14.12.1962
Sameinað þing: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

1. mál, fjárlög 1963

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á fjárl. yfirstandandi árs er fjárveiting til listamannalauna 1 millj. 550 þús. kr. Í till., sem nú liggja fyrir frá ríkisstj. eða frá hv. fjvn., er gert ráð fyrir því, að fjárveitingin verði á næsta fjárhagsári 2.1 millj. kr., hækki um 550 þús. kr. frá því, sem í gildi er á þessa árs fjárl. Hér er um meiri hækkun að ræða á listamannalaunum en nokkurn tíma áður hefur verið samþ. á einu ári, síðan farið var að veita listamönnum laun. Þess má og geta, að árið 1958 var fjárveiting til listamanna 1.2 millj. kr., svo að á næsta ári verða listamannalaunin næstum helmingi hærri en þau voru á fjárl. ársins 1958. Með sérstakri hliðsjón af því, að fyrir liggur, að Alþingi hækki fjárveitingu sína meira í þetta skipti en nokkru sinni áður, segi ég nei við þessari till.