa orðið nokkrum hv. þm. mikið umhugsunarefni, því að allur þingtíminn nú í dag hefur farið í flutning þriggja mjög langra ræðna í tilefni af nokkrum orðum, sem ég sagði um málið fyrir rúmri viku. En í þessum ræðum hafa nokkur atriði komið fram, sem ég tel ástæðu til að svara. Ég skal taka það fram í upphafi, að ég mun að sjálfaögðu ekki snúa máli mínu nú til flm. tili., hv. þm. Helga Bergs. Þótt ég hafi deilt allhart á hann síðast, þegar málið var á dagskrá, mun ég að sjálfsögðu ekki halda þeim orðræðum áfram, þar sem hann hefur nú horfið af þingi, og hvarflar ekki að mér að halda uppi ádeilum á mann, sem hefur ekki tök á að svara fyrir sig á þessum sama vettvangi.

En í tilefni af ummælum hv. síðasta ræðumanns um ræður minar á síðasta þingfundi vil ég aðeins láta þess getið, að í framsöguræðu sinni deildi hv. þm. Helgi Bergs mjög á ríkisstj. fyrir vanrækslu hennar í þessu sannarlega mjög mikilvæga máli, en hældi hins vegar á hvert reipi, ef ég má svo að orði komast, Sambandi ísl. samvinnufélaga fyrir gott frumkvæði í þessum efnum. Þetta þótti mér mjög ósanngjarnt og satt að segja mjög áróðurskennt, því að sannleikurinn er sá, að ríkisstj. hefur bókstaflega gert allt, sem í hennar valdi hefur staðið. Ég segi: þessi ríkisstj., eins og þær ríkisstj., sem á undan henni fóru, hefur gert allt til að selja saltsíldarframleiðslu Íslendinga. Ríkisstofnun, síldarútvegsnefnd, hefur gert hinar merkustu tilraunir til nýrrar hagnýtingar á síldarafla landsmanna og þá ekki sízt Suðurlandsíldinni. Ríkið sjálft hefur einnig haft mjög merka forgöngu um niðursuðu og niðurlagningu á síld, bæði hér í Reykjavík og á Siglufirði. Um allt þetta var þagað. Hins vegar var eitt af stórfyrirtækjum landsins dregið inn í umr. og það talið eiga sérstakan heiður skilið fyrir sína framgöngu í málinu.

Það má hver lá mér sem vill, að ég hafi ekki talið rétt að þegja við slíkum málflutningi sem þessum. Það vita allir, sem kunnugir eru, að ríkisvaldið hefur bæði í framleiðslumálum og sölumálum, — ekki einungis sú stjórn, sem nú situr, heldur ríkisstj. á undan henni um langt skeið, — gert allt, sem í þess valdi hefur staðið, bæði til að berjast gegn miklum erfiðleikum, sem orðið hafa á vegi í sölu sérataklega saltsíldar og einnig annarra síldarafurða, og gert fjölmargt gott og mjög merkilegt til að auka fjölbreytni í hagnýtingu síldaraflans. Það vita líka allir, sem kunnugir eru, að örðugleikarnir hafa ekki verið á framleiðslusviðinu hér innanlands, ekki einu sinni á því sviði, að hér hafi ekki verið unnið að því og tekizt að auka fjölbreytni framleiðslunnar, — erfiðleikarnir hafa verið á sölusviðinu. Þetta vita allir, sem kunnugir eru. Ég þekki það til hv. þm. Helga Bergs, að ég vissi þá og ég veit enn, að honum eru þessi atvik jafnljós og mér, og það var þess vegna, sem mér fannst ræðuhald hans gefa tilefni til þeirra aths., sem ég gerði.

Ég vil undirstrika sérataklega, að það var ekki ég, sem að fyrra bragði blandaði fyrirtækinu SÍS inn í þetta mál, heldur var það tilefni gefið af honum í grg. og framsöguræðu. En þar sem hann hafði gefið það tilefni, gat ég ekki stillt mig um að segja frá því, sem ég gerði ekki ráð fyrir að þm. almennt væri kunnugt, að Samb. ísl. samvinnufélaga hefur fengið að kenna á hinum stórkostlegu markaðserfiðleikum í síldarsölu og þá ekki hvað sízt á erfiðleikunum á því að komast inn á niðursuðu- og niðurlagningarmarkaðinn, ekki síður en aðrir, sem við slíkar tilraunir hafa fengizt. Þess vegna taldi ég rétt að segja frá því, að þetta fyrirtæki hefði um skeið verið að hugsa um að koma á fót niðurlagningar- og niðursuðuverksmiðju hér á Íslandi og hefði átt kost á mjög góðum kjörum af hálfu sína systurfyrirtækja í Svíþjóð, þar sem einmitt er staðsettur einn fullkomnasti niðursuðu- og niðurlagningariðnaður í Evrópu, og þrátt fyrir vandlega athugun á málinu treysti þetta stóra fyrirtæki, sem hefur yfir fjölmörgum ágætum starfsmönnum að ráða, sér ekki til að leggja í þessa framkvæmd, án efa ekki vegna þess, að hér væri ekki nóg hráefni fyrir hendi, án efa ekki vegna þess, að það skorti fjármagn, heldur ekki vegna þess, að það ætti ekki kost á nógu mörgum sérhæfðum starfsmönnum og nógu miklum uppskriftum frá hinu sænska systurfyrirtæki sínu, heldur vegna þess að SÍS taldi markaðshorfurnar af ótryggar til þess, að verjandi væri á því stigi málsins að leggja í þá gífurlegu fjárfestingu og þá áhættu, sem slíku fyrirtæki fylgdi. En þegar a.m.k. allmörgum ráðamönnum í Framsfl. og þ. á m. auðvitað fyrrv. formanni Sambands ísl. samvinnufélaga, þeim þm., sem hér hefur nýlokið ræðu sinni, var kunnugt um þetta mál írá byrjun til enda, þá þótti mér líka skörin fara nokkuð að færast upp í bekkinn, þegar sá flokkur stæði að og studdi flutning till., þar sem ríkisstj. er ætlað nær allt frumkvæði í málinu og ábyrgð sett á ríkisstj. fyrir, að ekki skuli hafa tekizt enn sem komið er að byggja upp niðurlagningarog niðursuðuiðnað hér á Íslandi.

Annars fór það svo, sem raunar var við að búast, að hv. síðasti ræðumaður staðfesti í síðasta hluta ræðu sinnar í raun og veru algerlega það, sem væri höfuðástæðan fyrir því, að ég taldi ástæðu til þess að segja nokkur orð um þessa till. næstsíðasta miðvikudag, því að allur síðasti hluti ræðu hv. þm. var þess efnis, hversu gífurlegum erfiðleikum væri bundið að koma hér upp starfhæfum niðurlagningar- og niðursuðuiðnaði vegna þess, hversu mikið fé það kostaði og hversu miklum erfiðleikum það væri bundið að brjóta það söluskipulag eða komast inn fyrir múra þess skipulags, sem ríkti á sölu þessa varnings í öllum helztu markaðslöndunum. Það var í raun og veru aðeins þetta, sem ég var að benda á, að það væri ekki nóg að hafa hér hráefni, ekki nóg að þekkja framleiðsluaðferðirnar, ekki nóg að hafa fjármagn og koma verksmiðjunum upp, það erfiðasta væri þá eftir, sem sagt að finna sérstaklega niðursuðuvörum tryggan og öruggan markað erlendis í samkeppni við gömul og gróin fyrirtæki, sem hefðu náð tökum á markaðinum í skjóli alls konar vörumerkja og rækilegrar kynningar árum, ef ekki áratugum saman á sinni vöru. En fram hjá þessum atriðum er algerlega gengið í grg. fyrir till., sem hér er til umr., eins og þessir erfiðleikar væru ekki til, og fram hjá því var algerlega gengið í framsöguræðu hv. flm. næstsíðasta miðvikudag. Ég sagði hins vegar aldrei orð um það, sem hv. síðasti ræðumaður vildi leggja mér í munn, að draga ætti þær ályktanir af hinum miklu söluerfiðleikum á niðursoðinni vöru, að Íslendingar ættu að hætta allri viðleitni í þá átt. Ég sagði aldrei eitt orð í þá átt og mundi aldrei láta mér slíkt um munn fara. En þegar haldnar eru langar ræður um þessi miklu vandamál og látið eins og söluerfiðleikarnir séu ekki til, er ástæða til að benda á, að þeir eru höfuðhindrunin í þessu máli. Ályktunin á hins vegar auðvitað ekki að vera sú að hætta viðleitninni, heldur að reyna að sigrast á erfiðleikunum. En það getur ekki heldur orðið með þeim hætti einum, eins og þessi tili. gerir ráð fyrir, að hrópa á ríkið um að bjarga málinu. Hér verður að eiga sér stað rækileg og mjög náin samvinna ríkisvaldsins og framleiðendanna sjálfra, hvort sem um er að ræða einkaframleiðendur eða samvinnuframleiðendur. Og ég hef aldrei sagt eitt orð í þá átt, að ríkið ætti ekki að vera reiðubúið til slíkrar samvinnu og jafnvel fúst til forustu í þessum efnum. Það er alger rangtúlkun á mínum orðum, þegar því er haldið fram, hvort sem það er gert hér eða í blöðum. Það mætti og hv. síðasti ræðumaður muna, fyrrv. formaður Sambandsins, sem fylgdist nákvæmlega með því máli, sem ég gerði að umræðuefni í mínum stuttu ræðum næstsíðasta miðvikudag, að viðskmrn., sem fjallaði mjög ýtarlega um þessa samninga íslenzka sambandsins og sænska sambandsins, gerði allt, bókstaflega allt, sem í þess valdi stóð, og bókstaflega allt, sem það var beðið um, til þess að greiða fyrir samningunum. Ég hafði þá nýlega tekið við forstöðu viðskmrn., þegar þetta mál var á, döfinni og kom til úrslita, þ.e. á árinu 1959, og ég veit, að hv. þm. kannast vel við það, að ég og sú ríkisstj., sem þá sat, lagði málinu allan þann stuðning og allan þann styrk, sem hún máttí, og liggur það bréflega fyrir í skjalasafni viðskmrn. Því segi ég það, að mér kann líka að þykja það nokkuð hart undir þessum kringumstæðum, að mér skuli borið á brýn, að ég hafi ekki neinn áhuga á því, að ríkisvaldið styðji að góðum og gagnlegum framkvæmdum í þessu máli, þegar saga þessa stærsta máls, sem verið hefur á döfinni í þessum efnum á s.l. áratugum, er þannig, að sú ríkisstj., sem ég átti sæti í, og það rn., sem ég veitti forstöðu og hafði sérstaklega með málið að gera, eins og það var í pottinn búið, gerði bókstaflega allt, sem í þess valdi stóð, og allt, sem það var um beðið, til þess að greiða fyrir samningunum, sem hins vegar tókust því miður ekki. En það var ekki sök þeirrar ríkisstj., sem þá sat, né heldur mín sem viðskmrh. Skal ég svo láta útrætt um þennan þátt málsins.

En þá voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar, sem mér finnst ástæða til að gera að nokkru umtalsefni. Það var kjarninn í hans ræðu, að hægt hefði verið að selja miklu meira af saltsíld, ef hér væri ekki vond ríkisstj., sem. vanrækti að hagnýta markaði, sem sannanlega væru fyrir hendi. En þannig vill nú til, að þessi hv. þm. hefur haft mjög góða aðstöðu til að vinna að þessu áhugamáli sínu um sölu íslenzkrar saltsíldar, að efla sölu íslenzkrar saltsíldar, vegna þess að hann var í 21/2 ár bæði sjútvmrh. og viðskmrh. En þá fór fyrir honum eins og fyrirrennurum hans og þeim, sem komið hafa á eftir honum, að þeir hafa orðið varir við mjög mikla erfiðleika í þessum efnum, og um það tala raunar tölur alveg skýru máli. Þau tvö heilu ár, sem hv. þm. var viðskmrh. og sjútvmrh., þ.e. árin 1957 og 1958, var meðalsöltun Suðurlandssíldar 78588 tunnur. Núv. ríkisstj. hefur verið 3 ár við völd, 1960, 1961 og 1982, meðalsöltun Suðurlandssíldar á þessum 3 árum nemur 104227 tunnum eða næstum fjórðungi meira en söltunin nam á valdatíma hv. fyrrv. viðskmrh. og sjútvmrh. Mér dettur hins vegar ekki í hug að benda á þessar staðreyndir sem neitt ádeiluefni á hv. fyrrv. viðskmrh. og sjútvmrh. Mér var vel kunnugt um það þá og get gjarnan staðfest það nú, að hann gerði það, sem í hans valdi stóð, til þess að koma íslenzku saltsíldinni út. Hann vann vel og dyggilega að því þá, eins og ég hygg líka að gert hafi verið af hálfu núv. ríkisstj. En sannleikurinn er sá, að íslenzk saltsíld á mjög í vök að verjast á hinum gömlu og öruggu mörkuðum sínum. Sannleikurinn er sá, að Austur-Evrópuþjóðirnar, þar sem verið hefur um langan aldur höfuðmarkaðurinn fyrir íslenzka saltsíld og er raunar höfuðneyzlusvæði saltsíldar yfirleitt í heiminum öllum, þessar Austur-Evrópuþjóðir hafa á undanförnum árum mjög verið að minnka innflutning sinn frá framleiðslulöndum saltsíldar í Vestur-Evrópu vegna aukinnar framleiðslu þeirra sjálfra, til viðbótar því, að saltsíldarneyzla hefur nokkuð minnkað hvarvetna, nema kannske helzt í Sovétríkjunum. Þetta hefur valdið erfiðleikunum á sölu íslenzkrar saltsíldar. En íslendingar hafa staðið sig betur sem saltsíldarseljendur en nokkur önnur framleiðsluþjóð sattsíldar í Vestur-Evrópu, því að hlutdeild íslendinga í saltsíldarmarkaðinum í Austur-Evrópu hefur ekki aðeins haldizt óbreytt, heldur vaxið nokkuð, á sama tíma sem hlutdeild annarra framleiðsluþjóða hefur stórminnkað í saltsíldarmarkaðinum í Austur-Evrópu.

Þessi staðreynd gefur sannarlega ekki tilefni til þess að deila á núv. ríkisstj., eins og nú er gert af hálfu stjórnarandstöðunnar, né heldur fyrrv. ríkisstj. fyrir að hafa verið sofandi á verðinum, því að engin ríkisstj. hefur undanfarið verið sofandi á þessum verði. Erfiðleikarnir hafa verið fólgnir í minnkandi saltsíldarneyzlu og þó enn fremur minnkandi saltsíldarinnflutningi Austur-Evrópulandanna vegna aukinnar framleiðslu. Ég hika ekki við að fullyrða, að hvert einasta tækifæri til sölu saltsíldar hefur verið notað af hálfu íslendinga. Hins vegar hefur verið við ramman reip að draga að fá kaupendurna og þó sérstaklega Sovétríkin til að halda áfram saltsíldarkaupunum.

Til að sýna, hversu sú fullyrðing hv, þm. Lúðvíks Jósefssonar, að íslenzka ríkisstj. hafi vanrækt saltsíldarmarkaðinn í Austur-Evrópu, og þá á hann væntanlega fyrst og fremst við saltsíldarmarkaðinn í Sovétríkjunum, vegna þess að hann er langsamlega stærstur, til að sýna, hvað þessi fullyrðing er gersamlega úr lausu lofti gripin, til að sýna, hve hún er fullkomlega ósanngjörn, ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa skýrslu seljenda saltsíldarinnar, síldarútvegsnefndar, frá 25. jan. um viðræðurnar við Rússa um kaup Suðurlandssíldar frá s.l. ári. Skýrslan er í upplýsingabréfi n. til síldarsaltenda á Suður-og Vesturlandi og er dags. 25. jan. 1963, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í upplýsingabréfum, dags. 14. des., 3. jan., 8. jan. og 11. jan., var skýrt frá nýjustu tilraununum, sem gerðar hafa verið til þess að fá Rússa til þess að kaupa saltaða Suðurlandssíld. Verður hér gerð grein fyrir gangi þessara mála og hvernig þau standa í dag.

Eins og saltendum er kunnugt, hafa hinir sovézku kaupendur verið mjög tregir til þess síðustu árin að ræða um kaup á saltaðri Suðurlandssíld. Er síldarútvegsnefnd óskaði eftir viðræðum varðandi sölu á Suðurlandssíld s.l. sumar, svöruðu Rússar því til, að enginn áhugi væri fyrir kaupum og væri því engin ástæða til að taka upp viðræður um málið. S.l. haust voru aftur gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá Rússa til þess að kaupa Suðurlandssíld, en svörin voru á sömu leið og áður, þ.e. að Prodintorg hefði ekki áhuga fyrir kaupum á Suðurlandssíld saltaðri. Skýrði aðstoðarverzlunarfulltrúi Sovétríkjanna frá því, að ef Prodintorg keypti Suðurlandssíld, kæmi aðeins til greina að kaupa hana hraðfrysta.

Þrátt fyrir þessi neikvæðu svör var Rússum hinn 13. des. s.l. sent nýtt tilboð. Samkv. tilboði þessu voru boðnar 40 þús. tunnur af rúnnsaltaðri síld af stærðunum 350–400, 400–450 og 450–700. Boðnir voru tveir fituflokkar, 15% og yfir og 12–15%. í tilboðinu var tekið fram, að óskuðu Rússar frekar eftir cutsíld, þá værum við reiðubúnir að ræða um sölu á þeirri tegund. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni okkar um skjót svör höfðu engin svör borizt, er mesta síldveiðihrota vertíðarinnar hófst þann 27. des. Var þá óskað eftir því við dr. Kristin Guðmundsson, ambassador Íslands í Moskvu, að hann reyndi að fá Prodintorg til þess að gefa skjót svör. Þann 29. des. barst símskeyti frá ambassadornum, þar sem hann tilkynnti, að hann gæti ekki fengið fund með Prodintorg fyrr en 2. jan. Að kvöldi þess dags skýrði dr. Kristinn framkvæmdastjóra n. frá því í símskeyti, að hann hafi rætt við Prodintorg og fengið þau svör, að tilboð n. hefði ekki borizt stofnuninni fyrr en 28. des. og ekki væri unnt að gefa nein svör fyrr en eftir nokkra daga. Strax eftir að þessar upplýsingar höfðu borizt frá ambassadornum, var haft samband við aðstoðarverzlunarfulltrúa Sovétríkjanna hér og óskað eftir skýringum á því, hvers vegna Prodintorg hefði ekki verið símað um tilboð síldarútvegsnefndar tafarlaust, eins og lofað hefði verið. Gat verzlunarfulltrúinn engar fullnægjandi skýringar gefið á þessum drætti. Dr. Kristinn Guðmundsson tók jafnframt fram í símskeytinu, að hann mundi gera allt, sem í hans valdi stæði, til þess að fá svör frá Prodintorg sem allra fyrst.

Að kvöldi 4. þ. m. (þ.e. 4. jan.) tilkynnti aðstoðarverzlunarfulltrúinn, að Prodintorg hefði falið yfirtökumanni þeim, sem yfirtekið hefur Norðurlandssíld nú í haust, að skoða Suðurlandssíld þá, sem veiddist um það leyti (þ.e.a.s. í byrjun janúar), og jafnframt síld, sem söltuð hafði verið fyrr á vetrinum. Yfirtökumaðurinn framkvæmdi skoðun sína hinn 5. þ. m. Lýsti hann því yfir við þá, sem viðstaddir voru skoðunina, að janúarsíldin væri allt of léleg til söltunar fyrir sovézka markaðinn og raunar öll Suðurlandssíldin, nema stórsíld sú, sem söltuð var í nóvember.

Þann 8. jan. átti dr. Kristinn Guðmundsson aftur samtal við Prodintorg. Tilkynnti hann Rússunum, að nauðsynlegt væri að fá svör nú þegar, þar sem óvíst væri, hve lengi yrði hægt að halda söltun áfram. Lofuðu Rússar svörum eftir 2–3 daga.

Síðdegis þann 10. jan. barst loks svar frá Prodintorg. í svari sínu kváðu Rússar verð það, sem boðið var, og hátt og tilkynntu jafnframt, að smæstu síldina kæmi ekki til greina að kaupa. Gerðu þeir gagntilboð, sem var 121/2 shillingum lægra en tilboð okkar. Var aðstoðarverzlunarfulltrúanum, sem tilkynnti okkur svör Prodintorgs, skýrt frá því, að útilokað væri að framleiða á Íslandi saltsíld fyrir það verð. Sama kvöld var svo verzlunarfulltrúanum afhent nýtt tilboð, þar sem fallizt var á að fella niður smæsta flokkinn og koma nokkuð til móts við Prodintorg varðandi söluverðið. Var þá jafnframt tilkynnt, að hér væri um lokatilboð að ræða og óskað væri eftir skjótum svörum. í síðustu viku tilkynnti aðstoðarverzlunarfulltrúinn, að Prodintorg gæti ekki heldur samþykkt siðara tilboð okkar, en tilkynnti, að Prodintorg gæti hækkað fyrra tilboð sitt um 2 shillinga. Eftir að málið hafði veríð rætt við stjórn FSS, var aðstoðarverzlunarfulltrúanum svarað, að ekki kæmi til greina að lækka verðið meira en gert hefði verið með gagntilboði okkar frá 10. jan. Jafnframt var honum skýrt frá, að nú væri aðalverzlunartíminn liðinn og veiðiútlitið verra en áður.

Þann 24. þ. m. tilkynnti aðalverzlunarfulltrúinn, að Prodintorg hefði fallizt á að hækka síðasta tilboð sitt um 1 shilling. Var sama dag haft samband við stjórn FSS, og var stjórnin sammála síídarútvegsnefnd um, að ekki kæmi til greina nein lækkun frá tilboði okkar 10. jan. Var aðstoðarverzlunarfulltrúanum tilkynnt þetta og jafnframt, að ekki væri lengur áhugi fyrir sölu á miklu magni, þar sem veiðihorfur væru slæmar og fitumagn síldarinnar orðið mjög lítið og færi versnandi, enda liðinn tæpur 11/2 mánuður frá því, að við hefðum afhent umrætt tilboð okkar. Um klst. eftir að aðstoðarverzlunarfulltrúanum hafði verið gefið þetta svar, hafði hann aftur samband við skrifstofu n. og tilkynnti, að hann gæti nú skrifað undir samning og samþykkt það verð, sem við hefðum boðið 10. jan.

Fyrir hádegi í dag hélt síldarútvegsnefnd fund með aðstoðarverzlunarfulltrúanum. Var honum skýrt frá, að sökum þess, hversu lengi hefði dregizt að fá svör frá Prodintorg, og jafnframt vegna þess, hve útlit er slæmt fyrir því, að hér fáist mikið magn af söltunarhæfri síld, teldi n. raunhæfara að lækka magnið niður í 20 þús. tunnur. Samkomulag tókst ekki, þar sem aðstoðarverzlunarfulltrúinn setti það sem skilyrði fyrir samningi, að ef ekki tækist að salta þetta magn, væri n. skuldbundin að ákveða hlutfallslega sama magn til Prodintorgs og til annarra landa miðað við heildarsamninga, sem gerðir hafa verið á vertíðinni. Að sjálfsögðu var alls ekki hægt að ganga að slíku, þar sem þá var hætta á, að taka yrði eitthvað af þeirri rúnnsíld, sem söltuð hefur verið fyrir Rúmena, og afhenda Rússum. í því sambandi má geta þess, að Rúmenar hafa þegar leigt skip til flutnings á allri þeirri síld, sem þeir hafa keypt hér.

Verði einhver breyting á afstöðu Rússa, verður saltendum tilkynnt það tafarlaust.

Í sambandi við þessar samningaumleitanir vekur það sérstaka athygli, að Rússar, sem undanfarin missiri hafa alls ekki viljað ræða um kaup á saltaðri Suðurlandssíld, skuli nú skyndilega hafa fengið áhuga á kaupum og það á síld með fitumagni allt niður í 12%. Er því ekki óeðlilegt, að mönnum komi til hugar, að veiði sovézka síldveiðiflotans kunni að hafa reynzt minni undanfarið en gert hafði verið ráð fyrir. Sovétríkin hafa s.l. áratug verið langstærstu kaupendur saltaðrar Suðurlandssíldar, og hafa minnkandi kaup þeirra á Suðurlandssíld undanfarin ár valdið miklum vonbrigðum. Er vonandi, að á þessu sé nú að verða einhver breyting til batnaðar.

Af hálfu íslenzkra stjórnarvalda hefur mikið verið gert til þess að halda uppi miklum innflutningi frá. Sovétríkjunum, enda verður að ætlast til þess, að Rússar kaupi áfram þær vörur, sem við höfum hvað mesta möguleika á að auka framleiðslu á. Einnig er nauðsynlegt, að hinum sovézku viðskiptavinum okkar sé gert fyllilega ljóst, að þeir geta ekki ætlazt til þess, að við seljum þeim saltsíldina fyrir lægra verð en við fáum í öðrum markaðslöndum, eins og verið hefur fram til þessa.“

Lýkur hér skýrslu síldarútvegsnefndar um málið. Þessi skýrsla, sem ég taldi rétt að láta hv. þingheim heyra, tekur af öll tvímæti um, að ekki er fótur fyrir þeirri staðhæfingu hv, þm., að íslenzk stjórnarvöld og íslenzkir seljendur hafi ekki gert og geri ekki allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að afla markaða fyrir þessa afurð eins og aðrar afurðir landsmanna. Hér hefur strandað á tregðu okkar stærsta viðskiptavinar til þess að kaupa það, sem þeim hefur verið boðið.